28.12.2006 | 02:43
Lýðurinn tendri ljósin hrein
Alcan hefur hafið kosningabaráttu sína fyrir af fullum krafti. Baráttumál Alcan er eins og allir vita að fá leyfi bæjarbúa til að þrefalda álverið í Straumsvík.
Útspil Alcan hafa reyndar verið nokkur undanfarið, fyrirtækið hefur styrkt bæði íþróttafélög bæjarins rausnarlega og bauð nýverið lýðnum á kappleik þeirra á sinn kostnað. Þá hefur nýlega verið auglýst eftir styrkjum í Samfélagssjóð sem mig grunar að verði úthlutað rausnarlega úr í ár og loks hefur fyrirtækið ákveðið að styrkja Björgunarsveit Hafnarfjarðar til að gera árlega flugeldasýningu sveitarinnar sem veglegasta að þessu sinni.
Síðast en ekki síst hefur Alcan af rausnarskap sínum sent hverju einasta heimili í Hafnarfirði hugljúfa gjöf, geisladisk með lögum Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Gjöfin er að sögn Alcan liður í þeirri ætlan fyrirtækisins að kynna á næstunni starfsemi fyrirtækisins fyrir hafnfirskum lýð svo hann geti myndað sér skoðun á fyrirhugaðri þreföldun álversins í Straumsvík.
Það verður að segjast eins og er að það stefnir í alveg sérstaklega málefnalega baráttu. Annars vegar munu hér takast á álrisinn Alcan með alla vasa yfirfulla af peningum og fjölda atvinnusmjaðrara á launaskrá og hins vegar fólk sem telur þreföldun álversins í Straumsvík vera stórt skref aftur á bak fyrir sitt fallega bæjarfélag og er tilbúið að vinna í sjálfboðavinnu eftir að vinnudegi lýkur í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þetta verður barátta svipuð og ótal öðrum þar sem annar aðilinn hefur ekkert nema góðan málstað en hinn aðilinn hefur allt nema góðan málstað. Þetta er leikur kattarins að músinni, leikur auðhringsins að lýðræðinu, risans að dreng. En sagan sýnir að stundum vinnur drengurinn risann og mér sýnist af viðbrögðum Hafnfirðinga að svo gæti farið í þetta skiptið.
Eftir að hin óumbeðna jólagjöf barst inn á hvert einasta heimili í Firðinum hefur mörgum fundist eins og auðhringurinn væri búinn að leggja niður fyrir sér full ítarlega áætlun um sigur. Að það væri búið að reikna gaumgæfilega út hvað það kostaði að fá út JÁ hjá Hafnfirðingum og að það væri til plan A, B og C sem öll enduðu á sama veg en kostuðu bara mis mikið af peningum. Og auðvitað er það rétt.
Það er þekkt að fyrirtæki sem eru í eðli sínu samfélagslega neikvæð, t.d. vegna mengunaráhrifa eða eyðileggingar á náttúruperlum samfélagsins, verja umtalsverðum fjárhæðum í að fegra ímynd sína. Þau reyna eftir megni að tengja sig jákvæðum stofnunum, samtökum og atburðum s.s. Sinfóníunni, Bjarsýnisverðlaunum, Samfélagsverðlaunum, Björgunarsveitum og íþróttafélögum til að breiða yfir sína eigin mynd. Það er oft mikilla peninga virði að breiða yfir hana.
Það er athyglisvert að skoða jólaauglýsinguna frá Alcan í þessu ljósi. Þar er fallegt prúðbúið fólk (líklega óperukór Hafnarfjarðar) látinn syngja "Hátíð fer að höndum ein" inni í vinnuskálum Alcan. Auglýsingin á að sjálfsögðu að sýna okkur hvað það er gott fólk sem vinnur í Straumsvík og hvað það er glatt og sælt að vera að vinna þar. Og auðvitað er þetta hvort tveggja rétt.
Fólki finnst yfirleitt gott að vinna þar sem það hefur ákveðið að vinna - annars fer það (eða er rekið). Hitt sem er líka rétt nýtir Alcan sér út í hörgul í þessari auglýsingu - að fólk er fallegt og gott. Þetta vita ímyndarsérfræðingar Alcan vel og þess vegna sýndu þeir ekki raunsanna mynd af starfsemi álversins, hvað þá af áhrifum þess fyrir Hafnarfjörð að þrefalda hana.
Þess vegna var jólakveðja Alcan, eitt af útspilunum í kosningabaráttunni sem nú er hafin, ekki frá fyrirtækinu sjálfu heldur frá starfsfólki Alcan, fallega glaðlega fólkinu sem sem við sáum myndir af í skemmtilegu störfunum sínum.
"Lýðurinn tendri ljósin hrein!"
Alcan sendir geisladisk á hvert heimili í Hafnarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:48 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Dofri.
Þér er semsagt að virðist andskotans sama og þínum flokki um starfssemi sem er ekki að hefjast í dag á þessu svæði og veitt hefur atvinnu fjölda fólks sem býr í Hafnarfirði. eða hvað ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 28.12.2006 kl. 03:01
Mér líst ekkert á þessa stækkun. Ég bý sjálfur í Hafnarfirði og vil alls ekki stækkun. Helsta ástæðan fyrir því er að Hafnarfjörður hefur lítið laust svæði eftir fyrir íbúabyggð og eina svæðið sem í raun er eftir er svæðið sem mundi annars fara undir stækkun álversins. Svæðið (með mengunarsvæðinu) sem álverið tekur er um það bil það sama og öll byggð Hafnarfjarðar er í dag.
Auk þess er ég á móti stefnu álversins að reka gamla menn sem eru við það að fara á eftirlaun og gefa þeim ekki einu sinni skýringu á því.
kos, 28.12.2006 kl. 03:03
Guðrún María.
Það breytir engu fyrir Hafnarfjörð hvort álverið verði áfram hér eða ekki. Sjáðu bara allt fólkið sem missti vinnuna sína þegar herinn fór. Þau eru öll eða flestöll komin með aðra vinnu. Það er lítið atvinnuleysi og *hótanir* álversins að það fari og fólk missir vinnuna sína ef þeir fá ekki leyfi fyrir stækkun eru frekar lélegar þar sem flestallt eða allt þetta fólk væri búið að finna sér vinnu stuttu síðar.
kos, 28.12.2006 kl. 03:07
Hvernig stendur þá á því að Samfylkingin í Hafnarfirði hefur ekki dug til að hreinlega meina Alcan að stækka álverið? Ef það er yfirlýst stefna Samfylkingarinnar að halda aftur af stóriðju, er þá ekki auðsótt mál að framfylgja þeirri stefnu? Eða ætlið þið að láta ykkur nægja að segja að málið komi ykkur ekki við, þannig að hver og einn geti tuðað í sínu horni, líkt og þú gerir, ábyrgðarlaust og án afleiðinga? Svo þegar Hafnfirðingar kjósa (eftir dyggan heilaþvott þíns flokks þar sem þið gerið allt sem í ykkar valdi stendur til að koma í veg fyrir stækkun, annað en að taka opinbera afstöðu sem flokkur og sem meirihluta aðili í bæjarstjórn) þá getið þið bara yppt öxlum og sagt "lýðurinn hefur mælt."
Pöpulistar og tækifærissinnar eiga öruggt skjól í Samfylkingunni, eins og sést best á þeim bloggurum sem herja á landsmenn í netheimum. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þú malar um hörmungar stóriðjustefnu, en samt stendur flokkurinn þinn fyrir stækkun álversins í Straumsvík (því ekki notar hann það vald sem kjósendur hafa veitt flokknum í nýafstöðnum kosningum til að segja af eða á um stækkun, heldur skorast undan ákvörðuninni eins og heigull), virkjun fallvatna í Skagafirði, byggingu álvers á Húsavík, byggingu álvers í Helguvík, og ég veit ekki betur en að Ingibjörg Sólrún hafi eignað sér Kárahnjúkavirkjun fyrir síðustu Alþingiskosningar og gert mikið úr því að verið væri að virkja þar. Og nota bene, það var eftir að hún var fyrst á móti virkjuninni, og svo með henni, en á undan því að hún var síðan aftur á móti henni, svo með, og svo aftur pínulítið á móti.
Samfylkingin er eini stóriðjuflokkurinn sem eftir er á landinu, keppist við að koma virkjunum og álverum í hvert krummaskuð, en þykist svo vera svona heildstætt á móti stóriðju, en sértækt (fyrir hvert og eitt einstaka byggðarlag) getur stóriðja verið mjög góð lausn. Maður spyr sig, fáið þið vindhanar aldrei hausverk af þessum skoðanaskiptum?
Haukur Skúlason (IP-tala skráð) 28.12.2006 kl. 10:49
Mer finnst það lítil rök að leyfa eigi álverinu að stækka vegna þess að það hafi svo margir Hafnfirðingar unnið þar í gegnum árin, eða svo skil ég þessa sérkennilegu athugasemd Guðrúnar Maríu. Að því ég best veit er álverið ekki að leggja upp laupana, þó eigendur þess gefi í skyn að svo kunni að fara einhverntímann í framtíðinni fái þeir ekkii að stækka það.
Að mínu viti eru hagsmunir Hafnfirðinga mun meiri af því að álverið fái ekki að leggja undir sig landsvæði sem á eftir að verða verðmætasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum en það fái að stækka. Að ónefndri aukningu á mengun andrúmlofts og sjónmengun - stækkað álver verður jafn breitt og það er langt í dag.
Í dag vinna 230 Hafnfirðingar í álverinu en undarfarin ár hefur störfum fjölgað í Hafnarfirði um 240 á ári án tilverknaðar álversins. Kannski er Guðrúnu Maríu "andskotans sama" um þá staðreynd, en hún hjálpar henni vonandi til að sjá þetta mál í samhengi.
Árni Matthíasson , 28.12.2006 kl. 10:49
Ég held Dofri minn að þú sért í vitlausum flokki. Ef ég man rétt er það samstarfsfólk þitt sem ræður ríkjum í Alcanfirði.
Sjensinn Bensinn, 29.12.2006 kl. 23:32
Gleðilega hátíð
Mig langar að velta einu upp hér og það er það að Ísal hefur látið í veðri vaka að þeir loki að x tíma liðnum ef ekki verður leyfð stækkun.
Í því samhengi vil ég benda á eftirfarandi.
Hvar annarsstaðar fær Ísal rafmagn á tombóluprís ?
Hvar annarsstaðar fær Ísal mengunarkvóta frítt ?
Hvar annarsstaðar fær Ísal óheft aðgengi að köldu vatni á tombóluprís ?
Svarið við öllum þessum spurningum er hvergi. Það segir mér það að þeir loki ekki á næstu áratugum þrátt fyrir að fá ekki að stækka.
Páll (IP-tala skráð) 30.12.2006 kl. 01:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.