Et tu Brute?

e tu brutusFramsókn er komin í stjórnarandstöðu nú 10 vikum fyrir kosningar. Þetta er kunnugleg staða. Þegar líður að kosningum fer Framsókn ævinlega að haga sér eins og hún hafi engu ráðið á kjörtímabilinu. Það er efni í mörg blogg að fara yfir málefnasamþykktir flokksþingsins en tvennt vekur sérstaka athygli núna.

Annað er að Framsóknarflokkurinn segist núna í aðdraganda kosninga ætla að setja fram miklu mildari kröfur í þjóðlendumálunum en gert hefur verið. Segist sjá eftir allri hörkunni sem landeigendum hefur verið sýnd, vilja eiginlega hætta við mest af þessu - ætla að endurskoða málið. Þessi orð koma full seint til að hægt sé að taka þau trúanleg. Meira að segja sveitastjórinn á Grenvík hlýtur að efast.

Hitt er að núna allt í einu, nokkrum dögum fyrir þingslit er Framsókn allt í einu orðin yfir sig áhugasöm um að slá á hrikalegar afleiðingar kvótakerfisins (helsta stolt flokksins) með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir hafsins skuli vera þjóðareign. Flokkurinn hefur ekki sýnt málinu nokkurn áhuga í stjórnarskrárnefnd, fyrr en núna þegar þeir sjá möguleika á að leika stjórnarandstöðuflokk og skilja Sjálfstæðisflokkinn einan eftir í súpunni. 

Það er aumt af Framsóknarflokknum að svíkja félaga sína í ríkisstjórn með þessum hætti. Enn verra er hins vegar að renna svo á rassinn með það - hætta við stökkið í loftinu. Nú stendur ekkert eftir af þessari djörfu áætlun annað en brostið traust á milli stjórnarflokkanna. Siguður Kári heimtar afsögn Sivjar og Jón formaður reynir í örvæntingu að breiða yfir allt klúðrið með því að kalla orð heilbrigðisráðherra misskilning.

„ef að við náum ekki að klára það, að þá geti það haft áhrif á þetta ágæta stjórnarsamstarf, að það geti trosnað verulega þannig að við ef til vill sjáum hér þá einhvers konar minni hlutastjórn eða starfsstjórn fram að kosningum“.

Það er erfitt að misskilja þetta. Nú er spurning hvort Sigurður Kári stendur við stóru orðin og ber upp vantraust á heilbrigðisráðherra. Þetta er hins vegar vandræðamál fyrir Sjálfstæðismenn. Þótt Bjarni Benendiktsson hafi með ágætum stjórnað vinnunni við að móta tillögu - sem nú er tilbúin - um þetta auðlindaákvæði í stjórnarskrárnefndinni, þá er það eingöngu ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins sem stoppar málið.

Í stuttu máli sagt - Framsókn gerði ekkert í málinu og Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í málinu. Svona fór um sjóferð þá, allt er komið í strand - nú er að sjá hvort sælt er sameiginlegt skipsbrot!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Í einu má þó hæla framsókn, það er ekki til liðugri stjórnmálaflokkur. Hann stakk sig sjálfur í bakið

Ágúst Dalkvist, 5.3.2007 kl. 12:29

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Framsókn á enga fortíð þegar kemur að kosningum.Gott að íhaldið finni það á eigið skinni.Hvorugur þessara flokka hefur  neinn áhuga á að sameignir þjóðarinnar verði lögbundnar samk.Stjórnarskrá lýðveldisins.Þetta var sett í stjórnarsáttmála flokkanna til blekkja þjóðina. 

Kristján Pétursson, 5.3.2007 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband