Kominn tími til að...

Allir vita hvernig kynslóðaskipti á óðalsbýlum geta gengið stirðlega fyrir sig. Ótal dæmi er um að gamli óðalsbóndinn stjórni of lengi og af of miklu ráðríki. Þegar næsta kynslóð tekur við er hún stundum orðin svo niðurbarin að þarfar umbætur komast ekki í verk. Það eru jafnvel dæmi um að gamli óðalsbóndinn vomi áfram yfir öllu úr fjarlægð og haldi því þannig í kyrrstöðu.

Fyrir tæpu ári fannst sumum Samfylkingin vera sætasta stelpan á ballinu. Nú er hún hins vegar orðin mamman á stjórnarheimilinu þar sem valdahlutföll foreldranna eru því miður með gamla laginu. Þessu hlutverki fylgdu því takmörkuð völd en mikil ábyrgð því satt best að segja hafði forsjálni eða réttlæti ekki í langan tíma verið leiðarljós heimilisrekstursins.

Heimilisbragurinn hafði annars vegar einkennst af óhóflegu partýstandi og afdrifaríkum mistökum í fjármálum og hins vegar ofríki gagnvart ýmsum hópum samfélagsins og afneitun gagnvart mikilvægum spurningum um framtíðina sem hefði þurft að ræða og komast að niðurstöðu um. 

Barnaskarinn veit af fenginni reynslu að það þýðir ekkert að tala við pabba. Sá gamli hætti að hlusta á óskir og sjónarmið krakkanna fyrir löngu. Það er sama hvaða barn er um að ræða, launafólk, aldraða, atvinnurekendur eða bankana. Meira að segja atvinnulífið, sem löngum taldi sig í sérstöku uppáhaldi hjá pabba, er búið að gefast upp á að tala við hann, nema í gegnum mömmu.

Mamma, ert þú til í að segja pabba að það sé ekki lengur hægt að nota þennan gjaldmiðil? Að peningastefnan sé ekki að ganga upp? Að það verði að setjast niður og ræða það hvort við eigum að sækja um aðild að ESB? Að annars missum við fyrirtækin fari úr landi. 

Getur þú sagt honum að risavaxnar, ríkisstyrktar stóriðjuframkvæmdir og ofríki gegn náttúrunni sé í fyrsta lagi vondur bissness, í öðru lagi skaðlegur fyrir aðra og meiri virðisaukandi starfsemi og í þriðja lagi heimilinu til sárinda og skammar?

Viltu leiðrétta óréttlætið sem felst í skerðingum bóta aldraðra og öryrkja vegna viðbótartekna og tekna maka? Viltu leiðrétta launamun kynjanna, jafna hlut kvenna og karla í æðstu stöðum í stjórnmálum og í stjórnum fyrirtækja?

Viltu segja honum að það verði að hugsa byggðamálin upp á nýtt? Geturðu spurt hann hvort það megi endurskoða tollvernd á innflutt matvæli? Hvort það megi koma til móts við ungt fólk sem vill búa á landsbyggðinni þótt það vilji hvorki búa með kindur eða kýr?

Sumt af þessu er á valdi Samfylkingarinnar og margt af því náðist inn í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er flest komið í undirbúning eða framkvæmdaferli. Margt af því sem er mest aðkallandi í landsstjórninni í dag er hins vegar ekki í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Ekki af því það var algerlega ófyrirsjáanlegt heldur af því Sjálfstæðisflokkurinn annað hvort vill það ekki eða hefur ekki getað talað um það.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stýrði Reykjavíkurborg af ráðdeild og réttsýni í rúman áratug. Hún kom þar mörgum löngu tímabærum umbótaverkum í framkvæmd eftir að geðríkur og stjórnlyndur óðalsbóndi hafði búið þar um hríð en flutt sig um set og skilið eftir daufgerða erfingja.

Það var uppörvandi að sjá hana í Silfri Egils sl. sunnudag tala af skynsemi og festu um þau erfiðu verkefni sem eru framundan í landsstjórninni. Grein hennar í Fréttablaðinu í dag um brýna nauðsyn nýrrar þjóðarsáttar bar líka vott um skýra sýn og lausnarmiðaða hugsun. Þjóðin þarf á slíkum foringja að halda - nú meira en oft áður.

Hún er hins vegar ekki í bílstjórasætinu í þessu blessaða fjölskylduferðalagi. Því miður. Það er því bæði þýðingarlaust og ósanngjarnt að kenna henni um það hvernig einþykkur fjölskyldufaðirinn ekur.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og landsmenn allir eiga betra skilið en að allt sé hér látið reka á reiðanum af því flokkurinn sjálfur og forysta hans er átakafælin, málefnalega strand og klofin í aðkallandi og mikilvægum málum.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn axli ábyrgð á mistökum sínum og taki sér tak.
Það er kominn tími til að tala alvarlega við pabba.


mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Er kominn nýr Framsóknarandi í SF?

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 2.5.2008 kl. 07:58

2 identicon

Já, mér finnast þetta frekar slappar afsakanir, og sorglega í anda ríkjandi ríkisstjórnar. Sama vælið og ásakanir bornar á meðstjórnendur, sama hver það er.

Ingibjörg Sólrún er ekki fórnarlamb ofbeldis, og mér þykir þú sýna vanþekkingu á valdastöðu kynjanna þegar þú skrifar svona, og jafnvel að misnota myndlíkingar til að afsaka floppið hjá Samfylkingunni. Hún er kosinn leiðtogi, og ef hún veldur því ekki þá þarf hún að færa sig og hleypa öðrum að.  Það sama má segja um heildina. Þetta sukk og fyllerí er orðið ágætt, og ég get ekki séð betur en að Samfylkingin hafi tekið þátt og jafnvel átt frumkvæði. Kannski meðvirkni í ofsafengnu sambandi segir þú? Farið þá í meðferð og lagið þetta, en ekki koma með afsakanir til að geta haldið áfram á sömu braut. Ef það tekst ekki, endilega komið ykkur út.

Ég hef kosið Samfylkinguna í síðasta skipti. Næst fer atkvæði mitt til VG.

Linda (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 08:04

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

eina leiðin til þess að snúa fylgistapinu við er að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálftektarflokkinn Dofri.  Kjósa upp á nýtt og setja evrópumálin á oddinn.

Óskar Þorkelsson, 2.5.2008 kl. 08:48

4 Smámynd: Ibba Sig.

Er þetta ekki bara staðfesting á því sem ég sagði í kommentakerfinu hjá þér fyrir skömmu: flokkurinn samdi illilega af sér í stjórnarmyndunarviðræðum og er bara kominn í þá stöðu að vera hækja Sjálfstæðisflokksins, einungis nýtur til að halda íhaldinu við völd.

Nú þarf flokkurinn minn að rísa upp og láta til sín taka, hætta að tipla á tánum í kringum "átakafælin, málefnalega strand og klofin í aðkallandi og mikilvægum málum" Sjálfstæðisflokk.

Ibba Sig., 2.5.2008 kl. 11:02

5 identicon

Hvað var Samfylkinin að gifta sig þessum ómögulega kalli?

Bloggaði: http://teitur-teitur.blogspot.com

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 11:38

6 Smámynd: Sævar Helgason

" Fall er fararheill " segir hið gamalkveðna.

Nú eru framundan stórar og mikla ákvarðanir í landsmálum.  Almenningur og þjóðin öll á mikið undir að í þeim efnum takist vel til.  Ljóst er að miklar kröfur eru gerðar til Samfylkingarinnar - miklu meiri en til Sjálfstæðisflokksins.  Það er eðlilegt.

Það fall á stuðningi við Samfylkingu sem síðasta skoðanakönnun endurspeglar er öflug brýning  til góðra verka - ég er fullviss um að Samfylkingin stendur undir þeirri ábyrgð

Sævar Helgason, 2.5.2008 kl. 13:33

7 identicon

Sæll vinur og takk fyrir þessa skemmtilegu og bráðfyndnu grein....er þetta grín eða alvara.......Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stýrði Reykjavíkurborg af ráðdeild og réttsýni í rúman áratug....finnst mér falleg setning og gæti hafa verið fenginn að láni úr afmælisgrein um Davíð Oddson eftir Hannes Hólmjárn, ég persónulega sé engan mun á þessari ríkistjórn og þeirri síðustu nema að það er meira ferðastand á þessari. Skoðanakannanirnar tala sínu máli Dofri minn og það þýðuir ekkert að fara í fýlu þó almenningur sjá i gegnum nærbuxurnar á sætustu stelpunni á ballinu, þegar upp er staðið er hún bara í gömlu brókinni af framsókn, sú brók lyktar illa en almenningur þekkir lyktina og og gefur skít í þann er í henni gengur. Finnst að þú ættir að einbeita þér að umhverfismálunum en ekki fara út í að verja vonda og ráðlausa ríkisstjórn.

Halldór Lárusson (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 14:46

8 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sæll Dofri

Ballið er rétt að byrja og parið eru að stíga fyrstu sporin.

Óðinn Þórisson, 2.5.2008 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband