Sigur Samfylkingarinnar

ICON_vefur_Sprotaland_RGB_JPEGÁ föstudaginn var héldu Samtök Iðnaðarins og Samtök Sprotafyrirtækja svokallað Sprotaþing. Að þessu sinni var þingflokkum stjórnmálaflokkanna boðið að koma með 1-3 þingmál sem miðuðu að uppbyggingu hátækniiðnaðarins, fá gagnrýni fagaðila og breytingartillögur og loks atkvæðagreiðslu þingsins um hvaða tillögur þættu bestar. Samtals mættu þingflokkarnir með 13 þingmál til að leggja í dóm Sprotaþings.

Samfylkingin hefði getað mætt með a.m.k. 12 vel undirbúnar tillögur því allt frá því snemma á síðasta ári hefur flokkurinn unnið mikla vinnu í að finna leiðir til að styrkja nýja atvinnulífið. Samfylkingin var þess vegna búin að setja saman stóra tillögu um Hátækniáratuginn - verkefni til næstu 10 ára þar sem markvisst væri unnið að því að búa hátækni- og þekkingariðnaðinum góð vaxtarskilyrði.

Við mættum til leiks með þrjár tillögur alls, tvær úr Hátækniáratugnum og heildartillöguna til að sýna að við vitum að hér þarf að taka á málum með heildstæðum hætti. Mat þeirra tæplega 200 gesta Sprotaþingsins á því hvaða þrjár tillögur væru bestar voru eftirfarandi:

  1. Tillaga Samfylkingarinnar um að stórefla Rannsóknar- og Tækniþróunarsjóð
  2. Tillaga Samfylkingarinnar um að koma upp endurgreiðslukerfi á R&D kostnaði
  3. Tillaga Samfylkingarinnar um Hátækniáratuginn

Tillögur annarra flokka voru líka margar góðar en gestir Sprotaþings höfðu á orði að Samfylkingin hefði lagt mun meiri vinnu í sínar tillögur en aðrir þingflokkar. E.t.v. er eitthvað til í því. Alla vega hefur Samfylkingin lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að búa Nýja atvinnulífinu sem best skilyrði. Hér fylgir hugur máli.

Vinni Samfylkingin sigur í vor þá er ljóst að Nýja atvinnulífið vinnur sigur í framhaldi af því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Bjartsýnn Dofri.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.2.2007 kl. 00:35

2 identicon

Kæri Dofri

Aftur þykir mér Samfylkingin vera einum of dugleg að "eigna" sér eitthvað sem hún á ekki. ég skrifaði þetta hér að neðan á annað blogg um sama misskilninginn.

Ég vil alls ekki vera of neikvæður og fagna því mjög að þið hafið tekið upp þessa baráttu. Ég óttast reyndar aðeins að sjálfstæðisflokkurinn fari í vörn þegar þið leggið þetta fram en sjáum samt til því varla getið þið eignað ykkur neitt þarna.
Þetta sprotaþing er að nokkru leyti framhald af hugaflugsfundi sem Vísinda- og tækniráð hélt fyrir rúmu ári í Reykholti. Það var ótrúlega skemmtilegur fundur og þar komu nú þessar hugmyndir fram ásamt ca 100 öðrum. Fundarmenn (fagaðilar - engir stjórnmálamenn) gáfu hverri tillögu stig og þannig var hægt að búa til lista yfir þau verkefni sem flestir töldu mikilvægust.

Þar fékk m.a. verkefnið "Efla samkeppnissjóði vísinda, tækni, nýsköpunar og framhaldsnáms" 8,7 af 10 mögulegum og var hæst í forgangsröðun. Önnur sem skoruðu hátt fjölluðu um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði sprotafyrirtækja, eflingu hátækni og fleira í þessum dúr. Það er einhver útdráttur úr þessari skýrslu á vef vt.is.

Það lítur því allt út fyrir það að þið hafið valið þarna þau verkefni sem flestir voru sammála um og lagt þau fram sem ykkar eigin.  Annars á það ekki að skipta máli hvaðan gott kemur en ég tel þó verulega vafasamt að ríkið endurgreiði kostnað við það sem það hefur nú þegar lagt pening í.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 03:07

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll Hákon Hrafn

Það virðist sem við séum sammála um fæst. Fyrir mitt leyti er ég afar sáttur við það. Tillögur Samfylkingarinnar í stóru tillögunni um Hátækniáratuginn voru 12 talsins og fæstar þeirra eru frá upphafi til enda hugarsmíð okkar. Því heldur enginn fram enda engin ástæða til.

Staðreyndin er sú að í nágrannalöndum okkar er þegar búið að framkvæma flest af því sem verið hefur í umræðunni hér heima. Samtök Iðnaðarins, Samtök Sprotafyrirtækja og Samtök fyriritækja í upplýsingatækniiðnaði ásamt fleiri aðilum hafa verið óþreytandi að móta tillögur byggðar á reynslu þessara þjóða og færa þær stjórnvöldum í hendur.

Samfylkingin hefur af athygli fylgst með metnaðarfullri vinnu þessara aðila og hefur í samráði við ýmsa úr þeirra röðum lagt í mikið starf við að móta heildaráætlun um að skapa hátækni- og þekkingariðnaði góð skilyrði á borð við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Samfylkingin gerir sér grein fyrir því að ef þessi framtíðaratvinnugrein á ekki að hrekjast úr landi þarf að grípa í taumana.

Stjórnvöld hafa hins vegar ekki hlustað. Þau hafa engan áhuga. Félagar þínir í Sjálfstæðisflokknum hafa í langan tíma haft möguleika á að setja fram margar ágætar tillögur um þetta efni á Alþingi - og fá þær samþykktar. Það hafa þeir ekki gert. Áhuginn er enginn.

Hjá Samtökum Iðnaðarins er gert grín að þessu. Þar segja menn ástæðu þess að fjármálaráðherra hlusti ekki vera þá að maðurinn sé dýralæknir og ekki vanur að þurfa að hlusta á þá sem hann þjónustar.

Tillögur Sjálfstæðismanna báru hlustunarleysi vitni. Þeir lögðu til hagstætt skattaumhverfi fyrir sprotafyrirtæki! Sprotafyrirtæki hafa yfirleitt engan arð fyrstu 15 árin svo hagstætt skattaumhverfi skiptir þau engu máli. Það segir sig sjálft að þau þurfa að beina allri orku í vöxt sinn. Þetta sýnir vel skilningsleysi Sjálfstæðismanna á verkefninu

Dofri Hermannsson, 5.2.2007 kl. 10:25

4 identicon

Þessar tillögur Samfylkingarinnar eru svo sem ágætar (ég hef reyndar efasemdir um eflingu Tæknisjóðs, af langri reynslu af honum bæði sem styrkþegi og sem fulltrúi í matsnefnd) en mesta hættan sem sprotafyrirtækjum stafar af Samfylkingunni er hækkun fjármagnstekjuskattsins.  Hækkun þess skatts dregur úr hvata til fjárfestinga og hækkar ávöxtunarkröfu áhættufjárfesta.  Samkeppnisforskot Íslands fyrir sprotafyrirtæki liggur helst í einfaldri og lágri skattlagningu, og ég hef áhyggjur af því að ef Jóhanna Sigurðardóttir fær að ráða, þá sé það forskot fyrir bí.

Vilhjálmur (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 11:00

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður hér áfram með stjórnartaumana í sínum höndum þurfa Sprotafyrirtæki ekkert að óttast af þeirri einföldu ástæðu að þau verða bara búin að koma sér í burtu. Nýstofnuðum fyrirækjum á ári hefur fækkað með hverju árinu - voru 19 fyrir nokkrum árum en eru 3 á síðasta ári.

Reynsla þessarar greinar, sem á undanförnum misserum hafa flúið land og/eða beint öllum vexti til annarra lands segir allt sem segja þarf.

Áframhaldandi áhuga- og skilningsleysi Sjálfstæðisflokksins er stærsta hættan sem sprotafyrirtæki á Íslandi standa frammi fyrir.

Dofri Hermannsson, 5.2.2007 kl. 11:55

6 identicon

Sæll Dofri

ég get skilið að það sé erfitt að vera í stjórnmálum og vera sífellt í vörn ef einhver vogar sér að gagnrýna eitthvað. Þá virðist vera að þú (og reyndar fleiri) reynir að flokka gagnrýnina og dæma eftir því. Að þessu sinni telur þú að mín gagnrýni komi frá sjáflstæðisflokknum sem er nú ekki alveg rétt en þú um það. 

Aðalatriðið hjá mér sem þú virðist játa er að þessar tillögur eru ekki einhver sérstök hugasmíð Samfylkingarinnar eins og mátti lesa úr upphaflega blogginu. gott og vel að þú játar það.

Ég gagnrýndi þig líka fyrir að reyna að eigna Samfylkingunni einhverja umhverfisverndarumræðu í Skagafirði sem þú leiðréttir svo. gott og vel að þú játaðir það líka.

Þessi vörn þín veldur því að þú telur að ég sé ósammála þér um allt en þá bið ég þið að lesa aftur það sem ég hef skrifað og reyna að ná því út úr hausnum á þér að ég sé einhver sérstakaur sjálfstæðismaður. Ég er þeirrar skoðunar að Fagra Ísland sé of opið plagg og ekki nógu afdráttarlaust, eiginlega eins og of margar skoðanir eigi að rúmast í einni stefnu. Um það eru margir umhverfisverndarsinnar sammála og þú virðist taka því mjög illa.

Ég skrifaði reyndar athugasemd um svifryk hjá þér í síðustu viku sem var nokkuð samhljóma þínu bloggi en af eihverri ástæðu þá er búið að taka það út. Til að pirra þig aðeins þá sýna mælingar að svifryksmengun jókst öll árin sem R-listinn var við völd í Reykjavík með öllum sínu "grænu" fulltrúum.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 18:35

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ósköp ertu eitthvað hörundsár Hákon Hrafn. Að vísu skil ég að þú sért móðgaður ef ég hef ranglega haldið þig vera Sjálfstæðismann - ég biðst forláts á því.

Hins vegar skil ég ekki hvað þú ert að fara í einhverjum höfundarréttarpælingum, annars vegar varðandi sigurtillögur Samfylkingarinnar á Sprotaþinginu sl föstudag og hins vegar varðandi náttúruverndarbaráttu í Skagafirði.

Málið er einfalt. Tillögur Samfylkingarinnar unnu 1. 2. og 3. verðlaun á Sprotaþinginu af því þær voru að mati þinggesta langbestar. Samfylkingin hefur lengi unnið að því að móta þessar tillögur, sem eiga sér flestar erlendar fyrirmyndir, í samráði við SI. Við höfum áhuga á málinu og þess vegna vinnum við vel - af því við vinnum vel sigrum við.

Varðandi Skagafjörðinn skil ég hreinlega ekki hvað þú átt við. Þar hafa verið stofnuð þverpólitísk samtök til verndar jökulsánum í Skagafirði. Að þeim stendur fólk úr öllum flokkum, m.a. áberandi fólk í Samfylkingunni. Sveitastjórnarflokkurinn hefur kosið að setja virkjunar/verndunarmál á dagskrá, það hefur sprottið upp mjög kraftmikil umræða um málið og ljóst að Samfylkingin hefur þar haft erindi sem erfiði. Það eru hins vegar litlar líkur á að Samfylkingin setji Villinganesvirkjun inn á aðalskipulag, líkt og Sjálfstæðismenn og Vg slysuðust til að gera með Skatastaðavirkjun á síðasta kjörtímabili. Vonandi tekur Samfylkingin þann kost út af skipulagi.

Varðandi komment sem hefur horfið þá upplýsist það hér með að ég varð að taka greinina um svifrykið út tímabundið þar sem hún var send í Moggann og það ágæta blað vill ekki birta greinar sem áður hafa verið birtar á vefsíðum. Á að vera komið inn aftur.

Dofri Hermannsson, 5.2.2007 kl. 18:58

8 identicon

já það er rétt, mér er illa við að vera flokkaður og þú værir ekki ánægður með það að vera ranglega skilgreindur sem frjálslyndur eða eitthvað.

 Málið er ósköp einfalt: "tillögur" samfylkingarinnar komu allar fram á hugarflugsfundir vísinda- og tækniráðs sem haldinn var á Reykholti 17.- 18. janúar 2006. Sá fundur var stefnumótandi. Þar komu fram yfir 100 tillögur sem svo var raðað af fundarmönnum eftir því hversu áhugaverðar þær þóttu. Um þetta er til skýrsla hjá vt.   Af einskærri tilviljun birtist Samfylkingin ári síðar með einungis þær tillögur sem var raðað efst og kynnir þær sem sínar. á sprotaþinginu voru fjölmargir sem tóku þátt í því að raða þessum hugmyndum fyrir ári síðar og því lá nokkuð ljóst fyrir hvernig fundargestir tækju í þessar tillögur enda löngu búnir að fjalla um þær áður en Samfylkingin birtist með þær.

Semsagt mjög einfalt: Samfylkingin lagði fram tillögur sem fagfólk á fundinum hafði þegar lagt fram ári áður á öðrum fundi og þeim var áfram raðað í efstu sætin eins og áður. 

Það er eitthvað til að vera stoltur yfir eða þannig. Eins og ég sagði áður þá held ég að aðkoma Samfylkingarinnar hafi fælt sjálfstæðisflokkinn frá málinu en það skiptir kannski engu máli eftir kosningar, hver veit?

Annars þakka ég þér fyrir að upplýsa um svifryksbloggið. Svifryk í þéttbýli hérlendis er virkilegt vandamál sem þarf að taka á. 

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 19:23

9 identicon

Það er löngu kominn tími á að Íslendingar hugi að því hvernig þeir ætla að fylgja öðrum venstrænum þjóðum inn í 21. öldina.´
Þar er nýsköpun og uppbygging hátækniiðnaðar lykilatriði.

Ríkisstjórnin virðist ekki ætla að fatta þetta fyrr en um miðja öldina en þeim mun mikilvægara er að við hin minnum á það.

Gott mál.

Ingólfur (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 20:37

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Kæri Hákon Hrafn. Ég hef aldrei heyrt um þennan fund í Reykholti en án vafa var hann góður. Ef hann var haldinn í janúar í fyrra þá voru flestar ef ekki allar tillögurnar í Hátækniáratugnum komnar fram á ýmsum vettvangi löngu áður. Margar komu fram í tengslum við fyrstu drög Hátækniskýrslunnar frá SI og aðrar komu fram í tilboði SUT sem kallaðist þriðja stoðin. Sumar eru síðan alfarið frá okkur komnar. Þannig að þetta þras um að tillögur Samfylkingarinnar séu ekki komnar frá Samfylkingunni er nú að verða dálítið þreytt.

Ég skal samt segja þetta einu sinni enn: Samfylkingin hefur undanfarið ár unnið að því að móta heildaráætlun um uppbygginu hátækniiðnaðarins á næstu tíu árum. Til þess hefur Samfylkingin valið og raðað saman 12 tillögum sem flokkurinn telur að muni, þegar þær allar vinna saman, skapa það umhverfi sem hátækniiðnaðurinn þarf á að halda.

Hvort tillögurnar voru ræddar uppi í Reykholti fyrir ári skiptir ekki máli - Samfylkingin vann 1. 2. og 3. sæti fyrir tillögur sínar á Sprotaþinginu. Það var enginn að spá í það hvaða tillögur höfðu verið til umræðu í Borgarfirðinum og reyndar þá vorum við síðust að skila inn endanlegum tillögum af þeirri einföldu ástæðu að við áttum úr svo mörgum að velja. En ef þetta átti að vera svona rakið til vinnings - af hverju datt þá ekki hinum flokkunum í hug að flytja þær? Vona að þér dugi þessi skýring.

Dofri Hermannsson, 5.2.2007 kl. 23:22

11 identicon

já þetta er orðið frekar þreytt. Fundurinn í Reykholti var tveggja daga stefnumótunarfundur fyrir næstu 8 árin. Um 70 aðilum var boðið sérstaklega til hans af Vísinda- og tækniráði. ítarleg skýrsla um það sem kom fram á fundinum var lögð fram fyrir stjórnvöld, þe þau báðu sérstaklega um það.

Af hverju ætti stjórnmálaflokkur að leggja þetta fram nú ári síðar, tillögur sem nú þegar hafa verið lagðar fram með eins formlegum hætti og hægt er?

Mér finnst það frekar benda til þess að þú fylgist lítið með í þessum geira ef þú kannast ekki neitt við þetta. 

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 05:49

12 identicon

Fáið ykkur herbergi!

manolo (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband