Framtíðarlandið

Mér finnst alveg frábært að það séu til samtök á borð við Framtíðarlandið - þverpólitísk samtök um náttúru- og umhverfisvernd sem hafa það markmið að vera stjórnvöldum aðhald, hvatning og hugmyndaveita í þessum málum.

Þetta finnst greinilega fleirum en mér því þegar samtökin voru stofnuð skráðu tæplega 3000 manns sig sem félaga. Margt af því fólki er virkt í starfi stjórnmálaflokka, einmitt af áhuga fyrir því að koma náttúruverndarmálum áleiðis á vettvangi stjórnmálanna. Þetta fólk mun ekki sætta sig við að Framtíðarlandið bjóði fram í Alþingiskosningum. Það get ég vel skilið enda er þar með orðinn trúnaðarbrestur á milli þessa fólks og Framtíðarlandsins.

Ef boðið verður fram í nafni Framtíðarlandsins til Alþingis mun það eyðileggja Framtíðarlandið sem öflug grasrótarsamtök. Það væri mikill skaði því 3000 manna samtök sem búa að mörgum af öflugustu hugsuðum landsins verða ekki gripin upp af götunni.

Ef leiðandi aðilar í Framtíðarlandinu (því enn hefur ekki verið kosin stjórn) ákveða að bjóða sig fram undir eigin merkjum eru viðkomandi aðilar sömuleiðis búnir að rjúfa trúnað við Framtíðarlandið og geta ekki að mínu mati leitt samtökin.

Sumir líta svo á að þessir aðilar hafi þegar rofið trúnað við þá fjöldahreyfingu sem fólk hélt sig vera að ganga til liðs við þegar þeir skráðu sig í Framtíðarlandið. Ástæðurnar eru nokkrar t.d. sú að byrjað var að undirbúa framboð fyrir 10 mánuðum eða um 2 og 1/2 mánuði áður en efnt var til stofnfundar. Einnig að enn hefur ekki verið kjörin stjórn þrátt fyrir áskoranir félagsmanna.

Íslensk stjórnmál hafa þörf fyrir hugmyndaveitu, hvatningu og aðhald. Þess vegna væri kvöldinu í kvöld best varið í að setja lög og kjósa stjórn Framtíðarlandsins.

Það væri alveg frábært!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona samtök geta aldrei orðið þverpólitísk, þrátt fyrir góðan vilja. Ef þau ætla sér að halda sig við slíkt, þá verða þeir einvörðungu í að taka á afleiðingum náttúrunauðgana, eftir að skaðinn er skeður.  Orsök náttúrumisþyrmingar er hápólitískt mál og snertir auðsöfnun, græðgi og hringamyndun, sterkra afla í landinu. Það er eitthvað galið við rætur stjórnskipunarinnar. Kvótakerfið og stóriðjustefna er hluti þessa grunnvanda og því verður aldrei breytt með þverpólitískri samstöðu fyrr en illa er farið.  

Jón Steinar Ragnarsson, 7.2.2007 kl. 19:46

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég tek mér það bessaleyfi að setja inn færslu af bloggi mínu þar sem ég kann ekki að setja inn link. | 23:03

Framtíðarland í fjötrum...eða fuglinn Fönix loks að rísa úr öskunni?

Ég var ein af þeim sem sótti stofnfund Framtíðarlandins í sumar. Þar virtist losna úr læðingi falinn kraftur þjóðar sem hafði of lengi orðið fyrir vonbrigðum. Fólk sem þráði raunverulegar breytingar og öðruvísi gildi. Hitti fólk sem var með tárin í augunum yfir þessari sérstöku von sem þarna kviknaði. Sem var búið að fá nóg af þykjustuleikjum og baktjaldamakki sem hefur ekkert með framtíðarheilbrigði þessarar þjóðar að gera á öllum sviðum mannlífs.

Ég kem ekki saman þeirri tilfinningu og því að troða þeim krafti inn í gamaldags kerfi sem allir sjá í gegnum sem eru stjórnmálaflokkar nútímans. Hafði einhvernvegin þá von í hjarta að til væri að verða afl sem gæti knúið í gegn breytt hugarfar með öðrum leiðum. Ber í brjósti óljósa hugmynd og tilfinningu um að það sé komið að tímamótum sem felast ekki bara í að standa loksins saman heldur og að breyta stjórnunarháttum sem þjóna betur nútíðinni.  Fannst einhvern veginn að þarna væri samankomið fólk sem hefði vilja, getu, þor og kjark til að hugsa öðruvísi. Finna leiðir sem væru færar til raunverulegra breytinga. Sem hefði hugmyndaflug til að sjá öðruvísi og plægja nýjan jarðveg og sá fræjum sem skipta þessa þjóð máli. Miklu máli.

Rakst á blogg í dag sem kynnti enn frekar undir þennan neista.

http://kristjanb.blog.is/blog/kristjanb/

Lýðræði án stjórnmálaflokka.

Hafði svo vonað að með þessum krafti væri eitthvað mjög mikilvægt að verða til.

Þegar ég heyrði af því að stefnan væri tekin á stjórnmálin sökk hjartað í mér.

Trú því ekki að enn á ný verði til bræðingur sem blandar sér í baráttu sem litlu skilar. Er ekki tímabært að standa upp og fara alla leið í því að skapa þjóðfélag sem ber keim af manngildi, elsku til náttúrunnar og hvers annars? Afl sem skilur miklu meira en bara raungildi og verðmæti metið í gulli?

Íslendingar. Það er tími til kominn að vakna og vera. Vera fulltrúar í alþjóðasamfélaginu sem sýnir hvað raunverulega skiptir máli og hætta að þegja yfir því sem er löngu orðið lýðnum ljóst.   bundið fyrir munninn

Það er ekki verið að bera hag okkar allra fyrir brjósti. Hættum ekki fyrr en því markmiði hefur verið náð. Það getur tekið tíma og mikla vinnu. En ég er vissum að ef við þorum að brjóta upp fortíðina tekst okkur að finna skref til framtíðarinnar. Í því felst hinn sanni þjóðarauður og hið margumtalaða hugvit. Verum það sem býr best innra með okkur. Nemum ókönnuð lönd.

Er einhver til í að heyra það sem ég er að segja eða er hugur ykkar enn rígbundinn fornum hugarformum og því að einungis sé hægt að gera hlutina á einn hátt? Kannski er þetta skýringin á því að við erum enn hér þrátt fyrir allt? Að hugur og verk séu ekki farin að tala sama tungumálið?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 7.2.2007 kl. 21:21

3 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Ég skil punktinn. Spurningin er hins vegar hvernig er best að ná fram raunverulegum breytingum. Hvað er líklegast til áhrifa. Stundum gengur ekki bara að vera kurteis og leyfa öllum að vera með. Við búum við afdankað pólitískt kerfi en það er, jú, eina leiðin sem er fær ef hugmyndin er að hafa bein áhrif. Það hefur marg sýnt sig að samtök og hópar hafa lítil áhrif, samanber aldraða og öryrkja.

En ég held að vandamálið sé "kerfið". Einstaklingar og samtök ættu að hafa full tök á að bjóða fram - sinna jafnvel bara einu málefni og engu öðru. Taka það, í raun, fram. Við ættum að vera að kjósa einstaklinga.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 7.2.2007 kl. 22:30

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég sé fyrir mér að kjósa menn og málefni. Af hverju trúir þú að eina leiðin sem sé fær sé að kjósa í afdönkuðu kerfi til að hafa áhrif. Er ekki einhver mótsögn í því?. Mistök sumra eru ekki endanlega úrskurður hvort eitthvað sé hægt. Reyna betur og halda áfram að finna leiðir. Það er lausn einhversstaðar þó hún sé ekki enn séð.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 7.2.2007 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband