19.2.2007 | 00:05
Góðar vendingar í pólitíkinni
Ríkisstjórnin klofin í hvalveiðimálinu
Mér finnst alveg frábært að Utanríkisráðherra hafi loks ákveðið að standa með ímynd landsins, ferðaþjónustu og útflutningsaðilum og taka afstöðu gegn pólitískum hvalveiðum sjávarútvegsráðherra.
Ákvörðun sjávarútvegsráðherra var vanhugsuð og ábyrgðarlaus tilraun til að slá pólitískar keilur - hann hafði undir höndum viðhorfskönnun sem sýndi að meirihluti þjóðarinnar var hlynntur hvalveiðum. Hann mistúlkaði niðurstöðuna. Það sem þessi könnun sýndi í raun er að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki láta banna sér að veiða hval. Þetta er tvennt ólíkt.
Mjög mikill samdráttur eftir mjög langan tíma
Það var líka mjög jákvætt að ríkisstjórnin skyldi loks setja fram áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir mjög langan tíma ætla þau að vera búin að minnka losun mjög mikið. Það er mikil framför en ég neita því ekki að maður var nú kannski að vonast eftir tillögum um það hvað ætti að gera núna. Aðrar þjóðir eru að hugsa um það.
Núverandi ríkisstjórn á ekki langt eftir af umboði sínu og þar sem hún hefur haft langan tíma til að koma fram með tillögur veldur það nokkrum vonbrigðum að þessu mikilvæga máli skuli (eins og reyndar mörgu öðru) vera vísað á framtíðina. En engar áhyggjur, við skulum með ánægju taka þetta verkefni að okkur eftir 12. maí, rétt eins og fjölmörg önnur.
Róttækur feministi
Það var ekki síður gaman að lesa viðtalið í Sunnudagsblaði Moggans við Steingrím J. Nú þarf enginn framar að efast um feminiska afstöðu Steingríms sem er að sögn róttækur feministi, gekk í Feministafélagið fyrir mörgum árum. Hann er þá eflaust stofnfélagi því það var stofnað fyrir þremur og hálfu ári. Það er ljóst að hann mun tæpast láta fram hjá sér fara tækifæri til að gera konu að forsætisráðherra.
Eitt stakk mig í viðtalinu og það var hið úrelta viðhorf verðlaunablaðamannsins Agnesar Bragadóttur að það þurfi helst að vera hægt að éta afraksturinn af störfum fólks: "Steingrímur, þetta eru ekki frumatvinnugreinar heldur þjónusta. Heldur þú að það sé bara hægt að breyta Íslandi í eina allsherjar þjónustumiðstöð, þar sem engin verðmætasköpun og framleiðsla á sér stað?" Ég hélt að þetta væri upplýst manneskja í nútímasamfélagi.
Að ástæðulausu lét Steingrímur hana hrekja sig út í gömlu klisjurnar um "undirstöður samfélagsins" og hann fór í afsakandi upptalningu á fisk- og kjötvinnslum. Auðvitað eru það mikilvægar greinar en það er líka ferðaþjónustan, menntaþjónustan, heilbrigðisþjónustan o.s.frv. Lásu þau ekki örugglega Draumalandið?
Vel heppnaður fundur með 60+
Það var gott að enda vikuna á vel heppnuðum fundi með 60+ en hann var svo vel sóttur það það þurfti að bæta við fjölda sæta til að koma fólki fyrir. Það var sannarlega hugur í bæði gestum og stjórnmálamönnum. Ingibjörg Sólrún vísaði í verk sín í borginni en þar lyfti hún grettistaki í uppbyggingu leikskólanna og grunnskólanna, verk sem Sjálfstæðismenn í borginni höfðu vanrækt árum saman.
Hún hét því að ráðast með sama krafti í uppbyggingu á þjónustu og þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara, annað verkefni sem Sjálfstæðsmenn og Framsókn hafa sinnt skammarlega illa. Hún vitnaði í föður sinn heitinn sem taldi þvingaða sambúð fólks á elliheimilum fráleita - taldi því til sönnunar víst að ef hann sjálfur lenti í herbergi með framsóknarmanni norðan af landi þá myndi hann drepa hann.
Hinu virðulega Ríkissjónvarpi fannst þetta mikilvægasti fréttapunkturinn. Auðvitað er það frétt að trúverðugur stjórnmálaleiðtogi skuli setja þetta mikilvæga mál á oddinn. Orðfærið er skemmtilegt krydd í tilveruna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Facebook
Athugasemdir
Elsku Dofri. Það er svo gaman að lesa greinarnar þínar - þú ert svo mikill snillingur. En já það var ofur kraftur í okkar konu á fundinum með 60+ það fór ekki á milli mála í þeirri klippu sem sjónvarpið sýndi.
Sara Dögg, 19.2.2007 kl. 10:26
Gæti ekki verið að Agnes hafi spurt AF ÞVÍ að hún er upplýst manneskja í nútímasamfélagi?
Þær greinar sem mynda verðmæti eru þær greinar sem verða alltaf undirstaðan, þjónustugreinarnar eiga aldrei eftir að lifa án þeirra.
Ekki segja mér Dofri að þetta sé eitthvað sem samfylkingin vill ekki viðurkenna.
Ágúst Dalkvist, 19.2.2007 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.