17.1.2007 | 21:43
Hin þögla bylting Karíusar og Baktusar
Eitt af því sem þarf svo sannarlega að laga er endurgreiðsla á tannverndarkostnaði. Eins og staðan er í dag þá segist Tryggingarstofnun Ríkisins endurgreiða 75% af kostnaði við tannheilsuvernd barna. Það er plat.
Tryggingastofnun hefur ekki í mörg ár verið með taxta í samræmi við þá taxta sem tíðkast á meðal tannlækna. Mér sýnist á lauslegum samanburði úr heimilisbókhaldinu að taxtar Tryggingastofnunar séu tæplega 70% af eðlilegum töxtum tannlækna. Þessi 75% sem Tryggingastofnun þykist endurgreiða eru sem sagt um 50% endurgreiðsla þegar upp er staðið. En það er reyndar líka plat.
Skorufyllingar í tennur ungmenna eru mikilvægar forvarnaraðgerðir. Í fyrra þurfti að laga skorufyllingu í tönn hjá dóttur minni, það fékkst ekki endurgreitt af því það voru ekki liðin þrjú ár frá því skorufyllingin var sett í. Hefðum við hins vegar sleppt því að láta laga fyllinguna og tönnin skemmst í framhaldinu þá hefði Tryggingastofnun með glöðu geði endurgreitt 75% (lesist 50%) af þeim kostnaði.
Tannlæknar ráðleggja að komið sé með börn í tanneftirlit tvisvar á ári. Tennur eru fljótar að skemmast og því fyrr sem þess verður vart því minni er skaðinn. Auk þess er þá tækifærið notað til að hreinsa tennurnar vel og bera á þær flúor til að styrkja glerunginn. Þetta finnst Tryggingastofnun tómt bruðl og endurgreiðir aðeins helming af einni heimsókn barnanna til tannsa á ári hverju.
Ef barnið fær hins vegar skemmd í tennur, t.d. af því ekki var farið tvisvar á ári í skoðun, er ljóst að kostnaðurinn við að deyfa, bora og setja fyllingar í tennur barnsins er miklu meiri - og tönnin er ekki lengur heil. Þennan háa og óþarfa aukakostnað er Tryggingastofnun hins vegar alveg til í að endurgreiða. Að vísu ekki um 75% eins og sagt er - en u.þ.b. helming.
Eðlilega getur kostnaður við tannheilsuvernd barna eins og hér er lýst að ofan vaxið mörgum foreldrum í augum. Ég get strax látið mér detta í hug tæplega 4.000 íslensk börn sem þannig er án vafa ástatt um. Held reyndar að þau geti verið miklu fleiri.
Tannverndarkerfi Tryggingastofnunar er eins og margt annað í okkar stagbætta, úr sér gengna velferðarkerfi, sérhannað til að tryggja verri tannheilsu og meiri eyðslu á skattfé ríkisborgaranna. Það er engu líkara en að Karíus og Baktus hafi tekið völdin í Tryggingastofnun. Aumingja Jens.
Þessu þarf að breyta. Þessu þarf ný ríkisstjórn að breyta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, og hvernig ætlar þú að sjá það gert? Lækka gjaldskrá tannlækna með lagasetningu? Það er ein leið sem forræðishyggjuöflum hugnast víst vel. Eða ætlarðu að auka greiðsluþátttöku Tryggingamiðstöðvarinnar? Það er ein leið. Og þá langar mig að spyrja hvað þú telur að það myndi kosta í aukin útgjöld hins opinbera, og hvar þú ætlar að sækja þá fjármuni, því ólíkt því sem flokkur þinn álítur, þá vaxa peningar ekki á trjánum. Segjum 60.000 börn (undir 18 ára) sem fara til tannlæknis 2x á ári, meðalkostnaður per heimsókn 20.000 kr, 40.000 á ári (heildarkostnaður, bæði það sem foreldrar greiða og það sem TS greiðir nú). Þetta gerir 2.4 milljarða á ári sem greiða þarf fyrir tannlæknaþjónustu fyrir börn undir 18 ára, og ef við segjum að núna þyrftu foreldrar að greiða helming og ríkið helming. Hvar ætlar þú að fá 1.2 milljarða til að láta ríkið borga fyrir tannvernd barna? Með því að hækka skatta, geri ég ráð fyrir, þannig að þú ætlar að láta almenning eftir sem áður borga fyrir tannvernd barna, nema hvað að í stað þess að fólk hætti að greiða fyrir tannvernd sinna barna við 18 ára aldur, þegar börnin verða sjálfráða og fara væntanlega sjálf að greiða fyrir sína tannlæknaþjónustu, þá ætlarðu að láta alla launþega í landinu borga fyrir alla tannlæknaþjónustu allra barna um aldur og ævi. Nema þú viljir breyta gjaldskrá tannlækna með lagasetningu.
haukur (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 10:50
Já Dofri hér snertir þú viðkvæman (smánar)blett á heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga. Ég gæti setið lungann úr deginum og rætt hversu götótt og galið þetta kerfi okkar er en nenni því ekki. En óumdeilanlegt er að samfélagið (mér leiðist að alltaf að tala um ríkið) hefur kerfisbundið skorið niður kostnaðarþátttöku fyrir tannlækningar barna síðustu 15 ár, bara smá breytingar milli ára þannig að sem minnst takist eftir því. Til dæmis hækkuðu komugjöld á heilsugæslstöðvar um 10,5 % um áramót vegna vísitöluhækkana. Tannlæknar hafa ekki orðið varir við neina slíka vísitöluhækkun á sínum taksta enn, þó svipaður rekstur sé. Tannlæknafélagið reyndi lengi að sporna við þessari þróun en mætti litlum skilningi og fékk enga hjálp frá öðrum samtökum. (Hvar voru heimili og skóli og slík samtök þá ?) Andstaða tannlækna var bara afskrifuð sem eiginhagsmunagæsla sem hún óneitanlega var í og með. Þannig að Tannlæknafélagið gafst upp á að reyna að semja við TR og hefur því ekkert að segja um hvað og hversu mikið er endurgreitt.
Það eru sláandi tölur um fjölda barna og ungmenna sem ekki koma reglulega til tannlæknis. 20-25 % íslenskra barna í sumumm aldurshópum koma ekki reglulega til tannlæknis. Hvar var þessi þáttur í umræðunni um fátækt og fátæk íslensk börn hérna um daginn? Til þess að höggva á hnútinn vil ég leggja til að núverandi kerfi verði endurskoðað og að einhver aðili sem heyrist í taki að sé hagsmunagæslu fyrir þennan hóp, auk tannlækna. Það hefur skort. Þar að auki vildi ég sjá afsláttarkort fyrir einstaklinga og fjölskyldur sams konar og er annars í heilbrigðiskerfinu, þannig að samfélagið taki við ef kostnaðurinn stefni upp úr öllu valdi hjá einhverjum. Á sama tíma er ekki hægt að skjóta sér undan því að það að allir bera ábyrgð á eigin tannheilsu sem og sinna barna.
Helgi barnatannlæknir (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 11:19
Ég verð nú að segja það þessar tölur 20-40 þús 2x á ári eiga allavega ekki við mig. Ég borga tæpar 8 þús kr 2 x á ári og fæ svo tæpan helming endurgreiddan af því. Þannig að þessar tölur passa ekki ef að það er hirt um tannheilsu barna.
mamma sem hugsar um tannheilsu barns síns (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 12:47
"Mamma sem hugsar um tannheilsu barnsins síns", til hamingju með að hugsa vel um tannheilsu þíns barns, ég geri það nú líka. En ef við horfum til þess að til eru allar útfærslur á tannviðhaldi barna, sumir borga miklu meira en 8þ fyrir hverja heimsókn, þá getum við skotið á (án allrar ábyrgðar) að talan sé 20þ. Upphæðin sjálf skiptir ekki endilega máli, heldur er það hvernig fjármagna á aukin framlög í málaflokkinn. Ekki misskilja mig, ég er innilega hlynntur því að meira fjármagns sé sett í þetta, en ábyrgir einstaklingar vilja ennfremur leggja á ráðin um hvernig það yrði fjármagnað. Maður getur ekki gert alla hluti sem maður vill (svona eins og sumir stjórnarandstöðuflokkar tala um) án þess að spá í hvað þeir kosta og hvernig á að borga fyrir þá, slíkt er bara pólitískt birtingarform VISA fyllerís í desember.
haukur (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 13:42
Hvernig stendur á því tennur og augu tilheyra ekki heilbrigðiskerfinu, hver getur eða hver tók þá ákvörðun á sínum tíma hvaða líkamshlutar tilheyra heilbrigðiskerfinu, tannheilsa barna á að vera ókeypis, þó svo að það kosti samfélagið eitthvað, varðandi hvernig á að fjármagna þessar krónur þá mætti allveg kynna starfsmönnum ríkisins hvernig er unnið á tölvuöld og fækka eitthvað af þessum sendiráðum sem við höfum hist og her um heimin.
Páll Steingrímsson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 16:33
Það er fullkomnlega rétt hjá Páli að það er fráleitt að undanskilja tannvernd frá almennri heilsugæslu.
,,Maður getur ekki gert alla hluti sem maður vill (svona eins og sumir stjórnarandstöðuflokkar tala um) án þess að spá í hvað þeir kosta og hvernig á að borga fyrir þá, slíkt er bara pólitískt birtingarform VISA fyllerís í desember."
Þetta er raunar ágætis lýsing á vinnubrögðum núverandi ríkisstjórnar. Bara fáein dæmi af því sem hún hefur undanfarið lofað: 3.000 milljónir fyrir HÍ, 300 milljónir í tungumálakennslu fyrir útlendinga, vænar fúlgur fyrir aldraða og öryrkja - og allt þetta á að borga fyrir 2008! Í sjálfu sér góð og gegn málefni, en vinnubrögðin lýsandi fyrir það sem þú (Haukur) kenndir við stjórnarandstöðuflokkana.
Raunar er þó eðlilegt að útgjöld til heilbrigðismála aukist með árunum. Samtímis því sem hagvöxtur skapar ríkinu auknar skatttekjur, fleygir tækninni fram og fólk gerir eðlilega kröfur um að fá bestu mögulegu umönnun hverju sinni.
Gulli (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.