Í borgarstjórn í dag voru svifryksmál til umræðu. Þetta er afar þörf umræða og á það bentu fulltrúar Samfylkingar og Vg í ræðum sínum þar sem rætt var um hvað veldur svifryki og hvaða leiðir eru til úrbóta.
Samfylkingin hefur lagt fram ýmsar tillögur í Umhverfisráði og Borgarráði t.d. um sérstakt átak til að fræða fólk um skaðsemi svifryks, t.d. með umræðu í fjölmiðlum og með því að fá veðurfréttamenn á fjölmiðlum til að gefa svifryksmálum sérstakt vægi þannig að þegar spáir köldu og lygnu veðri þá verði sérstaklega á það minnst í verðurfréttum og fólk hvatt til að hvíla bílinn og taka strætó.
Samhliða þessari tillögu fluttum við tillögu um eitt fargjald kr. 100 í Strætó í mars, þeim mánuði þegar svifryk er í hámarki. Þessi tillaga er að því er virðist föst í samráðsferli, henni var vísað til umsagnar hjá Umhverfisráði sem svo aftur þarf að biðja um umsögn Strætó bs.
Illu heilli fundar Strætó bs aðeins einu sinni í mánuði og meirihlutinn virðist ekki ætla að biðja um sérstakan fund nú þegar til að ræða þessa tillögu og því gæti það dregist fram í miðjan apríl að ákveða hvort það á að kosta 100 kr. í strætó í mars. Það er slæmt af því það hefði bæði verið gott að gefa fólki tilefni til að hvíla bílinn og eins hefði verið áhugavert að sjá hvort einfaldara fargjald hefði þau áhrif að fjölga farþegum.
Þriðja tillagan sem við höfum flutt um þetta mál er að gerð verði heildarúttekt á þeim samfélagslega kostnaði sem hlýst af notkun nagladekkja. Vitað er að það kostar tæpar 200 milljónir að laga malbikið á vorin en hvað kostar allur tjöruausturinn í þrifi á bílum, rúðuvökva og rúðuþurrkum? Hvað tapast mikið umferðaröryggi vegna tjöru á dekkjum? Hvað kostar svífandi malbik okkur í auknum astmalyfjakostnaði og síðast en ekki síst - hvað kosta nagladekkin okkur í heilsutjóni íbúanna? Er hægt að reikna það til fjár?
Umræðan um þetta fór nokkuð málefnalega af stað og það vakti athygli mína og ánægju að núna loksins virðast Sjálfstæðismenn (og Framsókn) vera tilbúnir að leggja skatt á nagladekk!
Það var sannarlega tími til kominn og ekki hægt annað en að gleðjast yfir slíkum sinnaskiptum. Það er sannarlega til vinnandi að sitja í minnihluta eitt kjörtímabil þegar það hefur þau áhrif að fyrrum minnihluti sér ljósið!
Það verða trúlega aðrir til að gera afganginum af fundinum skil en því miður enduðu annars ágætar umræður - ekki út í móa - heldur í fyrst villigötum á mislægum gatnamótum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar og það ofan í stokk. Undarlegt hvað hægt er að ræða í löngu máli um þessa uppáhaldsframkvæmd Sjálfstæðismanna sem samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins vill þó ekki setja peninga í og ljóst er að verða ekki framkvæmd á kjörtímabilinu.
Ég sem anda að mér svifrykinu í dag og á morgun vil heldur að tímanum sé varið í að tala um það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll, Dofri !
Nóg komið; af álögum á okkur bifreiðaeigendur. Væri þó, ykkur í Reykjavík og nágrenni, til nokkurrar hugarhægðar; til í að skoða einhver prósentu brot, yrði hið fáránlega Bifreiðagjald, frá árunum 1988/1989 aflagt, með öllu. Þar voru, þeir Þorsteinn Pálsson og Jón Baldvin Hannibalsson vel samstíga, í því helvítis gögleríi.
Eins og þú eflaust manst, Dofri; átti það gjald að vera, til mjög skamms tíma, annað kom á daginn. !
Ekki einleikið, hversu margir skammtíma skattar, hérlendir verða oftast viðvarandi, áratugum saman. Breytir þá engu, hverjir eru við stjórnvölinn.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 00:42
Hvar var Samfylking í tólf ára setu R-listans???????
Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.3.2007 kl. 09:24
Þeir voru að byggja leikskóla, fjölga konum í stjórnsýslunni, hækka lægstu laun ogsfrv ogsfrv. Þú getur nú varla haldið því fram að hægt sé að gera allt á 12 árum?
Á móti er síðan hægt að spurja: Hvar var aðhald sjálfstæðisflokksins í tólf ára setu R-listans????????
Er það ekki einmitt aðhald minnihlutans sem að kemur þessum málum af stað????????
jón (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 10:45
En getur ekki líka verið að hafi bjargað einhverju, t.d. stórfelldu eignatjóni og mannslífum? Ég verð að segja, að mér finnst, hrein og bein fásinna ef fólk uta höfuðborgarsvðisins ætti að fara að borga einhvern nagladekkjaskatt, hvað þá ef ætti að banna þeim alfarið að nota slík dekk. Fyrir nú utan að malbikið eyðist þó engin nagladekk væru notuð. vandamálið á höfuðborgarsvæðinu er ekki notkun nagladekkja, heldur hreint ótrúleg ofnotkun bifreiða. Fyrir mína parta held ég að skynsamlegra væri fyrir sveitarstjórnir höfuðborgarsvæðisins, að skera upp herör gegn brjálæðislegri ofnotkun bifreiða á svæðinu. Í því sambandi finnst mér t.d. vel raunhæft, að fella niður fargjöld strætisvagna.
Jóhannes Ragnarsson, 7.3.2007 kl. 10:51
Svör við málflutningi Dharma:
1. Það hve mikið kostar í strætó hefur mikil áhrif á nýtingu slíkra almenningssamgagna, það eigum við eftir að sjá og erum að sjá á Akureyri.
2. Þessi mikla umræða um svifryk tel ég að megi rekja til breytts veðurfars hér á landi. Fyrir 12 árum sáum við ekki marga slíka snjólausa, kuldalega, vindlausa daga eins og hefur verið þróunnin undanfarin ár. Þetta veldur því að aðstæður til mikillar myndunar svifryks eru algengari nú á dögum.
3. Skattlagning og umbunun er sami hluturinn, báðir jafn slæmir (koma niður á sama stað eins og þú segir, skattfé almennings). Að mæla með öðrum gegn hinum er ekki góð röksemdafærsla. Báðir valda því sem kallað er í hagfræðinni "Allratap" eða "dead wight loss"
4. Afhverju greip Samfylkingin (lesist R-listinn) ekki til aðgerða? Svarið byggist að miklu leyti á lið 2 hér að ofan, sem og því sem jón benti á hér að ofan.
5. Mislæg gatnamót við kringlu er ekki lausn heldur tilfærsla á vandamáli umferðaöngþveita. Vandamálið mun bara færast á næstu gatnamót. Mislæg gatnamót á þessum stað eru þó leið til meira umferðaröryggis og skal mæla með þeim á þann veginn.
6. Þessi fyllyrðing um blóðtappa vinstri- manna er alfarið þín skoðun og enginn rök þar á bak við.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 11:52
Skemmtilegt.
1. Hér er ekki notuð rök, heldur er bara málið hjá þér að vera ósammála. ok. þú um það.
2. Þetta með breytt veðurfar er staðreynd og eins og ég sagði gæti skýrt hluta af því afhverju þetta er svona mikið til umræðu núna. Vegna þess að jú aðstæður sem auka líkur á miklu svifryki eru algengari nú en áður. Það skýrir hins vegar alls ekki að öllu leyti afhverju R-listinn gerði ekkert í málunum á þessum tíma. Ég ætla ekki að taka upp hanskan fyrir það apparat, en var í sakleysi mínu að benda á hugsanlega ástæðu.
3. Hverjir eiga að borga þeim sem eiga að fá umbunina?? Myndi uppeldisfræðingur ekki segja að það barn sem ekki fær sleikjó meðan að aðrir í kringum hann fái sleikjó líti á það sem refsingu. Nei, veistu ég held ég haldi mig bara við hagfræðirökin sem segja manni að þetta sé alveg jafn slæmt. Best væri ef allir myndu átta sig á því hversu lítið þörf sé að nota nagladekk og enginn þyrfti að borga neinum neitt.
4. Minni þig á að tala um R-listann ekki Samfylkingu. En að öðru leyti lestu svar 2.
5. Væri ekki auðveldara að dreifa umferðinni, einmitt með Öskjuhlíðargöngum, frekar en að nota þína lausn. Þá hugsanlega þarf ekki að vera með þessar gífurlegu endurtekningu sem þú boðar. Ekki myndi ég vilja borga fyrir þessi gífurlegu útgjöld sem þú boðar. Síðan væri einnig hægt að stuðla að minni bílanotkun eins og Jóhannes talar um að ofan. En nei það má ekki ráðast þá sem vilja nota einkabílinn sinn til að skutlast út allt.
6. Nei, já þú ert greinilega búinn að taka þessa málsgrein til baka, gott hjá þér enda frekar léleg.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 12:51
Er þetta ekki bara týpístk fyrir "lausn" samfylkingarinnar, nýr skattur!!!! Það var þá öll hugsjónin um að losna við svifrykið, nýr skattur. Mikið svakalega vona ég að íhaldið og framsókn ranki við sér áður en þessi martröð verður að veruleika.
Og annað Dofri, ef þú getur svarað, (þú virðist nefninlega aldrei geta svarað spurningum manna hérna),
þú segir "Það var sannarlega tími til kominn og ekki hægt annað en að gleðjast yfir slíkum sinnaskiptum. Það er sannarlega til vinnandi að sitja í minnihluta eitt kjörtímabil þegar það hefur þau áhrif að fyrrum minnihluti sér ljósið!"
nú var svifrykið ekki að verða til daginn sem að R-listinn hrökklaðist frá völdum, þið höfðuð 12 ár til að sjá ljósið en gerðu það ekki og nú þykistu vera stórmannlegur með því að segja að "meirihlutinn sjái ljósið", hahha, þvílík og önnur eins vitleysa, 12 ár hjá ykkur og ekkert gerðist en nú ætlar sem betur fer meirihlutinn að leggjast í að taka á þessu vandamáli, þó ég voni að lausnin verði ekki a-la-vinstri taktík, þ.e hækka skatta.
Og hvaða grín er það að halda í einfeldni sínu að fólk leggi í stórum stíl bílum sínum og taki strætó??? Sé ekki fyrir mér fólk á þeytingi með börnin í leikskóla og útrétta o.fl í strætó :)
prinsinn (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 13:05
Þetta með það sem nokkrir hafa haldið fram hér um að enginn taki strætó segir manni bara eitt.
Málshátturinn "Margur heldur mig sig" á vel við.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 13:12
Ágætu málefnalegu pennavinir.
Það eru margir sem taka strætó. Þar á meðal ég sjálfur. Sumir atvinnupólitíkusar - í Sjálfstæðisflokknum - eru ævinlega jafn hissa á þessu. Þeir fá vorkunarglampa í augun og spyrja varfærnislega hvort ég hafi misst prófið. Það segir sína sögu.
Þú sem kýst að kalla þig prinsinn (þú mátt reyndar gjarna skrifa undir nafni) heldur því fram að ekkert hafi verið gert í svifryksmálum í tíð R-listans. Það er alrangt hjá þér. Það var gríðarlega margt gert og vel staðið að málum. Mengun mæld í bak og fyrir, reynt að hvetja fólk til að spara einkabílinn, farið í herferðir gegn lausagangi bifreiða t.d. utan við stofnanir og skóla. Þetta eru bara nokkur dæmi.
Sú vakning sem núna er að verða í svifryksmálum kemur annars vegar til út af þessari góðu vinnu og hins vegar af því að undanfarið hafa verið að koma nýjar niðurstöður rannsókna sem benda til þess að skaðsemi svifryks sé enn meiri en áður var talið.
Það hefur hins vegar verið við ramman reip að draga í þessum málum pólitískt séð af því það er auðvelt að snúa baráttu fyrir umhverfisvænni samgöngum upp í skerðingu á frelsi einstaklingsins. Það hafa Sjálfstæðismenn í borginn verið sérlega duglegir við að gera undanfarin ár.
Eitt síðasta "stöntið" hjá þeim var skítatrixið sem þeir beittu 2 dögum fyrir borgarstjórnarkosningar þegar þeir dreifðu photoshopuðum myndum af stöðumælum við bílastæði fyrir utan menntaskóla, háskólann og leikskóla og sögðu það vera stefnu Samfylkingarinnar að rukka menntskælinga, háskólastúdenta og fólk sem væru að sækja börn sín á leikskóla um stöðumælagjald.
Algjör uppspuni frá rótum - eingöngu verið að hræða bifreiðaeigendur frá því að kjósa Samfylkinguna. Jafnvel þótt Samfylkingin hefði viljað setja stöðumæla á lóðir framhaldsskólanna - sem ekki var raunin - þá gæti hún það ekki því framhaldsskólarnir ráða sjálfir lóðum sínum rétt eins og venjulegir íbúar borgarinnar.
Þetta er ágætt dæmi um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn - vinur einkabílsins - hefur alla tíð hagað sínum málflutningi þegar rætt er um samgöngur í borginni. Í borgarstjórn í gær lagðist svo formaður Umhverfisráðs svo lágt að segja að það væri beinlínis R-listanum að kenna að bílum hefði fjölgað um tugi prósenta á síðasta áratug. Hann taldi það beina afleiðingu af því að R-listinn hefði reynt að þrengja að einkabílaumferð! Ég átta mig ekki á orsakasamhenginu. Skyldi ríkisstjórnin ekki hafa haft nein áhrif á málið - hvaða flokkur hefur stjórnað samgöngumálunum þar? Hefur bílum ekki fjölgað jafn mikið í Kópavogi? Er það líka R-listanum að kenna.
Með þessum hætti hafa Sjálfstæðismenn hagað málflutningi sínum og í gær datt formaður Umhverfisráðs aftur í þennan drullupytt. Ég vona samt að hann nái að krafla sig upp úr honum aftur því eins og ég sagði í pistlinum - það er gott að Sjálfstæðiflokkurinn þurfi sjálfur að glíma við alvöru verkefni eins og mengun og öryggi í umferðinni. Það kennir þeim vonandi að hætta svona loddaraskap eins og ég tók dæmi af hér að ofan.
Ef þeim verður ágengt þá verður það ekki af því að þeir hafi eitthvað sérstaklega nýtt fram að færa (áætlun Umhverfisráðs byggir nánast að öllu leyti á vinnu R-listans) heldur af því að núverandi minnihluti hjálpar þeim, setur jafn mikið fram ef ekki meira af góðum tillögum sem síðan eru fluttar sem tillögur alls ráðsins og síðast en ekki síst - stillir sig um að slá pólitískar keilur með því að sá tortryggni og fá fólk upp á móti framfaramálum.
Dofri Hermannsson, 7.3.2007 kl. 13:56
Sælir allir
Það er mjög rökrétt ákvörðun að skattleggja nagladekk ef ekki á að banna þau. Það fær fólk til hugsa lengra. Nagladekk valda fölsku öryggi. Besta og eina ráðið þegar keyrt er í hálku er að aka hægar. Þeir dagar á höfuðborgarsvæðinu sem nagladekkja er virkilega þörf eru líklega færri en tíu á ári. Ef bíleigendur treysta sér ekki að keyra á slíkum dögum, eiga þeir að taka strætó og ganga. Þetta er óþarfa mengun sem bitnar á öllum, líka börnum þeirra sem keyra um á nagladekkjum og verið er að skutla.
Ég vara stórlega við frekari mislægum gatnamótum. Þau þurfa mikið landflæmi sem öllum sínum slaufum sem þýðir að byggðin verður enn dreifðari fyrir vikið. Umferðarhraði eykst og mengun.
Við verðum að fara sjá hlutina í meira samhengi en bara að komast í og frá vinnu "akkúrat" í dag ! Byggðin verður bæði ljót og hrörleg ef hún þróast meira í átt til borga vestanhafs (nema NY og Boston). Í því máli eru almenningssamgöngur lykilatriði. Ég man eftir í fjölmiðlun að fyrrum borgarverkfræðingur var lengi búinn að velta fyrir sér hvernig samgöngumálum borgarinnar skyldi háttað. Eftir langan tíma kom hann með þá tillögu, að kannski væri réttast að ókeypis í strætó, a.m.k. sem tilraun, svo ekki þurfti að fara allar þessar miklu framkvæmdir, fækka húsum, auka samgöngumannvirki, og byggðin myndi þenjast stjórnlaust upp til fjalla eða á Kjalarnes. Sem einmitt hefur gerst. Og ferðatíminn stóreykst ! Þetta er eins og hver annar vítahringur.
Sjálfstæðismenn á síðunni athugi þetta frekar en að benda alltaf á Samfylkingu !
kveðja Gísli
Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 17:00
1. Já það er rétt "ískaldir" bílar menga meira. Átakið snérist hins vegar um það að hafa bíla ekki í lausagangi meðan verið er að sinna skammtíma verkefnum eins og að koma börnum inn í leikskóla, versla og.sfrv. Ekki veit ég hvar Dharma lærði varmafræði en bílar verða ekki ÍSKALDIR á svo skömmum tíma.
2. Þá velur þú bara þína menn. Gunnar Birgisson, Árna Johnsen, Vilhjálm Þ. Björn Bjarna eða jafnvel hvaða sjálfssóknarmann sem er. Ja nema þú sért ekki frímúrari, hluti af innri-kopp eða með sama blóð og þessir menn, þá ráðlegg ég þér að gera það ekki. (athugið þessi málsgrein er ekki byggð á neinum haldbærum rökum.... eða hvað?)
3.Hvaða tillögur voru það??
4. Nú við erum greinilega komin hér með umboðsmann almennings herra/frú Dharma. Það er nú stór hluti af almenningi sem að myndi fagna umbótum í samgöngukerfi reykjavíkurborgar sem myndi auðvelda þeim að nota almenningssamgöngur. Stjórnmálamenn eins og Dofri skynja þann vilja.
Samfylkingin hefur ekki og mun ekki stjórna strætó bs. Því miður.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 18:15
Mikið er þetta kreddutal þreytandi, eins og Dharma er með. "Vinstrimenn", "101-ismi" o.fl. Eru allir skipuleggjendur umferða í borgum erlendis kannski "vinstrimenn" af því þeir vilja almenningssamgöngur. Og eru allir hægrimenn í borginni hlynntir gífurlegum umferðarmannvirkjum ! Ég minnist þess reyndar að margir hægrimenn kvörtuðu gífurlega vegna færslu Hringbrautar hjá R-listanum. Annars er ég ekki neitt sérstaklega vinstrisinnaður og bý ekki í 101. Er bara að benda á að í borg gengur ekki að vera með umferðarmannvirki sem 60% af landflæminu. Hvers vegna? M.a. vegna þess að fólk vill ekki svona mikla og þunga umferð við heimili sín. Þannig að það er ekki bara "að komast sína leið á sínum einkabíl". Ef Samfylking stóð sig ekki sem skyldi við eflingu almenningssamganga og að þétta byggð (helst í hendur), er þá Sjálfstæðisflokkurinn ekki kjörinn til að gera betur ? Skattpíning getur líka verið (og er) vegna óhóflegs kostnaðar umferðarmannvirkja og viðhaldi þeirra. Í dag erum þvinguð til að eiga bíl, þannig er það bara. Sjáið bara skipulagið í kringum Smáralind. Þetta er sem sagt alltaf spurning um skipulag.
kveðja Gísli
Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 18:18
Ágæti Haukur Dharma.
Mér sýnist að þú sért að hreinsa af þér allan stuðning Sjálfstæðismanna á síðunni. Ég hvet þig eindregið til að halda áfram á sömu braut.
Dofri Hermannsson, 7.3.2007 kl. 20:28
Frú Dharma segir:
"En bara af því að ÞÚ vilt ekki einkabílinn hefurðu engan rétt til að banna öðrum að nota einkabílinn. Það er minn punktur, og það er punktur Sjálfstæðismanna því það er kjarni frelsishugsjónarinnar"
Ok þú hefur sem sagt dregið allt til baka sem þú hefur skrifað í dag, nema þennan eina punkt. Fínt ég sem hélt ég væri að berjast fyrir glötuðum málstað (þ.e.a.s. að reyna að koma vitinu fyrir sjálfstæðismanni).
1. Frelsishugsjón þín nær sem sagt einungis til ákveðins hóps manna, bílaeigenda (sem kjósa sjálfstæðisflokkinn) Þetta er nefnilega munurinn á mínum frelsishugsjónum og þínum. Mér þykir eðlilegt að stjórnvöld reyni að auka frelsi sem flestra. Þeirra sem ekki vilja anda að sér mengun alla daga, þeirra sem vilja nota almenningssamgöngur, þeirra sem vilja nota hljólið, þeirra sem vilja nota tvo jafnfljóta og síðast en ekki síst þeirra sem vilja nota einkabílinn.
Þess vegna dettur mér ekki í hug að kjósa sjálfstæðisflokkinn né framsóknarflokkinn, vegna þess að þar er ekkert nema eiginhagsmunapot einstakra manna. Minnir ansi mikið á gömul kommúnistaríki. Þetta ætla ég sko ekki að kjósa yfir mig.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.