27.2.2007 | 22:45
Björn að braggast!
Mér finnst alveg frábært að sjá að Birni Bjarnasyni er að eflast heilsa en hann hefur undanfarna daga haft nægilegt loft í lungum til að láta gamminn geysa af krafti á bloggsíðu sinni.
Það er freistandi að ætla að það hafi verið neyðaróp Moggans um hjálp við að klæða Sjálfstæðisfálkann í grænan búning sem hafi verið það sem þurfti til að koma Birni á fætur. Oft er það neyð annarra sem þarf. Alla vega sýndi hann mikla björgunarhæfileika í sunnudagspistli sínum þar sem hann tíundar grænar áherslur Sjálfstæðisflokksins og styðst þar við "fréttaskýringu" Freysteins Jóhannssonar sem áður hefur verið rætt um á þessari síðu.
Það verð ég að segja þeim félögum til hróss að þeir væru mjög liðtækir sem texta- og hugmyndasmiðir á hvaða auglýsingastofu sem er þó ég verði jafnframt að taka fram að líklega hefði nú siðanefnd Sambands Íslenskra Auglýsingastofa sitthvað við uppsetningu og innihald þessarar "grænfálkaherferðar" sjálfstæðismanna að athuga.
Það er nefnilega hart tekið á hálfsannleika um innihald vöru í auglýsingum og það er stranglega bannað að gefa í skyn að auglýsing sé frétt - a.m.k. þarf að taka fram með sérstakri merkingu að um auglýsingu sé að ræða.
Ég veit ekki til að auglýsing af þessu tagi hafi áður verið birt á forsíðu Moggans og hefði verið athugandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá auglýsinguna tilnefnda í keppnina um athyglisverðustu auglýsingar ársins - ef ekki hefði misfarist að taka fram að þarna var um auglýsingu að ræða.
Illu heilli þá sýnist mér hins vegar sem Björn sé hættur að ræða grænar áherslur Sjálfstæðisflokksins (ekki lengi að því sem lítið er;) og farinn að stunda fyrra áhugamál sitt - að greina Baugsmálið ofan í kjölinn. Það er bæði slæmt af því það er mörgum spurningum um Græna Fálkann ósvarað og svo ekki síður af því Björn er dómsmálaráðherra og því vart við hæfi að hann tjái sig á opinberum vettvangi um efnisatriði máls sem er fyrir dómi í Hæstarétti.
Í þriðja lagi grunar mig að þetta sé Birni ákaflega óheilsusamlegt og ég óttast að ef hann sökkvir sér á ný í neikvæðni vegna Baugsmálsins (og pirrings út í Ingibjörgu Sólrúnu) lendi hann fljótlega aftur í andnauð, þurfi aftur að fara að hlusta á Wagner og verði alls ekki tilbúinn til að stinga sér út í laugina þegar kemur að kosningaslagnum í vor. Það væri miður.
Ég held að honum og reyndar fleirum í flokki fálkans regnbogalita væri heilsusamlegra að beina fremur kröftum sínum að einhverju uppbyggilegu t.d. að upplýsa þjóðina um eftirfarandi:
- Er Illugi Gunnarsson, grænasti maður Sjálfstæðisflokksins enn þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum?
- Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af Íslands hálfu?
- Vill flokkurinn t.d. stefna út úr Kyoto samkomulaginu með útúrsnúningum á meðaltalsákvæði samkomulagsins, líkt og Framsókn hefur boðað?
- Eru Sjálfstæðismenn ósammála Iðnaðarráðherra sem hefur ekki útilokað að eignarnámsákvæði verði beitt til að tryggja Landsvirkjun virkjunarleyfi í neðri Þjórsá? Er ágreiningur um þetta í ríkisstjórninni?
- Mun Sjálfstæðiflokkurinn samþykkja þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um að fella úr gildi heimild fyrir Norðlingaölduveitu og hverfa þar með frá áætlunum sínum um virkjun í Þjórsárverum?
- Telja Sjálfstæðismenn enga þörf á að staldra við og klára að kortleggja og taka frá verðmæt náttúrusvæði?
- Eru einhver svæði sem orkufyrirtækin hafa núna í sigtinu það verðmæt að mati Sjálfstæðismanna að ástæða sé til að taka þau frá til verndar?
- Telja Sjálfstæðismenn heppilegt út frá efnahagslegu tilliti að ráðast í byggingu tveggja nýrra álvera á suðvesturhorninu á næstu árum?
- Telja Sjálfstæðismenn sjálfsagt að virkja til þess Þjórsá í andstöðu við heimamenn, virkja allan mögulegan jarðhita á Reykjanesi og á Hengilssvæðinu?
- Þar sem ljóst er að aðeins stækkunin í Straumsvík dugar til að rjúfa Kyoto þakið - hvað ætlar hinn græni flokkur Sjálfstæðisflokkurinn að fara með í nesti þegar farið verður að ræða framhald Kyoto?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook
Athugasemdir
áttu von á því að fá einhver svör við þessu frá Birni Bjarna hérna (sem þú ert greinilega mjög pirraður út í)?
það væri amk ágætt ef þú gætir svarað spurningum til þín og þ.a.l. upplýst þjóðina um eftirfarandi:
1. Er Samfylkingin með eða á móti stækkun álvers í Straumsvík?
2. Er Samfylkingin á móti fyrirhuguðu álveri á Bakka við Húsavík?
Mig langar svo að ítreka spurningu mína til þín úr fyrri færslu hjá þér:
----------------------
Annars langar mig að vitna í þig Dofri hér fyrir neðan og spurja af hverju gerðuð þið þá ekki neitt annað en að tala í öll þessi ár þegar þið höfðuð bæði tækifæri og völd til þess að framkvæma eitthvað af þessum góðu hugmyndum?
Nú stjórnar Sjáflstæðiflokkurinn og ekki er hann líklegur til afreka í þessum málaflokki (þó hann gæti reynst grænari en þið með umræðupólitikina þegar upp er staðið)
Quote:
Því gleðst ég dag hvern yfir þeim viðsnúningi sem hefur a.m.k. orðið á fulltrúum meirihlutans í Umhverfisráði sem nú tala með opnum huga um margar lausnir í umferðarmálum sem við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 01:36
Ég tek undir með Hákoni Hrafni hér að ofan og spyr hver afstaða Samfylkingarinnar sé til nýrra/stækkunar álvera?
Hver er afstaða S til loftlagsmengunar? Þ.e. ætlar S að standa gegn frekari aukningu?
Hvaða stefnumál S get ég treyst því að þið munið berjast fyrir með kjafti og klóm komist þið á þing? Þ.e. hvaða mál eruð þið tilbúin að ábyrgjast að verði ekki samin frá ykkur fyrir völd og/eða stóla?
Ég spyr ekki vegna þess að ég vilji vera með leiðindi eða hroka. Ég spyr Dofri vegna þess að óstöðugleiki S hingað til með sín eigin stefnumál er eina ástæðan fyrir því að ég treysti mér ekki til að kjósa S í komandi kosningum.
Baldvin Jónsson, 28.2.2007 kl. 09:26
Fá einn grænan gára í staðinn fyrir fálkann? . Þá líst mér betur á fálkann
Sennilega er það bara að sýna sig í borgarstjórn að það er betra að hafa Samfylkinguna í minni hluta. Þá geta sjálfstæðismenn vegið og metið hverjar af hugmyndum þeirra eru góðar og hverjar slæmar. Svo geta þeir farið í það að framkvæma góðu hugmyndirnar. Það vafðist eitthvað fyrir samfylkingarfólki þetta með framkvæmdina
Við vitum þá hvað við eigum að kjósa í vor
Ágúst Dalkvist, 28.2.2007 kl. 10:24
Hákon Hrafn og Baldvin.
Nei ég á ekki von á BB svari þessum spurningum mínum. Ég er hins vegar alls ekki pirraður út í hann, þvert á móti þá gleðst ég ákaft í hvert sinn sem sá ágæti maður blandar sér í umræðuna.
Stefna Samfylkingarinnar er alveg skýr. Við viljum fresta fyrirhugðum stóriðjuframkvæmdum. Það þýðir að sjálfsögðu að við erum á móti stækkun álversins í Straumsvík. Við ráðum hins vegar litlu um þá framkvæmd - ríkisstjórnin er búin að gefa öll leyfi sem þarf nema leyfi Hafnfirðinga sjálfra.
Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur sett fram alveg skýra tillögu að sátt um náttúruverndarmálin. Við viljum byrja á að fara í Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt náttúrusvæði, tryggja verndun þeirra og láta svo þá útkomu ráða skipulaginu.
Þetta hefur allur þingflokkurinn skrifað upp á, þetta er stefna flokksins og formaður flokksins hefur sagt að þessi áætlun verður eitt af aðalmálum flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum. Þér er því óhætt að treysta því Baldvin að ef Samfylkingin fær góðan stuðning í kosningunum þá verða næstu ár notuð í þetta mikilvæga verkefni. Ef Samfylkingin fær ekki góðan stuðning þá óttast ég að erfiðara verði að ná þessu mikilvæga máli í gegn. Vg hefur ekki sett fram neina heildartillögu að lausn svo ég óttast mjög að þetta mál fari í vaskinn ef Sjálfstæðismenn mynda ríkisstjórn með þeim.
Rammaáætlun um náttúruvernd tekur á öllum stórum framkvæmdum, alls staðar á landinu. Það er sama hvort verið er að ræða hálendishótel, Kjalveg eða virkjanir. Við rannsökum fyrst, verndum og skoðum svo hvar er hægt að koma fyrir þeim mannvirkjum sem nauðsynleg eru talin.
Hákon Hrafn. Þessi útúrsnúningur úr tilvitnun í mig er nú dálítið þrasaralegur hjá þér. Auðvitað gerði R-listinn stórvirki í umhverfismálum og nægir þar að nefna stærsta einstaka verkefni í umhverfismálum á Íslandi, hreinsun strandlengjunnar. Auk þess lagði R-listinn alla tíð mikla áherslu á að bæta almenningssamgöngur og mætti þar oft mikilli andstöðu Sjálfstæðismanna sem töluðu um forsjárhyggju, peningaeyðslu og frelsishöft á notendur einkabílsins. Þú getur svo skoðað hvað sjálfstæðismenn sem þá voru í minnihluta höfðu mikið um svifryk og umferðarmengun að segja, hvaða tillögur þeir komu með í þeim málum á 12 árum og borið saman við áhuga og tillögur núverandi minnihluta eftir að nýtt kjörtímabil hófst.
M.g.k.
Dofri
Dofri Hermannsson, 28.2.2007 kl. 14:15
Dofri minn, það er alls ekki rétt hjá þér að VG sé ekki með sína hluti á hreinu og hafi ekki mótað stefnu í þessum málum. Ég vona að þú sért ekki að reyna að slá ryki í augu fólks með slíkum málflutningi. VG hefur mjög skýra stefnu í þessu máli. ÖLL stóriðja verður stöðvuð. ÖLL áform verða stöðvuð, nema þau sem orðin eru lögbundin er varla hægt að stöðva. Við treystum á það að Hafnfirðingar kjósi á móti stækkun til að ekki þurfi að efna gefin loforð um orku þangað. Eins og þú segir mun stækkunin þar sprengja Kyoto og okkur hugnast svo sannarlega ekki að semja um fleiri undanþágur frá þeim samningi. Okkar markmið miðast öll að því að draga úr mengun og komast niður fyrir og útúr þeim undanþágum sem við höfum samið um og setja okkur metnaðarfull markmið sem draga munu úr mengun.
Það er því tómt bull þegar XS talar um að VG hafi ekki sett fram skýra stefnu í þessum málaflokki. Það höfum við gert og það vita landsmenn allir að VG mun berjast gegn allri stóriðju á komandi kjörtímabili. Við munum hins vegar efla mjög og hlúa að hugmyndum og framkvæmdagleði einstaklinga sem geta stofnað fyrirtæki og þar með skapað nokkur störf. Útsala á auðlindum þjóðarinnar til erlendra auðhringja kemur hins vegar ekki til greina af okkar hálfu. Varðandi Húsavík og Hafnarfjörð er það alveg kýrskýr stefna okkar VG að við styðjum ekki stækkun, né nýbyggingu álvers á Bakka sem seinna er áformað að stækka og mun þarmeð þurfa mun meiri orku en kemur frá jarðvarmanum einum saman. Við viljum efla lítil og meðalstór fyrirtæki með því að hlúa að þeim á fyrstu árum í rekstri. Það má spyrja sig hvort er vinstri og hvort er hægri? Við vinstri styðjum einstaklinga til menntunar, til dáða, til dugnaðar við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hægri menn hins vegar standa í afar áhættusömum ríkisframkvæmdum þar sem orkulindir okkar eru seldar á undirverði!
Andrea J. Ólafsdóttir, 28.2.2007 kl. 15:02
Sæl Andrea. Hér er um ákveðinn misskilning að ræða. Það er alveg á hreinu að stefna ykkar um að stöðva fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir er kristaltær. Þá skýru afstöðu eigið þið alveg skuldlaust og getið verið ánægð með.
Þá er hins vegar eftir að svara því
Það er þetta sem ég á við þegar ég segi samkvæmt bestu vitund að Sf hafi fyrst flokka sett fram tillögu að lausn á málinu - lausn sem tekur ekki bara á virkjunum heldur byrjar á því sem þarf að gera fyrst - AÐ RANNSAKA LANDIÐ ALLT, KORTLEGGJA VERÐMÆT NÁTTÚRUSVÆÐI OG TRYGGJA VERNDUN ÞEIRRA. Þetta er svona meira heildarpæling og ég held að það sé full þörf á henni.
Ég held líka að þegar er búið að setja hlutina fram á þennan hátt - sem tillögu að lausn - þá sé mun einfaldara að semja um það í stjórnarmyndunarviðræðum að hún verði framkvæmd í heild, ef þörf verður á að semja á annað borð. Við tvö ætlum hins vegar að sjá til þess að þeir samningar verði auðveldir því við viljum Sf og Vg saman í græna stjórn.
Ég bið þig forláts ef ég hef eitthvað verið óskýr varðandi hreina afstöðu Vg til stóriðjustopps. Það var engan veginn ætlunin. Það sem ég var að reyna að útskýra var þetta "hvað svo!"
Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 28.2.2007 kl. 15:58
Vandamálið við Samfyllinguna er þetta daður hennar við jafn ólýðræðislegan bannflokk og VG er. Sæmilega frjálslyndu fólki er illa við að kjósa Samfylkinguna sökum þessa - atkvæði greitt Samfylkingunni skapar stórhættu á upphafning VG.
Æ, nei
Kv Sveinn
Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 21:17
Sæll Dofri
Ég tel það varla útúrsnúning og þras að benda þér vingjarnlega á að þú talaðir eins og Samfylkingin hefði verið í minnihluta í borginni í fjölda ára. Þú ert í pólitík og manni sýnist nú stundum að þar sé þras mjög vinsælt.
R-listinn hreinsaði strandlengjuna og ISG lofaði að skella sér í sjóinn í Nauthólsvík á einhverju tímapunkti þess verks. Hún stóð við það og er það vel. R-listinn lagði á eitthvað sérstakt holræsagjald ef ég man rétt til að standa undir þessu verki. Það gjald var haldið áfram að innheimta eftir að þessu verki lauk, eru sjálfstæðismenn búnir að fella það niður núna eða er það ennþá innheimt?
Reyndar segir á vef Orkuveitu Reykjavíkur að þetta verk hafi hafist nokkuð fyrir tíma R-listans en það verður ekki tekið af R-listanum að hann kláraði verkið.
-----------------
Stærsta verkefni fráveitunnar og eitt mesta umhverfisbótaverkefni sem unnið hefur verið að hér á landi er hreinsun strandlengjunnar við Reykjavík. Vinna við þetta verkefni hófst um 1980 þegar mengun í fjörum var orðin öllum til ama. Verkefnið tók mikinn kipp frá árinu 1995 þegar lagt var á sérstakt holræsagjald, en segja má, að því hafi formlega lokið 16. júní 2005 þegar tekin var í notkun dælustöð fyrir skolp í Gufunesi og fráveitu frá Grafarvogi, Grafarholti og Mosfellsbæ var komið í samband við hreinsistöðina í Klettagörðum.
-----------------
Annars þakka ég fyrir svörin. Ég vissi ekki að allur þingflokkurinn hefði skrifað undir þessa yfirlýsingu. Miðað við umræðuna undanfarið fór svarið við spurningum mínum alfarið eftir því hver var spurður, klukkan hvað, við hvaða tilefni og hvar viðkomandi var staddur á landinu - og það jafnvel hjá sömu mannsekjunni. Það sem þingflokkurinn skrifar undir ætti að vera nægileg staðfesting á þessari stefnu. Skv Fréttablaðinu í dag telja kjósendur Vg vera grænasta flokkinn í dag, það gæti þó breyst.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 22:12
Hákon Hrafn. Til að svara spurningunni um holræsagjaldið þá var það auðvitað sett á af því að ekkert gekk í að hreinsa strandlengjuna en nú er því lokið, Sjálfstæðismenn teknir við og ekki búið að leggja gjaldið niður.
Til fróðleiks má geta þess að þegar ég var að skoða skýrslur um hreinleika sjávar við stendur höfðuborgarinnar fyrir kosningar í fyrra þá vakti það athygli mína að þessi mál voru til fyrirmyndar allstaðar hjá Reykjavík en saurgerlamengun var yfir mörkum við strendur Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.
Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 1.3.2007 kl. 15:44
Það var auðvitað
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.