Á móti Sól

Vinstri grænir eiga heiður skilinn fyrir það hvernig þeir hafa staðið á móti ýmsum virkjanaframkvæmdum undanfarin ár. Oft hefur Samfylkingin staðið þeim við hlið, t.d. í andstöðunni við Norðlingaölduveitu. Stundum hefur Samfylkingin þó viljað fara nýjar leiðir, reyna að nálgast grænu málin á nýjan hátt svo það þurfi ekki sífellt að stilla sér upp á nýjum og nýjum stað til að vera á móti.

Fagra Ísland eru tillögur Samfylkingarinnar að lausn endalausrar deilu um náttúruvernd og virkjanir. Þar tilgreinir Samfylkingin 9 svæði sem hún vill vernda og leggur auk þess til aðferðafræði til að takast á við spurningar um verndun annarra svæða. Hugmyndin er einföld, Rammaáætlun um náttúruvernd þar sem byrjað er á að rannsaka öll verðmæt náttúrusvæði landsins með tilliti til verndargildis, verndun verðmætra svæða tryggð og sú niðurstaða lögð til grundvallar landsskipulagi. Þannig mætti tryggja að mannvirki, hvort heldur eru uppbyggðir vegir, hálendishótel eða aðrar framkvæmdir lendi utan verðmætra náttúrusvæða.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur stjórnmálaflokkur setur fram heildstæða áætlun um það hvernig á að ná utan um verkefnið - að skapa ramma og sátt um náttúruvernd á Íslandi. Margir hefðu talið að Vinstri grænir myndu fagna slíkum tímamótatillögum frá næst stærsta flokki landsins. Fagna því að fá jafn öflugan liðsstyrk í baráttunni fyrir náttúruvernd. Það er hins vegar ekki að sjá - þvert á móti.

Fagra Ísland eru tillögur um það hvernig má vinna í framtíðinni en breytir ekki því sem gert hefur verið í fortíðinni. T.d. ekki því að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er búin að gefa Alcan í Straumsvík starfsleyfi, að búið er að samþykkja umhverfismat fyrir virkjunum í neðri Þjórsá og að í raun er allt komið sem Alcan þarf til stækkunar nema samþykki Hafnarfjarðarbæjar á deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir stækkun. Einhverra hluta vegna virðast sumir Vinstri grænir sífellt gleyma þessu og telja að Hafnfirðingar ráði öllu um stækkun álvers í Straumsvík. Því eru þeir að sjálfsögðu á móti.

Undanfarið hafa nokkrir úr forystuliði Vinstri grænna af torskiljanlegum ástæðum deilt á Samfylkinguna í umhverfismálum fyrir það að efna loforð sitt til Hafnfirðinga um íbúakosningar í stórum málum. Margir hefðu haldið að forystufólk VG væri betur upplýst um staðreyndir í svo stóru umhverfismáli en ætla mætti af skrifum þeirra. Hér má sérstaklega nefna skrif tveggja vonarstjarna VG, Gests Svavarssonar í Mogganum fyrir skemmstu og blogg Guðfríðar Lilju auk greinar hins að því er ég taldi, fróða manns, Hjörleifs Guttormssonar í Mogga í gær. Öll virðast þau telja íbúakosningar Hafnfirðinga vera útsmogið bragð Samfylkingarinnar til að auka á stóriðjuna. Þau eru þess vegna á móti kosningunum.

Það eru íbúar í Hafnarfirði hins vegar ekki. Um 90% þeirra eru mjög ánægðir með að fá að kjósa um þetta mikilvæga mál. Þetta kann að virðast skrýtið í fyrstu en þegar maður rifjar upp hvert fylgi VG var í síðustu kosningum gengur dæmið reyndar upp.

Nýstofnuð samtök sem berjast málefnalega gegn stækkun álversins, Sól í Straumi, hafa einnig lýst yfir ánægju með það að fá að kjósa. VG virðist því líka vera á móti Sól - í Straumi.

Að þessum samtökum eiga aðild einstaklingar úr öllum flokkum eins og vera ber í þverpólitískum málum. Í stjórn samtakanna er m.a. Gestur Svavarsson frambjóðandi VG í Suðvesturkjördæmi. Sú spurning vaknar óneitanlega þegar skrifin safnast saman hvort VG hefur tekið um það strategíska ákvörðun að eigna sér baráttuna gegn stækkun álvers í Straumsvík til að bæta stöðu sína í kosningum í vor. Hvort VG hefur e.t.v. líka í sama skyni tekið strategíska ákvörðun um að tala niður tillögur Samfylkingarinnar um Fagra Ísland. Að vera á móti þeim í stað þess að fagna þeim.

Það væri auðvitað afar ómálefnalegt svo þetta er nánast óhugsandi. Það væri svona eins og að setja sjálfan sig ofar en það sem maður berst fyrir. Eins og að vilja frekar kljúfa sig frá með "sitt eigið" en að ná breiðri samstöðu um málefnin og árangri í samræmi við það. Svona eins og að vilja helst ekki að neinn sé sammála manni. Svona eins og að vilja vera "the only gay in the village".

Svona vil ég ekki hugsa um kaffivini mína - ég er alveg á móti því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

´Dofri minn þú ert að rústa Samfylkingunni og gera flokkinn að afsprengi Vg.

ÞETTA ER EKKI ILLA MEINT EN ÞÚ ERT FRAMKVÆMDARSTJÓRI FLOKKSINS ER ÞAÐ EKKI.

Vona Sf eflist og hætti að taka upp úreldar stefnur frá afturhaldsinna flokknum Vg

sparki (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 04:40

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Er ekki kominn tími til að fólkið sem í grunninn vill það sama hætti að vera stöðugt að einbeita sér af því sem það er ekki sammála um og finna leiðir til að vinna saman? Ég sé fullt af hæfi fólki bæði hjá SF og VG sem ætti að geta gert nauðsynlegar breytingar á samfélaginu okkar saman. Leggjum til hliðar gamlar væringar, því flest sem virðist út af bera í samskiptum flokkana tveggja virðist vera um einhver gömul rifrildi sem er alveg komin tími á að gleyma. Þessi heift á milli flokkana er alveg úrelt og vægast sagt hundleiðinleg.

Var ekki einhver sem sagði eitt sinn: sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér!?

Birgitta Jónsdóttir, 11.1.2007 kl. 06:25

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Verð að leiðrétta óskráðan "sparka" varaðandi eitt. Ég er frkvst. þingflokks sem er dálítið annað en framkvæmdastjóri flokksins en því vandasama hlutverki sinnir Skúli Helgason með miklum myndarbrag.

Tek hins vegar heils hugar undir orð Birgittu.

Dofri Hermannsson, 11.1.2007 kl. 08:09

4 Smámynd: Guðfríður Lilja

Heill og sæll Dofri.

Verð bara að fá að árétta að ég er ekki á móti kosningunum í Hafnarfirði. Síður en svo. Ég er mjög fylgjandi þeim. Ég skil ekki alveg hvernig orð mín voru túlkuð með þeim hætti. Það sem málið snýst um er að ég tel með öllu ólíðandi að umræðan um þetta gríðarlega mikilvæga mál þróist í þá átt að það séu fyrst og fremst talsmenn Alcan sem fjalli um það í fjölmiðlum en stjórnmálaöflin sem sitja við völd þegi þunni hljóði. Mér finnst það einfaldlega rangt og ólýðræðislegt. Það eiga allir að tala skýrt og afdráttarlaust í þessu máli og skýra út hvers vegna þeim finnst það sem þeim finnst. Einungis dýnamísk og lifandi umræða þar sem allra flest sjónarmið koma fram þjónar lýðræðinu best - og gerir fólki betur kleift að taka afstöðu. Ég tek ofan fyrir hinni frábæru baráttu Sólar í straumi. Sú barátta er gríðarlega mikilvæg og öllum þeim sem að því standa til sóma. Ég tel hins vegar einnig brýnt að pólitískir valdhafar tali skýrt, útskýri sín sjónarmið og framtíðarsýn. Hér eru á ferðinni hápólitískar spurningar sem ekki snerta bara framtíð Hafnarfjarðar eða framtíð náttúrugersema við Þjórsá heldur eru einnig mikilvægur hluti af stærri þróun sem snertir allt Ísland. Þessi skoðun mín um ólíðandi þögn kemur ekki til út af óvild í garð Samfylkingar, síður en svo, enda veit ég að þar er margt afbragðs fólk, heldur vegna þess að mér finnst svo mikið liggja undir í umræðunni að valdhöfum beri skylda til að tala skýrt í afstöðu sinni til málsins. Talsmenn Alcan tala ekki endilega fyrir hag Hafnfirðinga - það er í það minnsta ekki þeirra starfslýsing. Starfslýsing þeirra er að tala fyrir hag fyrirtækisins. Hafnfirðingar sjálfir tala fyrir sínum eigin hag og taka afstöðu til þess, og þá hlýtur leiðtogum Hafnfirðinga í bænum að bera skylda til að tala einnig fyrir því sem þeir telja vera hag Hafnfirðinga. Það er jú einmitt þeirra starfslýsing. Ef litið er svo á að skýr afstaða og upplýsingastreymi sem slík skemmi fyrir lýðræðinu, þá er mér fyrirmunað að skilja það. Það liggur svo mikið undir í þessum málum að allir verða að hefja upp raust sína. 

Með vinsemd, Guðfríður Lilja

Guðfríður Lilja, 11.1.2007 kl. 12:38

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæl Guðfríður Lilja

Samfylkingin í Hafnarfirði er að skipuleggja íbúakosningar í afar umdeildu máli. Flokkurinn er með hreinan meirihluta í bænum svo það má telja víst að um leið og forystumenn flokksins í bæjarstjórn hafa sagt opinberlega frá sinni afstöðu verði það túlkað sem "flokkslínan" í bænum. Er lýðræðislegt að þeir aðilar sem leggja mál í dóm kjósenda segi þeim hvað þeir eiga að kjósa?

Það er ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál í Hafnarfirði og þær skoðanir ganga þvert á flokkslínur. Mér finnst persónulega mjög orka tvímælis að fulltrúar í bæjarstjórn geri þetta að flokkspólitísku máli.

Það á hins vegar skilyrðislaust að upplýsa bæjarbúa mjög vandlega um alla kosti og galla og reyna með öllum ráðum að tryggja að þessar upplýsingar séu öllum bæjarbúum aðgengilegar. Vinna við þetta er að sjálfsögðu í gangi og hún er unnin í samráði við óháða aðila til að tryggja að framsetningin sé hafin yfir efasemdir um hlutdrægni.

Hvað afstöðu flokksins varðar er ekki hægt annað en að vitna enn og aftur til Fagra Íslands. Þar kemur skýrt fram að Samfylkingin vill segja stopp í virkjunarmálum, ráðast strax í framkvæmd Rammaáætlunar um náttúruvernd, tryggja vernd verðmætra náttúrusvæða og ná þar með sátt um skipulag og framkvæmdir. Þetta er afstaðan og mér finnst hún bæði skýr og auðskiljanleg.

Mér finnst líka auðskiljanlegt að Fagra Ísland breytir ekki því sem ríkisstjórn Íslands er búin að samþykkja. Í Fagra Íslandi er líka talað um íbúalýðræði sem lengi hefur verið sérstakt kappsmál Samfylkingarinnar. Samfylkingin í Hafnarfirði getur ekki svikið loforð sitt frá 2002 um að íbúar fái að kjósa um stór innanbæjarmál. Fólk, sérstaklega ábyrgt stjórnmálafólk, verður að skilja að Hafnfirðingar bera ekki ábyrgð á því sem gert hefur verið fram að þessu. Þeir hafa eingöngu skipulagsvald í Hafnarfirði.

Í þeirri umræðu sem í vændum er eru samtök eins og Sól í Straumi mjög mikilvæg. Samtökin hafa komið vel fyrir og fólk treystir því að þarna séu málefni en ekki hagsmunir einstakra flokka látnir ráða för. Það er óþarfi að taka fram hvað það er óheppilegt fyrir slík samtök þegar stjórnarmenn þeirra, áberandi frambjóðendur eins flokks, fara með gífuryrðum og árásum gegn öðrum flokki. Í bæ eins og Hafnarfirði hafa ummæli Gests félaga þíns þau helstu áhrif að fæla 57% bæjarbúa frá Sól í Straumi. Hver er tilgangurinn með því? Margir spyrja sig þess.

Þú skrifar undir með vinsemd sem mér finnst gott að sjá því skrif þín undanfarið hafa ekki borið merki mikillar vinsemdar í garð okkar kaffivina þinna.

"Það er með ólíkindum hvað Samfylkingin fær að komast upp með í þessum efnum. Samfylkingin hefur leitt þetta mál um langa hríð en felur sig svo á bak við aðra til að firra sig ábyrgð. Ég vil þá frekar biðja um úlfa sem segja rétt til nafns heldur en úlfa í sauðagærum. Veifandi "Fagra Íslandi" í annarri hendi og samningum við álrisa um allt land í hinni. Má ég þá heldur biðja um virkjanasinna sem ganga hreint til verks - ekki virkjanasinna og álvæðingarkappa sem þykjast vera eitthvað annað en þeir eru."

Ég vona að nú þegar málið hefur verið útskýrt verði breyting á.

Með mikilli vinsemd,

Dofri. 

Dofri Hermannsson, 11.1.2007 kl. 14:11

6 identicon

Sæll kæri Dofri

Mér finnst líka á skrifum þínum að það sé einhver misskilningur í gangi milli okkar flokka. Fyrir mitt leyti fagna ég því að sjá fleiri flokka móta sér stefnu í umhverfismálum og fagna því Fagra Íslandi eins og ég fagna því að VG er með skýrar línur í þessum málum og hefur ávallt verið. Ég veit ekki hvað hann sparki er að tala um afturhaldssinna í mínum flokki - því sú sýn sem við höfum í málefnunum tekur mið af framtíðinni, en ekki eingöngu einu kjörtímabili. Fagra Ísland virðist gera það líka, það er framtíðarsýn og stopp á núverandi stefnu. En það sem fólk kannski saknar mest er að sjá samstöðu innan SF um þá stefnu. Í sömu andrá og IS og flokkurinn kynnti Fagra Ísland eru flokksfélagar úti á landi að fara fram á fleiri álver og meiri virkjanir og virðast alls ekki vera tilbúnir að taka undir stefnuna Fagra Ísland og alls ekki tilbúnir að bíða með frekari framkvæmdir. En við í VG og þið í SF gætum alveg áreiðanlega sameinast um málefnið ef það væri á hreinu að flokkarnir á landsvísu væru algerlega á einu máli um það. Það sem núna þarf að einbeita sér að er því að mínu mati að fá það á hreint hvort þinn flokkur ætlar að fylgja þessum línum og það verði í raun og veru sett stopp á allar virkjanaframkvæmdir. Eins þurfum við að gæta orða okkar og framkomu við hvort annað og frekar að plægja völlinn fyrir samstarf flokkanna í vor :)

Enginn innan  VG er á móti lýðræði eða kosninum, við erum einmitt sá flokkur sem einna mest hefur talað fyrir lýðræðinu í þessu máli jafnt sem öðrum. Lýðræðið er ákaflega mikilvægt í VG og hafa verið lagðar fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu á þingi af okkar hálfu. Að mínu mati er það hin eina rétta leið, það er þjóðaratkvæðagreiðsla um stóriðjumálin samhliða alþingiskosningum í vor. Það sem mér finnst mikilvægt að átta sig á núna - ekki seinna en strax - er að álmálin og virkjanaframkvæmdir ættu að sjálfsögðu að vera mál okkar allra landsmanna, en ekki einstakra bæjarfélaga. Um framkvæmdir sem valda miklum náttúruspjöllum á landsvísu til að skaffa orku fyrir álver í Straumsvík, Helguvík og Húsavík eigum við öll að fá að kjósa, en ekki eingöngu bæjarbúar á þeim stöðum. Það er einfaldlega svo stórt mál og snertir náttúru á landsvísu, en ekki bara staðbundið. Það má því segja að mín niðurstaða sé sú að í raun sé lýðræðislegt að láta bæjarkosningar fara fram í Hafnarfirði sem væru þá leiðbeinandi fyrir bæjarstjórnina og vísbending um það hvað fólkið á svæðinu aðhyllist.... en þegar allt kæmi til alls væri svo nauðsynlegt og eðlilegt að í framhaldinu færi fram þjóðarkosning um stefnuna alla og það réði úrslitum um það hvort af stækkun og fleiri álverum gæti orðið hér á landi, því þar væri verið að kanna vilja þjóðarinnar til að vernda eða virkja náttúruna, því það er ekki hægt að gera bæði á sama tíma. 

Aðeins um djúpboranir - það er einmitt eitthvað sem ég held að SF og VG gætu auðveldlega sameinast um... að bíða með ALLAR virkjanaframkvæmdir þar til frekari rannsóknir á djúpborunum hafa farið fram á þeim jarðhitasvæðum sem nú þegar hafa verið virkjuð. Það gæti þýtt 5-10 ára rannsóknir til að komast að niðurstöðu, sem er eins og örsekúndubrot í líftíma jarðar og við ættum ekki að veigra okkur við að tala fyrir að bíða í það sekúndubrot til þess að ekki þurfi að fórna öllum náttúruperlum landsins í virkjanir. Þetta litla sekúndubrot á eftir að verða afkomendum okkar mjög mikilvægt andartak í sögu landsins sem gæti orðið til þess að þau fái líka að njóta þeirra náttúrugersema sem hér eru.

Höldum á lofti góðu sambandi milli okkar flokka minn kæri Dofri, fáum okkur frekar kaffi saman og ræðum málefnið heldur en að láta misskilning ráða skrifum okkar eða hefja eitthvað stríð milli okkar fylkinga sem báðar vilja stöðva stóriðju og vernda náttúruna. :)

Andrea Ólafs. 

Andrea Ólafs (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 23:03

7 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæll kæri Dofri

Mér finnst líka á skrifum þínum að það sé einhver misskilningur í gangi milli okkar flokka. Fyrir mitt leyti fagna ég því að sjá fleiri flokka móta sér stefnu í umhverfismálum og fagna því Fagra Íslandi eins og ég fagna því að VG er með skýrar línur í þessum málum og hefur ávallt verið. Ég veit ekki hvað hann sparki er að tala um afturhaldssinna í mínum flokki - því sú sýn sem við höfum í málefnunum tekur mið af framtíðinni, en ekki eingöngu einu kjörtímabili. Fagra Ísland virðist gera það líka, það er framtíðarsýn og stopp á núverandi stefnu. En það sem fólk kannski saknar mest er að sjá samstöðu innan SF um þá stefnu. Í sömu andrá og IS og flokkurinn kynnti Fagra Ísland eru flokksfélagar úti á landi að fara fram á fleiri álver og meiri virkjanir og virðast alls ekki vera tilbúnir að taka undir stefnuna Fagra Ísland og alls ekki tilbúnir að bíða með frekari framkvæmdir. En við í VG og þið í SF gætum alveg áreiðanlega sameinast um málefnið ef það væri á hreinu að flokkarnir á landsvísu væru algerlega á einu máli um það. Það sem núna þarf að einbeita sér að er því að mínu mati að fá það á hreint hvort þinn flokkur ætlar að fylgja þessum línum og það verði í raun og veru sett stopp á allar virkjanaframkvæmdir. Eins þurfum við að gæta orða okkar og framkomu við hvort annað og frekar að plægja völlinn fyrir samstarf flokkanna í vor :)

Enginn innan  VG er á móti lýðræði eða kosninum, við erum einmitt sá flokkur sem einna mest hefur talað fyrir lýðræðinu í þessu máli jafnt sem öðrum. Lýðræðið er ákaflega mikilvægt í VG og hafa verið lagðar fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu á þingi af okkar hálfu. Að mínu mati er það hin eina rétta leið, það er þjóðaratkvæðagreiðsla um stóriðjumálin samhliða alþingiskosningum í vor. Það sem mér finnst mikilvægt að átta sig á núna - ekki seinna en strax - er að álmálin og virkjanaframkvæmdir ættu að sjálfsögðu að vera mál okkar allra landsmanna, en ekki einstakra bæjarfélaga. Um framkvæmdir sem valda miklum náttúruspjöllum á landsvísu til að skaffa orku fyrir álver í Straumsvík, Helguvík og Húsavík eigum við öll að fá að kjósa, en ekki eingöngu bæjarbúar á þeim stöðum. Það er einfaldlega svo stórt mál og snertir náttúru á landsvísu, en ekki bara staðbundið. Það má því segja að mín niðurstaða sé sú að í raun sé lýðræðislegt að láta bæjarkosningar fara fram í Hafnarfirði sem væru þá leiðbeinandi fyrir bæjarstjórnina og vísbending um það hvað fólkið á svæðinu aðhyllist.... en þegar allt kæmi til alls væri svo nauðsynlegt og eðlilegt að í framhaldinu færi fram þjóðarkosning um stefnuna alla og það réði úrslitum um það hvort af stækkun og fleiri álverum gæti orðið hér á landi, því þar væri verið að kanna vilja þjóðarinnar til að vernda eða virkja náttúruna, því það er ekki hægt að gera bæði á sama tíma. 

Aðeins um djúpboranir - það er einmitt eitthvað sem ég held að SF og VG gætu auðveldlega sameinast um... að bíða með ALLAR virkjanaframkvæmdir þar til frekari rannsóknir á djúpborunum hafa farið fram á þeim jarðhitasvæðum sem nú þegar hafa verið virkjuð. Það gæti þýtt 5-10 ára rannsóknir til að komast að niðurstöðu, sem er eins og örsekúndubrot í líftíma jarðar og við ættum ekki að veigra okkur við að tala fyrir að bíða í það sekúndubrot til þess að ekki þurfi að fórna öllum náttúruperlum landsins í virkjanir. Þetta litla sekúndubrot á eftir að verða afkomendum okkar mjög mikilvægt andartak í sögu landsins sem gæti orðið til þess að þau fái líka að njóta þeirra náttúrugersema sem hér eru.

Höldum á lofti góðu sambandi milli okkar flokka minn kæri Dofri, fáum okkur frekar kaffi saman og ræðum málefnið heldur en að láta misskilning ráða skrifum okkar eða hefja eitthvað stríð milli okkar fylkinga sem báðar vilja stöðva stóriðju og vernda náttúruna. :)

Andrea Ólafs. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 11.1.2007 kl. 23:07

8 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Fyrirgefðu tvípóstun.

En ég vil síðan bara taka heils hugar undir orð Birgittu líka og endurtek "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" !

Hugum gætilega að samstarfi okkar flokka í vor og leyfum hjörtum okkar að slá saman í takt fyrir landið okkar og náttúruna. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 11.1.2007 kl. 23:29

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Fagra ísland tók hafsbotninn sem er umfangsmikill hluti af umhverfisvernd ekki með, í myndina, þar féll SF á prófi í því miður .

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 12.1.2007 kl. 02:04

10 Smámynd: Kristján Pétursson

Tek heilhugar undir hin fögru orð Andreu Ólafsd.:Leyfum hjörtum okkar að slá saman í takt fyrir landið og náttúra.

Fagra Ísland,rammaáætlun um náttúruvernd,þar sem öll svæði vera metin með hagsmuni náttúrunnar í fyrirrúmi.

Kristján Pétursson, 13.1.2007 kl. 14:41

11 identicon

Fagra Ísland - Marklaust plagg ?
Sæll vertu.
Þú vitnar til nýrrar umhverfisstefnu SF máli þínu til stuðnings.
Eg get ekki að því gert, en einhvernveginn tek eg ekki mikið mark á þessu plaggi ykkar. Það var ekki fyrr þornað á því blekið, en ykkar fólk í sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti að setja virkjanir í jökulánum þar inná skipulag. Það samræmist ekki vel háleitum markmiðum  S.F.sem settar eru fram í Fagra Ísland um verndun þessara sömu fljóta. Þar stendur þessi málsgrein:
Tryggja friðun Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals. Er kannski ekkert að marka ykkur í þessu efni ? 
Eða gleymdist að láta þá vita fyrir norðan?

Birgir Stefánsson (IP-tala skráð) 14.1.2007 kl. 12:30

12 Smámynd: Dofri Hermannsson

Samfylkingin í Skagafirði var búin að ganga frá samkomulagi við meirihlutamyndun í vor um að málið yrði sett á dagskrá. Samfylkingin gerði það með ýmsum fyrirvörum og tilgangur hennar var að fá upp á borðið lýðræðislega umræðu. Það hefur sannarlega tekist og má t.d. nefna að stofnuð hafa verið þverpólitísk samtök til varnar Jökulsánum í Skagafirði.

Það er rétt að leiðrétta það að Samfylkingin í Skagafirði er ekki búin að setja Villinganesvirkjun á skipulag, tillagan var sett í ferli til að fá um hana umræðu, fá athugasemdir við hana frá öllum aðilum o.s.frv. Fátt bendir til þess að tillagan verði samþykkt en umræðan hefur verið sett af stað.

Það má geta þess að Vinstri grænir ásamt Sjálfstæðisflokki settu reyndar Skatastaðavirkjun inn á aðalskipulag á síðasta kjörtímabili. Það virðist hins vegar enginn hafa sérstakan áhuga á að ræða það.

Dofri Hermannsson, 14.1.2007 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband