2. hver bíll árið 2020 - tillaga Samfylkingar

Á morgun leggur Samfylkingin fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarstjórnar:

Tillaga Samfylkingar um vistvæna bíla.

Borgarstjórn samþykkir að setja sér það markmið að árið 2020 verði að minnsta kosti annar hver bíll í Reykjavík knúinn vistvænu, innlendu eldsneyti. Skipaður verði starfshópur sem kortleggur bestu leiðir til að ná þessu markmiði. Samvinna og samráð verði haft við löggjafa- og framkvæmdavald, nágrannasveitarfélög, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og aðra þá aðila sem hjálpað geta til við að ná þessu markmiði Reykjavíkurborgar.

Greinargerð.

Á undanförnum árum hafa borgir víða tekið forystu í stórum umhverfismálum. Eitt af stærri málum þar sem borgir hafa haft leiðandi hlutverki að gegna er við þróun og breytingar á innviðum samfélagsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun.

Samkvæmt nýrri skýrslu Mannvits fyrir Reykjavíkurborg um raunhæf markmið í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eru tæknilegar lausnir s.s. fjölgun metanbíla, íblöndun lífeldsneytis í bensín og dísil og innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla, skilvirkustu leiðirnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til skemmri og lengri tíma.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability flytja Íslendingar inn eldsneyti fyrir um milljarð króna á mánuði en hafa alla möguleika á að stórauka notkun á innlendri vistvænni orku til samgangna. Möguleikar á gjaldeyrissparnaði eru því umtalsverðir og í ljósi efnahagsástandsins hljóta stjórnvöld að hafa ríkan vilja til að ná slíkum sparnaði fram.

Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti betri aðstöðu en flestar aðrar borgir til að setja sér og ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði. Í verkefni af þessu tagi nýtur borgin smæðar sinnar, stjórnsýslan er einföld og návígi við löggjafa-  og framkvæmdavald er meira en flestar erlendar borgir eiga kost á. Loks á borgin orkufyrirtæki sem framleiðir umhverfisvæna raforku og getur því tryggt mögulegri rafbílavæðingu alla þá orku sem þörf er á.

Reykjavíkurborg býr sjálf yfir mörgum tækjum til að ná markmiði því sem sett er fram í tillögu þessari s.s. að efla forgangsakreinakerfið og veita vistvænum bílum aðgang að því, setja skilyrði um fjölorkustöðvar, skapa hagræna hvata fyrir eigendur vistvænna bifreiða og ganga á undan með góðu fordæmi í innkaupum á bifreiðum.

Til að ná metnaðarfullum markmiðum um vistvænar samgöngur þarf samstarf margra aðila. Því er í tillögutexta sérstök áhersla lögð á að starfshópur hafi samráð við alla þá sem aðstoðað geta við að ná settu markmiði. Hlutverk starfshópsins yrði að kortleggja bestu leiðir í samráði við þessa aðila og skila svo tillögum þar að lútandi til borgarstjóra.

Hér hefur verið bent á tvenns konar hag sem borgin hefði af markmiði þessu, samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnaður. Telja má víst að því til viðbótar myndi markmið af þessu tagi örva mjög alla þróun nýrra lausna sem málinu tengjast og þannig hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf. Síðast en ekki síst myndi markmið um annan hvern bíl á vistvænu innlendu eldsneyti fyrir 2020 vekja athygli á Reykjavík sem hreinni og metnaðarfullri höfuðborg en orðspor af því tagi verður seint metið til fjár.


mbl.is Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Það  er bráðnauðsýnlegt í hvert skipti sem talað er um "hreinni"  bíla að benda á með afgerandi og skýrum hætti, að þetta sé ekki aðallausnin og sérstaklega ekki til frambúðar.  Annars er mikill hætta á að svleiðis aðgerðir og fái miklu meira athygli og peningaframlag ( eða  kúnna ) en þeir eiga skilið.  Og fyrir alla muni ekki nota orðið sjálfbærni um "visthæfa bíla", eins og gert er með titill ráðstefnunnar sem er í gangi í dag og á morgun.

Morten Lange, 14.9.2009 kl. 13:17

2 Smámynd: Morten Lange

Ég les úr skýrsluna ( og samantektinni ) sem Umhverfisráðuneytið birti í haust að þetta sé þveröfugt farið :

http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1442  :

"Kostnaður við mótvægisaðgerðir er mismikill en ljóst er að ódýrar aðgerðir geta skilað umtalsverðum árangri. Kostnaðurinn spannar allt frá aðgerðum sem gefa hreinan fjárhagslegan ávinning svo sem aukin áhersla á göngu og hjólreiðar, eða aukin notkun sparneytnari bifreiða, til mótvægisaðgerða sem eru fremur dýrar, t.d. raf- eða vetnisvæðing samgangna."

( Mínar áherslubreytingar )

Er ekki einhver mikilvægur  misskilningur ( og að minnstu kosti einföldun)  á ferðinni  hjá þér ( eða Mannviti )   þegar þú segir  hér fyrir ofan :

"Samkvæmt nýrri skýrslu Mannvits fyrir Reykjavíkurborg um raunhæf markmið í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eru tæknilegar lausnir s.s. fjölgun metanbíla, íblöndun lífeldsneytis í bensín og dísil og innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla, skilvirkustu leiðirnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til skemmri og lengri tíma."

Alla vega sýnist mér gæta mikils ósamræmis milli þessa og   þess sem kemur fram í samantekt á  skýrsluna unnin á vegum Umhverfisráðuneytisins.

Ef það að "innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla, [séu] skilvirkustu leiðirnar" er ein af meginforsendunum fyrir þessa tillögu Samfylkingarmanna, þá vona ég svo innilega að beðið sé með að leggja þessu fram, þangað til búið sé að upplýsa hvort efinn sem ég dreg fram (með tilvitnun í skýrslu unnin fyrir Umhverfisráðuneytinu )  sé réttmætur.   Téð skýrsla byggir líka að  nokru leyti ávinnu Mannvits...  Og í raun kemur fram í skýrslunni að jákvæð efnahagsleg áhrif aukinnar hjólreiðar er vanmentin því sparnaður í heibrigðiskerfinu var ekki tekin með. 

Morten Lange, 14.9.2009 kl. 18:06

3 identicon

Sæll og blessaður.

Vonandi verður Samfylkingunni í Reykjavík meira úr verki en Samfylkingunni í Ríkisstjórn hvað þetta varðar.  Ég man ekki lengur nákvæmlega hvað flokkurinn samþykkti snemma á árinu (20% allra nýrra bíla árið 2015?) - ég hitti um daginn þingmann Samfylkingar og benti honum á að Samfylkingin væri ekki búin að hreyfa litlafingur til að hjálpa til að stefna að þessum (eigin) markmiðum, þó stór hluti tímans væri þegar liðinn. 

Fínt væri ef borgin byrjaði á einhverju sem hægt er að standa við - t.d. að reyna að hjálpa til við það að sannfæra ríkisstjórnina um að fella niður vsk. á rafmagnsbílum og eins t.d. að byrja á því að kaupa bara einn eða tvo bíla. Það er miklu betra en að segjast t.d. ætla að stefna að því að " ganga á undan með góðu fordæmi í innkaupum á bifreiðum" en gera síðan ekki neitt.

Afsakaðu ef ég hljóma eitthvað bitur - það er ekki ætlunin, enda veit ég að þú ert drengur góður og með höfuðið og hjartað á réttum stað. Hins vegar hef ég heyrt þennan söng svo oft undanfarin tvö ár en enginn hefur gert neitt... nema vinir okkar hjá Orkuveitunni.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 22:30

4 Smámynd: Morten Lange

Tek undir að opinberir aðilar ættu að ganga fyrir og kaupa nokkra rafmagns- og metanbíla.

En það væri kolrangt að fella niður vsk á rafmagnsbíla áður en búið er til dæmis að fella niður vsk og/eða vörugjöld á reiðhjólum og hlutum.  Og í raun ætti strax að fella niður  hlunnindaskatt á leiðréttingargreiðslum / samgöngustyrkjum til þeirra sem ekki nýta sér gjaldfrjáls eða niðurgreidd bílastæði.  (*)   Annað er hrópandi mismunun sem ýtir undir mengun og lélegri lýðheilsu.  Gangandi, hjólreiðamenn, notendur strætó, og jafnvel fólk sem ferðast saman í bíl  kosta minni fyrir vinnustöðum, í formi bílastæðna og fleiri hluti, ólíkt þá sem keyra rafmagnsbíla eða metanbíla. 

Gaman væri að fá útskýringu á ósamræminu sem ég benti á hér fyrir ofan, varðandi hvort  "innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla"  sé í raun  hagkvæmur  kostur  til að berjast gegn  gróðurhúsaáhrifin, miðað við annað sem bílaiðnaðinn  ekki finnst jafn spennandi. ( Að sjálfsögðu er heildarmyndin stærri en þetta.  og svifrykið úr útblástursrörunum kannski jafn sterk rök fyrir rafmagnsbíla og metan og gróðurhúsaáhrifunum.   )  

------ neðanmálsgrein

* : Starfsmenn Mannvits, Fjölbrautaskólans  í Ármúla og Símans/Skipti og mögulega fleiri vinnustaði, fá  samgöngustyrki sem samsvari græna(mánaðar)kortinu í Strætó, en ríkið dregur hlunnindaskatt af þessum leiðréttingarstyrkjum.  Reykjavíkurborg virðist ætla að inneiða svipuðum samgöngustyrkjum fyrir sína starfsmenn.

Morten Lange, 14.9.2009 kl. 23:46

5 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Ráðherrar Samfylkingarinnar hljóta að ríða á vaðið og nýta sér metanbíla þeir geta ef þeir þurfa að fara úr höfuðborginni nota bensín á þá þannig að það ætti ekki að vera hindrun.

Þessir  bílar eru hér á markaði í dag og ekkert ætti því að vera til fyrirstöðu um að taka þá í notkun í ráðaneytunum. Á ríkið ekki að ganga á undan með góðu fordæmi. Það eru gerðar stefnumarkanir sem byggja á því sem ekki er til í núinu heldur eitthvað sem hugsanlega kemur eins og það þurfi alltaf að fresta málum vegna þess að eitthvað sé alveg að koma. Mín skilaboð eru notið það sem til er og svo kemur hitt þegar þess tími er kominn , bílar hafa ákveðin endingartíma og það verður örugglega hægt að keyra einn út áður en rafmagnið verður það sem stefnt er að í bílum.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 15.9.2009 kl. 09:19

6 identicon

Gamalt kínversk máltæki segir:

Fyrir alla muni segðu öllum hvað þú ert góður , vertu bara viss um að hafa sýnt það fyrst.

Þessvegna spyr ég hversu margir þingmenn og borgarfulltrúar aka um á metan eða rafmagnsbíl?

Sæmundur (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband