Eitraður vindur í ESB seglin

Strax í upphafi kreppunnar neyddust mörg fyrirtæki sem áður höfðu haft lánstraust hjá erlendum birgjum til að staðgreiða. Jafnvel fyrirtæki sem eru í útflutningi. Þetta skapar mikla erfiðleika því það er þrautinni þyngra að fara frá því fyrirkomulagi að vera með t.d. 30 daga greiðslufrest í að þurfa að greiða fyrirfram.

Jafnvel þegar lánsfé er í boði er þetta erfitt en staðan í dag er sú að það er erfitt að fá lánsfé, það sem hægt er að fá er á meira en 20% vöxtum og svo bætist við að gjaldeyrir á Seðlabankagenginu er skammtaður en enginn erlendur aðili tekur við krónum.

Þess vegna er mér með öllu óskiljanlegt af hverju stjórnvöld skoða ekki alvarlega þann kost að taka evru upp einhliða. Með því móti væri gjaldeyriskreppan leyst, fyrirtæki gætu fjármagnað sig á viðráðanlegum vöxtum, erlendir viðskiptavinir þyrftu ekki að láta vantrú á krónuna fæla sig frá viðskiptum við íslensk fyrirtæki og viðskiptalífið ætti möguleika á að vinna sig út úr erfiðri stöðu.

Creditinfo spáir þroti á fjórða þúsund fyrirtækja á árinu. Því miður held ég að það gæti verið bjartsýni. Þá er eftir að spá fyrir um heimilin. Skv. annarri frétt hér á mbl.is hefur aðilum á vanskilaskrá fjölgað um 2000 á árinu 2008. Samt voru vandræðin varla byrjuð.

Gjaldeyriskrísan, til viðbótar við fjármálakrísu og hrun bankanna, hefur fært þúsundir fyrirtækja og heimila á kaf. Þau geta ekki haldið niðri í sér andanum lengur en nokkra mánuði. Það tekur stuttan tíma að taka evru upp einhliða en mörg ár að fara inn í ESB, fá aðild að ERMII (með 15% vikmörkum) og fulla aðild að Evru fengjum við tæplega fyrr en eftir 8-10 ár.

Væri evran tekin upp einhliða nú þegar og þeim þúsundum fyrirtækja og heimila sem skulda erlend lán þannig gert mögulegt að skipuleggja sig til framtíðar teldi ég mjög eðlilegt og jákvætt að huga strax í framhaldinu að aðildarumsókn.

En ef það á að nota bráðaneyð heimila og fyrirtækja í landinu sem vind í seglin inn í ESB í stað þess að grípa til þeirra ráða sem bjargað geta flestum nú þegar, þá segi ég nei takk.


mbl.is Neita að tryggja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Við eigum frekar að taka upp dollar til að styggja ekki Evrópusambandið og að reyna að ná samningum við OBAMA og Glinton um að verja þetta litla land sem var vörður þeirra í 50 ár þannig getum við líka búið okkur til stöðu gagnvart Evrópubandalaginu. það er mjög líklegt að við getum selt okkar fisk allan til USA og Kína og þannig svelt Bretana til samninga en það er þeim mjög mikilvægt að fá fiskinn okkar Bandaríkjamenn myndu önuglega vilja kaupa olíuna af okkur ef hún finnst. Við eigum ekki að liggja flöt fyrir Evrópubandalaginu. 

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 15.1.2009 kl. 10:11

2 Smámynd: Jónas Jónasson

Samfylkingin er eitraði vindurinn OG ALLT HELVITIS STJORNKERFIÐ ER STEINDAUTT!!!

Jónas Jónasson, 15.1.2009 kl. 10:23

3 identicon

Sæll Dofri.

Hefur einhver skoðað vel þá hugmynd að hefja aðlidarumræður í ESB OG taka einhliða upp Evru á sama tíma ??

Þ.e.a.s. starta ESB- og Evruaðildarpakkanum (sem getur tekið óratíma) og á meðan beðið er að hafa einhliða aðild að Evrunni ?

Einhvernveginn hefur maður á tilfinningunni að þetta sé vel gerlegt og jafnvel fýsilegt....

en það er víst bara tilfinning.

Gunnar G (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 11:12

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll Gunnar G.

Já þetta hefur verið skoðað all vel. Daniel Gros, frkvstj. stefnumótunarhóps ESB á þessu sviði, setti fram ágætlega útfærða hugmynd að þessari leið, þar sem einhliða upptaka evru var sett fram sem neyðaraðgerð til skamms tíma með það að markmiði að Ísland yrði fullgildur aðili að ESB og myntráði sambandsins. Ég veit ekki til að þessi hugmynd hafi verið skoðuð af neinni alvöru af stjórnvöldum.

Þess má geta að af fundum sínum hér á Íslandi flaug Gros til London að hitta Gordon Brown og Nicolas Sarkozy þar sem þeir fólu honum það verkefni að fara ofan í saumana á reglum ESB um gjaldeyrismál. Daníel Gros er því ekki bara maður úti í bæ. Íslenskum stjórnvöldum mun einnig vera kunnugt um að innan stjórnar IMF er mikil jákvæðni í garð einhliða upptöku evru af hálfu Íslendinga. Einfaldlega af því það gerir björgunarstarf þeirra auðveldara og eykur líkur á að það takist að bjarga þjóðinni frá algeru hruni.

Dofri Hermannsson, 15.1.2009 kl. 11:41

5 Smámynd: Skaz

Þið gerið ykkur grein fyrir afhverju allt er ennþá stopp í þessum málum ennþá er það ekki?

Það verður ekkert gert af viti fyrr en ákveðinn flokkur er búinn að halda landsþing sitt í febrúar. Þar sem spurningin um ESB virðist ætla að koðna niður í það að vera sett í póstkosningu. Á meðan sá flokkur kemur sér ekki á lappirnar í þessu máli þá verður ekkert gert til þess að styggja flokkseigenduna. 

 Okkur er því í raun haldið í gíslingu af flokki sem er búinn að vera alltof lengi í ríkisstjórn, flokki sem inniheldur fólk sem hugsar bara um sig, flokkinn og vini sína. 

Þessi flokkur er kominn langleiðina með það að setja landið í gjaldþrot og þykist svo geta ætlast til þess að allir landsmenn geti bara beðið eftir aðgerðum þangað til að landsþingið þeirra er búið að álykta eitthvað um spurningu sem alltaf hefur verið frestað hjá þeim.

Auðvitað getum við farið í aðildarviðræður og tekið upp Evruna sem neyðarráðstöfun, held að það hafi alltaf staðið til sem líkleg leið af hálfu flestra sem unnið hafa við þetta.

Annað er með það að taka upp dollar, það er bæði flóknara og svo spurning hvort að við viljum þá fara út í evruna eftir að það er gert? Og auðvitað værum við ekkert að auðvelda okkur gjaldeyrismálin þar nema að hluta þar sem að við skiptum lang langmest í evrum.

En já það er bara þessi blái flokkur þarna sem vill að allir bíði á meðan þeir taka til heima hjá sér og geti séð út hvernig þeir geta haldið sínum völdum ásamt því að fara í ESB. Almenningur er hins vegar alveg tilbúinn að svara þessari spurningu. Og var það fyrir 4 mánuðum...

Skaz, 15.1.2009 kl. 11:58

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Evran núna! Það er ekki eftir neinu að bíða. Hver dagur sem er beðið lengur er tap.

Úrsúla Jünemann, 15.1.2009 kl. 12:19

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Án möguleikans til að prenta seðla við áföll eða ágjöf gæti það reynst eins og að fara úr öskunni í eldinn. Með beinni aðild að gjaldmiðlinum fáum við einu langtímalausnina sem við eigum í stöðunni. Ef einhliða upptaka gæti auk þess staðið þar verulega í veginum væri það nákvæmlega hliðstæð lausn við það að pissa í skóinn sinn, - yljaði um stund en gerði vandann og hættuna enn meiri til lengri tíma litið.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.1.2009 kl. 15:51

8 identicon

Það er margsinnis búið að benda á það að einhliða upptaka Evru er engin lausn, m.a. út af þessu:

  • Það kostar ca. 100 mia.kr. að taka upp annan gjaldmiðil einhliða.  Þetta eru peningar sem við eigum ekki núna.
  • Á hvaða skiptigengi á að taka krónuna upp í Evru?  Þetta veit enginn og enginn treystir sér til að spá í þetta né taka ákvörðun um það.
  • Við missum öll efnhagsleg stýritæki frá okkur.  Verðum að sætta okkur við þá afarkosti sem eigandi gjaldmiðilsins setur í efnahagslegri stjórnun.
  • Í staðinn fyrir eigin gjaldmiðil, verður vinnumarkaðurinn notaður sem sveiflujöfnunartæki.  Þetta myndi t.d. þýða að í stað 7,5% atvinnuleysis við núverandi aðstæður væri það ennþá hærra, t.d. langt yfir 20%
  • Við hefðum engan lánveitanda til þrautarvara
  • Ekki er sjálfgefið að vexti lækki hér á landi.  Vextir eru frjálsir hér á landi og vegna fákeppni á lánamarkaði geta bankar haldið núverandi vöxtum.  Þar að auki ráðast vextir innlendra banka af lánakjörum erlendis, en þau er allt annað en góð nú um stundir.
  • Verðlag mun ekkert lækka þó við tökum upp einhliða Evru.  Verðlag mun í besta falli standa í stað.  Að auki er hér fákeppni svo verðlag hér á landi verður aldrei sambærilegt verðlagi á Evru-svæðinu.
  • Vegna óhagstæðs skiptigengis á krónu upp í Evru, yrði hér mjög mikil raungengislækkun sem myndi þýða að við yrðum láglaunaland í Evrum talið.  Þetta er varanlegt ástand.  Þannig yrði kaupmáttur okkur langt um lægri en í Evrulöndunum. 

Í guðs bænum Dofri, farðu að hætta þessari þráhyggju þinni um að taka upp einhliða Evru.  Sá fjöldi innlendra sem erlendra hagfræðinga sem hafa mælt gegn því, geta ekki haft rangt fyrir sér. 

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 16:06

9 Smámynd: Dofri Hermannsson

Björn. Það er jafn oft búið að hrekja þær röksemdir sem hafa verið notaðar gegn þessum valmöguleika.

  • Það kostar 5-6 ma bandaríkjadala að verja íslensku krónuna. Margfalt meira en það kostar að skipta út krónunni fyrir evrur.
  • Það er ekki hægt að lifa við það að ekkert opinbert verð sé á krónunni. Á sama hátt og hefur verið reiknað út "raungengi" fyrir krónuna undanfarin misseri er hægt að reikna út eðlilegt skiptigengi.
  • Þau stýritæki sem við höfum haft hafa komið okkur í þessa stöðu, ekki síst peningamálastjórnin. Heimsvæðingunni fylgir að litlir gjaldmiðlar eiga undir högg að sækja. Okkar gjaldmiðill á sér ekki viðreisnar von sem sést kannski best á því að það enginn markaður með hann nema í Seðlabankanum þar sem erlendur gjaldeyrir er skammtaður í landsmenn.
  • Atvinnuleysi er með ýmsu móti á evrusvæðinu, sums staðar lítið og sums staðar mikið. Alhæfingar um þetta eru afar hæpnar. (Á kannski að taka upp sérstakan gjaldmiðil fyrir Reykjanes?) Síðan frjálst flæði vinnuafls varð staðreynd hér hefur það haft mjög góð áhrif á atvinnuleysi og offramboð á atvinnu til jöfnunar.
  • Eins og bent hefur verið á eru seðlabankar ekki að virka sem lánveitendur til þrautavara. Það er ríkið sem hefur fengið það hlutverk í fangið. Skoðaðu greinar Ársæls og Heiðars Más og Charles Wypolsz um þetta efni.
  • Stýrivextir eru hátt í 20% til að styðja við trúverðugleika krónunnar. Þess þyrfti ekki tækjum við upp evru. Erfitt er að færa rök fyrir því að vextir hér gætu haldist mikið hærri ef bankar væru komnir í raunverulega samkeppni við erlenda banka um viðskipti.
  • Nú er staðan sú að allt sem við kaupum frá útlöndum kaupum við með peningum sem heimurinn trúir ekki á. Þess vegna þurfum við að selja þessa peninga með miklum afslætti. Þessi afsláttur á peningunum okkar skilar sér beint í verðlag. Tækjum við upp gjaldmiðil sem heldur verðgildi sínu þegar hann fer út fyrir 200 mílurnar þyrftum við ekki að borga fyrir þessa verðrýrnun. Það eitt og sér myndi leiða til lækkunar. Vaxtalækkun myndi líka gera viðskiptalífinu mögulegt að lækka kostnað og þar með verð. Að sjálfsögðu kemur upptaka evru ekki í veg fyrir fákeppni.
  • Hvað þú telur óhagstætt skiptigengi er mér ekki alveg ljóst. Það er ljóst að gengi krónunnar undanfarið hefur verið alveg út úr kortinu og miðað við það gengi er eðlilegt gengi auðvitað óhagstætt. Við þurfum að skipta krónum út á gengi sem hægt er að standa á bak við með þeirri verðmætasköpun sem hér fer fram. Ekkert verð í neinu landi er varanlegt, ekki heldur þótt það sé í evrum. Allt mun taka breytingum eftir því sem efnahagslífið blómstrar eða hrynur. Mér er efst í huga að sú leið verði valin sem gefur atvinnu- og viðskiptalífinu mesta möguleika á að lifa. Mig langar ekki að horfa upp á íslenskt efnahagslíf veslast upp og deyja í biðstofu ESB ef aðrir möguleikar bjóðast.

Að lokum. Hér er engin þráhyggja á ferð, aðeins kalt mat á þeim kostum sem eru í boði. Og jú, fjöldi innlendra og erlendra hagfræðinga geta svo sannarlega haft rangt fyrir sér!

Dofri Hermannsson, 15.1.2009 kl. 16:55

10 identicon

Gott og vel.  Ef við tökum upp Evru einhliða þá yrði það á genginu 300 kr. pr. Evru eða því gengi sem Evrópski seðlabankinn metur krónuna á.  Þetta er mjög óhagstætt skiptigengi fyrir okkur, en ekki útlendinga.  Þetta er það raungengi sem margir vilja meina að sé á krónunni.

Dofri, þetta þýðir að árslaun sem nú í dag eru 4.000.000 kr. yrðu einungis 13.333 Evrur og sem eru langt undir fátækrarmörkum í Evrópu.  Glæsilegt ekki satt.  Heldur þú að SA séu tilbúin að bæta okkur upp þessa kjaraskerðingu sem einhliða upptaka Evru hefði í för með sér.

Svo má ekki gleyma því að í sambandi við atvinnusköpun að það gæti reynst þrautinni þyngra þegar ekki má virkja orkuna sem við eigum vegna andstöðu umhverfissinna.  Það er best að láta það eftir þeim.   Hér á ég við að ekki bara að nota orkuna í álver, heldur í aðra atvinnustarfsemi.   Það má bara ekkert virkja nema á einhverjum fáeinum stöðum á landinu og þá helst í mjög litlum mæli.  Þessvegna mun Íslenskt efnahagslíf alveg örugglega veslast upp. 

Það er ekkert erfitt að rökstyðja hærra vexti hér þrátt fyrir upptöku Evru.  Alveg eins má spyrja, afhverju ættu vextir að lækka hér við upptöku Evru?  Er ekki lánstraust Ísland erlendis það sem ræður vöxtum hér?  Evruupptaka breytir þessu ekki.

Ég hef skoðað greinar þeirra Ágústar og Hreiðars Márs.  Og það kostar ekki 5-6 ma. dollara að halda krónunni á floti.  Hvar færð þú þessa tölu?  Með skoðanir þessara manna og fólki eins og þér mun krónan aldrei eiga séns.

Ég efast mikið um þekkingu þína og hagfræði og fjármálum.

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 17:43

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það er varhugavert að gefa sér það að við munum ganga í ESB. Til þess þarf jú þjóðaratkvæðagreiðslu! Þessvegna er í besta falli vafasamt að taka upp evru einhliða og í óþökk bandalagsins. Hvar stæðum við ef evra hefði verið tekin upp en viðunandi samningar næðust ekki og málið yrði fellt?

Þess utan er finnst mér álíka gáfulegt að fara að grenja sig inn í bandalagið núna, og það hefði verið að húkka far með Titanic eftir að ísjakinn var kominn í augnsýn!

Haraldur Rafn Ingvason, 15.1.2009 kl. 17:49

12 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Gott sem Haraldur Rafn segir (Þess utan er finnst mér álíka gáfulegt að fara að grenja sig inn í bandalagið núna, og það hefði verið að húkka far með Titanic eftir að ísjakinn var kominn í augnsýn!) Þetta er besta lýsingin á ESB.Tökum upp dollar sem er minna mál eftir því sem manni skylst eða ræða við Norðmenn um myntbandalag ef það er hægt og ef þeir vilja eitthvað svoleiðis. EKKI í ESB það gengur frá okkur endanlega, ekki langar mig að hafa einhverja Brusselstofnum sem ræður öllu hér. Hitler vann ekki Evrópu með hernaði hann tapaði en svo á að reyna með peningum og Brusselvaldi og ekki held ég að það gangi mikið lengur það veldi.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 15.1.2009 kl. 20:20

13 Smámynd: Dofri Hermannsson

Björn. Hef engan heyrt segja að raungengi krónunnar sé 300 á móti evru. Hef heyrt tölur á bilinu 120-170 en hef ekki séð útreikninga sem styðja það svo ég ætla ekki að slá neinu föstu.

Það er þó ljóst að ef við viljum frekar greiða skuldir okkar hratt en hægt er betra að taka skiptigengi í neðri kanti raungengis en þeim efri, jafnvel þótt það þýði að utanlandsferðir og innflutt vara verði dýrari um tíma en ef við hefðum gengið í hærri kantinum. Á hvaða bili raungengið liggur ættum við að geta séð og það væri áhugavert að heyra álit sérfræðinga á því.

5-6 milljarðar bandaríkjadala er sú upphæð sem plan IMF gengur út (sjá t.d. frétt Fréttablaðsins 25 okt sl.) á en eins og þú veist gengur það plan út á að ná krónunni aftur á flot og verja hana áhlaupum spákaupmanna. Reynsla annarra þjóða, t.d. Argentínumanna af þessari leið er ekki góð, þeir töpuðu geigvænlegum upphæðum á henni. Þess vegna þorum við ekki að setja krónuna á flot heldur höldum henni í eins konar flotkví með einhverjum ströngustu haftalögum sem þekkjast.

Það eru útúrsnúningar hjá þér að ekkert megi virkja. Veit ekki betur en að Hverahlíðavirkjun hafi verið samþykkt í sátt og Hellisheiðarvirkjun hefur ekki mætt mikilli andstöðu nema fyrir ljótleika og brennisteinsmengun sem er skiljanlegt.

Orkan sem er verið að virkja er hins vegar skelfilega illa nýtt með því að selja hana alla í álbræðslu. Það væri hægt að fá mun fleiri störf út úr hverju MW ef farnar væru aðrar leiðir. Eins þykir mörgum, t.d. náttúruverndarfólki, að það myndi bæta ímynd okkar ef við settum stefnuna á að græna íslenska orku skyldi aðeins nota í grænan iðnað.

Heimurinn er á þeirri leið og það er grátlegt að þegar fólki má vera þetta ljóst skuli allri mögulegri orku vera lofað í álver sem bæði skilar fáum störfum og lítilli verðmætasköpun innan lands á hvert MW. Ef við vildum nýta auðlindina betur væri trúlega best að endurnýja ekki raforkusamninga við Ríó Tintó þegar þeir renna út heldur selja orkuna til nýrra fyrirtækja sem skapa meiri virðisauka í landinu.

Helguvík er svo auðvitað alveg út í bláinn og líklega verður þessi þykjustuleikur um það álver til þess að við missum frá okkur sólarkísilhreinsunarverksmiðju sem Elkem er að hugsa um að reisa á Grundartanga. Þar fara 350 störf, þriðjungur fyrir háskólamenntaða, grænn iðnaður sem þó þarf ekki nema 80 MW og því raunhæft dæmi.

Dofri Hermannsson, 15.1.2009 kl. 21:47

14 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Dofri - hvernig var þetta aftur með Iðnaðarráðherra og Bakka?  Þar virtist bara vera talað ,,svona eitthvað út í loftið" til þess að róa það fólk, en stóð svo aldrei til að standa við neitt og þvísíður að skapa þeim skilyrði til annarrar nýsköpunar.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 16.1.2009 kl. 00:14

15 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Upptakturinn að kreppunni var löngu byrjaður áður en ráðamenn áttuðu sig því miður og því margir orðnir atvinnulausir áður en kom til bankahruns. Það er staðreynd. Hvað varðar upptöku Evru - er okkur bráður vandi á höndum sem leysa þarf fljótt og örugglega - hvort það er fengið með einhliða upptöku evrunnar skal ég ekki segja. Það er allavega mikilvægt að skoða mál og möguleika varðandi gjaldeyrisskipti frá fordómalausu og áróðurslausu sjónarhorni. Til þess hefur ekki gefist færi hingað til. Því miður hefur öll þessi umræða einkennst af fordómum eða áróðri. Við þurfum hraða ákvörðun sem sagt byggist á málefnalegum og fordómalausum grunni. Við höfum hreinlega ekki efni á öðru eins og mál standa.

Anna Karlsdóttir, 16.1.2009 kl. 00:22

16 Smámynd: Ingólfur

Einhliða upptaka á öðrum gjaldmiðli er neyðarráðstöfun en hér ríkir líka neyðarástand.

Að hafa ekki seðlabanka sem getur prentað peninga eða verið lánveitandi til þrautavara er auðvitað ekki gott, en í dag getur Seðlabankinn það ekki hvort eð er. Þegar við erum búin að leysa gjaldeyriskreppuna þá getum við tekist á við fjármála- og bankakreppuna. 

Einhliða upptaka á Evru kemur ekki í veg fyrir að við göngum í eitthvað myntbandalag seinna hvort sem það verður í gegnum ESB eða eitthvað annað. Og ef ESB ætlar að refsa okkur fyrir að grípa til fullkomlega löglegra aðgerða til þess að afstýra neyðarástandi, að þá spyr ég, hvað höfum við þá að sækja í þannig félagsskap.

Ingólfur, 16.1.2009 kl. 00:55

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Seðlabanki ísland og ríkistjórnin eru 100% virk til þrautavarnar, sjúkrahúsum, skólum, bönkum og öllum þeim fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa útgjöld í ISK. Þetta á við nú sem fyrr og mun eiga við um ókomna tíð, hverju sem gengi krónu í alþjóðaviðskiptum eða skuldum ríkisins líður. Með einhliða upptöku gjaldmiðils tapast þetta.

Í nútíma hagkerfum er ekkert á bak við gjaldmiðilinn annað yfirlýsing eigandans um að hann sé einhvers virði, ólíkt því sem var á öndverðri síðustu öld þegar seðlar voru ávísanir gull eða aðra verðmæta málma. Þetta á við um alla gjaldmiðla líka dollar og evran hefur aldrei verið annað seðillinn. Nú hefur þessi gulltrygging verið sleginn undan öllum gjaldmiðlum heimsins og þannig kollvarpað hegðun hagkerfanna, eigendur gjaldmiðils geta nú gefið hann út eftir því sem þurfa þykir. Þar sem hagkerfi án tryggingar gjaldmiðils eru tiltölulega ný og í mótun er kannski eðlilegt að eitt og annað misfarist eins og alheimskreppan nú og fleira, en þegar á heildina er litið held ég að engin þjóð hafi efni á að vera ekki með.

Til að útskýra þessi nýju hagkerfi á einfaldan hátt má segja að ef útgefin gjaldmiðill í tilteknu hagkerfi er 100 einingar  (bæði peningar og verðbréf hverskonar) þá er þjóðarauðurinn 100 . Ef fólkinu fjölgar um helming má gera ráð fyrir að hagkerfið stækki um að minnstakosti sem því nemur, það þýðir að til að gjaldmiðillinn verði ekki tvöfalt verðmeiri þarf að gefa út 100 einingar í víðbót,  Þetta er einfalt með eigin gjaldmiðli, einfaldlega  prenta fleiri seðla og gefa út skuldaviðurkenningar sem því nemur, enda er mannauðurinn það verðmætasta sem þjóðirnar eiga og fullnægjandi veð. En það er ekki hægt með annarra þjóða gjaldmiðil þá verður að reka þjóðarskútuna með jákvæðum viðskiptahalla við útlönd eða erlendri skuldasöfnun. Vandamálið við að gefa út eigin gjaldmiðil er að það verður að vera einhver raunveruleg verðmætasköpun (veð, til dæmis vinnuafl) í hagkerfinu á bak við hana, en mönnum hættir til að gefa út of mikið sem veldur óhóflegri verðbólgu og stjórnmálamenn hafa oft mikið vald yfir því hvert þessir peningar fara sem veldur vantrausti. Engu að síður er ljóst að ef þetta vopn er slegið úr höndum þjóðar stendur hún verulega höllum fæti með tilliti til stækkunar hagkerfisins og hagsældar til framtíðar og getur raunar tæplega skilgreint sig sem þjóð í eiginlegri merkingu þess orðs.

Guðmundur Jónsson, 16.1.2009 kl. 06:59

18 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Já það er vandamál að neyðast til þess að rekka hagkerfið með jákvæðum viðskiptajöfnuði bara til þess að fólkinu geti fjölgað í landinu, sem annars væri óþarfi.

Það er hægt  að búa til verðmæti með hagvexti innan hagkerfisins í þessum nýaldar hagkerfum. Þetta þýðir að fræðilega getur Þjóðarauður vaxið jafnvel þó engin viðskipti séu við umheiminn. Til dæmis getur  ákveðin hluti launaveltu í landinu verið settur í sjóði, Þessir sjóðir geta stækkað án erlendrar skuldasöfnunar jafnvel þó vöruskipti við útlönd séu neikvæð. Að því gefnu að gjaldmiðillinn hafi eitthvað virði í milliríkjaviðskiptum er hægt að breyta þessum sjóðum að hluta í erlendan gjaldeyri eða bréf sem tryggir þá sjóðina fyrir gengisáhættu. Í raun hafa ísensku lífeyrissjóðirnir orðið til með þessum hætti og einfalt er að sanna það með því að benda einfaldlega á að eignir íslendinga eru mörgum sinnum meri en skuldirnar jafnvel þó viðskiptahalli hafi verið að jafnaði neikvæður síðustu áratugi.

Gulltrygging eða áltrygging krónunnar myndi setja hagkerfið aftur til fortíðar og það er í raun á margan hátt sambærilegt við eiðhliða upptöku gjaldmiðils

Guðmundur Jónsson, 16.1.2009 kl. 07:57

19 identicon

Jón Vilhjálmsson vill að við liggjum flöt fyrir Bandaríkjamönnum, er ekki allt í lagi á þínu heimili?

Valsól (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 08:20

20 identicon

Dofri, gengið 300 á Evru gagnvart krónu er það traust sem Evrópski Seðlabankinn metur krónuna á.  Gengið 120-170 er það matsgengi sem íslenskir hagfræðingar meta krónuna á.  Það er hinsvegar langt frá því gengi sem var árið 2007 sem var í kringum 90 krónur á Evru.

Með því gengi sem þú nefnir erum við ákaflega illa stödd eftir sem áður hvað varðar skiptigengi.  Segjum að skiptigengið yrði 150 þá erum við samt sem áður að tala um að við yrðum láglaunaríki innan ESB.  Árslaun sem væru í dag kr. 4.000.000 á Íslandi yrðu eftir sem áður einungis 26.666 Evrur eftir myntbreytingu, en þessi fjárhæð er kringum fátækramörk skv. skilgreiningu ESB.  Að sama skapi yrði kaupmáttur okkar ákaflega rýr inna samfélags ESB.  Glæsilegt það.  Værir þú ekki ánægður með þessi hlutskipti.  Það skal tekið fram að þetta yrði varanlegt hlutskipti.

Varðandi kostnað við að halda gengi krónunnar upp, þá veit ég ekki til þessa að nokkuð af IMF-láninu hafi verið notað til þess.  Frétt Fréttablaðsisn 25. okt. sl. var einungis mat á þeim tíma.

Varðandi virkjanamál, þá eru virkjanir á S-V-horninu í lagi, en ekki virkjanir úti á landi.  Ekki satt?  Allavegana eru yfirleitt meiri læti í umhverfissinum út af virkjanamálum úti á landsbyggðinni en S-Vestanlands.  Þetta er mín skoðun sem landsbyggðarmaður.

Mér skylst líka að öll þessi nýmóðins og sexý atvinnustarfsemi eins og ýmiskonar sprotastarfsemi, netþjónabú og það sem kallast græn stóriðja, eigi að rísa S-Vestanlands og það án umhverfismats.  Vatnsverksmiðja Jóns Ólafssonar þurfti ekki í umhverfismat og Helguvíkurálverið fékk afslátt á umhverfismati.   Það er annað uppi á teningnum þegar framkvæmdir eiga sér stað úti á landsbyggðinni.

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 10:35

21 Smámynd: Dofri Hermannsson

Björn. Við ERUM illa stödd. Ef raungengið er 150 kr. evran hækka launin okkar gagnvart útlöndum ekkert þó við notum krónuna áfram. Það er frekar öfugt. Af því íslenska krónan er óstöðugur örgjaldmiðill vill enginn kaupa hana nema með afslætti og þess vegna mun hver Íslendingur þurfa að vinna lengur fyrir gallabuxunum sínum ef hann vill borga þær í íslenskum krónum en ef hann fengi borgað í evrum.

Við erum illa stödd m.a. af því við höfum búið við falskt ofurgengi í mörg ár. Kaupmátturinn var falskur og þegar leiðréttingin kemur er hún harkaleg. Á meðan við erum að borga það sem oftekið var mun kaupmáttur á Íslandi ekki verða neitt til að hrópa húrra fyrir. Ekkert fær því breytt. En það er að sjálfsögðu ekki varanlegt ástand.

Það er einhver misskilningur hjá þér að verðlag og launataxtar frjósi ef lönd taka upp evru. Heldur þú að laun og kaupmáttur t.d. á Spáni hafi ekkert hækkað frá því landið tók upp evru?

IMF lánið endaði minnir mig í 5 milljörðum dala og það er fyrst og fremst hugsað sem varagjaldeyrissjóður - þ.e. til að verja krónuna áhlaupi. Við erum m.ö.o. að freista þess að skapa traust á kolfallinn örgjaldmiðil dvergríkis sem ætlaði að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð með því að leigja okkur gullfót!

Ég er alinn upp á landsbyggðinni og margir fordómar í hennar garð fara óskaplega í taugarnar á mér. Hitt finnst mér þó enn verra þegar landsbyggðarfólk setur sig í fórnarlambshlutverkið og kyrjar fullyrðingar um vonsku heimsins sem alltaf hyglir höfuðborginni og lætur vesalings landsbyggðarfólkið þjást.

Hefur þú ekkert fylgst með baráttunni gegn Bitruvirkjun, baráttu fyrir verndun háhitasvæða á Reykjaneshryggnum. Áttar þú þig ekki á því að eðli málsins samkvæmt eru flestir virkjunarstaðir "úti á landi"?

Það er mín skoðun sem landsbyggðarmaður og borgarbúi að í öllum heiminum leiti fólk, sér í lagi ungt fólk, í að búa þar sem tækifærin eru fjölbreyttust, í borgum. Þessari þróun verður ekki snúið við og draumur gamalla framsóknarmanna um að aftur muni fleira fólk búa í dreifbýli en þéttbýli mun ekki rætast.

Hins vegar hefur landsbyggðin upp á ýmislegt að bjóða sem borgin hefur ekki. Sveitarfélög sem hafa upp á alla helstu þjónustu að bjóða s.s. góðan aðgang að menntun upp að háskólastigi, heilbrigðisþjónustu, menningu, félagslífi og samgöngur við höfuðborgina, sveitarfélög þar sem húsnæðisverð er hagstæðara en í borg og möguleiki á að stunda áhugamál s.s. hestamennsku o.fl. án þess að setja sig á hausinn - slík svæði hafa aðdráttarafl vegna þessara kosta. Leggi þau höfuðáherslu á þessa kosti sína (í stað þess að tala um allt sem vantar) munu þau á hverjum tíma laða til sín nógu margt fólk til að þar haldist gott samfélag.

Þau sveitarfélög sem ekki bjóða upp á flesta þessa möguleika munu eiga mjög í vök að verjast, sama þótt þar verði virkjað eða reist verksmiðja. Ástæðan er einföld. Ef valið er um að vinna í verksmiðju á stað þar sem öll þjónusta innan seilingar og verksmiðju á stað þar sem lítil þjónusta er í boði þá velja flestir fyrri kostinn.

Fullyrðingar um að kröfur um umhverfismat framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu séu minni en á á landsbyggðinni er dæmigert fórnarlambsjarm sem skilar engu öðru en að hamra það inn í vitund fólks í hundraðþúsundastaskipti hvað vesalings fólkið á landsbyggðinni er miklum órétti beitt. Ekki einu sinni fólk sem er alið upp á landsbyggðinni og hefur þangað sterkar taugar langar til að taka sig upp til að setjast að í samfélagi fórnarlamba landsbyggðarmisréttis.

Dofri Hermannsson, 16.1.2009 kl. 11:39

22 identicon

Dofri, það er ekki framsóknarmennska að vilja byggja alla landsbyggðina.  Er það þá Samfylkingarmennska á vilja byggja hér eingöngu borgríki? Er það ekki "öfugsnúin" jafnaðarrmennska? 

Á kannski afgangurinn af landinu að verða einn allsherjar þjóðgarður og útivistar- og verndarsvæði sem einungis er opið 3-4 mánuði á ári, svona rétt yfir ferðarmannatímann?  Er þetta hið "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar?  Landsbyggðin á ekki að verða einskonar skemmtigarður eða Disney-land fyrir Höfuðborgarbúa.  Þarna á að vera blómlegt atvinnulíf eins og hjá iðnvæddum þróuðum ríkjum.  Sjáðu t.d. Frakkland og Þýskaland, ekki eru þessi lönd nein borgríki.  Og hvernig heldur þú að Bandaríkin væru ef allur efnahagsinnviður þess lands væri umhverfis höfuðborgarsvæði þeirra, Washington-svæðið?

Dofri, það er ekki fórnarlambsjarm að benda á það að framkvæmdir í nágrenni höfuðborgarinnar fá alltaf afslátt á umhvefiskröfum og umhverfismati.  Þetta er aðeins ábending um réttlæti.  Faxaflóasvæðið er verða eitt iðnvæddasta svæði í Evrópu út af þessu.

Það þýðir lítð að benda á ágæti háskóla þegar nær allir háskólar landsins eru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.  Það má eiginlega draga ávalt belti frá Reykjanesi norður til Akureyrar, en inn í þessu belti eru allar háskólastofnanir landsins.  Þar fyrir utan eru engir háskólar og munu ekki verða í bráð.  Engin fyrir vestan né austan þetta svæði. 

Nei, ég veit það að laun munu hækka hér þó við tökum upp Evru, en útgangspunkturinn mun verða svo lágur að við munum aldrei ná meðalkaupmætti í Evru-landanna miðað við það skiptigengi sem við myndum fá fyrir krónuna núna.

Með því að halda í krónuna munum við jafna okkur fljótar og ná fyrri styrk á örfáum árum.  Krónan mun jafna sig og ná ámóta styrk og árið 2006-2007 eftir nokkur ár.  Þá mun kaupmáttur okkur gagnvart Evrulöndunum jafnast út.

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 15:04

23 Smámynd: Dofri Hermannsson

Aftur fórnarlamb. Ekki sagði ég neitt um verndarsvæði en greinilega upplifir þú þig í slíku umhverfi. Ég sagði:

Hins vegar hefur landsbyggðin upp á ýmislegt að bjóða sem borgin hefur ekki. Sveitarfélög sem hafa upp á alla helstu þjónustu að bjóða s.s. góðan aðgang að menntun upp að háskólastigi, heilbrigðisþjónustu, menningu, félagslífi og samgöngur við höfuðborgina, sveitarfélög þar sem húsnæðisverð er hagstæðara en í borg og möguleiki á að stunda áhugamál s.s. hestamennsku o.fl. án þess að setja sig á hausinn - slík svæði hafa aðdráttarafl vegna þessara kosta. Leggi þau höfuðáherslu á þessa kosti sína (í stað þess að tala um allt sem vantar) munu þau á hverjum tíma laða til sín nógu margt fólk til að þar haldist gott samfélag.

Þú sagðir réttilega:

Það má eiginlega draga ávalt belti frá Reykjanesi norður til Akureyrar, en inn í þessu belti eru allar háskólastofnanir landsins. 

Þetta ávala belti sem þú nefnir er nú stundum kallað hringvegur. Og gott að þú skulir nefna háskólana því það er einmitt í kringum þá sem samfélög hafa verið að blómstra á landsbyggðinni. Nú er unnið að því að koma upp háskóla- og þekkingarsetrum víða um land, Nýsköpunarmiðstöð er með útibú á a.m.k. 6-7 stöðum hringinn í kringum landið. Hvernig væri að fagna því, tala um hvað er hægt að byggja á slíkri starfsemi í stað þess að tala bara um hvað landsbyggðin á bágt?

Hvað varðar laun og kaupmátt sýnist mér þú vera hættur að halda því fram að lágur kaupmáttur í útlöndum sé varanlegur með upptöku evru. Gott. Takk annars fyrir líflega umræðu :)

Dofri Hermannsson, 16.1.2009 kl. 17:24

24 identicon

Nýjasti hagfræðingurinn til að vara við einhliða upptöku evru var núna að tjá sig, sjá hérna, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/19/voru_i_raun_an_sedlabanka/

Við erum búin að brenna okkur um of á að láta vitlausa stjórnmálamenn halda því fram að þeir viti allt betur en aðrir og útiloki það sem okkar sérfræðingar segja og erlendir sérfræðingar , og mér sýnist á þessu einhliða upptöku blaðri sem dofri er að reyna skora einhver stig með falli algjörlega undir þessa vitleysu sem stjórnmálamenn hér hafa verið í, nánast allir ef ekki allir hagfræðingar landsins mæla á mót þessu og það gera greinilega erlendir sérfræðingar núna, en guess what, dofri veit betur en þeir!!!!

Steini (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband