Úbbs, hann gerði það aftur!

nýr meirihlutiHún er býsna hávær þögn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hinn svokallaða nýja meirihluta. Lái þeim hver sem vill. Í dag kom margt í ljós sem útskýrir jarðarfararsvipinn á þeim í útsendingunni frá Kjarvalsstöðum í gær. Öllum nema einum sem lyngdi aftur augunum og hugsaði um OR.

Aftur hefur Villi teymt borgarstjórnarflokkinn út í kviksyndi án þess að tala við sitt fólk og án þess að kynna sér málið nógu vel. Það var ekki fyrr en nokkrum mínútum fyrir beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum að Ólafur F sagði Sjálfstæðismönnum að 1. og 2. varamenn hans styddu ekki nýja meirihlutann. Vilhjálmur gleymdi víst að spyrja hann. Rétt eins og hann gleymdi að lesa minnisblaðið fræga. Úbbs!

Hvað ætli þeim hinum finnist um það? Ætli þau óttist ekkert að Ólafi F geti orðið misdægurt? Ætli þeim finnist ekki óþægilegt að hafa ekki fengið að vera með í ráðum? Ætli þau séu ekkert fúl út í Villa fyrir að hafa gleymt að spyrja? Ætli þeim finnist það ekkert asnalegt?

Ætli Gísli Marteinn, Hanna Birna og Þorbjörg Helga hafi vitað af því fyrir útsendingu að Vilhjálmur væri búinn að semja um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni "um langa framtíð"? Þau vilja öll sjá Vatnsmýrina byggjast upp sem allra fyrst.
Ætli Villi hafi talað við þau áður en hann lofaði Ólafi, þessum eina kjörna fulltrúa F listans, borgarstjórastólnum? Hvað ætli þeim finnist um það? Hefur einhver spurt þau?

Ætli þau hafi vitað hvernig staðið var að málum? Að Ólafur var beittur blekkingum og talin trú um að það væri verið að loka samningum við Svandísi sem ekkert var hæft í. Ætli þeim finnist þægilegt að hefja meirihlutasamstarf við Ólaf byggt á blekkingum? Ætli þeim finnist það traust?

Eftir Rei klúðrið hjá Villa voru þau öll að vona að hann færi að draga sig í hlé til að það væri möguleiki að byggja aftur upp trú á Sjálfstæðiflokknum í borginni. Ljóst var á viðmælendum Kastljóss í kvöld að fáir treystu Ólafi til að vera borgarstjóri en varla nokkur maður treysti Villa.

Ætli samherjum hans hafi þótt skemmtilegt að heyra hann tilkynna það í kvöld að hann myndi leggja verk sín í dóm kjósenda í næstu kosningum? Ætli þeim finnist það auka hróður sinn í pólitík að starfa í þessum meirihluta til enda kjörtímabilsins og leggja svo sameiginleg verk þeirra allra í dóm kjósenda? Þeirra og Villa og Ólafs F? Og taka svo stefnuna á enn annað kjörtímabil með Villa?


mbl.is Mikil vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég spá því að þetta sé allra síðast klúður Vilhjálms, hann er búinn að vera. Hann hefur þegar verið dæmdur af verkum sínum

Hólmdís Hjartardóttir, 22.1.2008 kl. 23:51

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eru einhver alvarleg göt í stjórnsýslulögum eða stjórnarskrá sem þarf að stoppa upp í svo þetta verði ekki common practice í framtíðinni?  Er ekki eðlilegast að sitjandi meirihluti rjúfi samstarf ef eining næst ekki um stjórnina og boði til kosninga eins og gert er með alþingi?  Er mönnum treystandi til að vinna heiðarlega undir svo óljósu lagaumhverfi?  Hver getur gripið inn í svona lýðræðisníð nema ríkistjórnin?  Hvar er I.S? Hún glottir bara og segir úr sínu glerhúsi að það sé sorglegt að verða vitni að því hve men geti lagst lágt í persónulegri valdsókn.  Á hún ekki að verða alveg brjáluð og heimta lagalega úttekt á báðum þessum undanförnu gjörningum?  Er hún hrædd um að raska stjórnarsamstarfinu?  Er nokkur lei að ætla að kjósendur geti nokkurntíma treyst því meir að atkvæði þeirra gildi og að málefnin sem þeir kusu fengju framgang?  Ég held ekki.  Í alvöru talað.

Þetta kúpp tel ég í beinum tengslum við dóminn um Hitaveitu suðurnesja, þar sem einkavæðing orkulinda var á borði leyfð. Nú ætla Sjallar að klára þetta sjálfir og án meðreiðar klaufalegra framsóknarmanna og amatöra.  Er ekki grunsamlegt hve hljótt er um þessi OR og REI mál?  Þetta er of örvæntingarfullt og sóðalegt til að snúast eingöngu um persónulegt framapot.  Hér eru miklu dýpri hagsmunir að baki og það ekki hagsmunir borgarbúa.  Vittu til.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 23:55

3 identicon

Fyrst og fremst er þetta bara frekar sorglegt.

Sorglegt vegna Ólafs sem sýndi það strax samdægurs í kastljósþætti að hann hefur enn enga burði til að takast á við þetta starf og sorglegt vegna þeirra þriggja innan sjálfstæðisflokksins sem hafa þrátt fyrir erfiða stöðu sýnt heilindi hingað til.

Þetta var fólk sem kom vel fyrir í eftirmálum fyrri samstarfsslita og það verður ekki hjá því komist að þau verði lituð af þeirri staðreynd að þarna var illa unnið og óheiðarlega og úr takti við allt það sem þau stóðu þá fyrir.

Kormakur (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 23:56

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek undir með Jóni Steinari. Ég óttast að eitthvað verulega gruggugt búi undir og að það tengist beinlínis auðlindum okkar í jörðu, OR og REI. Vilhjálmi tókst ekki að hefja einkavæðinguna síðast og það klúður allt varð honum að falli. Hann axlaði ekki pólitíska ábyrgð og hætti, heldur afsakaði sig með minnisleysi og öðru álíka fáránlegu. Nú hefur hann ákveðið - eða honum verið otað út í af hagsmunaaðilum - að gera aðra tilraun þótt það kosti meirihluta á þvílíkum brauðfótum að það hálfa væri nóg.

Það vakti athygli mína að einu fréttirnar sem bárust í dag af nefndarúthlutun var að Kjartan Magnússon yrði stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Greinilega forgangsmál að manna þann póst. Af hverju? Var fyrri meirihluti kominn svo langt við endurskoðunarvinnu við OR og það sem þar hafði farið fram og var í farvatninu að Sjálfstæðismenn gátu ekki leyft að það yrði klárað? Hugnaðist þeim ekki að meirihlutinn ætlaði að stöðva náttúrueyðingu og óþarfar jarðvarmavirkjanir? Líkaði þeim ekki heldur að meirihlutinn harðneitaði að einkavæða og selja auðlindirnar okkar?

Þetta vil ég fá að vita og við verðum að fylgjast vel með hvað gerist hjá Orkuveitu Reykjavíkur á næstunni.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.1.2008 kl. 00:23

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Hvað er fólk að velta sér upp úr þessu flugvallarmáli á þessu kjörtímabili?  Nú standa yfir veðurfarsrannsóknir sem munu dragast langt fram á næsta kjörtímabil og á meðan verður EKKERT gert eða ákveðið.  Hafi Ólafur haldið að hann væri að græða eitthvað á flugvallarmálinu er það misskilningur frá grunni.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 23.1.2008 kl. 00:36

6 identicon

Getur verið að þessi upphlaup tengist eitthvað eignarhaldi á GGE, Geysi Green Energy og samruna þess við Reykjavík Energy Invest.

Það blæs ekki byrlega á fjármagnsmarkaði nú - í raun kraumar vel undir kötlum víða í þjóðfélaginu.  Getur verið að það ,,acti" út í stjórnmálunum? 

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 01:37

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hanna Birna og Þorbjörg Helga  litu út eins og þær væru í jarðaför, næstum grátandi, allavega með svakalegan fýlusvip

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.1.2008 kl. 03:06

8 identicon

Mín spá Dofri er að flokkar þurfi í framtíðinni meir að segja til um æskilega samstarfsflokk/flokka fyrir kosningar.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 10:50

9 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Það einasta sem væri hægt að sætta sig við í öllu þessu rugli í Reykjavík væri að bjóða til kosningar aftur. Þá væri líklegt að menn fengu kvittun fyrir illa unnin störf , óheiðarleiki og valdagræðgi. En eftir 2 ár er þetta gleymt, langtímaminnið er ekki gott í íslensku þjóðinni. það þarf bara að drífa í því að skapa lagabreytingar sem heimila nýjar kosningar í svona tilfelli.

Úrsúla Jünemann, 23.1.2008 kl. 11:19

10 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

auðvitað þarf að vera hægt að blása til kosninga. það þarf að breyta lögum um sveitastjórnarkosningar.

Brjánn Guðjónsson, 23.1.2008 kl. 12:05

11 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Villi er maður augnabliksins.  Allt annað er í skugga núna.  Hann er kominn aftur; gamli, .... Villi.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 23.1.2008 kl. 14:09

12 Smámynd: Jóhanna Guðný Baldvinsdóttir

Þetta er afbakað lýðræði, ekkert annað. reyndar talandi um lýðræði, ráðherra(stjórnmálamenn) treystir ekki lögmenntuðum aðilum að velja til dómarastéttar því þar gætu hugsanlega orðið til hagsmunaárekstrar(nota bene það er þriðja valdið), hvernig er umhverfi lagasetnir er lítur að stjórnmálamönnum, svari hver sem vill.

En eitt er skrítið, það mega allir veikjast nema Óli!  

Jóhanna Guðný Baldvinsdóttir, 23.1.2008 kl. 14:36

13 identicon

Af hverju er ekki skráð ip-tala hjá Dharma? Af hverju geta bara sumir falið sig á bak við nafnleynd? Ætli Dharma sé tæknikunnandi, hægri sinnaður blaðamaður sem veit að ef nógu oft er logið þá trúir fólk?

Margrét (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband