Endurspeglar traust landsmanna á samgönguloforðum ríkisstjórnarinnar

Þessi frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 endurspeglar traust landsmanna á samgönguloforðum ríkisstjórnarinnar. Fólk er löngu búið að sjá í gegnum þetta lúna bragð sjálfstæðismanna, að lofa samgönguátaki fyrir kosningar og svíkja það svo strax að kosningum loknum.

Skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð

Suðurstrandarsvegur er skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð, segir útgerðarmaður á Suðurlandi. Bæjarstjóri Ölfuss segir ekki hægt að búa við slík svik.

Það eru 12 ár síðan fyrstu peningarnir voru lagðir í Suðurstrandarveg og rúm 3 ár síðan allir 58 kílómetrarnir milli Þorlákshafnar og Grindavíkur áttu að vera malbikaðir.

Símapeningar upp á 400 milljónir verða lagðir í Suðurstrandarveginn á næstu tveimur árum og árið 2010 bætast 140 milljónir kr. við af samgönguáætlun. En 1430 milljónirnar sem þarf til að leggja veginn alla leið verða ekki greiddar út að fullu fyrr en einhvern tímann á árunum 2015-2018. Hannes Sigurðsson starfar við bæði ferðaþjónustu og útgerð í Ölfusi. Hann segir Suðurstrandarveginn skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð. Þetta sé arbær vegalagning og óinnleystur samgönguhagnaður. "Þetta er ódýrt og skilar miklu."

Það eru ekki bara íbúar og fyrirtæki í Þorlákshöfn og Grindavík sem hafa hag af lagningu vegarins, segir Hannes, ýmis fyrirtæki á Austfjörðum flytji fisk á Suðurnesin og ferðaþjónustan hefði mikil not af honum.

Ein forsendan fyrir sameiningu kjördæma í Suðurkjördæmi var þessi vegur, segir bæjarstjórinn í Ölfusi og bendir á að síðan séu nærri þrjú kjörtímabil. "Ef menn fara í svona breytingar og setja fram áætlanir, og það eru engin rök fyrir því að breyta þessu, þá finnst mér ekki hægt að búa við slík svik hvað eftir annað."

Samfylkingin hefur sagt að átak í samgöngumálum sé brýnt velferðar- og öryggismál. Til að tryggja það að staðið verði við stór orð sjálfstæðismanna um samgöngumálum þarf að kjósa Samfylkinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er slæmt að lofa því sem ekki er hægt að standa við. Hinsvegar er álíka langt að fara Hellisheiðina og Reykjanesbrautina til allra staða á Suðurnesjum nema Grindavík eins og að fara fyrrirhugaðan Suðurstrandarveg þ.e. það eru fáir sem hafa hag af honum. Það er margt í samgöngumálum sem má að hafa forgang umfram Suðurstrandarveg. 

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 21:32

2 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Flott fyrirsögn hjá þér frændi en síðasta orðið hefði átt að vera "pólitíkusum" ef þú hefðir ætlað að segja allan sannleikann.

Þessi litlu mistök hjá þér sanna það bara enn og einu sinni að það er líka rétt hjá kjósendum að treysta ekki orðum pólitíkusa rétt fyrir kosningar  svo síðasta setningin í blogginu er algjörlega út úr kú.

Ágúst Dalkvist, 18.2.2007 kl. 22:12

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Frændi sæll. Þú getur barið höfðinu við steininn en fátt er jafn áþreifanlegt og svikin loforð Sjálfstæðismanna í samgöngumálum. Núna svíkur m.a.s. Sturla flokksfélaga sinn Vilhjálm borgarstjóra. Vilhjálmur fær ekki á núverandi kjörtímabili peninga fyrir mislægum gatnamótum Miklu/Kringlu en í staðinn fær hann peninga fyrir mislægum gatnamótum sem eiga að ná út yfir Elliðaá við enda Bústaðavegar - gatnamót sem Borgarráð er búið að hafna. Ráðlegg þér að skoða stöplaritið á þessari slóð http://dofri.blog.is/blog/dofri/entry/121690/

Dofri Hermannsson, 18.2.2007 kl. 22:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til hamingju með flottan málflutning, Dofri. Línuritið sem þú sýndir um daginn með háu súlunum á kosningaárum og lágu árin á eftir sögðu allt sem segja þarf.

Ómar Ragnarsson, 18.2.2007 kl. 23:09

5 identicon

Þetta er gott skólabókardæmi um svikin kosningaloforð í samgöngumálum. En úr því að dæmið fjallar um Suðurstrandarveg langar mig til þess að benda á að það er alveg nóg að gera það sama þar og Ómar hefur verið að benda á með Kjalveg. Laga hann til og malbaka eins og hann er. Ég keyri hann nokkrum sinnum á ári í tengslum við mitt áhugamál. Umferðin þarna er aðallega ferðamenn sem eru ekki á hraðferð.

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 23:41

6 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Svikin loforð? Vissulega eru þau til í sjálfstæðisflokknum eins og öllum öðrum flokkum.

Það þarf enginn að halda það að samfylkingin nái hreinum meirihluta í vor. Hún mun þurfa að fara í samstarf með öðrum flokkum ef hún ætlar í ríkisstjórn. þar verður væntanlega gerður samningur á milli flokkana. Hvað af þessum loforðum samfylkingarinnar verður þá orðið að sviknum loforðum?

Samt svolítið gaman að fylgjast með málflutningi samfylkingarinnar. Í einu orðinu skammar hún ríkisstjórnina fyrir að gera of mikið, hún sé að auka á þensluna, nú sé tími til að draga saman seglin og ná tökum á efnahagslífinu en í hinu orðinu skammar hún ríkisstjórnina fyrir að svíkja kosningaloforð, hún standi í ekki í nógu miklum framkvæmdum.

Virkilega málefnalegt og sannfærandi

Ágúst Dalkvist, 19.2.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband