19.1.2007 | 16:48
Upplýsingaráðherra með fortíð
Valgerður Sverrisdóttir er virkilega að slá í gegn í starfi Utanríkisráðherra eftir brösuga byrjun. Hún fékk ekki að vera með í viðræðum um varnarsamning við Bandaríkin þótt það ætti að sjálfsögðu að vera eitt allra stærsta mál hvers utanríkisráðherra. Hún sagðist líka frekar vilja að Geir kláraði það, hún treysti honum betur. Ekki veit ég af hverju - kannski taldi hún hann betri í útlensku.
En Valgerður er að meika það í litlu málunum. Hún afvopnaði friðargæsluliðið, sendi jeppagengið heim og ljósmæður út í staðinn. Það var frábært framtak sem hefur komið manni skemmtilega á óvart. Það læðist að manni sá grunur að á meðan hún væri að fóta sig í nýju starfi hafi hún einfaldlega ákveðið að reiða sig á gott starfsfólk innan Utanríkisráðuneytisins. Starfsfólk sem e.t.v. hefur lengi verið að reyna að koma að ýmsum góðum hugmyndum sem fyrri ráðherrar hafa talið sig of merkilega til að skoða. Ef svo er þá er það bara mjög skynsamlegt af henni.
Núna er hún hins vegar aðeins að missa sig þegar hún er farin að kynna sjálfa sig sem uppljóstrara hinna dökku leyndarmála varnarmála. Það er svo sem gott að upplýsa um 50 ára gömul leyndarmál en þegar maður er um leið að búa til ný ("varnarsamningur" Geirs og Gondolessu) og hefur auk þess vafasama fortíð í þessu efni er nú tæpast verjandi að berja sér á brjóst.
Eins og fleiri hafa bent á er orkuverð til stóriðju enn eitt svartasta leyndarmál stjórnvalda. Eitt leyndarmál er þó verri og svartari blettur á ferli ráðherrans. Það er sú staðreynd að hún stakk undir stól greinargerð Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings þegar heimildarlög um Kárahnjúkavirkjun voru til umræðu. Athugasemdirnar sem Grímur ætlaðist til að Alþingi sæi áður en greidd yrðu atkvæði um málið voru þaggaðar niður.
Hún hefur reyndar haldið tvennu fram um þetta mál A) að hún hafi ekki talið innihald greinargerðarinnar þess eðlis að Alþingi þyrfti að fá upplýsingar um hana og B) að hún hafi alls ekki lesið hana fyrr en löngu seinna. Hvort sem önnur hvor skýringin eða hvorug er rétt ber ráðherrann tvímælalausa ábyrgð á því að þessar upplýsingar skiluðu sér ekki til Alþingis.
Vitað er að embættismaður í iðnaðarráðuneytinu tók við upplýsingum um erindi Gríms og þar með var málið formlega á ábyrgð ráðherrans. Sú ábyrgð er grafalvarlegt mál sem Valgerður reyndi að víkja sér undan sl. sumar og haust með því að varpa ábyrgðinni á starfsmenn ráðuneytisins. Ekki sérlega glæsilegt. Þaðan af síður trúlegt.
Það þarf enginn að segja manni að embættismaður gleymi að segja Valgerði frá alvarlegum athugasemdum eins virtasta jarðeðlisfræðings landsins um draumaframkvæmd hennar. Einmitt á þeim tíma þegar öll spjót stóðu á Valgerði vegna málsins, harðar deilur um framkvæmdina, Norsk Hydro hætt við að reisa álver og ekkert sem knúði á um málið. Ekkert nema að það voru kosningar framundan og framkvæmdirnar einmitt í hennar kjördæmi.
Líklega hentar Utanríkisráðuneytið Valgerði betur, nú er hún bara að veita neyðaraðstoð þar sem enginn gæti kosið hana þótt hann vildi. Hún getur þess vegna bara slakað á og fylgt góðum ráðum starfsmanna utanríkisráðuneytisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.