Súr hvalur

Mér finnst súr hvalur góður sem þorramatur en það þarf ekki að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni þess vegna. Hvalur sem súrnar og þránar í geymslum Kristjáns Loftssonar er hins vegar ekki til gleði eða gagns fyrir neinn. Það er þvert á móti ansi súrt fyrir ferðaþjónustuna og útflutningsgreinar sem byggja á jákvæðri og hreinni ímynd landsins.

Þegar sjávarútvegsráðherra Einar Kr. Guðfinnsson lagði af stað í þessa krossferð taldi hann að hún væri góð leið til að höfða til þjóðerniskenndar okkar. Góð aðferð til að afla sér vinsælda - og atkvæða. Hann ætlaði að verða svona "Braveheart" litlu stoltu þjóðarinnar sem yfirgangssamur og firrtur heimur vill ekki leyfa að veiða hval.

Það var búið að benda honum á að ekki var til markaður fyrir kjötið. Hann hlýtur líka að hafa vitað að þetta kæmi sér illa fyrir ímynd landsins, útflutningsgreinarnar og ferðaþjónustuna. Hann var til skamms tíma formaður Ferðamálaráðs. Samt hóf hann þessar vinsælda- og atkvæðaveiðar án þess svo mikið sem hringja eitt símtal í þessa hagsmunaaðila. Dálítið vanhugsað.

Dálítið eins og vera ráðherra og rjúka af stað í lundaveiðar án þess að hafa leyfi.


mbl.is Grænfriðungar: Japanar eiga birgðir af óseldu hvalkjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég sé nú ekki að Einar Kr. hafi aflað sér mikilla vinsælda með þessu. Satt að segja finnst mér líklegra að ráðuneytið hafi ekki talið sig geta staðið lengur í veginum fyrir því að farið yrði að þingsályktunartillögu um hvalveiðar sem samþykkt var fyrir nokkrum árum.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.1.2007 kl. 17:02

2 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Mér finnst súr hvalur líka góður en ég vil hann helst ekki gamlan og þránaðan úr gömlum geymslum. Er ekki hægt að nota þetta í hundafóður ? Borgar þetta sig virkilega ?

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 23.1.2007 kl. 17:12

3 identicon

Það má ekki heldur gleyma þeim fjármunum (xmillj.)sem byrjað er að verja í að kynna "málstað" íslendinga.

Tala um að skjóta sig í fótinn,,,,,, með hvalskutli

Jón Baldur Hliðberg (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 17:18

4 identicon

Ég var hálf súr á svipinn þegar ég vaknaði í morgun, en súrinn hvarf um leið og ég las þennan frábæra pistil. Takk Dofri, deginum er bjargað.

Björk Vilhelms

Björk Vilhelmsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 11:19

5 identicon

Af hverju ætti að banna þessar veiðar? Hvalur er ekki í útrýmingarhættu og því óþarfleg valdbeiting ríkisins að banna þær, bara til að banna þær. Ég vann á hvalaskoðunarbát í tvö sumur (hjá fyrirtæki sem, eins og örugglega öll hin skoðunarfyrirtækin) var í gargandi mínus þrátt fyrir veiðibann. Skoðendurnir voru mjög áhugasamir, tóku myndir og andköf og hvaðæna – og spurðu svo flestir á hvaða veitingahús þeir ættu að fara til að smakka hval!! Talandi um misskilning að veiðar og skoðun geti ekki farið saman.. Og ef það er ekki markaður fyrir kjötið eru áhyggjurnar óþarfar – veiðunum verður hætt!

Ásta (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 11:21

6 identicon

Það er afar sérstakt að fylgjast með því hversu miklar áhyggjur allir umhverfisverndarsinnar virðast hafa af kjötinu hans Kristjáns Loftssonar. Þeir sem þekkja til Kristjáns vita að hann er einhver beinskeyttasti viðskiptamaður landsins og hefur ekki verið frægur fyrir að taka þátt í óarðbærum verkefnum. Hví skyldi hann gera það nú?

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 13:26

7 identicon

ég er áhugamaður um þetta hvalamál, væri til í að vita hver benti sjávarútvegsráðherra á að væri ekki markaður fyrir hvalkétið, get ég náð í þessa ábendingu einhversstaðar?? Er þetta á vef einhvers fyrirtækis sem er í þessum bransa, þ.e. að benda ráðamönnum hinna ýmsu þjóða á svona mál!!! Bíð spenntur. Fékk mér hránn hval í soya á sunnudaginn.....engu líkt.

Halldór (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 13:30

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Hér er t.d. sjónvarpsfrétt frá 3. júní 2005. Ég gæti bent á mýgrút af öðrum dæmum, m.a. því sem japanski sendiherrann sagði í haust að það væru litlar líkur á að Japanar færu að flytja inn eitthvað sem væri of mikið til af í Japan. Kv. Dofri.

Enginn gróði af hrefnuveiðum

Kostnaður við hvalveiðar í vísindaskyni á síðustu tveimur árum er mun meiri en tekjur af sölu aflans. Markaður fyrir kjötið er mjög lítill.  Þetta kemur fram í skýrslu sem gerð var fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Hafrannsóknastofnun hóf fyrir tveimur árum umdeildar veiðar á hrefnu í vísindaskyni. Fram kemur í skýrslunni að kostnaður við veiðarnar var tæpar 200 milljónir króna. Þar af 106 milljónir við kynningar á málstað Íslendinga erlendis og kostnaður Hafrannsóknastofnunar og greiðslur til veiðimanna námu um 90 milljónum. Samkvæmt skýrslunni greiðir ríkissjóður því um 700 krónur fyrir kílóið af hrefnu. Þeir sem veiddu hrefnuna fengu að kaupa aflann á um 300 til 350 krónur kílóið árið 2003 en 130 krónur á liðnu ári. Það er því ljóst að ríkið greiðir talsvert með veiðunum enda eru þær stundaðar í vísindaskyni. Hins vegar hefur veiðimönnunum gengið illa að selja kjötið og talið er að til séu 32 til 37 tonn af óseldu hrefnukjöti hér á landi. Í skýrslunni segir að neytendamarkaður fyrir hvalkjöt í smásölu, í samkeppni við aðra kjötvöru, sé lítill og flest bendir til að hann minnki enn frekar. Hlutur hrefnukjöts á íslenskum kjötmarkaði er um 0,02% til 0,07%.  Þorsteinn Siglaugsson, rekstrarhagfræðingur hjá GJ fjármálaráðgjöf: Okkur virðist af þeim gögnum sem við höfum dregið saman, að kannski almennur neytendamarkaður fyrir hvalkjöt sé tiltölulega lítill og hverfandi, sem kannski gæti verið hugsanlega 15 tonn hérlendis á ári, eitthvað svoleiðis. Og virðist, þróunin virðist svona svipuð annars staðar, eins og í Japan og Noregi.  Sjávarútvegsráðuneytið á eftir að ákveða hversu margar hrefnur verða veiddar í sumar en það er ólíklegt að það takist að selja kjötið, sér í lagi ef kvótinn verður aukinn.  Þorsteinn Siglaugsson: Það er svona ólíklegt að miðað við núverandi aðstæður væri einhver mikið stærri markaður fyrir það kjöt þá.  Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtakanna dregur ákveðnar ályktanir af þessu?  Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands: Okkur sýnist að það sé ekki mikil framtíð í hvalveiðum við Ísland. Það væri mun skynsamlegra að fjárfesta í hvalaskoðun frekar en hvalaveiðum, það er okkar niðurstaða í þessu máli.

Dofri Hermannsson, 24.1.2007 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband