Holl flenging

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag er rassskelling fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn hrapar um tæp 9% frá síðustu könnun og flest bendir til að þessi prósent hafi að mestu runnið til Vinstri grænna. Eflaust má nefna fleiri en eina skýringu á þessu en ég held að ein dugi.

Samfylkingin hefur sofið á verðinum í umræðunni um umhverfismálin. Hún hefur of oft þagað þegar hallað hefur á umhverfissjónarmiðin, s.s. í umræðum um álver í Helguvík, og of oft látið hjá líða að fagna þeim áföngum sem unnist hafa. Þessi þögn er eðlilega túlkuð sem tómlæti af hálfu kjósenda.

Það var ljóst frá upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins hverju flokkurinn hafði náð í gegn í samningum við Sjálfstæðisflokkinn og hverju ekki. Meginhugsun Fagra Íslands náðist í gegn, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar og að ekki yrði farið inn á fleiri óröskuð svæði. Að niðurstaða rammaáætlunar yrði lögð til grundvallar nýju Landsskipulagi - nauðsynlegu tæki til að ná aftur tökum á stóru skipulagsmálunum. Þetta náðist í gegn. Ég og fleiri umhverfis- og náttúruverndarsinnar fögnuðum samkomulaginu sem stórum áfanga í að ná tökum á náttúruvernd í landinu.

Það náðist hins vegar ekki að semja um stöðvun þeirra stóriðjuframkvæmda sem voru komnar af stað. Það náðist ekki að semja um aðgerðir til að stöðva Helguvík. Ég held að það sé ekki hægt að álasa Samfylkingunni fyrir það. Eins og frægt er orðið taldi m.a.s. formaður Vg að ekki væri hægt að stöðva þau áform.

Mistök Samfylkingarinnar felast í því að hafa ekki talað sig hás á móti þessum áformum. Að hafa leyft sér að vona að Helguvík sigldi í strand af sjálfu sér. Það var aldrei sjálfgefið en vegna þeirra stóru galla sem eru á lagaumhverfinu geta fjárfestar farið að byggja álbræðsluna án þess að það sé til næg orka fyrir hana. Fólki svíður að álgráðug sveitastjórn, orkufyrirtæki og álbræðsla skuli geta ákveðið svona stórframkvæmdir án þess að þjóðkjörin stjórnvöld fái nokkru um það ráðið. Lái þeim hver sem vill. 

Nú má ekki skilja mig sem svo að ég hefði viljað sjá ráðamenn brjóta lög til að koma í veg fyrir framkvæmdirnar, allir eiga að fylgja lögum. Það hefði hins vegar mátt tala upphátt um það hvernig staðan er og hvað þarf að gera til að breyta henni. Fólk væntir þess að stjórnmálamenn tali samkvæmt sannfæringu sinni - jafnvel, og ekki síður, þegar þeir hafa ekki fullkomin tök á atburðarrásinni.

Það tekur langan tíma að byggja upp traust en það tekur stuttan tíma að glutra því niður. Samfylkingin lagði fram gríðarlega metnaðarfulla áætlun í umhverfismálum fyrir síðustu kosningar undir heitinu Fagra Ísland. Flest helstu atriði þeirrar stefnu náðust inn í stjórnarsáttmálann og eru þegar komin í vinnslu. Fáir vita það - öll athyglin beinist að því sem miður fer og um það getur Samfylkingin engum öðrum kennt en sjálfri sér.

Traust þeirra sem láta sig umhverfismál varða á Samfylkingunni er valt. Flokkurinn getur því ekki leyft sér að þegja þegar umdeild umhverfismál eru til umræðu. Hann verður að gefa upp skoðun sína. Flokkurinn má heldur ekki gleyma að tala um þau stóru framfaramál sem hann er að vinna að í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þær fréttir segja sig ekki sjálfar. Það þarf að hafa mikið fyrir því að koma góðum tíðindum til skila á meðan ótíðindi fljúga sjálf.

Það verður vandasamara verk en oft áður að stjórna landinu næstu misserin. Enginn flokkur er betur undir það búinn en Samfylkingin. En það þarf að taka stórar ákvarðanir í mörgum málaflokkum og stjórnmálamenn verða að þora, geta og vilja segja hug sinn um brýn mál, jafnvel þótt einhverjum þyki það óþægilegt.

Samfylkingin á að taka fylgistapi um tæpan fjórðung sem hollri flengingu. Hún að að gera kjósendum sínum skýra grein fyrir því hvað hún vill og hvað hún vill ekki í umhverfismálum. Hvað hún telur sig geta framkvæmt og hvað hún telur sig geta stoppað. Það er forsenda þess að kjósendur treysti henni fyrir þessum málaflokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Flengin getur verið holl - en menn þurfa þá að skilja af hverju þeir hafa verið flengdir.   Mín kenning er sú að annað mál sé ekki síður skýring.  Það er athafnaleysi í umræðunni um efnahagsmálin - - og þá um leið Evrópumálin.  Samsekt í bankaráði Seðlabankans eins og staðan er  -ö er að mínu viti aldeilis blóðug.  Það vantar allt bit í efnahagsmála-umræðuna frá hálfu okkar fólks.  Svo er kominn upp einhver kjánaskapur með þessa ferðagleði . . . og þotubullið . . . .

Ingibjög Sólrún er í stórhættu í utanríkisráðuneytinu . . . . . .  hún á að koma heim og taka fullan þátt í innanlandspólitíkinni

Benedikt Sigurðarson, 21.4.2008 kl. 11:28

2 Smámynd: Ibba Sig.

Held að ekki sé hægt að segja að umhverfismálin séu að verða Samfylkingunni að falli þótt þau eigi þar vissulega þátt. Ég batt miklar vonir við flokkinn minn í þessari ríkisstjórn en hef orðið fyrir miklum vonbrigðum og heyri hið sama á fólki allt í kringum mig. Ég er röddin úr grasrótinni Dofri og ekkert sem byrgir mér sýn, svo taktu vel eftir.

Samfylkingin lítur út sem hin nýja Framsókn. Fólk hefur sjaldan séð nokkurn semja eins hrikalega af sér og flokkurinn gerði í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum. Kom bara ekki í ljós alveg strax en nú sést greinilega það hálstak sem Sjallar hafa á Samfylkingunni, enda með öll ráðuneytin sem skipta máli þegar upp er staðið. Standard afsökun flokksins á öllu klúðrinu er: "En þetta er ekki í stjórnarsáttmálanum!" 

Nefni Kristján Möller og hans frammistöðu. Eins og þetta birtist okkur almúganum er gæinn í dæmalausu kjördæmapoti sem kostar milljarða og fær að komast upp með það. Á meðan bíðum við á höfuðborgarsvæðinu enn eftir úrlausn okkar mála.

Ingibjörg Sólrún á fullu að reyna koma Íslandi í öryggisráðið á meðan Róm (Ísland) brennur. Allir á fullu út um allt, í "einkaþotu" (dæmi um mesta PR klúður seinni tíma), tiplandi á tánum í kringum ráðamenn ríkja sem hundurinn minn myndi ekki leggja lag sitt við.

Listi viljugra þjóða- ekkert gert í því máli

Eftirlaunafrumvarpið- ekkert að gerast þar þrátt fyrir stórar yfirlýsingar

Stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld- Flott plön og fínar ræður hjá viðskiptaráðherra. Fólk var farið að sjá fram á að hér yrði loksins smá samkeppni milli banka, að  það gæti fært sig til þeirra sem best bjóða kjörin. En nei, tekið hænufet sem engu breytir, engin stimpilgjöld hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Og bankarnir enn í stöðu til að svína grimmt á almenningi. Og miðað við málflutning ráðamanna þá er það brýnasta erindið í dag að bjarga bönkunum, skítt með almenning sem svo situr uppi með reikninginn. 

Og jú, svo auðvitað umhverfismálin en þau eru ekkert að koma við buddu fólks í dag og lenda því aftarlega á listanum, svoleiðis erum við bara.

Ég vil sjá veg Samfylkingar sem mestan en þetta er ekki alveg að gera sig  hjá ykkur. Sorrý.  

Ibba Sig., 21.4.2008 kl. 11:53

3 Smámynd: Sævar Helgason

Ég tek undir með Benedikt Sigurðssyni- og bæti engu við.

Sævar Helgason, 21.4.2008 kl. 12:35

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég get svarað fyrir mig...

Við erum enn á listanum hans Bush um hinar staðföstu þjóðir !!  Samfylkingin er að tapa á þessu.

Við erum enn að mylja undir stóriðju.. Samfylkingin tapar á þessu.

Samfylkingin hefur ekki tekið á hækkuðu matarverði og olíuverði til hagsbóta fyrir almenning.. tap þar.

við erum í samstarfi við sjálftektarflokkinn og þar af leiðandi er Samfylkingunni stillt upp jafnfætis þeim arga flokki.. SF tapar þar líka..

Takið ykkur á eða mitt atkvæði fer annað næst.

Óskar Þorkelsson, 21.4.2008 kl. 13:08

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

algerlega sammála Ibbu Sig..

Óskar Þorkelsson, 21.4.2008 kl. 13:08

6 identicon

Tek heilshugar undir með Benedikt og Ibbu.  Hegðun Ingibjargar í utanríkisráðuneytinu og Þyrnirósarsvefnin í peningamálunum hafa gert mig fúlan og marga aðra sem kusu Samfylkinguna.

VarKrati (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 13:09

7 identicon

Við skulum nú ekki fara á límingunum vegna þessa. Svona fylgissveiflur þekkjast og hafa ósköp lítið að gera með þotur og jafnvel enn minna um aðgerðir í efnahagsmálum, sem reyndar hafa ekki komið fram enn. Níu prósenta sveiflan er lausafylgi Samfylkingarinnar sem nú gefur flokknum holla gagnrýni. Ráðherrar Samfylkingarinnar í heildina tekið hafa staðið sig betur ef það er mælikvarði. Ef fólk hefði verið spurt um hvor ráðherrahópur ríkisstjórnarinnar hefði staðið sig betur hefði Samfylkingin vinninginn. "Trendið" er að þeir flokkar sem fara í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum skaðast á því - tímabundið. Ástæðan er stórt fastafylgi Sjálfstæðisflokksins. Fasta fylgið er 30% og þarf mikið til að þetta breytist. Um 80% málefnasamningsins er komið á hreyfingu eða búið að framkvæma. Rýni mín byggir á víðtækri reynslu Jóns Ásgeirs heitins, en af honum lærði ég mikið. Sjálfstæðismenn eru í kviksandi, sérlega í borgarmálefnunum. Þá er stjórnarandstaðan á Alþingi sundurleit og sú slappasta sem man eftir.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 13:32

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Sammála Ibbu Sig...

Hólmdís Hjartardóttir, 21.4.2008 kl. 13:53

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek hér undir allt sem Ibba Sig hefur sagt.  Algjörlega sammála henni.  Þó ég hafi ekki kosið Samfylkinguna, þá bjóst ég við miklu af henni,  það hefur allt farið út og suður því miður.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.4.2008 kl. 14:01

10 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Ingibjörg Sólrún hefur algerlega brugðist -hún var mín kona en ekki lengur.

Hún ætti að hunskast heim og taka til heima hjá sér en ekki vera ða þessu helvítis öryggisráðsrugli

Ég er öskureið.

Soffía Valdimarsdóttir, 21.4.2008 kl. 14:01

11 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ágætis skrif hjá henni Ibbu Sig. Svolítið skondið þetta hjá honum Gísla Baldvins, þegar hann reynir að berja í brestina, sem eru svo sannarlega fyrir hendi. En þið Samfylkingarfólk þurfið á næstunni, að sleikja sár ykkar ennþá frekar, því þið eruð með allt niður um ykkur.

Þorkell Sigurjónsson, 21.4.2008 kl. 14:27

12 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Ég held mín kæru að það sé ekkert eitt mál sem Samfylkingin tapar á - en hún mun tapa á því að tala ekki hreint út við kjósendur. Þetta er flokkurinn sem boðaði samræðustjórnmál, hann þarf að tala hreint út um það hvar hafa verið gerðar málamiðlanir og í hverju þær liggja. Það þýðir ekki að þegja og það þýðir heldur ekki að fara fram með innantómar fullyrðingar. Það þýðir heldur ekki að missa sig í pirring þegar á móti blæs. Það er annað um að tala en í að komast, annað að ráða en stjórna og það skilja kjósendur okkar mætavel þó einstaka stjórnmálamenn séu núna fyrst að fatta það. Samfylkingarfólki, flokksbundnu sem óflokksbundnu er treystandi til að taka þátt í stjórnmálum - enda stöndum við fyrir íbúalýðræði og valddreifingu - eða er það ekki? Það er þegar við sofnum á þeim verðinum og höldum að þetta snúist einfaldlega um að sitja í stólunum og hafa völdin, sem við verðum bara eins og allir hinir flokkarnir.

Guðrún Helgadóttir, 21.4.2008 kl. 14:30

13 identicon

Mér rennur í minni til þess að ISG tók Ísland af þessum ógeðfelda lista hinna viljugu. Það mál er s.s búið og gert. Ég varð fyrir óskaplegum vonbrigum að ekki var hætt við þessi stóriðjuáform. Auðvitað hefði það verið hægt ef að vilji væri fyrir hendi. Umhverfismálaráðherra er beinlínis vorkun og mér blöskrar bleyðuhátturinn í henni. Auðvitað átti hún að gera eitthvað annað en að gapa á þetta gerast fyrir framan nefið á henni.

Hefur hún engin völd eða hvað? Ef ég sæki um að reka eitt stykki Sellafield á Vík í Mýrdal, er það bara auðsótt?

Mér finnst þetta hrikalegt. Þetta er ekki til þess fallið að auka vegsemd Samfylkingarinnar og aumar afsakanir um að ekkert hafi verið hægt að gera undirstrika bara skortinn á ístöðu þessa flokks í umverfismálum. Ég er búin að gefast upp á stjórmálafólki. -Þetta eru allt aular.

...Ég sver það..

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 15:13

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég var á laugardagsfundinum sem haldinn var um fiskveiðistjórnunina og úrskurð Mannréttindanefndar S.þ. í máli sjómannanna tveggja. Því skal haldið til haga að þetta var úrskurður en ekki bara álit eins og margir andstæðingar dómsins vilja vera láta. Og íslenska ríkisstjórnin sendi háskólaprófessor í lögum til að halda uppi vörnum fyrir þennan stjórnsýsluóburð.

Hvort- og hvernig Alþingi bregst við þessum dómi á þeim 54 dögum sem eru til stefnu, verður fróðlegt að sjá. En þar verða lögð drög að niðurstöðu fyrir Samfylkinguna í næstu skoðanakönnunum þar á eftir.

Árni Gunnarsson, 21.4.2008 kl. 15:22

15 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Sammála flestu því sem skrifað hefur verið hér að ofan, sbr. efnahagsmál og umhverfismál.

Svo hef ég aldrei skilið af hverju Samfylkingin tók það í mál að senda formanninn í útlegð í þessu stjórnarsambandi. Formaðurinn á að vera heima og halda utanum sitt lið en ekki að vera á atkvæðaveiðum í öryggisráðið.

Sigurður Haukur Gíslason, 21.4.2008 kl. 15:29

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér láðist að geta þess að fundurinn sem var haldinn á Grand Hótel var á vegum og að frumkvæði Samfylkingarinnar og hafi hún þökk fyrir.

Þessi fundur var afbragðsgóður og borinn uppi af góðum ræðumönnum og skulu þar helst nefnd Lúðvík Kaaber, Þorvaldur Gylfason og Aðalheiður Ámundadóttir, en erindi þessara þriggja voru tær snilld.

Árni Gunnarsson, 21.4.2008 kl. 15:32

17 identicon

Sæll dofri. Það væri óskandi að það væri bara einhver umhverfismál. Því miður held ég að það sé bara tittlingaskítur. vg er ekki bara harður á umhverfinu.  einnig refsa menn samfó bara með því að segja vg.

Skal bara tína til þá hluti sem ég hef látið fara óstjórnlega í taugarnar á mér undanfarið og hefur leitt til þess að ég myndi segjast skila auðu eða vg til að refsa flokknum.

1) Kristján Möller. Hann byrjaði sætt, brosti vel og mamma hafði orð á því hvað þetta væri huggulegur og góðlegur maður. Núna eftir að hafa farið í hverja rugl vegaaðgeriðina og svo hundsað þær sem skipta máli (reykjanesbrautin, sundabraut og gangagjaldið í hvalfjörðinum) hefur þessi maður trúverðuleika á við sölumann hjá Remax. 

2) Útspil Einars más um skólagjöld í opinberum háskólum. Einar hefur oft ekki nennt að mæta á fundi og finnst ekki gaman á þeim, en það er lágmark að hann lesi samþykktir flokksins í þeim málaflokkum sem hann vinnur á. Að geta ekki sagt bara nei aðspurður um skólagjöld í háskólum er kannski réttlætanlegt ef óreyndur krakkaskítur lætur þetta út úr sér, en maður sem er búinn að vera í pólitík síðan á tímum kaldastríðsins er alveg óásættanlegt.

3) á síðasta landsfundi var talað um að draga saman seglin í utanríkisþjónustinni, gott ef ekki var samþykkt að fækka sendiherrum og sendiráðum. nei nei. það er ausið peningunum í þetta rugl. isg er út um allt betlandi stuðning frá stríðsherrum afríku þess í stað að vera segja þeim til syndanna. betlandi stuðning af bandaríkjamönnum þess í stað að segja þeim að loka fangabúðnum á kúbu, og heimta að þeir hætti að gefa Ísraelum vopn til að myrða konur börn og gamalmenni.

4) Einkavæðingin í heilbrigðisþjónustunni, útboð um öldrunardeild var tekið þrátt fyrir að það var dýrara en að ríkið ræki það sjálft. ástæðan ríkið borgar fólki kúkakaup og fæst ekki starfsfólk. þess í stað að hækka launin hjá ummönnunarstéttum ákveður ríkistjórnin að leysa það með því að láta einkaaðila taka fleiri og fleiri verkefni, núna er talað um að breyta spítölunum í hlutafélög... til hvers til að hafa aðrgreiðslur? Djöfulsins kjaftæði.

5) efnahagsástandið. þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi sett seðlabankanum það hlutverk að ráðast að verðbólgunni þá er hún ekki stykkfrí í þessu máli. Hún á að vera í fararbroddi til að kvetja til sparnaðar, draga úr útgjöldum og hjálpa þeim sem illa eru að fara úr verðtrygginunni. Lánið sem ég er með á íbúðinni mun hækka um milljón bara á þessu ári, ég sem námsmaður mun hafa svona hálfa í tekjur. Hvað gera ráðherrarnir? þeir setja meit í heimshorna flakkki á Einkaþotum?

Svo er farið í reiknikúnstareglur til að reyna finna það út að það sé ódýrara að fara á einkaþotum. Það heppnast að hluta vegna þess að ráðherrarnir hafa umlukið sig "Entourage" fólki eins og það sé einhverskonar hollívúd stjörnur, auðvitað þegar dæmið er ekki bara einn ráðherra að ferðast heldur allt hans fylgdarlið, það kæmi manni ekki á endanum á óvart að ráðherrarnir væru að draga bílstjóranna sína með sér út.

Ráðherrarnir ættu að vera skera niður bruðlið. Nei nei árið í ár er metár í eyðslu ríkissjóðs. 

Geir Guðjónsson Akranesi 

Geir Guðjónsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 15:46

18 identicon

Ég er mjög ósáttur við að konan sem ég vildi að yrði forsætisráðherra landsins skuli hylja hár sitt til að þóknast múslimskum trúarvenjum og verja dýrmætum tíma í það kjaftæði sem framboð Íslands til Öryggisráðsins er. Hún átti að beita sér í jafnréttis- og velferðarmálum. Hún átti að leiða Samfylkinguna til sigurs í næstu kosningum og verða forsætisráðherra í meirihlutastjórn SF. Hún veldur vonbrigðum. Og tal þitt um fagra Íslands og fylgissveiflu til vinstri grænna er fleipur - þú ert einfaldlega ekki í tengslum við rótina.

eddi (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 16:17

19 identicon

Tek undir hvert orð sem Dofri segir í þessum pistli. Það er akkúrat tómlætið sem felst í þögn forystu Samfylkingarinnar t.d. um Helguvík sem ekki er hægt að túlka öðru vísi en sem áhugaleysi.

Ég tek ekki undir það að fylgistapið sé vegna efnahagsástandsins. Sjálfstæðismenn eru með meginábyrgðina á þeim málaflokki og með allt niðrum sig eins og vant er - með ónýta peningamálastefnu, ónýta krónu og í einni allsherjar afneitun gagnvart öllu saman.

Þotumálið er líka skrýtin skýring því Geir er þar undir sömu sök seldur - reyndar verri því það var hann sem varð fúll við fréttamenn fyrir að spyrja hvað þetta kostaði. Í staðinn fyrir að útskýra bara að þetta hefði verið miklu sniðugra - úr því það var raunin.

Og með fullri virðingu fyrir Vg sem er að hirða fylgið af Samfylkingunni - af hverju ætti einhver að kjósa Vg frekar en Samfylkinguna ef það eru efnahagsmálin sem eru vandamálið? Það meikar ekki sens.

Nei, það eru umhverfismálin. Takið ykkur á!

Brynjar (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 16:27

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Vissirðu af þessum fundi í kvöld, Dofri...?

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.4.2008 kl. 16:29

21 identicon

Félagi Dofri!

Ég held að þú ofmetir þátt Helguvíkur stórlega. Ég held að Ibba Sig og og fleiri ummæli hér lík hennar sé meira "spot on". Grasrótin veit sínu viti. Það er tilfinning fólks sem ræður ótrúlega miklu. Og tilfinning fólks segir að Ráðherrar vorir séu að sigla sofandi að feigðarósi!! Innlegg Guðrúnar Helgadóttur er vert að setja sem yfirskrift á næsta málþingi Samfylkingar -þörf áminning.

Utanlandsferðir Ráðherra eru nauðsynlegar og skipulagðar með margra mánaða fyrirvara. Því miður fyrir Samfylkingu tók efnahagslífið upp á þeim óskunda að henda sér fram af björgum einmitt á þeim tíma sem mikið hefur verið um ferðir Ráðherra erlendis og ég tek undir þá gagnrýni að margrædd leiguflug með smáþotum voru ótrúlegt "PR" klúður að hálfu okkar fólks. Við eigum að vita betur.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alveg verið skilja ástæðu þess afhverju við Íslendingar leggjum svo mikla áherslu á að komast í Öryggisráðið. Og margir kjósendur Samfylkingar hugsa það sama. En þá er það hlutverk Samfylkingar að tala til þeirra sem hafa efasemdirnar. Hver er ástæðan? Af hverju er þetta svona mikilvægt? Utanríkisráðuneytið er með fólk í fullri vinnu sem gerir ekkert annað en að vinna að því að koma Íslandi í Öryggisráðið. Svo mikil er áherslan.

Fólk er áhyggjufullt -réttilega. Fólk skilur ekki efnahagstjórnunina. Fólk skilur ekki af hverju Seðlabankinn hækkar stýrivexti endalaust og samt hækkar verðbólgan. Fyrir stuttu spurði ég mætan þingmann Samfylkingar sem hefur mikið vit á hagfræði hvort hann teldi að verðbólga væri meiri ef Seðlabankinn væri ekki að beita stýrivaxtasvipunni og hann svaraði hiklaust að svo væri. Þá væri verðbólga miklu meiri. Það þarf að útskýra þetta fyrir fólkinu sem finnur mest fyrir versnandi efnahag. Fólk með lágar og miðlungstekjur berst í bökkum núna.

Oft er þörf en nú er nauðsyn. Það þarf að tala við fólk. Þögnin sem kemur frá Ríkisstjórninni undanfarið hefur stundum verið æpandi. Það er alveg vonlaust að ætla bara sitja af sér þennan efnahagsstorm. Maður heyrir að ríkisstjórnin vinni hörðum höndum að undirbúningi aðgerða en hverjar eru þessar aðgerðir? Tala við fólkið!!

Jón H. Eiríksson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 16:37

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst mannsbragur á því sem þú skrifar, Dofri, í dag. Það eru ekki allir sem vinna fyrir flokkana sem þora að segja hug sinn á þann hátt sem þú gerir í dag. Eftir að þú þurftir að verja stóriðjumálstað Samfylkingarinnar í sjónvarpi var ég farinn að halda að þú myndir fara í sama far og svo margir, að láta þig hverfa inn í afsökunar- og undanlátskór.

Ég tel að vísu að Samfylkingin geti ekki afsakað það sem mistök eða rangt stöðumat að hafa bakkað í stóriðjumálunum heldur verði að axla ábyrgð af því að hafa hrakist frá stefnu, sem hún fékk atkvæði út á kosningunum.

Hefðu umhverfissinnaðir kjósendur vitað þá um það sem í vændum var, hefðu úrslitin orðið önnur. En ég þakka þér fyrir þessi skrif. Margir í þinni stöðu hefðu þagað.

Ómar Ragnarsson, 21.4.2008 kl. 17:45

23 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það er greinilega mikill munur á því hvort að flokkur er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Stundum er ekki annað en hægt að brosa að því hvað sumir stjórnmálamenn geta umpólast. Get vel ímyndað mér að það er stundum ekki auðvelt fyrir Össur að sjá um málefni Iðnaðarins. Einnig finnst mér Ingibjörg Sólrún sóma sér mun betur við að gagnrýna aðra frekar en að verja það sem hún er sjálf að framkvæma. Umhverfisráðherra er heldur ekki í góðri stöðu þessa dagana að þurfa sífellt að vera að éta ofan í sig ýmislegt þvert á það sem hún stendur fyrir. Svona getur þetta allt verið skrítið, allt eftir því frá hvaða hlið er verið að skoða málið.

En annars mjög góð grein hjá þér Dofri.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.4.2008 kl. 19:28

24 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Fyrir síðustu kosningar leit út fyrir að VG tæki Samfylkinguna í nefið. Það snérist við þegar Samfylkingin hætti að leggja höfuðáherslu á umhverfismálin og fór að tala um velferðarkerfið. Það mun koma æ betur í ljós hversu rangt það var að taka utanríkisráðuneytið framyfir fjármálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.

Samfylkingin er að mínu viti ekki að tapa fylgi núna út af Helguvík. Ég myndi miklu heldur giska á að fólk sé að mótmæla augljósum áformum um einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Staðan væri verri fyrir flokkinn hefði hann ekki Jóhönnu Sigurðardóttur.  Svo er það heilkennið vonda um örlög samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins...

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.4.2008 kl. 19:42

25 identicon

Margt gott í þessum pistli Dofra og annað ekki eins og gengur.  Að sumu leiti er vandi Samfylkingarinnar fólginn í ótrúverðugleikanum sem svo oft hefur skaðað flokkinn.  Nokkuð sem flokkurinn náði að rífa sig upp úr á tímabili en virðist vera að skella á að fullum þunga aftur.

Reyndar má sjá þennan ótrúverðugleika koma í gegn í skrifum Dofra þar sem hann segir:

Það var ljóst frá upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins hverju flokkurinn hafði náð í gegn í samningum við Sjálfstæðisflokkinn og hverju ekki. Meginhugsun Fagra Íslands náðist í gegn, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar og að ekki yrði farið inn á fleiri óröskuð svæði. Að niðurstaða rammaáætlunar yrði lögð til grundvallar nýju Landsskipulagi - nauðsynlegu tæki til að ná aftur tökum á stóru skipulagsmálunum. Þetta náðist í gegn. Ég og fleiri umhverfis- og náttúruverndarsinnar fögnuðum samkomulaginu sem stórum áfanga í að ná tökum á náttúruvernd í landinu.

Dofri veit vel að hann fer með rangt mál þarna.  Grundvallar atriði Fagra Íslands eru að engu orðin.  Fagra Ísland gekk út á að staldra við í stóriðjustefnunni og gefa sér fjögur ár í að mynda nýja heildarsýn um nýtingu og verndun.  Fyrst átti að mynda heildarsýn og síðan á að taka ákvarðanir um frekari uppbyggingu.  Þetta náðist einfaldlega ekki í gegn.  Þá var það markvert í Fagra Íslandi að fyrirfram voru sett á friðunarlista fallvötn sem nýta átti í fyrirsjáanlegri framtíð til orkuöflunar fyrir álver.  Þær ár komust ekki á friðunarlista ríkisstjórnarinnar.

Nú er staðan sú að fyrst á að byggja nýtt álver við Helguvík, stækka á Grundartanga og taka ákvörðun um álver á Bakka og eftir það á að mynda heildarsýnina.  Sem sagt skjóta fyrst og spyrja svo.  Það gengur þvert á megin hugsun Fagra Íslands, augljóslega!  Þó að Dofri haldi hér öðru fram.

Það er þessi ótrúverðugleiki sem skaðar flokkinn og það að talsmenn Samfylkingarinnar eru sífellt að reyna að slá ryki í augun á fólki í stað þess að segja satt og rétt frá og standa og falla með því. 

Ég get sagt það í hreinskilni með sjálfan mig (sem fyrrverandi stuðningsmann Samfylkingar) að þetta var ástæðan fyrir því að ég hætti að kjósa flokkinn.  Það var verið að reyna að gera ósamræmanlegum sjónarmiðum jafn hátt undir höfði með því að segja einhverja hálfsannleika.  Reyna að sætta óásættanleg sjónarmið með því að segja eitt í dag og annað á morgun þannig að í raun urðu bæði sjónarmiðin undir.  Auðvitað er það svo að allir í stórum flokki verða ekki algerlega sammála í öllum málum.  Það er líka allt í lagi.  En að reyna að hafa alla góða með því að halda fram einhverjum þvættingi kann ekki góðri lukku að stýra.

Ef Samfylkingin segði bara hreint út að þeir hafi ekki náð Fagra Íslandi í gegn þá hefði það verðið heiðarlegt og kjósendur skilið það.  En að halda því fram að allt sé í stakasta lagi og í fullu samræmi við náttúrverndar stefnu flokksins þegar stefnir í mestu stóriðjuuppbygginu sögunnar er auðvitað ekki bara ótrúverðugt heldur kemur til með að hrista fylgið af flokknum.  Enn ótrúverðugra er að segja að þetta sé einhverjum öðrum flokkum eða stjórnmálamönnum að kenna, eins og Dofri hélt fram í Kastljósi nýlega.

Jón Kr. Arnarson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 21:37

26 identicon

Smá viðbót (þó hitt hafi nú víst verið nógu langt).

Dofri heldur því fram að flest helstu atriði Fagra Íslands hafi náð í gegn og það af því að nú er verið að vinna að Rammaáætlun.  Það voru allir flokkar með það á stefnuskrá að klára Rammaáætlun svo það má nú varla teljast undur að það hafi náð inn í stjórnarsáttmálann.  Hvar var þá munurinn á stefnu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks?  Jú, Samfylking vildi fyrst ljúka Rammaáætlun og meta í framhaldi af því hvort fara ætti í frekari stóriðjuframkvæmdir.  Sjálfstæðisflokkurinn vildi fyrst fara í framkvæmdirnar og síðan Rammaáætlun.  Og hvort varð nú ofaná?  Hvað var það sem Samfylking náði í gegn?  Gaman væri ef Dofri treysti sér til að svara því.

Jón Kr. Arnarson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 22:20

27 identicon

Sæll Dofri.

Gott framtak og heilindi hjá þér að koma svona fram.en mig langar til að bæta við mjög góðar athugasemdarfærslur Sérstaklega hjá (Ibbu Sig)         þar sem ég er einn af þeim sem vann  þar til slysið mig fann. Ég hélt alla mína tíð (ég varð öryrki fimmtugur nú sextugur) að ég væri að leggja í mikla sjóði sem sæu fyrir mér ef að mig myndi henda eitthvað óvænt áður en starfsævi lyki. Heyrðu góði maður ég upplifi allt annað og Samfylkingin lofaði svo fögru fyrir kosningar að það kvartil væri nóg og loforða- lyktinina lagði yfir Borgina að allir Öryrkjar og gamalmenni lifðu ívímu yfir öllum ókomnum uðnaði.Ef þú skoðar hvað þeir eru smátt og smátt að setja í gang  þá eru djúpar holur í veginum.Hvað með þá sem eru einir  og geta ekki unnið inn eina krónu aukalega,hvaða hag hefur hann af öllu þessu lagabrölti þegar hann er 30 til 100 þúsund krónum í mínus á mánuði eftir mánuð. Gætuð þið hér á undan mér treyst ykkur til að lifa á 100. þús til 140.þús á mánuði sem einstaklingur með skatta og skyldur. Ég er ekki að meina Pétur Blöndal hann getur allt veit allt stjórnar öllu (heldur það) og svo er búið að setja hann í nefndina sem á að kryfja allt kerfið og lyfja-appartið upp. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því. Takk fyrir að fá að frekjast hér inn. Góðar stundir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 04:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband