Tökum upp evru

Ég verð að viðurkenna að þetta krónufleytingarplan virkar ekki traustvekjandi. Mér líður eins og ég sé fyrir slysni lentur innan Kremlarmúranna, aðalkommisarinn sé dauður en það sé verið að reyna að púðra hann með kinnalit og útbúa á hann falska hendi svo það verði hægt að stilla honum upp á svölunum og láta hann veifa mannfjöldanum til að sanna að hann sé ekki dauður.

Við erum að leigja okkur gullfót undir krónuna. Gullfótur var hér áður undirstaða trúverðugleika gjaldmiðilsins, hver seðill var ávísun á gull. Hjá okkur er hver seðill ávísun á skuld. Er það trúverðugt? Við erum búin að útvega 5 ma bandaríkjadala lán í þeim einarða ásetningi að nota þá alls, alls ekki sama hvað krónan fellur. Menn segja nefnilega að ef við freistumst til að verja hana falli muni þessir peningar gufa upp fyrir framan nefið á okkur á nokkrum klukkustundum og þjóðin verður 5 ma dala skuldugri. Fyrir þessu eru skuggaleg dæmi í öðrum löndum. Á ég að treysta seðlabankastjóra til að verja ekki dýrgrip sinn, íslensku krónuna?

Kannski er ég óþarflega svartsýnn en gallinn er bara sá að mér líkar heldur ekki sviðsmyndin þar sem krónufleytingin gengur vel. Það er óvíst hvort aðgerðin mun þýða 50-100% gengisfellingu í fáa mánuði eða enn meiri gengisfellingu í marga mánuði. Trúlega verður niðurstaðan eitthvað þarna á milli. Það eitt er víst að ástandið á eftir að versna mikið enn áður en það fer að batna. Hvað mun gerast á meðan við bíðum eftir að gengið hækki aftur upp í þá tölu sem við getum lifað með?

Með stýrivexti í 18% getur varla nokkur lögleg starfsemi tekið lán til reksturs og þetta mun fara mjög illa, jafnvel með fyrirtæki sem skulda lítið sem ekki neitt. Um helmingur fasteigna í landinu er veðsettur fyrir meira en 60% af því verði sem var í gildi meðan allt lék í lyndi. Nú hefur fasteignaverð hrapað og í 20% verðbólgu er ljóst að hjá þessum hluta fasteignaeigenda mun verðtryggingin éta upp eignarhlutann þar sem hann er fyrir hendi en færa skuldina langt upp fyrir markaðsvirði hjá hinum. Fólk er með öðrum orðum gjaldþrota, í það minnsta tæknilega - og þetta er miðað við að planið gangi vel.

Allt bítur þetta í skottið á sér. Það þarf að fá markaðsverð á krónuna til að geta átt viðskipti við útlönd, enginn vill kaupa gjaldmiðil sem er með neikvæða vexti og verðbólgan stefnir í 20%+ af því gengið hefur fallið. Við fleytingu krónunnar mun gengið falla meira, verðbólga aukast og stýrivextir hækka enn meira. Þetta hljómar eins og lækna eigi mann af lús með því að stinga honum ofan í sjóðandi vatn. Samt er lúsameðalið til.

Við gætum tekið upp evru á einni til tveimur vikum. Við þurfum ekki formlegt leyfi til að skipta þjóðargjaldmiðlinum út fyrir evrur, svo lengi sem það væru okkar eigin evrur. Við eigum nægan forða til að skipta út þeim seðlum sem eru í umferð, hitt eru stafrænir peningar. Reiknað yrði út viðunandi raungengi krónu gagnvart evru og svo yrði öllum boðið að skipta krónunum út. Þar með væri búið að útrýma allri gengisáhættu, fyrirtæki gætu gert raunhæfar áætlanir fram í tímann og fólk gæti tekið lán í evrum og á evrukjörum því allir væru með laun í evrum. Vextir myndu lækka, verðtrygging væri aflögð.

Þeir sem gagnrýna þessa leið út úr vandanum hafa einkum bent á tvennt:

  1. ESB mun taka þessu illa og við ættum á hættu óvild úr þeirri átt
  2. Bankarnir hafa ekki lánveitanda til þrautavara ef til áhlaups á þá kæmi

Þetta er hvort tveggja rétt en á hinn bóginn verður að spyrja: Eru þetta ekki bæði lítilfjörlegri og viðráðanlegri vandamál en að setja þriðjung til helming heimila og fyrirtækja í landinu á hausinn?

Má ekki stilla dæminu svona upp: Við tilkynnum að Ísland ætli að hefja aðildarviðræður við ESB, því næst tryggjum við okkur bakstuðning erlendra aðila við bankana með því að breyta stórum hluta af erlendum skuldum þeirra í hlutafé. Þegar það er í höfn sendum við - í fyllstu auðmýkt - fulltrúa okkar til ESB til að segja sem er að íslenska krónan sé ónýt. Til að íslenskt efnahagslíf geti rétt sig við og þjóðin greitt skuldir sínar neyðist íslenska þjóðin til að fá óformleg afnot af alþjóðlegum gjaldmiðli. Af því við teljum okkur eiga samleið með Evrópu í framtíðinni viljum við að evran sé sá gjaldmiðill.

Síðar þann sama dag tökum við hana einfaldlega upp.


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Það er langt í land . Við uppfyllum ekki skilyrðin til að taka upp evru og Það er langt í land .
Dollar er eini vonin eins og staðan er.

Heidi Strand, 26.11.2008 kl. 22:16

2 Smámynd: Sævar Helgason

Nú væri gott að vera með ríkisstjórn í landinu og alvöru seðlabanka... en vonin dvínar.

Sævar Helgason, 26.11.2008 kl. 22:18

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Heidi misskilur þetta eitthvað. Það er ekki verið að tala um að taka upp evru eftir hefðbundnum leiðum heldur einhliða.

Dofri Hermannsson, 26.11.2008 kl. 22:54

4 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Einhliða upptaka gjaldmiðils kemur vel til greina við þær aðstæður sem nú eru. Ég er ánægður með þetta innlegg Dofri.

Eyþór Laxdal Arnalds, 26.11.2008 kl. 23:28

5 identicon

Sæll félagi, var svona að velta fyrir mér hvað við hefðum fengið í evrum fyrir hvalkjötið sem við seldum a dögunum, hef ekkert heyrt frá þér vegna þessa, mér skillst að verðið hafi verið gott. Sé fram á bjarta tíma í hvalveiðum. annars góður bara - ekki sáttur við sjallana og Imbufólkið, vanadi sjáið þið af ykkur og hleypið fagfólki að til að hreinsa upp og græja og gera, skítsama hvort það er karl að kona....koma svo. Dóri

Halldór (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 23:54

6 identicon

Sæll Dofri

Það er ótrúlegt að enn skuli vera talað um einhliða upptöku Evru. ESB hefur lýst vanþóknun sinni við sendinefnd héðan á slíkri aðgerð af okkar hálfu. Er ekki fullreynt að reyna að setja sig upp á móti vilja ESB. Þeir beittu fjárkúgun gegn okkur við IMF og studdu í reynd ólöglega beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslandi í Bretlandi. Bretar sögðu reyndar að lögunum hefði bara verið beitt gegn Landsbankanum, en allir vita að þau bitnuðu á öllum íslenzkum hagsmunu. Þegar kemur að lífshagsmunum íslenzku þjóðarinnar er í bezta falli að mæta fálæti af hálfu ESB og dæmin sanna að þeir beita sér af fullri hörku gegn okkur ef minnsta tilefni gefst til.

Skúli (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 09:23

7 identicon

Ég er farin að skilja hvernig kvíðasjúklingum líður - sem er auðvitað gott á sinn hátt, víkkar sjóndeildarhringinn. En ég er mjög ósátt við að búa við það að treysta ekki ríkisstjórn landsins fyrir þessu verki.

Ég er, hreint út sagt, næstum því viss um að þau klúðri þessu.

Plís Dofri, geturðu ekki gert eitthvað?

Talað við Ingibjörgu og látið hana krefjast nýrrar stjórnar í Seðlabankanum?

Þið hljótið að geta hótað stjórnarslitum eða bara eitthvað??

Bara ef við fáum nú fólk sem er kannski hugsanlegt að geti leyst málin vel.

Sóley (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 09:36

8 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Góður pistill

Erfitt að fullyrða um hluti sem maður skilur ekki til hlítar

Ég sá eitt sinn línurit yfir efnahagssveiflur þjóða heims og það kom mér á óvart að sveiflurnar  á íslandi fylgja þeim á Dollarasvæðinu en krossaði þá sem er á Evrusvæðinu 

Ég held nú samt við eigum að bíða.  Það á eftir að hrikta í þessum kerfum á næstunni

Í þýskalandi losa menn sig við Ítalskar eða Spánskar evrur ef þeir slysast til að eignast svoleiðis sem þýðir að þýskar evrur eru að verða verðmeiri en aðrar evrur.  Þetta gæti rústað evrunni.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 27.11.2008 kl. 10:21

9 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Góður punktur Gunnar Ásgeir. Dollarinn er reyndar ansi fyrirferðarmikill nú þegar í viðskiptum á Íslandi s.s. í raforkusölu, áli og öðru.

Eyþór Laxdal Arnalds, 27.11.2008 kl. 10:31

10 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Varaborgarfulltrúi DH: "Má ekki stilla dæminu svona upp: Við tilkynnum að Ísland ætli að hefja aðildarviðræður við ESB, því næst tryggjum við okkur bakstuðning erlendra aðila við bankana með því að breyta stórum hluta af erlendum skuldum þeirra í hlutafé. Þegar það er í höfn sendum við - í fyllstu auðmýkt - fulltrúa okkar til ESB til að segja sem er að íslenska krónan sé ónýt. Til að íslenskt efnahagslíf geti rétt sig við og þjóðin greitt skuldir sínar neyðist íslenska þjóðin til að fá óformleg afnot af alþjóðlegum gjaldmiðli. Af því við teljum okkur eiga samleið með Evrópu í framtíðinni viljum við að evran sé sá gjaldmiðill. Síðar þann sama dag tökum við hana einfaldlega upp"

Flottur brandari. Sýnir svo ekki er um villst að DH veit hvernig þetta gerðist allt saman. Ljúga pínulítið, svindla þónokkuð, blekkja mikið, láta aðra borga brúsann. Einhverjir aumingjar út í heimi eignast svo bankana með öllu glæpahyskinu-  í fyllstu auðmýkt. Ho , ho , ho. Ha, ha ha. Góður þessi Dofri. Íslensk kímni í hæstu hæðum!

Sigurjón Benediktsson, 27.11.2008 kl. 11:23

11 identicon

Dofri. Viltu þú semsé leggja velferðarkefið niður? Það er merkilegt að heyra þetta frá Samfylkingarmanni. Ráðherra þinn í félagsmálaráðuneytinu er varla hrifin af þessari hugmynd.

Gerir þú þér ekki grein fyrir því að einmitt vegna krónunnar verður hægt að halda velferðarkerfinu lifandi? Hvers vegna? Jú vegna þess að þá geta Íslendingar prentað seðla að vild. Það verður alveg nauðsynlegt næstu árin bara til að halda kerfinu gangandi.

Nú tala reyndar flokksmenn þínir og sjálfstæðisflokkurinn um nauðsyn þess að auka enn atvinnuleysið á íslandi með niðurskurði í ríkiskerfinu. Og auðvitað gjammar Mogginn með. En þið lifið í gamla Íslandi. Fólk er ekkert sérstaklega hrifið af þeirri hugmynd að búa þurfi til atvinnuleysi á Íslandi. Ég held reyndar að flestir séu þeirrar skoðunar að Samfylkining og Sjálfstæðisflokkurinn hafi leitt nógu miklar hörmungar yfir þjóðina án þess að á það verði bætt með tilbúnu atvinnuleysi.

Algjör forsenda þess að unnt verði að halda hér uppi velferðar- og félagsþjónustu næstu 2-3 árin verður geta ríkisins til að prenta peninga.

Það geta Íslendingar ekki gert ef þeir fara eftir því fáránlega plani sem þú kynnir hér til sögu sem brýtur í öllum grundvallaratriðum gegn meginstefnu flokksins sem þú tilheyrir.

Karl Einar Sig.

Karl (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 14:46

12 Smámynd: Dofri Hermannsson

Er þér alvara Karl Einar Sig? Gerir þú þér ekki grein fyrir því hvað kostnaðurinn af krónunni er gríðarlegur fyrir íslensk heimili? Sérstaklega næstu misserin? Dettur þér virkilega í hug að það sé hægt að bjarga velferð í landinu með því að setja prentvélarnar í gang og fara svo út með seðlabúntin og dreifa eins og Evita Peron hér um árið? Þú hlýtur að vera að grínast!

Dofri Hermannsson, 27.11.2008 kl. 16:56

13 identicon

Að sjálfsögðu. Þetta vita allir sem eithvað þekkja til hagfræði. Samanburður við Evu Peron er út í loftið og útúrsnúningur.

Valkostirnir eru seðlaprentun, verðbólga og velferð eða niðurskurður og algjört hrun þ á m velferðarkerfisins sem ég hélt að þér og öðrum krötum eins og mér væri annt um.

Við þessar aðstæður skiptir mestu að skera ekki niður ríkisútgjöld og hækka ekki skatta. Þannig bregðast þróuð ríki við slíkum kreppum. Flokksmenn þínir og sjáfstæðisflokkurinn ætla hins vegar að dýpka kreppuna með niðurskurði. Búa bókstaflega til meira atvinnuleysi. Einhliða upptaka evru myndi veita þjóðinni náðarhöggið þar sem geta til seðlaprentunar yrði ekki til staðar.

Velferðarkerfið og eitthvað atvinnustig í landinu verður aðeins varið með seðlaprentun og henni fylgir verðbólga og gríaðrlegur halli á ríkissjóði. Minni eftirspurn mun hins vega vinna gegn verðbólgu. Við getum á hinn bóginn ekki prentað evrur.

Þetta þekkja allir sem einhverja nasasjón hafa af hagsögu. Ég er hlynntur evru en áætlun þín væri beinlíns skaðleg við þær hörmulegu aðstæður sem ríkja og allir jafnaðarmenn hljóta að hafa miklar áhyggjur af.

Kveðja

Karl

KArl (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 18:11

14 Smámynd: Ég

Mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt að Ríkisstjórnin segi okkur af hverju þessum kosti hefur verið ýtt út af borðinu. Veistu það?

Ég, 27.11.2008 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband