Verðtryggðu lánin rjúka upp

Verðtryggt húsnæðislán sem var 20 milljónir í síðasta mánuði hefur hækkað um 431 þúsund á milli mánaða. Þetta er skuggalegt peningakerfi sem við búum við. Ef við tökum verðtrygginguna af tapa sparifjáreigendur. Ef við tökum hana ekki af tapa skuldarar.

Það er áhugavert sem sumir hafa haldið fram að peningamálastefnan hafi m.a. ekki virkað vegna íslensku verðtryggingarinnar. Hún dregur úr næmni fólks gagnvart stýrivöxtum. Flest íslensk húsnæðislán eru svokölluð annuitetslán sem þýðir að fyrstu árin borgar maður nær eingöngu vexti. Verðbólgan bætir svo við höfuðstólinn en fáir ef nokkrir setja hækkandi höfuðstól í samband við neyslu og verðbólgu. Vandanum er frestað.

Nú er það svo að það hafa líka verið í boði óverðtryggð húsnæðislán. Þá hafa vextirnir verið hærri sem nemur verðbólgunni. Það hefur enginn viljað taka þau lán enda lítur það mun verr út að taka 20 milljón kr. lán á 8-9% breytilegum vöxtum en að taka lán á 4-5% vöxtum + verðbólgu sem þú borgar svo bara seinna.

Hefðu verðtryggð húsnæðislán verið bönnuð hefði húsnæðisverð aldrei hækkað svona eins og það gerði og þenslan hefði orðið minni. Og peningamálastefnan hefði kannski virkað. Og þó.

JónSigLíklega hefðu þá enn fleiri flúið í erlendu lánin, húsnæðisverð hækkað vegna ódýrra erlendra lána, Seðlabankinn hækkað vexti vegna þenslu og verðbólgu, jöklabréf flætt inn í landið vegna vaxtamunar, gengið hækkað upp úr öllu valdi þangað til jöklabréfin hyrfu og krónan þá fallið með skelli.

Í raun virðist vera um að ræða tvær birtingarmyndir á sama vandamáli. Ónýtum gjaldmiðli.

Á Yahoo finance er dollarinn skráður á 260 kr. og evran á 324 kr.


mbl.is Verðbólgan nú 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn gjaldmiðill, ónýt þjóð...

Stýrivextir og önnur hagstjórnatæki virka ekki nema að fólk hegði sér af skynsemi. Ef að launamaður tekur lán í öðrum gjaldmiðli en þeim sem hann hefur tekjur í er hann ekki að hegða sér af skynsemi.

Þetta gerist ekki aftur. Íslendingar voru að kynnast frjálsum fjármagnsflutningum í fyrsta sinn. Það var auðvitað bölvuð óheppni að það skyldi hafa verið á meðan að risa stór lánsfjárbóla myndaðist en í framtíðinni munu Íslendingar ekki verða jafn mótækilegir fyrir tilboðum sem eru of góð til að vera sönn... vonar maður.

Annars þarf eitthvað töluvert róttækara en evruupptöku til þess að bjarga þjóðinni.

Þú veist kannski að það var líka hægt að taka "hagstæð" jenalán á evrusvæðinu. Núna sekkur evran og jenið rýkur upp.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

.....galdmiðillinn sem forysta sjálfstæðismanna elska.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 27.10.2008 kl. 11:40

3 identicon

"Ef við tökum verðtrygginguna af tapa sparisjóðseigendur" segir þú í grein þinni. Þetta hélt ég líka þar til í síðustu viku þegar mér var bent á að fáar íslenskar sparnaðarleiðir bjóða upp á verðtryggingu. Ég þrætti, sagði það hljóta bara að vera að sparisjóðsbækurnar okkar séu verðtryggðar!!!

Ég fór á heimasíðu viðskiptabankans míns og sá að vissulega er hægt að velja verðtryggðar sparnaðarleiðir en þá eru þær annað hvort með lágmörk (þarft að eiga ákveðið háa upphæð) eða með langan binditíma. Ég komst að því að í Landsbankanum nýtur almenn sparisjóðsbók EKKI verðtryggingar, ekki heldur Kjörbókin "fína" og reyndar fæstar þeirra leiða sem ég skoðaði.

Ég verð því að a.m.k. efast um ágæti verðtryggingar fyrir hinn almenna borgara.

Þórunn (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 11:48

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

he he Hans.. já elskaðu þessa krónu.. þú ert búinn að mæra hana endalaust núna undanfarna mánuði en hefur aldrei nokkurntímann komið með rök fyrir því afhverju þessi króna er svo mikilvæg ! 

Óskar Þorkelsson, 27.10.2008 kl. 11:50

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

#3 - átti auðvitað að vera sparifjáreigendur en ekki sparisjóðseigendur!

Dofri Hermannsson, 27.10.2008 kl. 13:33

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gísli. Þarna ert þú ekki alveg með á nótunum. Þegar verðbólga vex mikið þá hækkar greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum mun meira heldur en óverðtryggðra lána. Það er því mun meiri hætta á að óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum geri menn gjaldþrota heldur en verðtryggð lán. Það mun varla nokkur maður vera tilbúin til að lána óverðtryggt til langs tíma í íslenskum krónum þannig að óverðtryggð lán til langs tíma í íslenskum krónum er ekki valkostur.

Þórunn. Það má vel vera að ekki séu margir með verðtryggðan sparnað í bönkum. Ég veit ekkert um það. Hins vegar er almenningur hér á landi með miklar eignir í lífeyrissjóðum, sem eiga verulega miklar inneignir í verðtryggðum lánum. Þar er bæði um að ræða bein lán lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga og einnig kaup lífeyrissjóðanna á verðtryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs. Lífeyrissjóðirnir munu því tapa umtalsvert á því ef verðtryggingin verður fryst eins og talað er um og mun það því lækka greiðslur elli- og örorkulífeyris lífeyrissjóðanna til viðbótar við þær lækkanir, sem þeir þurfa að grípa til vegna taps á hlutabréfaeign þeirra.

Sigurður M Grétarsson, 27.10.2008 kl. 14:39

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

"Ef við tökum verðtrygginguna af tapa sparifjáreigendur. Ef við tökum hana ekki af tapa skuldarar."

Spurningin er hvort ekki væri hægt að fara milliveginn og helminga verðtrygginguna? Bara hugmynd...sem vert væri að skoða í því ástandi sem nú er uppi.

Sveinn Atli Gunnarsson, 27.10.2008 kl. 14:45

8 Smámynd: Sævar Helgason

Ef verðtrygging hefði ekki verið tekin upp skömmu eftir 1980  eftir óðaverðbógu - þá væru engir lífeyrissjóðir til hér á landi. Og hvernig hefðu þá íbúðarlán verið fjármögnuð ? Lífeyrissjóðir hafa verið svo til eini sparnaður fólks hér á landi ,  Ef ekki hefði komið til að fólk er skyldað til að vera í og borga í lífeyrissjóð - hefðu fáir eignast þak yfir höfuðið.

Verðtryggingin er ekki vandamálið-- vandamálið er verðbólgan, Verðbólgan er alfleiðing óstjórnar í efnahagsmálum fyrst og fremst- Ef fólk er óánægt með hækkun lána vegna verðbólgu þá er að koma hér á stöðugleika í verðlagi- besta aðferðin er að ganga í ESB og taka upp evru...þó fyrr hefði verið.

Sævar Helgason, 27.10.2008 kl. 16:20

9 identicon

O my God

Heimskur er sá sem Heimsku Fremur

Bara Svo Þið Hér að OFan Vitið af því Verðtrygging er nánast bara Við Lýði á Íslandi

Skýtið hvernig aðrar þjóðir Komast af.

Það er Einfalt þar leggjast allir ekki bara Skuldarar að halda verðbólgu niðri

í Guðanna bænum Farið að Vakna

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 17:56

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gísli. Innlegg mitt hér áðan var svar við þeirri fullyrðingu þinni að verðtryggingin væri það vandamál, sem væri að gera fólk gjaldþrota. Ég var aðeins að benda á að það væri rangt og eins og Sævar hefur sagt þá er það verðbólgan eða öllu heldur verðbólga umfram launahækkanir, sem er vandamáli og síðan auðvita gengisfall krónunnar gagnvart fjöskyldum með myntkörfulán. Það er galin hugmynd að fara að krukka í þegar gerðum sanmingum þannig að verið sé að gera eingir látveitenda verðminni en þær eru. Það er því út í hött að fara að krukka í vísitölunni jafnvel þó það sé aðeins gert til hálfs eins og Svatli leggur til.

Að mínu mati er eina lausnin að reyna að fá lánveitindur til að veita lengri greiðslufresti og einnig að aðstoða þá við að fjármagna það. Mín hugmynd er sú að við festum mánaðargreiðslur lána við launavísitölu miðað við til dæmis síðustu áramót þannig að greiðslur í desember verði greiðslan eins og hún var þá hækkuð upp miðað við launavísitölu. Þá mun mánaðargreiðslan hækka í samræmi við almennar launahækkanir í landinu á meðan það ákvæði er í gildi. Það leiðir til þess að greiðslubyrði lána hækkar nokkurn vegin til samræmis við launahækkanir hjá meginþorra launþega. Allir útreikningar á verðbótum og vöxtum verði hins vegar óbreyttir þannig að þeir það, sem ekki kemur til útborgunar leggst einfaldlega ofan á höfustól lánsins. Þegar síðan verðbólgan er komin niður í ásættanlegt stig og gengið er orðið eðlilegt er skoðað hjá hverjum og einum hversu hár höfustðóllin er orðin og skoðað hvort breyta þurfi lánstímanum til að hann geti ráðið við lánið eða hvort hægt sé að setja lánið í fyrra horf aftur hvað varðar greiðslur. Síðan verður lánið einnfaldlega reiknað út miðað við þann lánstíma, sem er eftir af því út frá þeim höfuðstól, sem þá er á því.

Sigurður M Grétarsson, 27.10.2008 kl. 18:24

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Krónan er sjúkdómurinn, verðtryggingin er bara sjúkdómseinkenni.  Verðtrygging hefur reynst nauðsynleg á Íslandi vegna þess að krónan er lítil og óstöðug og þar af leiðandi blossa upp verðbólguskot inn á milli (eins og t.d. núna).  Af þeim sökum treystir enginn sér til að lána peninga til lengri tíma (t.d. húsnæðislán til 20-40 ára) nema verðtryggt.

Lausnin er að hætta með þessa fáránlegu og einskisnýtu tilraun til að halda úti minnsta flotgjaldmiðli heims, ganga í ESB og taka upp evru.  Gallharðir sjálfstæðismenn sem eru í sterku tilfinningasambandi við nafnið "króna" gætu svo sem haft þá skoðun að halda í "krónu" sem væri samt bundin evru eða norskri krónu eða einhverjum öðrum gjaldmiðli með sérstöku samkomulagi við viðkomandi seðlabanka.  En hin fljótandi íslenska króna er búin að vera, menn þurfa að vera alvarlega veruleikafirrtir til að sjá það ekki.

P.S. Einhverjir velmeinandi kjánar fengu það í gegn á þingi að verðtrygging fjárskuldbindinga til skemmri tíma en 5 ára er bönnuð.  þess vegna eru engir verðtryggðir innlánsreikningar með stuttum binditíma.  Hins vegar er hægt að kaupa HFF bréf Íbúðalánasjóðs (verðtryggð og ríkistryggð, mjög góður fjárfestingarkostur) eða verðtryggða skuldabréfasjóði.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.10.2008 kl. 23:31

12 identicon

Ef við tökum ekki verðtrygginguna af fer unga fólkið okkar úr landi. Þá er ég að tala um fólkið sem nýbúið er að mennta sig, var svo bjartsýnt og tóku lán en eru að missa sitt. Þó að einhverjir sparifjáreigendur missi vexti þá eru þeir ekki í jafn slæmri stöðu og þetta unga fólk

Guðrún (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 08:36

13 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að gera neitt.

Dofri! Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

Bara að láta þetta yfir sig ganga og segja: Sorry. Dabbi ræður?

Sigurður Haukur Gíslason, 28.10.2008 kl. 09:57

14 identicon

Það er aðallega fé lífeyrissjóðanna, sem er andlagið varðandi verðtrygginguna. Nú er staðan sú, að lífeyrissjóðir eru búnir að tapa frá 15 - 50% af vörslufé sínu vegna hruns á verðbréfamarkaði. Annað fé þeirra er bundið í verðtryggðum ríkisskuldabréfum og fasteignaveðbréfum. Fyrirsjáanlega verður að skerða lífeyri mjög mikið strax í byrjun árs 2009. Ef verðtryggingin yrði afnumin, væru sjóðirnir ónýtir. Þá kæmu allir ellismellir landsins á framfæri ríkisins. Það yrði ekki leyst nema með stórfelldum skattahækkunum, ofan á allt annað.

Nöldrarinn (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 10:04

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Vextir á Íslandi, verðtryggðir eða óverðtryggðir eru orðnir það háir að þeir eru glæpur gegn mannkyni. Ef einhver byði upp á þessa vexti í nágrannalöndunum yrði hann settur í fangelsi.

Þess vegna gengur ekki að réttlæta háa vexti og verðtryggingu á þeim forsendum að lífeyrissjóðir myndu tapa yrðu þeir lækkaðir. Glæpastarfsemi á sér enga réttlætingu.

Þeir sem borga í lífeyrissjóðina er það ekki sama fólkið og er að drepa sjálft sig af vinnuþrælkun vegna þess að það er búið að skuldsetja sig fram á grafarbakkann?

Theódór Norðkvist, 28.10.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband