Frábær fundur - ábyrgðarhluti að slíta stjórnarsamstarfinu ekki strax

Það þarf ekki að fjölyrða um niðurstöðu fundarins. Hún stendur skýr og klár og um hana var alger einhugur. Það þarf að slíta stjórninni, mynda bráðabirgðastjórn og boða til kosninga.

Hitt er alvarlegra að mótmælin vinda nú hratt upp á sig og upp það sem maður sá við Alþingishúsið upp úr miðnætti í kvöld var hrikalegt. Þegar farið er að rífa upp grjóthnullunga til að kasta að lögreglumönnum sem standa varðstöðu er mér hætt að standa á sama.

Þessi mótmæli eru komin úr böndunum, þau eru farin að lifa sjálfstæðu lífi og ekkert getur stöðvað þau annað en að orðið verði við hinni réttlátu kröfu um kosningar. Það er á ábyrgð stjórnvalda að binda enda á þetta áður en eitthvað gerist sem ekki verður aftur tekið.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég hefði haldið að samþykktin hjá Samfylkingarfélaginu (sem studd er af stjórn Kópavogsfélagsins og fleiri S-félögum) með þeim augljósu breytingum sem í henni felast hefði róað mannskapinn nægilega til að leyfa gleðinni að taka völdin. En ég er hræddur um að róttækustu svartliðarnir hafi aðra stefnu en massinn og hafi þegar allt kemur til alls ekki svo mikinn áhuga á lýðræðislegum lausnum.

Það er náttúrulega ekki glóra í þessu. Hvers vegna magnast mótmæli þegar rosalegur áfangasigur vinnst? Þegar tekist hefur svo gott sem borðleggjandi að koma núverandi ríkisstjórn frá og meira og minna búið að ganga frá því að gengið verði til kosninga eftir lýðræðislegan undirbúningstíma - af hverju æsast hinir æstu um allan helming? Hvers konar eiginlega sigra þarf til að bros og léttir haldi aftur af ofbeldi?

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 01:19

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Reynslumikill lögregluþjónn sem ég ræddi við sagði að eftir að ályktun fundar Samfylkingarfélgsins var lesin upp hefði hinn skynsami hluti mótmælenda horfið af vettvangi. Eftir væru hinir sem væru fyrst og fremst í mótmælum út á hasarinn. Mín vettvangskönnun styður þá skoðun. Þetta er bara ávísun á stórslys. Það verður að stinga á þessa blöðru með yfirlýsingu um kosningar eins fljótt og hægt er.

Dofri Hermannsson, 22.1.2009 kl. 01:24

3 identicon

Ég var á vettvangi um kvöldmatarleytið, fyrir fundinn, og mér fannst ég skynja meiri illsku en í gær, þegar megintilfinningin var réttlát reiði. Mig grunaði þá strax að verr myndi fara en í gær og það hefur nú gengið eftir. Engin leið að vita hvernig nóttin endar, því miður.

Almennt þá þarf kosningar til að hreinsa andrúmsloftið, heilbrigða samkeppni hugmynda að endurreisn og færa þjóðinni ótvíræða forystu sem hefur umboð til að taka þær erfiðu ákvarðanir sem ástandið kallar á.

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 01:49

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það eru reyndar anarkistar þarna á milli sem gæti ekki verið meira sama um kosningar - hafa enga trú á lýðræði (a.m.k. fulltrúalýðræði) yfirleitt.  Það er ekki hlaupið að því að koma til móts við það fólk.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.1.2009 kl. 01:56

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

... og svo eru reyndar líka ýmsir sem eru ekkert að hugsa um pólitík, heldur fyrst og fremst að fá útrás í átökum við lögreglu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.1.2009 kl. 01:58

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Gleymum ekki að þetta er ungt fólk. DV lýsir þessum atburðum svolítið öðruvísi. Og ég undrast þetta mjög því þegar ég fór af Hverfisgötunni rúmlega ellefu, þá voru allir að syngja og dansa. En upplýsingar berast líka illa í stórum hópum ég var búin að fá tvær nákvæmar lýsingar af fundinum sem báðar voru rangar þegar ég loks hitti fréttamenn sem sögðu mér hið sanna.

Og til hamingju með fundinn Dofri!

María Kristjánsdóttir, 22.1.2009 kl. 02:33

7 identicon

Dofri því miður kemur þessi ályktun Samfylkingarinnar allt of seint. Ég sem Samfylkingarmaður er miður mín, fylgið er farið og Samfylkingin allt í einu orðin sökudólgur bankahrunsins. Ingibjörg breyttist því miður í lítinn Davíð Oddsson við að verða ráðherra og samband hennar og Geirs minnti óbærilega mikið á samband Davíðs og Halldórs, eins mikið og maður fyrirleit það valdasjúka samband. Það er óþolandi þegar foringjar sjórnmálasamtaka taka ekki tillit til grasrótarinnar og allt of mikið af slíku hér á landi.

Við verðum samt að vona það besta og fyrta skrefið í því er að slíta stjórninni og boða til kosninga.

Valsól (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 13:51

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Á nú að slíta stjórnarsamstarfinu vegna þess að einverjir ofbeldismenn eru farnir að kasta grjóti, eða vegna þess að samfylkingin er að tapa fylgi á því samkvæmt skoðunarkönnunum.

Er ekki alt í lagi.

Hvar eru hugsjónirnar.

Guðmundur Jónsson, 23.1.2009 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband