Álstæðisflokkurinn, stefnuleysið og óeiningin

Það var athyglisvert að horfa á Ísland í bítið (aftast í þættinum) þar sem þau mættust til að ræða pólitík þau Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi Samfylkingingarinnar í SV og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdalls.

Formaður Heimdalls taldi greinilega að hún myndi fara létt frá þeirri viðureign og ætlaði að fara enn og aftur með klisjuna um margar skoðanir Samfylkingarinnar á hinu þessu öfugt við blessaðan Sjálfstæðisflokkurinn þar sem allir eru sammála. Það hefði hún ekki átt að gera.

Hún varð t.d. að viðurkenna að hún væri persónulega mjög andvíg sauðfjársamningnum svokallaða og að um hann væru afar deildar meiningar innan Sjálfstæðisflokksins. Það er auðvitað ekki eina málið - t.d. má rifja upp að núna eru Sjálfstæðismenn að fara í þriðju kosningarnar í röð í fullkominni innbyrðis ósátt um kvótamálin. Þó er landsfundur þeirra búinn að álykta um málið sem einnig er bundið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að skuli leiða til lykta á kjörtímabilinu. Ekkert annað en bullandi ágreiningur sjálfstæðismanna innbyrðis kemur í veg fyrir að þetta mikilvæga mál verði afgreitt úr stjórnarsrkárnefnd.

Erla Ósk ætlaði líka að gera sér mat úr því að Samfylkingin talaði of mikið um stefnumál flokksins. Það er von að henni finnist það - sjálfstæðismenn tala ekki mikið um slíkt. Þeir eru fullvissir um að þeir hafi stefnu og það er nóg. En hafa þeir hana?

Guðmundur Steingrímsson spurði Erlu Ósk hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn hefði í umhverfis- og stóriðjumálum. Hún gat engu svarað, nema að hún reyndi að veifa töfraorðunum "hægri grænir" og vísaði þar til einnar greinar sem Illugi Gunnarsson skrifaði í sumar þegar hann var búinn að ákveða að fara í prófkjör. Sami Illugi og trúir ekki að hlýnun andrúmslofts sé af manna völdum. Það er öll stefnan!

Það hefur engin vinna farið fram innan flokksins, engin stefna verið mótuð, engar tillögur verið gerðar og lagðar fyrir flokkinn. SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN HEFUR ENGA STEFNU í þessum málum! Svo einfalt er það. Hann hefur hins vegar óopinbera stefnu sem bragð er að. Álbragð.

Formaður flokksins segist persónulega vera hlynntur stækkun álversins í Straumsvík og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reyjanesbæ er sannarlega hlynntur álveri í Helguvík. Telur það brýna nauðsyn til að bæta við álstörfum í bæ þar sem atvinnuleysi er lítið sem ekkert og störfum við flugstöðina fjölgar um 100 á ári. Friðrik Sófusson, fyrrverandi ráðherra fyrir sama flokk, er eins og menn vita afskaplega hrifinn af áli.

Er ekki réttast að kalla þennan flokk ÁLSTÆÐISFLOKKINN?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erla Ósk kom reyndar ágætlega út úr þessum þætti. Hún gat svarað málefnalega á meða Gummi Steingríms gat ekki gefið nein haldbær svör frekar en fyrri daginn.

Það er ekkert óeðliegt við það að formaður Heimdallar hafi horn í síðu aukinna ríkisútgjalda. Heimdallur hefur oft í gegnum árin gagnrýnt flokksforystuna ef þess þarf. Það er heldur ekkert óeðlilegt við það að í stórum flokki séu uppi ólík sjónarmið. Erla Ósk svarar vel sem formaður Heimdallar og lætur ekki sitt eftir liggja í að veita flokknum aðhald. Það má vel vera að ungliðarnir í Samfylkingunni þori ekki að gera slíkt hið saman.

Þú segir að Illugi trúi því ekki að hlýnum jarðar sé af mannavöldum. Er það bara staðreynd? Getur ekki verið að vísindamönnum greini á um slíkt? Eða hefur þú bara ákveðið að þetta sé staðreynd upp á eigin fiska? Mátti Erla Ósk ekki vísa í framtíðarþingmannsefni Sjálfstæðisflokksin?

Nei, nú ertu að kasta grjóti úr glerhúsi Dofri. Getur verið að þú sért að beina athyglinni frá vandræðagangi Samfylkingarinnar?

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 15:01

2 Smámynd: Magnús Þorlákur Lúðviksson

Það ætlar enginn að segja mér að Erla Ósk hafi komið vel út úr þessu viðtali, núna eru flokksgleraugun að blekkja þig. Erla gat ekki gert grein fyrir almennri stefnu Sjálfstæðisflokksins, "flokkurinn stendur einfaldlega fyrir það sama og alltaf" og hún sýndi fram á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu í umhverfismálum þrátt fyrir að reyna lipurlega að sneiða hjá spurningunni með því að tala um vandræði Samfylkingarinnar.

Ég er hins vegar alveg sammála þér þegar þú segir að það sé ekkert óeðlilegt við það að í stórum flokki séu uppi ólík sjónarmið. Sá punktur sem Guðmundur var að reyna að sýna fram á var hins vegar hræsni Sjálfstæðismanna. Minnsti ágreiningur milli fólks innan Samfylkingarinnar er ætíð básúnaður sem stefnu- ja eða ístöðuleysi Samfylkingarinnar af spunalæknum Sjálfstæðisflokksins. Sú trú virðist ríkja að með því að segja það nógu oft fari allir að trúa því. Auðvitað ríkja ólík sjónarmið innan Samfylkingarinnar en það á líka við um alla hina flokkana.

Magnús Þorlákur Lúðviksson, 31.1.2007 kl. 16:13

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Fyndið að þú skulir segja Gísli Freyr að Erla hafi komið vel út úr viðtalinu. Þú hefur kannski ekki hlustað?

Ég fór næstum því að hlæja að hlusta á gelluna. Hún barðist í bökkum við að segja hlustendum hversu ótrúverðug SF væri vegna ólíkra skoðana í flokknum og stefnuleysi, en sagði í næsta orði hversu frábært það væri í XD þar sem ólíkar skoðanir rúmuðust innan flokksins?!?!? Grátleg mótsögn þar á ferð.  Hún tuggði á því að stefna XD væri svo skýr og flott en gat svo ekki svarað hver stefnan væri í stóriðju- og umhverfismálum. Hún krafsaði í bakkann, en það bara var ekki að virka því hún gat ekki svarað, það er bara svo einfalt að XD hefur ekki mótað neina stefnu í stóriðju- og umhverfismálum.

Vilt þú ekki líka bara kanna hversu margir vísindamenn eru í þeim hópi sem efast um að hlýnun jarðar stafi af mengun frá mönnum? Þeir eru varla til - það er staðreynd já. Kannaðu málið. Kíktu líka á myndina hans Al Gore. Það eru hins vegar svona spunapennar sem eru ekki vísindamenn og hafa ekki kannað málið sem er borgað fyrir að skrifa á móti þessum vísindum - því þarna eru miklir peningahagsmunir í húfi fyrir USA sérstaklega kannski.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 31.1.2007 kl. 20:10

4 identicon

Sæll Dofri
Ég ætla að biðja þig um skrifa ekki fleiri pistla eða ræða frekar um Sjálfstæðisflokkinn fyrr en þú hefur lesið stefnuskrá hans.
www.xd.is

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 21:31

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Merkilegt að Samfylkingarmaður skuli vera að slá sér upp í umræðum um umhverfismál. Samfylkingin hefur einu sinni tekið algera u-beygju í þeim málum þannig að hafi einhver trúverðugleiki verið til staðar hjá flokknum í málaflokknum er hann rokinn út í veður og vind. Samfylkingarfólk í Hafnarfirði, á Húsavík og á Austurlandi eru síðan ekki beint á sama máli í stóriðjumálum og flokksforystan (þ.e. eins og skoðanir hennar eru í augnablikinu).

Gleymum síðan ekki að Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika með dyggum stuðningi Samfylkingarinnar og ekki sízt núverandi formanni flokksins Ingibjargar Sólrúnar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 31.1.2007 kl. 22:04

6 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Það er ljóst á þessari umræðu að það er sjálfsagður hlutur í Samfylkingunni að mega hafa aðra skoðun en forustan, þar er það viðurkennt og komist svo að samkomulagi,  það sama er ekki hægt að segja um Sjálfstæðisflokkinn.  Þar þurfa allir að lúta forustunni, ef ekki þá .......

Óðinn Þórisson hvernig værir að þú skoðaðir stefnuskrá Samfylkingarinnar.

Áslaug Sigurjónsdóttir, 1.2.2007 kl. 00:24

7 identicon

14-2 fyrir Gumma!

Ámundi (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 00:41

8 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ef við erum að tala um náttúruvernd....  Og hnattræna hlýnun, skiptir þá alls engu máli hvort að orkan sem notuð er til að framleiða vörur (ál, stál, og hvaðeina)  sé ekki að framleiða gróðurhúsalofttegundir í stórum stíl???????

Skiptir það engu máli ?????

Sextánfalt, ég endurtek, sextánfalt magn gróðurhúsalofttegunda fer út í andrúmsloftið, ef álið sem framleitt er á íslandi væri til dæmis framleitt í Afríku, með kolum eða olíu.

Skiptir það engu máli?????

Eiður Ragnarsson, 1.2.2007 kl. 01:20

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú virðast álstæðismenn búnir að tvöfalda þann mun sem á að vera á milli magns gróðurhúsalofttegunda sem fer út í andrúmsloftið á Íslandi miðað við kol eða olíu í Afríku. Hingað til hefur talan verið átta en ekki sextán í öllum umræðum en Eiður Ragnarsson margfaldar hana léttilega með tveimur.

En það er tilgangslaust fyrir hann því samanburðurinn er rangur, hann á að vera á milli vatnsorkuvers á Íslandi eða vatnsorkuvers í Suður-Ameríku eða Afríku, en 60 sinnum meiri vatnsorku er að finna í þessum álfum en á Íslandi.

Þá verður samanburðartalan Suður-Ameríku í hag því að skipin sem flytja hráefnin til Íslands og hráefni út í staðinn blása meira af gróðurhúsalofttegundum út í loftið á löngu siglingaleiðunum til Íslands.

Það er þarft verk að fletta ofan af stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum sem allra oftast. Þar liggur höfuðsök íslenskrar hneisu í þessum málaflokki þótt vesalings Framsóknarflokkurinn látið písl sína í té til að ná fram meirihluta á þingi fyrir náttúruspjallastefnunni.

Ómar Ragnarsson, 1.2.2007 kl. 01:39

10 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll Ómar.

Mér finnst það leitt að þekktur maður eins og þú skulir uppnefna þá sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn og kalla þá Álstæðismenn.

Mér finnst þú frekur og gerir lítið úr skoðunum þeirra sem vilja framfarir í okkar landi. þú hefur komið með ýmsar tillögur og ein þeirra er algjört rugl eins og ferðamannadraumsýn þín að láta ferðamenn árita nafn sitt á virkjunarvegginn og hætta við Kárahnjúkavirkjun. Af hverju ferð þú ekki sjálfur að vinna við ferðamannaiðnað með  innan við 200.000 á mánuði.  Ert þú fylgjandi láglaunastefnu?

Eins og ég hef alltaf sagt ?  Virkjum í sátt við náttúruna og höldum áfram að byggja landið upp til hagsældar þeirra sem eiga eftir að erfa landið.

Það er mín skoðun miðað við að lesa þína pistla þá átt þú að ganga í flokk Vinstri- græna og tala fyrir skoðunum þínum þar enda er flokkurinn orðinn 20 prósent flokkur af afturhaldssinnum sem berst fyrir því að auka hlut láglaunastétta í okkar landi.

Það verða allir að fá tækifæri á að lifa í okkar dýrasta landi heims ekki satt?

Kveðja ÁÞ

Rauða Ljónið, 1.2.2007 kl. 05:19

11 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ágæti/ágæta ÁÞ.

Byrjum á þessu: Það er aumingjaskapur að setja fram harða gagnrýni á persónur undir dulnefni. Ég ávarpa þig því eins og þú kvittar undir, með fangamarki þínu (ertu kannski á D-lista í Suðurkjördæmi;-).

Það er í meira lagi undarlegt að væna Ómar um að vilja skapa eintóm láglaunastörf á Íslandi. Í fyrsta lagi þá er það algjörlega kolrangt hjá þér að stóriðja skapi hálaunastörf og að öll önnur störf séu láglaunastörf. Vissir þú t.d. að laun félaga í Rafiðnaðarsambandinu hjá Norðuráli eru undir meðallaunum rafiðnaðarmanna á almennum markaði?

Og að spyrja Ómar hvort hann langi í 200 þúsund kr. starf er lýsandi fyrir fullkomið skilningsleysi þitt á því hvað hann hefur lagt af mörkum fyrir verndun landsins. 200 þ á mánuði væri að ég tel risastökk upp á við fyrir Ómar sem hefur unnið launalaust árum saman við að kynna Íslendingum hina hliðina á virkjunarstefnunni. Hann á betra skilið en aðdróttanir þeirra sem ekki þora að skrifa undir eigin nafni (dálítið kómískt fyrir svo huglitla menn að velja sér ljón sem táknmynd!)

Landsvirkjun, Framsókn og Álstæðisflokkurinn hafa undanfarin ár eytt milljörðum í að sannfæra Íslendinga um ágæti stóriðjustefnunnar - Ómar hefur verið að benda okkur á verðmæti þess sem við erum að fórna fyrir tombóluprísarafmagnið.

Þannig að - næst þegar þú ákveður að ráðast að persónum fólks á þessari síðu - ertu þá til í að gera það undir nafni?

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 1.2.2007 kl. 09:20

12 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Það ætti nú að draga Rauða Ljónið til svara um það hvort hann er fylgjandi ríkisframkvæmdum þegar XD gerir þær, en ekki þegar aðrir flokkar gera þær? Reyndar er þessi ríkisframkvæmd engan veginn í anda okkar vinstri stefnu sem einmitt vilja framfarir í landinu, en ekki afturfarir eins og þessa. 

Það er líka mikill misskilningur hjá Rauða Ljóninu að þetta sé á einhvern hátt hagkvæm framkvæmd, það eru allir hagfræðingar sammála um, meira að segja frjálshyggjuhagfræðingarnir geta ekki varið þetta þrátt fyrir að "þeirra" flokkur sé í framkvæmdunum.  

Einnig vil ég draga Rauða Ljónið til ábyrgðar fyrir orð sín um að VG sé afturhaldsflokkur sem vilji láglaunastefnu eða auka hlut láglaunastétta í landinu. Ef þú meinar að við viljum tryggja láglaunafólki hærri laun, þá er það rétt - en hitt að við viljum halda fólki niðri á lágum launum er ekki í okkar anda, en það er einmitt það sem sjálfstæðisflokkurinn er að gera. Skattbyrði hefur aukist á þá lægst launuðu, kaupmáttur þeirra launa ekki hækkað í samræmi við aðra hópa, lágmarkslaunum haldið niðri og skattleysismörkum líka. Allt eitthvað sem við í VG viljum bæta úr.

Hvað varðar láglaunastefnu þá ættir þú að kynna þér hvað Alcoa á Reyðarfirði ætlar sér að greiða í laun þar, en launin fyrirómenntað fólkið á gólfinu eru langt undir 200þús. Þau eru rétt yfir 100þús. Það myndu ekki teljast hálaunastörf í dag. Vel má vera að Alcan í Hf. greiði hærra en þetta. 

Það bara verður að viðurkennast og það sem fyrst, að þessi framkvæmd öll eru hin mestu mistök. Það verður að koma til ný stjórn sem leggur áherslu á náttúruvernd og styður fólkið í landinu til að koma eigin hugmyndum í framkvæmd. Mér finnst eins og ég sé að tala fyrir stefnu XD stundum, en þeir virðast hafa undið kvæði sínu í kross. Þeir eru komnir í ríkisframkvæmdir í massavís, en hafa EKKERT gert til þess að fólkið úti á landi sé gert auðveldara fyrir að stofan sín eigin litlu fyrirtæki sem gætu skaffað fullt af fólki vinnu. En aftur á móti erum við í VG að tala fyrir því. Hvað er þá hægri og hvað er vinstri eiginlega? ;) 

Andrea J. Ólafsdóttir, 1.2.2007 kl. 13:28

13 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll Dorfi.

Mér finnst nú óþarfi að kalla mig aumingja fyrir það að láta upphafstafina mína undir skrif mín.

En málið er það að ég tel að flestir viti það hver ÁÞ er í Hafnarfirði sem þýðir Árelíus Örn Þórðarson.

Ég vil líka segja það að mér finnst vænt um þjóðsagnarpersónu okkar  hinn eina og sanna Ómar Ragnarson og finnst sárt að hann taki þátt í þessum leðjuslag með uppnefningu á flokkum.  Ég vona svo sannalega að SF fari nú að skoða sinn gang og fæla ekki alla þá framfarasinna úr flokknum?  T.d finnst mér að þú eigir hvergi annarstaðar heima en með Vg.  Ég hef alltaf sagt að ég og hinn mæti maður Ómar Ragnarson gætum örugglega verið samstíga í stjórnmálaflokki.  Við erum báðir umhverfissinnar og viljum framfarir til hagsbótar fyrir land og þjóð en við erum með mismunandi leiðir. Ég tel að ég og Ómar viljum skynsemi og virkjað sé í sátt við náttúruna og málefnaleg umræða verði um þau mál.

Fagra Ísland segir lítið ef engin samstaða er með allt það fagra innan flokksins þíns.

Fólk vill traust og ákveðið svar um það hvort flokkurinn þinn vilji ekki virkja olíuauðlyndir okkar um aldur og æfi.

Vona svo sannalega að það verði hér flokkur jafnaðarmanna á Íslandi með gjöfuga stefnu.

Óska Samfylkingunni alls hins besta og megi hún rétta úr kútnum.

Kveðja í bili

Árelíus Örn Þórðarson sem skrifar ÁÞ undir svör Ljónsins.

Rauða Ljónið, 2.2.2007 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband