Verðhækkanir

Allir vita að eldsneyti hefur hækkað, olía hækkar á heimsmarkaði og það skilar sér hingað. En það er ekki það eina - allt er að hækka í verði. Sumt á sér eðlilegar skýringar t.d. í því að íslenska krónan hefur sigið en sumar verðhækkanir virðist ekki vera hægt að skýra með öðru en okri.

Kaffihúsin hafa hækkað verðskrá sína umtalsvert upp á síðkastið. Ég bar að gamni saman hækkanir á helstu vörum þriggja kaffihúsa á Laugaveginum.

Cafe Latte (tvöfaldur) hækkaði úr 360 í 390 hjá Te&kaffi, úr 350 í 380 hjá Kaffi Tári en kostaði 370 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.

Uppáhellt kaffi hækkaði úr 290 í 320 hjá Te&kaffi, úr 240 í 280 hjá Kaffi Tári en kostaði 300 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.

Súkkulaðikaka, ein sneið, hækkaði úr 490 í 590 hjá Te&kaffi, úr 530 í 580 hjá Kaffi Tári og úr 520 í 540 hjá Kaffi Hljómalind.

Ef við gefum okkur að tvær manneskjur ætli að hittast yfir kaffibolla og kökusneið. Önnur drekkur Caffi Latte en hin uppáhelt og hvor um sig fær sér kökusneið. Þá hefur þessi lúxus hækkað sem hér segir:

Hjá Te&kaffi úr 1630 í 1890 eða um 16%, hjá Kaffi Tári úr 1650 í 1820 eða um 10,3% og hjá lífræna kaffihúsinu Kaffi Hljómalind úr 1710 í 1750 eða um 2,3%. (Vert er að taka fram að Kaffi Hljómalind notar aðeins lífrænt ræktað kaffi sem er helmingi dýrara í innkaupum en venjulegt kaffi.)

Í samtölum við rekstraraðila kom fram að eftir gengissig krónunnar hefur hráefni frá birgjum hækkað talsvert (um ca 15%) og þetta skýrir hluta af hækkuninni. Mér finnst samt ekki líklegt að efni í súkkulaðikökur hafi hækkað svo mikið að það verðskuldi rúmlega 20% hækkun á sneiðinni.

Þá kom fram í samtali við Kaffi Hljómalind að mjólk hafi hækkað sem m.a. er skýrt með mikilli hækkun á tilbúnum áburði. Hins vegar hafi lífræna mjólkin hækkað líka sem er undarlegt af því það er ekki notaður tilbúinn áburður til að framleiða hana.

Mesta kjarabót sem íslenskur almenningur getur fengið er bætt neytendavitund. Hana getum við búið til sjálf. Það þarf ekki stjórnvöld til þótt þau geti vissulega hjálpað til (og hafi sýnt ágæta tilburði til þess að undanförnu).

Kæru lesendur. Sumar hækkanir eiga sér eðlilegar skýringar s.s. óstöðugt gengi krónunnar. Alltof margt á sér þó bara eina skýringu - við látum okra á okkur og spyrjum aldrei af hverju þetta eða hitt kostar svona mikið! Það er sama hvort það er kaffi, gallabuxur eða brauð.

Tökum okkur nú saman í andlitinu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég tók einmitt eftir þessari hækkun hjá Te og kaffi því kaffið það er í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst hækkunin sláandi (einfaldur latte úr 310 í 360) en þegar ég reiknaði það út var það "aðeins" 16% hækkun svo ég hugsaði með mér að það væri þá greinilega svipað og annarsstaðar. Ég ákvað að vera ekkert að röfla um þetta en hætta að fara svona mikið á kaffihús og það hefur heldur betur staðið því síðustu 3 vikur hef ég farið tvisvar á te og kaffi í stað þess að fara tvisvar í viku eins og venjulega er lágmarkið. Ég veit það er svipað með fleiri svo ég er ekki viss um að svona hækkanir borgi sig endilega hjá fyrirtækjum.

Annað sem ég fór að pæla í sambandi við þetta er að hráefniskostnaðurinn er líklega aðeins um 1/10 af verðinu á bollanum og ekki held ég að launin hafi nú hækkað hjá afgreiðslufólkinu en mig grunar sterklega að vasi eigendanna hafi síkkað sem þessu munar, fyrir utan auðvitað aukinn kostnað í kringum lán og svona sem er auðvitað einhver hluti af þessu.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.6.2008 kl. 11:26

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ja ekki var ódýrt bakkelsið...

En þar sem ég vinn við það að flytja inn íblöndunarefni til matvælagerðar þá veit ég það fyrir víst að bókstaflega allt sem notað er í kökur hérlendis er innflutt !!  Allur innflutningur hefur skaðast af krónufallinu um allt að 40 %.. hækkanir erlendis á hveiti td er um 75 % á einu ári...

en um að gera að vera  vakandi gagnvart hækkunum

Óskar Þorkelsson, 16.6.2008 kl. 11:37

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir þetta Óskar. Það sem ég furðaði mig á með kökurnar er einmitt það sem Sóley Björk tekur fram um verðmyndunina á kaffibollanum. Hvað er hráefniskostnaður mikill hluti af heildarkostnaði við að búa til súkkulaðiköku?

Dofri Hermannsson, 16.6.2008 kl. 11:48

4 Smámynd: Sævar Helgason

Fer ekki gamli tíminn að ganga í endurnýjun lífdaga-heimalagað bekkelsi , uppáhellingur á könnuna og bjóða gesti velkomna ???

Sævar Helgason, 16.6.2008 kl. 12:25

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ekki eitt einasta gramm kæri Kristinn.

Það er nefnilega ekki neitt náttúrulögmál að við Íslendingar þurfum að greiða fyrir kaffi með áli. Höfum reyndar aldrei greitt fyrir neitt með áli því við höfum aldrei átt neitt ál. Við höfum hins vegar selt orku landsins á spottprís til að útlendingar geti flutt hingað sitt ál til bræðslu og flutt það svo beint út aftur.

Álútflutningur er þess vegna ekkert annað en álinnflutningur + orkan sem fór í að bræða það. Við Íslendingar erum þess vegna ekki að flytja út ál heldur orku og það er hægt að gera á margan annan hátt.

Reyndar er það svo að nú mun Helguvík væntanlega soga til sín mest alla virkjanlega orku á Reykjanesskaga og Suðurlandi svo aðrir aðilar sem vilja setja hér upp mun meira virðisaukandi starfsemi fá enga orku.

Græðgi og skammsýni veldur því.

Dofri Hermannsson, 16.6.2008 kl. 15:32

6 Smámynd: Sævar Helgason

Kristinn !

Forstöðumaður hagfræðideildar Háskóla Íslands var að upplýsa í gær að það sem yrði eftir í landinu vegna álframleiðslu væri á bilinu 20-30 % nákvæmar er það nú ekki hjá honum- sennilega er það leyndarhjúpur orkuverðsins sem skýrir þessa 10 % ónákvæmni

  Í gær birti Framtíðarlandð skýrslu þar sem fram kemur að við borgum 30 milljarða með stóriðjunni .

Er ekki orðið fyllilega tímabært að óhlutdrægir aðilar verði fengnir til að gera heildarúttekt á þessari stóriðju okkar ?  

Það er mikið í húfi fyrir þjóðina.

Málið var mjög lítið meðan bara álverið í Straumsvík var eitt og sér starfandi hérna.   Stóriðjupakkinn núna er orðinn gríðarlega stór og ríkisábyrgð á öllum virkjunum... það má ekki mikið útaf bera með álverðið... 

Eins og alltaf þegar hráefni hækkar mjög, þá leitast markaðurinn við að finna aðrar lausnir --nú þegar eru arftakar álsins að koma sterkir inn. 

Við sjáum með hátt oliuverð- Erum við ekki að íhuga alvarlega vetni í stað olíu.   Okkur er afar mikilvægt að hafa ekki öll okkar orkuegg í einni körfu álkörfunni.

Þetta er svona það mér finnst 

Sævar Helgason, 17.6.2008 kl. 09:45

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

smá athugasemd við þetta hjá þér Sævar.. 20-30 % og þessi 10 sem skilja að eru 33 % eða meiri skekkja.. ég er ekki sterkur í stærðfræði en áttaði mig á þessu.

Óskar Þorkelsson, 17.6.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband