Ofbeldi stóriðjustefnunnar mótmælt

þjórsáÞað var sannarlega frábær stemning á fundi náttúruverndarfólks í Árnesi í dag en þar komu saman um 400 manns til að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í Þjórsá. Það er með ólíkindum að hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun ætli nú að fara með ofbeldi gegn íbúum og landeigendum við Þjórsá.

Ofbeldið er ískyggilegt og áþreifanlegt. Landsvirkjun hefur þegar hafið vinnu við virkjanir án þess að hafa samið við landeigendur um bætur fyrir eignarlönd þeirra og heimili sem sökkva á undir jökulvatn til að búa til stóriðjurafmagn. Full valdshroka ætlar Landsvirkjun að taka þessar eignir fólksins eignarnámi. Það er óþarfi að semja, óþarfi að leita sátta - hér fara þeir sem valdið hafa og bera fyrir sig brýnum þjóðarhag.

Hvaða brýnu almannahagsmunir krefjast þess að slíku ofbeldi sé beitt?

Þessi staða opinberar skammsýni stjórnvalda á mörgum sviðum. Eina stefna þeirra virðist vera að firra sig ábyrgð. Stóriðjustefnan er gott dæmi um það, ríkisstjórnin segir með annarri tungunni ekki koma nálægt málinu en með hinni að nauðsynlegt sé að halda áfram að nýta náttúruauðlindirnar til hagsbóta fyrir land og lýð.  

En stjórnvöld hafa líka firrt sig ábyrgð á skipulagsmálum, hafa sett allt vald á hendur sveitastjórnum sem vegna fjandsamlegrar landsbyggðarstefnu stjórnvalda eru ofurseld orku- og álfyrirtækjum sem lofa gulli og gráum störfum.

Þriðja og nýjasta útspil stjórnvalda í firringarstefnunni er að firra sig ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda en frumvarpið sem umhverfisráðherra boðar segir í stuttu máli: Við leyfum hverjum sem er að koma og menga eins mikið og þurfa þykir - en fyrirtækin þurfa að útvega sér mengunarkvóta sjálf. Að Ísland uppfylli skilyrði Kyoto bókunarinnar er sem sagt á ábyrgð álfyrirtækjanna en ekki ríkisstjórnar Íslands.

Í Árnesi í dag mótmæltu um 400 manns þessari firrtu firringar- og ofbeldisstefnu stjórnvalda. Fólk hefur fengið sig fullsatt af yfirganginum og skammsýninni. Það er kominn tími til að skipta.


mbl.is Troðfullt í Árnesi á fundi gegn virkjunum neðri hluta Þjórsár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skipta í hvað Samfylkinguna og vg??? nei ég held ekki:)

Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég vil ekki trúa að þetta sé í alvörunni að gerast!!!!!!! Hrokinn og mannfyrirlitningin er algjör. Hvernig er hægt að stöðva svona frekju?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.2.2007 kl. 23:31

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þið takið því alltaf sem gefnu að þeir sem vilji vernda allt séu meirihluti þjóðarinnar. Eyrnamerkið meira að segja ófæddar kynslóðir skoðunum ykkar! Er það ekki hroki og mannfyrirlitning?

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.2.2007 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband