10.4.2007 | 18:39
Allt sem þau vildu að þau hefðu gert!
Þegar sami flokkurinn hefur setið að völdum í 12 ár er ekki hægt að skoða svona upptalningu í öðru ljósi en því að þetta sé allt sem þau vildu að þau hefðu komið í verk - en gerðu ekki.
Nokkur dæmi:
- Áframhaldandi uppbygging samkeppnisfærs atvinnulífs og afkomuöryggi í öllum byggðum.
Hvað ætli þeim þyki um orðið "áframhaldandi" á þeim svæðum sem hafa búið við neikvæðan hagvöxt samfellt mörg undanfarin ár? Ætli þau vilji "áfram" það sama? - Skattleysismörk verði 100 þúsund krónur og stimpilgjöld verði afnumin.
Af hverju er Framsókn ekki löngu búin að þessu? - Lán Íbúðalánasjóðs miðist við markaðsverð en ekki brunabótamat.
Víða á landsbyggðinni er brunabótamatið mun hærra en markaðsvirði. Brunabótamatið er hins vegar ekki viðmiðun út í bláinn. Það er sú upphæð sem kostar að endurbyggja eignina ef hún brennur. Vill Framsókn minnka möguleika fólks á þessum stöðum til fjármögnunar eigna sinna? - Eingöngu verði einstaklingsrými á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Ég veit af hverju er ekki búið að gera þetta í Reykjavík a.m.k! Geir Hilmar Haarde bannaði það. Framsókn lét hann komast upp með það! - Víðtæk sátt verði um þjóðareign á auðlindum og stofnaður auðlindasjóður þjóðarinnar.
Þetta gekk nú ekki svo vel hjá Framsókn í núverandi ríkisstjórn. Flokkurinn hefur lýst yfir að hann vilj halda "áfram" með Sjálfstæðisflokki - af hverju ætti þetta frekar að gerast næst? - Gerð verði verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl.
Er það ekki hinn svokallaði "Farvegur Þjóðarsáttar" sem kveður á um að það megi virkja sem svarar orku fyrir þrjú stór álver fram til 2010? Er ekki bara hægt að sleppa þessu "verndar-" í setningunni? - Dregið verði úr flutningskostnaði fyrirtækja á landsbyggðinni.
Af hverju er Framsókn ekki löngu búin að því? - Þjóðvegir frá höfuðborginni verði tvöfaldaðir og unnið verði að jarðgangagerð á 2-3 stöðum samtímis næstu áratugi.
Það er eðlilegt að flokkur sem hefur verið í ríkisstjórn nánast samfellt í 35 ár tali um hvað hann ætlar að gera næstu áratugi en svona í prinsippinu séð þá er nú bara verið kjósa til næstu fjögurra ára! Hins vegar góð hugsun og ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fá að sitja á varamannabekknum næsta kjörtímabil eru allar líkur á að það verið ráðist í stórátak í samgöngumálum. - Ný jafnréttislöggjöf verði sett sem afnemur skyldu starfsmanna til launaleyndar og jafnar stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum.
Af hverju hefur ekkert dregið saman með launum karla og kvenna í þau 12 ár sem Framsókn hefur setið við völd? Á meðan Ingibjörg Sólrún stjórnaði Reykjavíkurborg var launamunur kynjanna minnkaður um helming. - Ókeypis tannvernd verði til 18 ára aldurs.
Þegar börnin opna munninn kemur áhugi Framsóknarflokksins undanfarin 12 ár á þessu máli í ljós. Undir þeirra stjórn hefur tannvernd barna bókstaflega hrunið - flokkurinn hefur engan trúverðugleika varðandi tannheilsu barna.
Áfram það sama næstu fjögur ár?
Nei takk!
![]() |
Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2007 | 11:54
Framsókn og hvalveiðar
Framsóknarmenn virðast vera að vakna upp við vondan draum í hvalveiðimálunum. Úr víðlendum móum Suðurlandsundirlendis sendir Eygló Harðardóttir afar skarpan pistil um málið.
