14.1.2007 | 15:00
Sjálfstæðisflokkurinn á móti íbúalýðræði
Árni Sigfússon vill ekki kosningu um álver í Helguvík. Hann telur að skoðanakannanir sýni svo afdráttarlausan stuðning við álverið að það þurfi ekki að kjósa. Nýstofnuð samtök gegn álveri, Sól á Suðurnesjum, benda hins vegar á að mjög lítil umræða um kosti og galla framkvæmdanna hafi farið fram. Það er auðvitað alveg rétt. Samtökin vilja opna og upplýsta umræðu um allar hliðar málsins og kosningu um málið að lokinni þeirri umræðu.
Morgunblaðið tekur með óvenju afgerandi hætti undir þetta sjónarmið í leiðara blaðsins í dag. Leiðarahöfundur tekur skýrt fram að með því sé ekki verið að taka afstöðu með eða á móti álverinu - það er hins vegar verið að taka afgerandi afstöðu með íbúalýðræði. Bent er á að íbúar hafi nú til dags allan sama aðgang að upplýsingum og kjörnir fulltrúar og það sé góð leið til að skapa sátt um stór og umdeild mál að leyfa íbúum að eiga þar síðasta orðið.
Það vekur furðu að Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ skuli taka svo einarða afstöðu gegn íbúalýðræðinu. Af orðum Árna Sigfússonar má ráða að hann vilji fá að halda áfram að leika lausnara bæjarfélagsins. Riddarann á hvíta hestinum sem útvegar fólki "örugg og vel launuð störf" þegar herinn er farinn.
Það virðist fara í taugarnar á Árna að þeir 700 sem misstu vinnu hjá hernum eru allir komnir með vinnu nokkrum mánuðum síðar. Hann lætur í veðri vaka að þetta séu mörg hver ótryggari og verr launuð störf en hann nefnir enga úttekt á því, þetta er bara eitthvað sem hann slengir fram. Mér finnst ekki ólíklegt að mörg þeirra séu betur launuð og hvað öryggi varðar þá er ekki gott að vita hverju á að trúa. Alcan í Straumsvík segist verða að hætta rekstri ef þeir fá ekki að stækka. Er það þá örugg vinna að vinna í litlu álveri í Helguvík?
Það er eins og álver í Helguvík hafi átt að vera kosningatromp sjálfstæðismanna á Reykjanesi. Bjargræði riddarans á hvíta hestinum sem kemur og frelsar óbreyttan lýðinn frá ráðleysi sínu og vesældómi. Skiljanlega finnst þeim alveg ótækt að þessi lýður fái upplýsta umræðu um málið og fái að henni lokinni að kjósa um málið.
Ekki kosið á Suðurnesjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú meira afturhaldsrausið í þér Dofri.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.1.2007 kl. 19:37
Jæja kæri frændi. Gaman að lesa hjá þér bloggið þar sem þar er svo margt sem ég get verið ósammála þér um :) enda þykist ég vera sjálfstæðismaður.
Ég er mjög hlynntur lýðræði og þykist hafa verið að berjast fyrir því innan bændastéttarinnar en hvar á að setja mörkin. Alltof dýrt er að kjósa um öll mál og þetta sem þú nefnir með álver á Suðurnesjum er alls ekki eins umdeilt og þú vilt meina. Þar vil ég setja mörkin. Ef málin virðast ekki vera mjög umdeild í skoðanakönnunum þá sé ég enga ástæðu til að kjósa um þau.
En sammála skal ég vera þér með það að málefnaleg umræða verður að vera búin að fara fram áður en ákvörðun er tekin þannig að allir geti tekið afstöðu á rökrænum grunni og þar hvílir ábyrgðin alveg eins á minnihlutanum sem er á móti framkvæmdunum :)
Ágúst Dalkvist, 14.1.2007 kl. 23:28
Vekur ekki furðu mína að þú gerir athugasemd við þetta. En eins og Árni veit þá er lýðræði helsi þess sem vill leggjast í framkvæmdir eða taka umdeildar ákvarðanir. Á ekki að koma manni á óvart að það sé að vettugi virt þar sem slíkir leiðtogar ríkja.
Kv. Bragi Þór Thoroddsen
Bragi Þór Thoroddsen (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 14:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.