21.1.2007 | 17:11
Sammála Samfylkingunni
Guðmundur Ólafsson tekur eindregið undir með Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingunni um vaxtaokrið í landinu og erfiðleika okkar með krónuna sem gjaldmiðil. Í Silfri Egils í dag sýndi hann með skýrum hætti að bankarnir hafa um langt árabil okrað á landsmönnum. Hann benti líka á að það væri gríðarlega erfitt fyrir bæði fólk og fyrirtæki í landinu að nota íslensku krónuna sem gjaldmiðil.
Gjaldmiðill þarf að geta geymt verðmæti, t.d. sparnað til efri ára. Það gerir krónan alls ekki, ekki nema með flóknum verðbótaútreikningum. Það sama er uppi á teningnum þegar tekin eru lán - gjaldmiðillinn er í eðli sínu svo óstöðugur að hann það þarf að tryggja hann í bak og fyrir með verðtryggingu. Hún virkar þannig að það er sama hvað krónan hoppar og skoppar og verðbólgan er há - verðtryggingin sér til þess að skuldarinn tekur alla áhættuna á sig.
Í þriðja lagi benti Guðmundur á þá hindrun sem íslenska krónan er í samskiptum íslenskra fyrirtækja við erlenda aðila. Áhugi þeirra dvínar til muna þegar þeir sjá flækjustigið á uppgjörum fyrirtækjanna þar sem útreikningar á verðbótum og verðbólgu eru svo flóknir að enginn botnar neitt í neinu. Það er svona eins og að reyna að gera hæðarmælingu í haugasjó og eðlilega hætta hinir tilvonandi erlendu aðilar snarlega við.
Það er undarlegt að það þurfi allt að fara á annan endann bara við það að Ingibjörg Sólrún skuli tala um þá staðreynd að krónan dugar okkur alls ekki lengur sem gjaldmiðill. Ég verð að viðurkenna að þetta finnst mér líka. Núna þegar öll viðskipti eru að verða alþjóðlegri - af hverju ættum við þá að ríghalda í þennan óstöðuga gjaldmiðil sem með verðbólgu og verðtryggingu er að sliga heimilin og smærri fyrirtæki í landinu. Íhaldsflokkarnir tveir finnst mér að ættu að gera grein fyrir því hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér í hnattvæddum heimi og með krónuna sem gjaldmiðil Íslendinga.
Ingibjörg Sólrún hefur sagt að hætta þurfi þeirri stóriðjustefnu sem hér hefur verið rekin og sér ekki fyrir endann á. Hún hefur sagt að bæði af umhverfisástæðum og einnig af efnahagslegum ástæðum verði að snúa af þessari stóriðjubraut. Það eigi að nota tækifærið og gera Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt náttúrusvæði og tryggja verndun þeirra.
Bjarni Ármannsson, bankastjóri tók í fréttum á Rúv í dag undir orð Ingibjargar hvað stóriðjuna varðar en hann telur að áframhaldandi stóriðja sé mjög varasöm við núverandi efnahagsaðstæður. Það er ljóst að ef halda á áfram á stóriðjubrautinni þarf að halda niðri öðrum atvinnugreinum næstu árin. Sem sagt - hendum út um gluggann allri hátækni og fjársveltum ferðaþjónustu áfram eins og hægt er.
Það verða samt ekki einu fórnirnar. Það verður engin leið að ráðast í átak í samgöngumálum. Því hafa stjórnarflokkarnir lofað á hverju kosningaári og svikið jafnoft.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.