19.2.2007 | 13:26
Allir sammála
Mér fannst alveg frábært að í Silfri Egils í gær skyldi Forseti Íslands vera okkur í Samfylkingunni sammála um hverng á að taka á náttúruverndarmálunum. Hann er svo sem ekkert einn um það, Vg, Framtíðarlandið og Ómar Ragnarsson eru það líka og m.a.s. fólk úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki hafa lýst sig sammála tillögum Samfylkingarinnar í grunnatriðum. Það er góð tilfinning. Vonandi veit það á gott.
Við höfum einstakt tækifæri til að ná breiðri samstöðu um náttúruverndarmálin í kosningunum í vor. Það þarf að kæla hagkerfið, huga að uppbyggingu annarra greina og efla samgöngur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála því í stærstu dráttum að Fagra Ísland er eitthvað sem er öfgalaust og ætti að skoða vel. Hins vegar finnst mér ekki að samfylkingunni gangi ekki eins vel að koma öðrum stefnumálum sínum á framfæri og ætla ég að gefa þér gott tækifæri Dofri til að laga það með því að svara nokkrum spurningum.
Kæla hagkerfið? Hvernig? Eftir því sem þú hefur sagt sjálfur er helsta leiðin að draga úr framkvæmdum hjá ríkinu. En þú ætlar að berjast fyrir því að efla samgöngur og miðað við fyrri blogg þín eru það stórtækar vegaframkvæmdir. Hvernig fer þetta tvennt saman?
Eins vilt þú fara í miklu fleiri framkvæmdir. Byggja yfir ellilífeyrisþega og fleira. Allt er þetta gott og gilt en kælir varla hagkerfið. Enn síður myndu lægri vextir gera það en eftir því sem mér skilst er það líka eitt sem samfylkingin ætlar að berjast fyrir.
Samfylkingin verður ekki kosin eingöngu fyrir umhverfisstefnuna ef hún hefur ekkert fleira sannfærandi að bjóða.
Ágúst Dalkvist, 19.2.2007 kl. 15:21
Þig elsku frændi upp að fræða
er mér ljúft og skylt.
Um efnahagsmál eg skal ræða
ef þú bara vilt.
Í afar stuttu máli er peningastefna Seðlabankans ónýt sem stýritæki, henni er ætlað að stýra væntingum fólks gegnum breytingar á stýrivöxtum. Það hefur engin áhrif á almenning (og ekki heldur ríkisstjórnina).
Ákvarðanir um áframhaldandi stóriðju hafa hins vegar gríðarleg áhrif á væntingar fólks og þess vegna hefur það bæði bein og óbein áhrif á efnahagslífið að fresta slíkum framkvæmdum. Bein áhrif eru einnig mjög mikil og þess vegna er afleitt að auka enn á þensluna með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum í Straums- og Helguvík.
Þenslan og hagvöxturinn er staðbundinn eins og þú hlýtur að hafa tekið eftir, alinn upp í sömu sveit og ég þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og samdráttur en ekki þensla í atvinnulífinu. Á sama 6 ára tímabili og hagvöxtur á hb.svæðinu var 39% var hann -6% á NV-landi. Það þarf að jafna tækifæri fólksins í landinu og með því að fara í átak í samgöngumálum má jafna út áhrifin af notkun peninganna.
Margir óttast harða lendingu ef ekki verður haldið áfram í stóriðjuframkvæmdum en átak í samgöngumálum er einmitt það tæki sem við þurfum til að ná mjúkri lendingu.
Og já ég vil byggja yfir afa og ömmur þessa lands og ég vil ekki að þeim sé holað niður í herbergiskytru með einvherjum sem þau þekkja ekki neitt. Ég vil líka efla menntun, sérstaklega framhaldsskólastigið og háskólastigið á landsbyggðinni. Það þarf að fjárfesta í þessum infrastrúktúr en slíkar fjárfestingar þurfa ekki að vera þensluhvetjandi sé þeim rétt stýrt.
Þetta er spurning um forgangsröðun en þvert á stefnu Sjálfstæðismanna hefur "báknið" aldrei vaxið meira eða hraðar en í þeirra stjórn, útgjöld til sendiráða aldrei verið hærri en árið sem Davíð var utanríkisráðherra. Viðskiptahallinn slær nýtt heimsmet á hverju ári, verðbólgan er 8% og verðtryggingin gerir það að verkum að í hvert skipti sem þú borgar 50 þ kall af nýja húsnæðisláninu þínu hækkar það um 50 þ kr. í stað þess að lækka. Held að núverandi ríkisstjórn hafi sannað það vendilega að hún kann ekkert með fjármál að fara.
En hafðu ekki áhyggjur, þetta lagast allt þegar við höfum tekið við.
Dofri Hermannsson, 19.2.2007 kl. 16:12
Því miður eigum við Íslendingar athyglissjúkan forseta. Ég hafði alltaf miklu meira gaman af honum þegar hann var rífandi kjaft á hinu háa Alþingi, finnst það klæða hann mikið betur.
Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 18:17
Þú nefnir aðeins Dofri þetta margþvælda mál, sem sumir nefna vaxtaokur. Þú fullyrðir að: "peningastefna Seðlabankans er ónýt sem stýritæki, henni er ætlað að stýra væntingum fólks gegnum breytingar á stýrivöxtum. Það hefur engin áhrif á almenning (og ekki heldur ríkisstjórnina). Margir neita að skilja efnahagsleg lögmál, þótt einföld séu og marg-útskýrð. Óverðtryggðir vextir eru vissulega háir hérlendis, en þeir eiga að vera háir! Seðlabankanum ber skylda til að halda vöxtum háum, á meðan verðbólga er mikil! Þetta eiga allir að vita. Þar sem fæstir Íslendinga hafa lært að spara, leiðir aukinn hagvöxtur hér til eftirspurnar-verðbólgu. Háu vextirnir eru ekki annað en sjálfskaparvíti.Ef það væri svo, að almenningi finndist vextir of háir, myndi eftirspurn eftir fjármagni snar-minnka og í framhaldi af því gæti Seðlabankinn lækkað stýrivextina. Hér er í gangi augljóst orsaka-samhengi, en almenningi finnst greinilega ekki að þessir "okurvextir" séu of háir. Þess vegna taka vaxtahækkanir of langan tíma að hafa áhrif. Ástæða þessa viðhorfs, er að hluta til Bankarnir hafa hvað eftir annað sannað, að vaxtaálag þeirra er lágt. Þótt þeir lánuðu óverðtryggt fjármagn vaxtalaust, væru vextir hérlendis samt háir. Þetta væl um vaxtaokur, er síbilja þeirra sem allt vilja fá gefins. Slökum aðeins á neytslu-klónni og sjá, -vexir munu lækka-. Svo er líka sá kostur fyrir hendi, að fólk taki vísitölutryggð, eða gengistryggð lán. Þá borga menn lága vexti, en þurfa að greiða sömu verðmæti til baka. Það er auðvitað ekki það sem Viðskilnaður R-listans í Reykjavík var slíkur að fáir bera traust til Samfylkingarinnar. Þetta var augljóst eftir að Ingibjörg, höfuðmaur R-listans varð formaður samfylkingarinnar. Ég hef áður bent á að enn er tími til að losna við Ingibjörgu og þá mun fylgi ykkar strax vaksa, en í ríkisstjórn komist þið samt ekki. Með kveðju til vina minna í Sam-alþýðu-fylkingar-flokknum.
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 18:41
Þakka fyrir frændi minn
fræðin gild og góð
Eftir pistil þennan þinn
þjóðin verður fróð....
.... en þó ekki alveg nægjanlega . Er sammála þér að hagvöxturinn er staðbundinn. Það er greinilegt í okkar gömlu sveit og eins í minni nýju sveit. Hins vegar eru samgöngur orðnar nokkuð góðar víðast hvar en þær eru okkur alltof dýrar.
Virðisaukaskattur á flutningum og allir aðrir skattar sem leggjast á flutninga gera það að verkum að landsbyggðin er ekki samkeppnishæf við höfuðborgarsvæðið. Ekki eru mörg ár síðan að það var fjórfalt ódýrara að flytja varning frá Akureyri til Danmerkur sjóleiðina en frá Akureyri til Reykjavíkur landleiðina.
Oft er líka talað um strætó í Reykjavík og á Akureyri, hann verður að vera ókeypis eða í það minnsta mjög ódýr. Það á alveg eins við um fólksflutninga á landsbyggðinni. Fólk á landsbyggðinni hefur líka borgað hina ýmsu skatta til að efla ýmsa þjónustu, t.d. heilbrygðiskerfið, en þarf svo að auki að borga mikinn skatt í viðbót við að koma sér á staðinn þar sem þjónustan er veitt.
Ef þessu væri breytt væri ekki einungis búið að efla samkeppnishæfni landsbyggðarinnar, heldur væri það líka liður í að lækka íslenskar landbúnaðarvörur í verði til neytenda.
Kannski er það bara af því að ég bý út á landi sem mér finnst að það skipti öllu máli að efla landsbyggðina. Held að það kæmi þjóðinni betur að byggja landið víðar en á SV-horninu. Þess vegna er ég og hef alltaf verið hlynntur álverinu fyrir austan. Það vantar alveg stjórnmálaflokk sem hefur skilning á landsbyggðinni og sem hefur einhverja stefnu henni til hagsbóta. Það er ekki endilega það besta fyrir okkur að friða allt landið og neyða okkur suður. Samgöngur er mikið atriði en ekki endilega það helsta lengur.
Hvað vill samfylkingin gera í þeim efnum?
Ágúst Dalkvist, 19.2.2007 kl. 19:19
Það er forgangsmál hjá Samfylkingunni að skapa landsmönnum sem jöfnust tækifæri. Við viljum að fólk hafi raunverulegt val um búsetu en þannig er það ekki í dag. Það eru margir sem myndu gjarna vilja búa í sveit eða bæ á landsbyggðinni en hafa ekki tækifæri til þess. Bættar samgöngur, bætt fjarskipti, framhaldsskólanám í heimabyggð, möguleiki á háskólanámi, fjölbreyttari atvinnutækifæri og betri aðgangur að menningu og ýmissi þjónustu eru lykilatriði í að breyta þessu.
Þarna skipta samgöngurnar meginmáli því þær stytta leiðina í skóla, þjónustu og stækka atvinnusvæðin. Það er margt ungt fólk sem hikar við að fjárfesta í fasteign eða jörð á stöðum þar sem öll vinna er á einni hendi s.s. kaupfélagsins eða útgerðarinnar. Stærra atvinnusvæði breytir miklu um það.
Málið er að ungt fólk, einkum ungar konur, hafa flúið fábreytni í menntun og atvinnu á landsbyggðinni. Unga fólkið sem fer í framhaldsskólana tapar tengslunum við heimabyggðina og heimabyggðin missir tengslin við unga fólkið og hugmyndir þess. Byggðin staðnar og fólkið eldist. Þessu verður ekki breytt nema með því að bjóða ungu fólki upp á þau tækifæri sem þeim bjóðast.
Ég skil vel það fólk sem fagnaði álverinu fyrir austan - þeim hafði asskotakornið ekki verið boðið upp á neitt annað. Þvert á móti voru bjargráðin tekin af þeim með kvótakerfinu sem bætti gráu ofan á svart til viðbótar við almenna sókn ungs fólks suður í menntun og fjölbreytni.
Ég var hins vegar fyrir austan á fundi um daginn og ég varð hissa. Hissa á að heyra hvað fólki var mikið niðri fyrir vegna þess sem það kallaði "andskotans seljastefnu í menntamálum". Þetta fólk taldi að þegar frá liði myndi álverið engu breyta nema til kæmu stórbættar samgöngur, fleiri og betri framhaldsskólar og háskóli.
Ég er þeim einfaldlega sammála. Ég held að álver leysi engan vanda ein og sér. Skýrsla Háskólans á Akureyri um áhrif framkvæmdana olli stjórnvöldum miklum vonbrigðum. Áhrifin voru miklu staðbundnari en vonast hafði verið til. Í skýrslunni var sagt að líklega hefði Austurland misst af gullnu tækifæri til að byggja upp einn sterkan höfuðstað fjórðungsins, kraftarnir hefðu dreifst á tvo staði. Á öðrum væru örugg störf en á hinum samfélag sem uppfyllir að mestu kröfur nútímafólks.
Þess vegna tel ég áherslur Samfylkingarinnar raunsæjar og líklegastar til árangurs. Samgöngur, menntun og þjónusta er samt ekki það eina sem Samfylkingin hefur lagt til.
Nú er á dagskrá Alþingis tillaga frá Samfylkingunni sem heitir Störf án staðsetningar. Hún gengur út á að skilgreina þau störf á vegum ríkisins sem hægt væri að vinna lítið háð eða óháð staðsetningu og má t.d. vinna í gegnum tölvu. Þetta teljum við að verði árangursríkara en að flytja heilar stofnanir út á land þótt það komi auðvitað líka til greina. Heildarfjöldi ríkisstarfa er um 30.000 svo eðlileg starfsmannavelta myndi sjálfkrafa losa um ca 300-400 störf á ári (=Reyðarál). Þau störf yrðu auglýst sérstaklega t.d. svona: Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu. Landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til að sækja um.
Gengi þetta vel er mögulegt að á 4 árum hefðu skapast um 12-16 þúsund slík störf á landsbyggðinni. Meirihluti ungt menntað fólk sem langar að búa úti á landi (í sinni gömlu sveit e.t.v.)
Þetta eru nú svona nokkur orð kæri frændi sem svar við kalli þínu um "stjórnmálaflokk sem hefur skilning á landsbyggðinni og sem hefur einhverja stefnu henni til hagsbóta".
Dofri Hermannsson, 19.2.2007 kl. 19:55
Þakka þér fyrir þetta Dofri.
Þetta fer að vera svona eins og við okkar fyrstu kynni. Ég heyrði ekki nógu vel í tímunum hvort þú hétir Dorfi eða Dofri svo ég ákvað eftir einn tíman að spurja þig að því og það varð til þess að við fórum inn á herbergi og kjöftuðum frá okkur allt vit og vissum ekki af okkur fyrr en við höfðum hér um bil skrópað heilan tíma
Er samt ekki alveg sáttur við þetta svar hjá þér. Finnst enn vera OF þung áheyrsla á samgöngur. Veit að það er ekki margt dreyfbýlisfólk sammála mér en samgöngur hafa fyrst og fremst verið til þess að koma unga fólkinu suður. Því miður er það bara reynslan.
Vissulega þarf að koma skólum víðar um landsbyggðina en ég held einmitt að, eins og t.d. álverið fyrir austan, geri það kleypt. Það er ekki hægt að setja skóla þar sem fáir eru fyrir. Fyrst þarf að fjölga fólkinu svo er hægt að koma með þjónustuna.
Ég persónulega vil meina að það séu helst flutningar, bæði á vörum og fólki, sem þarf að verða til muna ódýrara en það er í dag. Það myndi gera fyrirtækjum frekar mögulegt að vera út á landi þó að markaðurinn sé fyrir sunnan. Það myndi skapa störf út á landi og þá væri auðveldara að koma allri þjónustu til fólksins líka.
Ert þú og Samfylkingin tilbúin til að skoða þetta fyrir mig?
Ágúst Dalkvist, 19.2.2007 kl. 22:39
Líklega hefur hann haldið sig innan valdamarka sinna í þessu tilfelli. Yfirlýsingar hans um valdsvið forseta sem eru í andstöðu við alla stjórnlagafræðinga sem ritað hafa um málið frá lýðveldisstofnun benda til þess að hann sé ekki heill
sjá skodunmin.blog.is
Jón Sigurgeirsson , 19.2.2007 kl. 22:52
Sæll aftur. Þetta með flutningskostnaðinn höfum við verið að skoða. Kristján Möller er mjög áhugasamur um einmitt þetta atriði. Á hlustunarfundum okkar í janúar ræddum við m.a. hugmynd um endurgreiðslu á hluta af flutningskostnaði til að koma til móts við landsbyggðina.
Strandsiglingar hafa líka verið teknar til athugunar að nýju en núverandi stjórnvöld tóku í raun þá afstöðu fyrir um 2 árum að slíkar siglingar væru liðin tíð. Síðan þá hefur verið bent á aukinn kostnað samfélagsins af sliti á þjóðvegum vegna þungaflutninga, aukna slysahættu, tapaðar tekjur vegna vannýttra fjárfestinga í höfnum o.fl. svo það er full ástæða til að skoða þetta með strandsiglingarnar aftur.
Það er samt alveg á hreinu að stór hluti af vörum verður ekki fluttur með skipum svo það er erfitt að snúa því við. Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 19.2.2007 kl. 23:04
Ólafur er mjög upptekinn af persónu sinni og skoðunum og haldinn þeirri þráhyggju að hann þurfi ekkert tillit að taka til alþingis og ríkisstjórnar. Þetta fer versnandi og ég velti því stundum fyrir mér hvort hann sé ekki alveg í lagi. Ólafur er góðum gáfum gæddur, en hann hefur nú misnotað þær góðu gáfur nokkuð freklega gegnum tíðina , nú síðast í Silfri Egils þar sem hann virtist ekki gera sér grein fyrir hvernig stjórnskipun Íslands er háttað og ræddi um valdsvið sitt á þann hátt að ég held að flestum hafi nú blöskrað.
Kári Lár.
Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 08:39
Hér áður fyrr þegar skattmannn var og hjét og hægt var að tala heilt skipfélag í
gjaldþrot, vor svokallaðir auðmenn, verstu óvinir mannnkyns.
En tímarni breytast Nú flýtir hann för sinni frá heimsmilla skíðaparadí í USA til
að geta afneita lagafrumvarpi frá Alþingi. Alltaf sami vinur litla mannsins.
Leifur Þorsteinsson, 20.2.2007 kl. 10:56
Takk fyrir upplýsingarnar frændi.
Bara ein ráðlegging að lokum.
Svona held ég að kjósendur vilja að pólitík sé rædd. Fólk vill heyra hvað hver flokkur ætlar að gera og vill fá að vita hvernig á að koma því í kring. Það eru allir orðnir þreyttir á að heyra hvað andstæðingarnir eru vitlausir. Held að þeir sigri í kosningunum í vor sem verða meira uppteknir af sinni eigin stefnu heldur en stefnu annara
Ágúst Dalkvist, 20.2.2007 kl. 22:05
Í mínum huga er það höfuðatriði að sú stefna Fagra Íslands að koma á algerri stóriðjustöðvun verði í heiðri höfð næstu árin meðan við erum að ná áttum.
Því miður virðist manni hætta á að eftir kosningar verði álver á Húsavík undanskilið. Samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa allra álrisanna er 5-600 þúsund tonna álver lágmarksstærð og mun þurfa orku á við tvær Kárahnjúkavirkjanir.
Það þýðir ásamt stækkun álvers á Reyðarfirði að virkja þurfi alla orku Norðurlands, þar með talda Jökulsá á Fjöllum, en forsætisráðherra hefur ekki útilokað virkjun hennar.
Hvað snertir ummæli forseta Íslands virðist menn horft fram hjá því að hann sagði í lok ummæla sinna um að ef menn teldu forsetaembættið deild í einhverjum ráðuneytanna að alveg eins mætti segja að ráðuneytin væru deild í forsetaembættinu..."ef menn vildu nota orðhengilshátt".
Ég tel að þessi setning "ef menn vilja nota orðhengilshátt" sýni að forsetinn taldi það ekki í alvöru skoðun sína að ráðuneytin væru deildir í forsetaembættinu, - slík ummæli væru "orðhengilsháttur."
Gaman væri að heyra hvað menn segja um þetta.
Ómar Ragnarsson, 21.2.2007 kl. 00:13
Sæll Ómar.
Það er grundvallaratriði að ekki verði ráðist í frekari stóriðju á meðan verið er að vinna að Rammaáætlun um náttúruvernd. Húsavík er þar ekki undanskilin.
Sjálfstæðismenn hafa aldrei þolað Ólaf Ragnar. Þjóðin kaus hann ekki hvað síst þess vegna. Það fer nefnilega stundum í taugarnar á þessari blessuðu þjóð hvað ákveðnir aðilar í sjálfstæðisflokknum telja sig sjálfsagða drottnara á landinu bláa.
Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 01:13
Bæta við athugasemd
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.
Því ættu allir að geta fallist á að nú verði staldrað við, náttúra landsins alls rannsökuð, verndun verðmætra svæða tryggð og útkoman lögð til grundvallar nýju landsskipulagi. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir er hægt að ræða hvar má skipuleggja mannvirki af ýmsu tagi - utan þessa nets verndarsvæða.
Út á þetta gengur Fagra Ísland Samfylkingarinnar með sinni Rammaáætlun um náttúruvernd. Að rannsaka, friða og skipuleggja út frá þeirri niðurstöðu. Það er skynsamleg og öfgalaus tillaga sem gefur engan afslátt af náttúruverndarsjónarmiðum en flestir ef ekki allir eiga þó að geta fallist á.
Það er ekki síst þetta síðasta atriði sem skiptir máli - við þurfum tillögu sem hægt er að ná samstöðu um. Tillaga sem ekki næst breið sátt um er gagnslaus. Náttúru Íslands er enginn greiði gerður með tillögum sem eru svo öfgafullar að það næst ekki samstaða um þær - þær eru bara ávísun á ófrið sem klýfur þjóðina í tvennt og áframhaldandi píslarvætti náttúrunnar.
Látum það ekki gerast eina ferðina enn. Tökum höndum saman um skynsamlega leið til að leysa þetta stærsta ágreiningsmál þjóðarinnar.
Byrjum á að rannsaka náttúru landsins, tryggja friðun verðmætra svæða og festa þá niðurstöðu í landsskipulag. Svo má tala saman um framhaldið. Ég er bjartsýnn á að meirihluti landsmanna geti fúslega fallist á það. Það væri alveg frábært.