Það er sérstök ástæða til að fagna því að framsóknarfólk skuli hafa áttað sig á og viðurkennt að "hvalveiðar í fagnaðarskyni" eins og Guðmundur Andri Thorsson orðaði það ágætlega voru hrapalleg mistök. Verst að Eygló hefur verið ýtt niður úr baráttusæti Framsóknarmanna í suðrinu.
Sjálfstæðismenn virðast líka margir vilja sverja af sér þessa sneypuför eftir 9 langreyðum sem enn liggja óseldar í frystiklefum Granda. Meira að segja sjávarútvegsráðherrann glaðbeitti vill helst ekki kannast við málið lengur og telur framlag sitt fyrst og fremst hafa verið að standa ekki í vegi fyrir hvalveiðum sem atvinnugrein.
Ef mig misminnir ekki beitti sjávarútvegsráðherra sér töluvert fyrir málinu, án samráðs við ferðaþjónustuna og útflutningsaðila sem áttu hagsmuna að gæta. Brást eiginlega hinn versti við þegar bent var á að þetta væri ekki góð viðskiptahugmynd - eins og Eygló tíundar í pistli sínum.
En batnandi fólki er best að lifa.
10.4.2007 | 03:05
Kastljós í kvöld
Það voru formannaumræður í Kastljósinu í kvöld. Fimm karlar og ein kona.
Umræðan var opnuð á vinsældarkönnun Capacent og enn undirstrikað að Ingibjörg Sólrún er sá stjórnmálamaður sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur óttast mest. 81% Sjálfstæðismanna og 62% Framsóknarmanna. Trúlega full ástæða til.
Í stóriðjumálunum kom skýrt fram að Geir vill gjarna fara í allar fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir en segir að það komi ríkisstjórninni reyndar lítið við. "Ekki mitt mál" stefnan. Jón Sigurðsson telur stórhættulegt að gera hlé á stóriðjuframkvæmdum, það muni stöðva hjól atvinnulífsins. Það eigi þess vegna að halda áfram að virkja fram til 2010 og stöðva hjól atvinnulífisins þá. Þetta er "Áfram stóriðja" stefnan sem Jón kallar einhverra hluta vegna þjóðarsátt.
Stjórnarandstaðan og Ómar voru sammála um að það ætti að staldra við. Það var athyglisvert að enginn flokkanna vildi fortaka að það mætti virkja einhvers staðar í næstu framtíð, Þingeyjasýslurnar voru sérstaklega nefndar. Þeir eru allir orðnir sammála Fagra Íslandi Samfylkingarinnar, að staldra nú við, nota tímann til að rannsaka náttúruna, tryggja verndun verðmætra svæða og svo megi ræða saman um aðra nýtingu t.d. virkjanir ef þurfa þykir - utan verndaðra svæða.
Þetta er "Heilbrigð skynsemi" stefna Samfylkingarinnar eins og Ingibjörg Sólrún benti réttilega á.
Næst var innflytjendaumræðan. Það var eiginlega 5-0 Frjálslyndum í óhag. Málið er borðleggjandi. Það er mikið af útlendingum að vinna hér af því ríkisstjórnin hefur viðstöðulaust ausið olíu á þenslubálið undanfarin misseri. Margir Íslendingar hafa áhyggjur af þessu og það er eðlilegt. Þeir vilja flestir hófstillta umræðu um málið, ræða málefnalega hvort hætta er á undirboðum á vinnumarkaði og atvinnuleysi á meðal Íslendinga þegar dregur úr ofsaþenslunni. Það er sjálfsagt mál enda hefur Ingibjörg Sólrún efnt til slíkrar umræðu t.d. því að kalla til stórs fundar með aðilum vinnumarkaðarins, samtökum fólks af erlendum uppruna ofl. hlutaðeigandi. Þannig á líka að ræða þessi mál. Ekki með upphrópunum um að erlent starfsfólk beri með sér berkla og kynsjúkdóma, stundi rán og kynferðisofbeldi og steli störfum frá Íslendingum sem sitji eftir með sárt ennið.
Það var líka rætt um skattamál. Þar sást glöggt af hverju misskiptingin hefur aukist jafnt og þétt, áhuginn er allur á að bæta kjör þeirra sem hafa þau best t.d. með flatri lækkun skatta sem í raun er borguð með því að láta skattleysismörk ekki halda í við verðlagsþróun. Þetta mætti kalla "lengi getur gott batnað og vont versnað" stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Sú stefna er vond og hún venst ekki. Ingibjörg talaði fyrir hækkun skattleysismarka og meiri áherslu á að leggja rækt við það sem raunverulega skipti mestu máli, mannúð, jöfnuð, börnin okkar og aðstæður þeirra og foreldranna. Það er ekki bara siðferðislega rétt heldur líka afar skynsamlegt.
Loks var rætt um ríkisstjórnarsamstarf. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur leiðast þétt hönd í hönd. Það er þó eins og Geir sé heldur að reyna að losa um takið, rétt eins og hann telji óvíst að Framsókn muni gera sama gagn eftir 12. maí og hún hefur gert hingað til. Hann brosir hlýlega til Steingríms J og greinilegt að hann telur þann kost ekki síður sætan. Vissulega eiga þessir flokkar sameiginlega fleti s.s. andstöðu við ESB og upptöku Evru.
Stjórnarandstaðan er sammála um að ef stjórnin fellur (sem ég hef alla trú á) þá beri þeim flokkum sem felldu hana skylda til að reyna að mynda stjórn áður en stjórnarflokkunum verði blandað í spilið. Það er hins vegar ljóst að fjögurra flokka stjórn er afar ólíkleg. Nú eru bæði Frjálslyndir og Ómar (sem ekki er hægt annað en að hæla fyrir einurð og prúðmennsku) í kringum 5% fylgi sem þýðir mjög aukna hættu á dauðum atkvæðum. Þannig gæti ríkisstjórnin haldið velli með aðeins um 45% fylgi.
Þeir sem vilja nýja ríkisstjórn eftir kosningar verða að hafa það í huga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.4.2007 | 15:15
Ótti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Óskastaða Sjálfstæðisflokksins eru 3-4 óburðugir flokkar á miðju og til vinstri sem flokkurinn getur valið úr og tryggt með því áframhaldandi forystu sína í ríkisstjórn. Óskastaða Framsóknarflokksins er að ná meirihluta með Sjálfstæðisflokki.
Það er því ekki undarlegt að 81% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 62% Framsóknarmanna nefna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, sem óvinsælasta stjórnmálamanninn. Ótti stjórnarflokkanna er skiljanlegur, einkum Sjálfstæðisflokksins, sem veit að það sem helst ógnar 16 ára samfelldri valdasetu flokksins er sterk Samfylking með burði til að fara með forystuhlutverk í næstu ríkisstjórn.
Sjálfstæðismenn muna vel hvers Ingibjörg Sólrún er megnug sem stjórnandi og einnig að fyrir kosningarnar 2003 naut hún mun meira trausts almennings eftir 8 ára farsælt starf sem borgarstjóri en Davíð Oddsson eftir 12 ára setu sem forsætisráðherra. Sjálfstæðismenn muna líka vel eftir öllu því sem hún kom í verk sem borgarstjóri, mikilvægum verkefnum sem höfðu verið stórlega vanrækt af Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, m.a. undir forystu Davíðs.
- Hún lyfti Grettistaki í umhverfismálum með hreinsun strandlengjunnar, stærsta umhverfisverndarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi.
- Loks þegar hún tók við stjórnartaumunum voru lagðir göngu- og hjólastígar um alla borg, sem stórbættu aðstæður almennings til útivistar.
- Hún stóð við stóru orðin í leikskóla- og grunnskólamálum. Í hennar tíð voru 100 nýjar leikskóladeildir byggðar og biðlistum eftir leikskólaplássum útrýmt. Byggt var við nær alla grunnskóla borgarinnar og þeir einsetnir.
- Konur voru örfáar þegar hún hóf störf sem borgarstjóri en voru orðnar helmingur stjórnenda þegar hún hætti. Óútskýrður launamunur kynjanna minnkaði um helming frá 1995 til 2001.
- Stjórnsýsla borgarinnar var stokkuð upp ný vinnubrögð innleidd. Það voru settar nýjar, gegnsæjar reglur í útboðs- og innkaupamálum, fagmennska jókst á öllum sviðum og pólitískar ráðningar heyrðu sögunni til.
- Hún undirbjó átak í byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða með samkomulagi við heilbrigðisráðherra í maí 2002. Samkomulagið mætti hins vegar mikilli andstöðu hjá þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde og ríkið setti aldrei þá fjármuni í átakið sem þurfti.
- Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar blómstraði menningarlíf borgarinnar svo um munaði. Reykjavík varð menningarborg Evrópu árið 2000, Listahátíð Reykjavíkur var efld til muna, nýjar menningarhátíðir voru skipulagðar s.s. Menningarnótt, Vetrarhátíð og Airwaives, Listasafn Reykjavíkur var opnað í Hafnarhúsi og tekin var ákvörðun um að byggja Tónlistar- og ráðstefnuhúss á hafnarsvæðinu í samstarfi við ríkið.
- Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar var sérstök áhersla lögð á byggingu nýrra og glæsilegra íþróttamannvirkja. Skautahús í Laugardal, ný stúka við Laugardalsvöllinn, ný 50 metra sundlaug í Laugardal, nýtt frjálsíþróttahús við Laugardalshöll, Egilshöll með yfirbyggðum knattspyrnuvelli og skautasvelli, íþróttahús KR, félagsaðstaða fyrir Þrótt í Laugardal, uppbygging á Fákssvæðinu og samkomulag um uppbyggingu á Valssvæðinu.
Samfylkingin og formaður hennar mæta vel nestuð til kosningabaráttunnar. Við vitum hvað við viljum gera og hvernig við ætlum að koma því í framkvæmd. Og rétt eins og í borginni ´94 er býsna margt sem nú þarf að laga.
Það þarf að rétta hlut aldraðra, það þarf að bæta aðstöðu barna og fjölskyldna þeirra, það þarf að gera stórátak í náttúruverndar- og umhverfismálum, það þarf að skapa landsbyggðinni jöfn tækifæri til vaxtar, það þarf að ná aftur tökum á efnahagslífinu, tryggja stöðugleika og bæta hag heimilana í landinu, það þarf að bæta vaxtar- og stafsumhverfi nýrra greina atvinnulífsins, svo nokkur atriði séu nefnd.
Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa fulla ástæðu til að óttast um völd sín.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
6.4.2007 | 02:33
Framsókn veðjar á stóriðjuna (og Sjálfstæðisflokkur á Framsókn)
Tæp 60% Íslendinga vilja staldra við á stóriðjubrautinni. Aðeins 14,2% Íslendinga vilja alls ekki hægja á stóriðjuframkvæmdum næstu árin. Til viðbótar eru 18,7% frekar á móti því að staldra við.
Kjósendur Framsóknarflokksins hafa afar blendnar tilfinningar til málsins en hins vegar virðast forystumenn Framsóknar hafa gert upp hug sinn.
Þeir hafa ákveðið að stökkva á stóriðjuvagninn enda þótt 36% stuðningsmanna þeirra vilji gera hlé á stóriðjuframkvæmdum. Þetta ber merki örvæntingar. Hinn frægi "farvegur þjóðarsáttar" sem gerði ráð fyrir því að virkja duglega fram til 2010 og sjá svo til var ekki að virka og því eru góð ráð dýr.
Þess vegna hefur í herbúðum Framsóknar verið veðjað á hreina og (þjóð)rækilega stóriðjuafstöðu í veikri von um að hluti þeirra 14,2+18,7% sem ekki vilja staldra við telji þetta vera svo mikilvægt mál að þeir fylki sér um Framsókn - einbeitta stóriðjuflokkinn. Svona svipuð strategía og hjá Frjálslyndum sem hafa veðjað á ótta Íslendinga við erlent vinnuafl.
Forysta Framsóknar dregur hér línu í sandinn. Framsóknarmaddaman (sem reyndar hafði ekki verið boðið upp í dans) útilokar nú samstarf við Samfylkinguna, Vg og Ómar vegna stóriðjumálanna. Eftir standa Sjálfstæðisflokkur (hinn raunverulegi stóriðjuflokkur Íslands) - og Frjálslyndir. Það yrði mögnuð ríkisstjórn. Áframhaldandi þenslustjórn með reglulegum stóriðjuinnspýtingum, verðbólgu, vaxtaokri og viðskiptahalla í bland við fordómaflokkinn.
Það er greinilegt að hér er jafnframt um meldingu Framsóknar gagnvart Sjálfstæðisflokki að ræða. Allir vita að Sjálfstæðisflokkurinn þráir ekkert fremur en að endurnýja hjúskaparheitin við Framsókn. Ef Geir og félagar makka rétt verður spilað upp á það sem fyrsta kost en Frjálslyndum e.t.v. kippt upp í ef með þarf. Kjósendur geta því hér eftir sem hingað til gert ráð fyrir því að B = D. Á næstu vikum sést hvort Frjálslyndir mála sig út í sama horn, þótt pensillinn sé með öðrum lit. Þjóðfánalitirnir í staðin fyrir grátt.
Það á eftir að koma í ljós hvað Íslandshreyfingin fær marga til liðs við sig. Því miður virðist draumur Ómars um að fjölga grænum þingmönnum vera að snúast upp í martröð. Íslandshreyfingunni gengur illa að manna listana hjá sér. Margt þungaviktarfólk hefur gengið úr skaftinu. Það er von því þungaviktarfólki er flestu ljóst að eins máls flokkur þarf að hafa mikla sérstöðu til að hægt sé að réttlæta skort á öllu öðru. Þessa sérstöðu hefur Íslandshreyfingin ekki - bæði Samfylkingin og Vg hafa sett grænu málin á oddinn. Að öðru leyti er nýbirt stefna Íslandshreyfingarinnar líka (býsna góð og) samhljóða flestu ef ekki öllu í stefnu Samfylkingarinnar.
Versta niðurstaðan (og sú óttast ég að hún verði) væri sú að Ómar og co næðu tæplega 5% fylgi. Þau atkvæði dyttu þá dauð niður og það gæti nægt Sjálfstæðisflokki og Framsókn til að mynda meirihluta - jafnvel með minnihluta atkvæða eins og gerðist í borginni í fyrra.
Fyrir þá sem vilja skipta ríkisstjórninni út, vilja endurreisa fjölskylduvænt velferðarsamfélag, rétta hlut aldraðra, skera upp herör gegn kynbundnu ofbeldi og launamun kynjanna, leggja meiri rækt við börnin, endurheimta stöðugleika í efnahagslífinu, efla vaxtarsprota atvinnulífsins, fjárfesta í samgöngum frekar en áframhaldandi stóriðju og nota næsta kjörtímabil í að ræða fordómalaust aðild að ESB og upptöku stöðugri gjaldmiðils er valið einfalt.
Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur sett fram skýra sýn á öll þessi mál. Flokkurinn hefur ekki bara skoðun heldur veit hvað hann ætlar að gera til að gera þá skoðun að raunveruleika. Það sést glöggt þegar lesið er um Fagra Ísland, Unga Ísland, um tillögur til lækkunar matarverðs, ályktun Kvennahreyfingarinnar eða verðlaunatillögurnar um Nýja atvinnulífið svo dæmi séu tekin.
Það þarf óþreytt fólk með skýra sýn, raunsætt mat á aðstæðum og vel útfærðar tillögur að lausnum til að taka við af fráfarandi ríkisstjórn í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
3.4.2007 | 09:37
Allt íbúakosningunni að kenna?
Maður kemst ekki hjá því að spyrja sig hvort þetta sé Samfylkingunni og niðurstöðu íbúakosningar í Hafnarfirði að kenna! Um 10.000 manns í Toulouse að missa vinnuna - líklega allt af því Hafnfirðingar (sem fljúga í flugvélum eins og annað fólk) vilja ekki gera skyldu sína og framleiða meira ál.
Að sögn Hags Hafnarfjarðar munu um 1.500 Hafnfirðingar lenda á vonarvöl EF þeir 216 Hafnfirðingar sem vinna í Straumsvík missa störf sín á næstu árum og áratugum. Ef störf starfsmanna í Toulouse eru jafn gefandi fyrir samfélagið og störfin í Straumsvík þá má reikna með því að tæplega 70.000 manns (sem "fara út að ganga með barnavagna á sunnudögum") séu nú að lenda í allsleysi og vosbúð.
Það er margt sem helmingur Hafnfirðinga (og Samfylkingin auðvitað) hefur á samviskunni.
![]() |
Starfsmenn Airbus í Toulouse mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2007 | 17:48
Lýðræði og hugrekki stjórnmálamanna
Um fátt hefur meira verið rætt en íbúakosninguna í Hafnarfirði á laugardaginn var. Vonbrigði margra eru sár, enda gat ekki annað verið þegar bæjarbúar skiptast svona algjörlega í tvö horn í afstöðu sinni.
Margir hafa borið lof á Samfylkinguna fyrir að leggja þetta þverpólitíska mál í dóm bæjarbúa. Morgunblaðið hafði m.a. þetta að segja í leiðara:
Kosningin er merkur viðburður sem markar ákveðin þáttaskil. Athugasemdir iðnaðar- og fjármálaráðherra að atkvæðagreiðslan kæmi seint í stækkunarferli eru sjálfar alltof seint fram komnar. Almennir borgarar eru jafn vel upplýstir og fulltúar þeirra og jafn vel menntaðir. Því er lýðræði borgaranna að taka við. Stjórnmálaflokkar sem sýna ekki umhverfisverndarsjónarmiðum fulla virðingu, eru í hættu staddir.
Fréttablaðið tók í svipaðan streng:
Hafnfirðingar voru ekki að kjósa um hvort stöðva beri virkjanir eða stóriðjuframkvæmdir á Íslandi, heldur um umfang álverksmiðju í túnfætinum heima. Ánægjulegt að fylgjast með hvernig pólitískir fulltrúar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar héldu sig til hlés.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa hins vegar fundið kosningunni sem Morgunblaðinu finnst marka þáttaskil í lýðræðismálum allt til foráttu. Þeir telja hana bera vitni um skoðanaleysi þegar Samfylkingin efnir loforð sitt um að íbúar fái að kjósa um stór og umdeild mál.
Þeim finnst lýðræðislegra að nokkrir ráðandi aðilar í fámennum valdahópi taki ákvörðun með eða á móti. Þeir vilja gera þverpólitísk mál flokkspólitísk. Þora ekki að biðja fólk að "rétta upp hönd" og segja hvað þeim finnst. Telja að þá hafi þeir brugðist sem eins konar íslensk útgáfa af alvitrum og allsráðandi Turkmenbasi (föður allra Turkmenista).
Þeir virðast alls ekki skilja hugtakið íbúalýðræði. Því til frekari staðfestingar þá telja þeir að ef á annað borð þurfti endilega að leyfa almúganum að ráða einhverju um þetta þá hefði Flokkurinn alla vega átt að segja lýðnum hvernig hann átti að kjósa.
Hvílíkt traust á kjósendum!
Þetta er hugarfar sem á ekkert skilt við ást á lýðræði. Þetta hugarfar lýsir valdþreytu og valdhroka stjórnmálamanna sem álíta að lýðræði sé að þurfa að endurnýja einræði sitt á fjögurra ára fresti.
Samfylkingin er ungur, frjór og þróttmikill flokkur. Þar eru ný mál sett á dagskrá, þar hafa flokksmenn hugrekki - og frelsi - til að tala fyrir máli sínu og vilja til að ná niðurstöðu.
Íbúalýðræði er einmitt eitt af þeim framfaramálum sem Samfylkingin hefur barist fyrir, lofað íbúum sínum og haft hugrekki til að standa við það sem er ljóst að aðrir hefðu í fyrsta lagi aldrei lofað og í öðru lagi aldrei staðið við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
31.3.2007 | 23:51
Ó, þú hýri Hafnarfjörður!
Til hamingju Hafnfirðingar og aðrir landsmenn!
Nú getur varla nokkur maður lengur sagt með réttu að það hafi ekki átt að leyfa Hafnfirðingum að kjósa, kosningaþátttakan meiri en í bæjarstjórnarkosningunum. Samfylkingin í Hafnarfirði á sannarlega heiður skilinn fyrir að hafa barist ótrauð fyrir þessum aukna rétti Hafnfirðinga.
Miðað við það ofurefli sem andstæðingar stækkunar áttu við að etja er þarna um stórsigur þeirra að ræða. Það væri gaman að vita hver kostnaðurinn á hvert atkvæði JÁ og NEI fylkinganna er.
Nú er hægt að halda áfram að stefna að mjúkri lendingu í efnahagslífinu og því að endurheimta þann stöðugleika sem er nauðsynlegur til að Nýja atvinnulífið geti fengið að blómstra, til að heimilin í landinu þurfi ekki að borga mafíuvexti af yfirdrætti og höfuðstóll íbúðarskulda að vaxa um milljónir á hverja fjölskyldu á næstu misserum.
Nú er hægt að endurskoða áform um virkjanir í neðri Þjórsá og það er hægt að sleppa því að virkja á Ölkelduhálsi eins og samtök ferðaþjónustuaðila hafa lýst fullri andstöðu við.
Nú er líka hægt að staldra við, leggja öll frekari áform um stóriðju til hliðar og einbeita sér að því að vinna Rammaáætlun um náttúruvernd samkvæmt Fagra Íslandi eins og Samfylkingin hefur lagt til.
Rannsökum landið, kortleggjum verðmæt náttúrusvæði og tryggjum friðun þeirra. Einungis þannig er hægt að ná sátt um þessi mál sem núna kljúfa þjóðina í tvennt. Þegar þeim áfanga er náð má ræða hvar hugsanlegt er að koma fyrir nauðsynlegum mannvirkjum ef þurfa þykir - utan þess nets verndarsvæða sem þá mun liggja fyrir.
Síðast en ekki síst þá er núna hægt að fara að tala um fleiri mál sem líka skipta gríðarlegu máli, eins og hvernig við viljum búa að börnunum okkar, hvað við viljum gera til að draga úr vinnuálagi á fjölskyldufólk og skapa hér fjölskylduvænna samfélag.
31.3.2007 | 12:15
Rétturinn til að kjósa
Á þessari síðu hefur undanfarna daga verið tekist hart á um ágæti þess að þrefalda álverið í Straumsvík. Mestan part hefur umræðan verið málefnaleg þótt auðvitað hafi upp úr soðið eins og gengur þegar er tekist á um heit málefni.
Meðal annars hefur verið rætt um peninga og störf. Andstæðingar stækkunar hafa hent á lofti niðurstöður Hagfræðistofnunar HÍ að nettóhagnaður af þreföldun álversins sé ekki nema um 6-8 þúsund krónur á ári og bent á að störfum í Hafnarfirði hefur fjölgað um meira en 200 á ári þótt álverið hafi ekkert verið stækkað. Ég veit ekki við hvað þau störf eru unnin en ég geri ráð fyrir því að þau séu öll við "eitthvað annað" en álver.
Fylgismenn stækkunar hafa ítrekað hag bæjarins af stækkun, sem þeir telja mun meiri en Hagfræðistofnun. Það sem mér og mörgum öðrum hefur þótt ljótur blettur á umræðunni er sá ótti sem fylgismenn stækkunar hafa alið á um að álverið fari og fólk missi lífsviðurværi sitt ef Alcan fái ekki að þrefalda þriðja stærsta álver sitt af 22 - og það sem gefur hvað mestan hagnað.
Nú er Davíð Oddsson genginn til liðs við mig með því að benda fólki á að þeir sem eiga verðtryggðar húsnæðisskuldir og/eða yfirdrátt muni tapa umtalsverðum peningum á því að leyfa þessa risaframkvæmd núna þegar brýn þörf er á að draga úr þenslu, lækka vexti og verðbólgu. Það er ástæða til að þakka honum fyrir það. Það er honum örugglega ekki ljúft að þurfa kljúfa flokkinn sinn á þennan hátt og grafa með því undan trúverðugleika forystumanna hans.
En þótt við Davíð, rétt eins og Hafnfirðingar, eigum eflaust báðir mikið undir því að það takist að koma böndum á verðbólgu eigum við þó ekki kost á að kjósa um stækkun álversins. Það eiga Hafnfirðingar hins vegar, þökk sé Samfylkingunni sem lofaði fyrir kosningar 2002 (og aftur fyrir kosningar 2006) að bæjarbúar fengju að kjósa um mikilvæg mál.
Ég vildi að fleiri flokkar hefðu jafn mikinn vilja til að hleypa almenningi að mikilvægum og oft á tíðum þverpólitískum ákvörðunum. Við vitum það t.d. sem höfum verið að vinna að náttúru- og umhverfisverndarmálum að mikið hefur skort á að almenningur hafi haft kost á að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir.
Ég þakka þeim sem hafa lagt gott til málanna í umræðunni um stækkunina í Straumsvík og hvet alla Hafnfirðinga til að drífa sig á kjörstað í dag og kjósa eftir sinni sannfæringu, hvor svo sem hún er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.3.2007 | 16:25
Tap Hafnarfjarðar
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur réttilega reiknað út að hagnaður af þreföldun álversins í Straumsvík umfram vöxt annarrar starfsemi sé um 6-8 þúsund krónur á ári á mann.
Seðlabankinn varaði í gær eindregið við því að ráðast í þessar framkvæmdir vegna neikvæðra áhrifa á efnahagslífið, vextina og verðbólguna sem heimilin í landinu, þ.m.t. Hafnarfirði, eru að kikna undan.
Ef Hafnfirðingar segja JÁ við stækkun eru þeir líka að segja JÁ við áframhaldandi okurvöxtum á yfirdrætti heimilana í landinu. Munurinn á núverandi yfirdráttarvöxtum heimilanna og 4% lægri vöxtum (eins og stefnt er að) er um 2.9 milljarðar á ári. Hlutur Hafnfirðinga í því er líklega um 222 milljónir króna eða um tæplega 10 þúsund á mann. Lítið eftir af 6-8 þúsund krónunum þá.
Hafnarfjörður hefur verið að byggjast hratt upp, þar er mikið af ungum fjölskyldum sem hafa þurft að skuldsetja sig töluvert til að koma sér þaki yfir höfuðið. Á síðasta ári sáu verðbólgan og verðtryggingin til þess að nýlegt húsnæðislán upp á 10 milljónir hækkaði um ca 1.2 milljónir eða um ca 50 þúsund kr á mánuði.
Segi Hafnfirðingar JÁ við þreföldun álversins í Straumsvík eru þeir að viðhalda og jafnvel að auka á verðbólguna.
Þeir Hafnfirðingar sem eiga verðtryggðar skuldir geta því búist við að skuldir þeirra hækki umtalsvert á næsta og þarnæsta ári þrátt fyrir að skilvíslega sé hamast við að borga þær niður. Fyrir venjulegt heimili ungrar fjölskyldu með 15 milljóna húsnæðislán myndi áframhaldandi ástand þýða hækkun skulda upp á ca 75.000 á mánuði. Ekki mikið eftir af 6-8 þúsund kallinum þar.
Alcan hefur kappkostað að keyra áróður sinn á hræðslu við að saklausu fólki verði sagt upp störfum sínum ef Alcan fær ekki að þrefalda álverið. Fyrirtækið hefur sent andlitin á öllum sínum starfsmönnum inn á hvert heimili í Hafnarfirði. Skilaboðin eru skýr - við missum vinnuna ef þú segir nei! Það er rangt.
Hafnfirðingar sem búa í Vallahverfi horfa upp á verðfall á fasteignum sínum út af þreföldun álversins. Þetta fólk er líka með andlit þótt þau komi ekki inn um lúguna hjá öllum bæjarbúum.
Hvað ætli það séu mörg andlit, bara í Hafnarfirði, sem munu þurfa að þola hærri yfirdráttarvexti og hækkun verðtryggðra skulda sinna um tugi þúsunda á mánuði af því að Alcan heimtar leyfi til að þrefalda starfsemi sína?
![]() |
Taugatitringur fyrir álverskosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |