13.3.2007 | 22:03
Sleepless in Seattle
Undanfarna daga hefur maður verið svefnvana í Seattle - það er 7 klst. tímamunur og maður vaknar óvart býsna snemma flesta daga.
Það hefur hins vegar verið afar fróðlegt að kynnast umhverfisáherslum Seattleborgar en Umhverfisráð Reykjavíkurborgar er núna í sérstakri ferð til að kynna sér leiðir borgarinnar til að takast á við ýmis þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í Reykjavík.
Borgin hefur, á fylkisvísu, þótt mjög framarlega í umhverfismálum og það er sérstaklega gaman fyrir Reykjavík að skoða þróunina því borgin hefur lengst af tekið mið af einkabílnum í þróun byggðar, rétt eins og í Reykjavík. Fyrir all nokkru sáu borgaryfirvöld þó að í óefni stefndi og hafa síðan þá náð góðum árangri í samgöngumálum - alla vega á okkar mælikvarða.
Það er gaman að sjá viðhorf bandaríkjamanna til lausna á algengum vandamálum eins og samgöngumálum. Þeir vilja stýra því hvort fólk notar einkabíl eða almenningssamgöngur en þeir banna að sjálfsögðu ekki bíla. Þeir ýta á fólk þar sem það finnur sárast til - í veskinu. Þannig virkar það í landi frelsisins.
Það er gaman að sjá bandaríkjamenn útskýra umferðartafir út frá strangasta skilningi lögmáls framboðs og eftirspurnar: "Ef það er svo mikil eftirspurn eftir því að komast niður í bæ að það myndast röð - þá kostar bara ekki nógu mikið að komast niður í bæ!" Í mínum huga er umferðarþróun frekar spurning um heilbrigða skynsemi en um blinda trú á annað hvort ráðstjórn eða framboð og eftirspurn.
Það kostar sitt bæði í landnotkun, umferðarhættu og mengun að hafa bílaumferðina eins og hún er og við gætum auðvitað fækkað ónauðsynlegum ferðum, farið meira með strætó og farið fleiri saman í bíl. Það er þess vegna æskilegt að það sé dregið úr umferð og það er meðal annars hægt með því að gera aðra valkosti en einkabíl (einn í bíl) hagkvæmari í samanburði. Þetta höfum við í Samfylkingunni oft talað um og köllum hagræna hvata. Það virkar betur en boð og bönn.
Við verðum að koma okkur saman um hvernig við viljum að borgin okkar þróist og gera okkur grein fyrir því að það er ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að búa í úthverfi en líka í göngufæri við Kaffi Tár í Bankastrætinu. Það er hins vegar hægt að þróa byggðina þannig að þú hafir í göngu/hjólafæri það sem þú leggur mesta áherslu á t.d. vinnu, verslanir, skóla, kaffihús, græn svæði, sundlaugar o.s.frv.
Ef við gerum það þá held ég að við uppskerum meiri lífsgæði. Minni mengun, minna umferðarstress, færri slys, minni kostnaður við samgöngur og meiri peningar til að setja í annað. Þetta er ekki spurning um flokkspólitískan skoðanaágreining og það er mikilvægt að þessi mál séu ekki dregin ofan í slíkar skotgrafir eins og menn hafa stundum freistast til að gera.
Samgöngumál eru mikilvægur hluti af borgarþróuninni og lífsgæðum fólks og ætti að vinna í þverpólitískri sátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Facebook
Athugasemdir
Segi það bara enn og einu sinni frændi, við erum samstíga í þessum málum
Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 22:11
Sæll Dofri, þú hefur lög að mæla og alveg alveg sorglegt hvernig þessi umræða fellur ávalt í leiðinlegt þras um forræðishyggju vs einstaklingsfrelsi. Þetta er frekar einfalt dæmi með þekktum breytum en það dugir ekki til.
Aron (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 22:48
Fór Sóley með ? ég held hennar sé sárt saknað, eða það eru allir að tala um hana.
Tómas Þóroddsson, 13.3.2007 kl. 22:55
Sæll Dofri
Ég er einmitt líka staddur hérna í Seattle að kynna mér málefni innflytjenda, sérstaklega skólamál. Kannski rekst maður á ykkur á röltinu.
kveðja,
Einar Skúlason
Einar Skúlason (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 00:02
Er nú ekki alveg óskapleg eymd þarna? Hafa þessi grey nokkur Álver?? Vel á minnst, hefurðu hitt nokurn þokkalega hagmæltan sem getur hnoðað saman þó ekki væri nema hállfdýrri sléttubandavísu? En það er dauft yfir öllu hér á Fróni eins og segir í vísunni gömlu: Hérna er djöfuls hungursnauð- en henni brátt mun ljúka- því afi minn fór á honum Rauð- austur í Kárahnjúka.
Habbðu það gott og passaðu þig á brennivíninu.
´Arni Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 08:42
Seattle tengist álinu á þann veg að þar eru Boeing flugvélaverksmiðjunnar. En í Dreamliner, "Draumadísinni", nýjastu þotu verksmiðjanna, verður meira af koltrefjum en áli. Og forstjóri verksmiðjanna hefur sagt að koltrefjarnar leysi álið alveg af hólmi í framtíðinni.
Það er ekki algilt að mikil loftmengun takmarki útsýni í amerískum borgum. Þegar ég var í Seattle fyrir nokkrum árum sást vel til eldfjallsins St. Helens sem er í 90 km loftlínu frá borginni. Til samanburðar er Snæfellsjökull 120 kílómetra frá Reykjavík.
Umhverfis fjallið er eldfjallaþjóðgarður, - fyrirbæri sem er hliðstætt þjóðgarðinum yst á Snæfellsnesi. Frægasti eldfjallagarður heims er hins vegar á Hawai. Ef settir yrðu á fót eldfjallagarðar á Reykjanesskaga og á svæðinu norðan Vatnajökuls yrðu þeir stærstu og fjölbreyttustu eldfjallagarðar heims.
Ómar Ragnarsson, 14.3.2007 kl. 18:29
Frábær pistill Dofri!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.3.2007 kl. 20:58
hægt að þróa byggðina þannig að þú hafir í göngu/hjólafæri það sem þú leggur mesta áherslu á t.d. vinnu, verslanir, skóla, kaffihús, græn svæði, sundlaugar o.s.frv.
Í mörgum grónum hverfum RVK eru þessi gæði fyrir hendi en borgaryfirvöld ætla að ganga á þau, eins og stendur til með svæði IV í Laugardal. Hvaða úrræði hafa íbúar þá? Svo virðist sem margir borgarfulltrúar sjái ofsjónum yfir opnum, grænum svæðum. Þeir líti ekki á þau sem gæði fyrir íbúa heldur tækifæri til að malbika, steypa eða girða af og rukka inn.
Hildur (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 21:31
Skipulag höfuðborgarinnar verður að virðist ruglingslegra með hverju árinu. Hvaða hugmyndir eru uppi með að búa til miðbæ í Reykjavík? Já og græna kjarna MEÐ þjónustu? Það er jú þannig á flestum stöðum sem ég hef komið á í erlendum borgum að við flesta græna kjarna eru staðsettir þjónustukjarnar líka sem gerir hvort tveggja meira spennandi.
Baldvin Jónsson, 15.3.2007 kl. 20:28
Það er mikil áhersla lögð á það í Seattle núna að endurheimta græn svæði og að gera sem mest úr þeim görðum og grænum svæðum sem þar eru. Það er mjög skemmtilegt hvernig garðarnir þar eru nýttir - mikið gert til að fylla þá af lífi. Að vísu er veðurfarið mildara en það er eflaust margt sem mætti gera hér heima líka. Nú þegar unnið að hugmyndum um endurbætur á Miklatúni skv. tillögum Samfylkingarinnar verður gott að hafa hugmyndir frá Seattle á bak við eyrað.
Dofri Hermannsson, 15.3.2007 kl. 23:48
Hvernig væri að Samfylkingarfólk í borgarstjórn tæki þessa áherslu frá Seattle um að gera sem mest úr þeim görðum og grænum svæðum sem nú þegar eru í borginni og mótmæli fyrirhugaðri byggingu fjölbýlishúsanna í Laugardalnum?
Annars vona ég að endurbætur á Miklatúni verði ekki í líkingu við grænt verði grátt eða girðing í kringstefnuna í Laugardalnum.
Hildur (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 10:18
Gott blogg.
ljós frá Lejre.
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 16.3.2007 kl. 11:11
Kæri Skúli S. Óttalegt bull er þetta. Allt sem Sjálfstæðismenn eru núna að gera í umhverfismálunum byggir á því sem við vorum búin að gera áætlanir um sbr. t.d. áætlunina "Reykjavík í mótun". R-listinn gerði mjög margt til að draga úr svifryki sem m.a. skilaði sér í því að það varð ekki aukning í svifryksmengun eins og vænta mátti vegna fjölgunar bíla. Fjölgun bíla var ekki R-listanum að kenna, þótt Sjálfstæðismenn reyni að halda því fram að þeim hafi fjölgað af því R-listinn vildi sporna við fjölgun þeirra! Það er mikil röksnilld. Á 12 ára tíma kom Sjálfstæðisflokkur með eina tillögu til að draga úr svifryki í borginni. Samfylkingin hefur flutt nokkrar á örfáum mánuðum, fyrir utan að berjast einarðlega fyrir málinu innan Umhverfisráðs. Þú ættir e.t.v. að kynna þér málin örlítið áður en þú slengir fram athugasemdum sem eru svona gjörsamlega út í bláinn.
Dofri Hermannsson, 17.3.2007 kl. 00:17
Þarft mál að ræða. Ákvörðun Akureyrarbæjar um að hafa frítt í strætó finnst mér dæmi um velheppnaða aðgerð til að fækka bílferðum innanbæjar og draga þar með úr mengun, ekki veitir af hér fyrir norðan þar sem svifryksmengun er að verða verri en á höfuðborgarsvæðinu. Aukningin í farþegafjölda Akureyrar-strætó minnir mig að sé tæp 80% síðan byrjað var á þessu um áramót. Ég er viss um að það er hægt að útfæra þessa leið með einhverju móti í Reykjavík. Mér dettur t.d. í hug að hægt væri að hafa frítt á einhverjum ákveðnum leiðum þar sem umferðarálagið er mest. Það er ljóst að það þarf með einhverju móti að minnka umferðina um aðalumferðaræðarnar því að meðan það tekst ekki er jafnvel hættulegt fyrir heilsuna að hjóla og ganga í vinnuna.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 01:14
Við lögðum til eitt fargjald í strætó - kr. 100 staðgreitt núna í mars þegar svifryk er mest. Afsláttarkort yrðu áfram seld á hagstæðari kjörum.
Tillagan bíður þess að Strætó bs hittist og ræði hana. Mér er mjög til efs að hún verði samþykkt.
Dofri Hermannsson, 17.3.2007 kl. 01:52
Kæri Ómar
Álnotkun í flugvélum hefur hingað til verið hátt hlutfall af eiginþyngd flugvélarinnar. Boeing 787 er réttlilega með mikið af samsettum trefjaefnum (composite materials). Hinsvegar og taktu nú eftir hefur heildarnotkun flugvélaiðnaðarins aldrei verið nema brotabrot af álnotkun í heiminum. Það segir nákvæmlega ekkert um framvinduna hvað varðar álnotkun almennt að hlutfall áls er að minnka í flugvélum - notkunin er að aukast á öðrum sviðum sem raunverulega telja þ.e. í húsaklæðningar, sést mikið hérlendis og alloft merkt Alcan, í bílaiðnaðinum -kannast einhver við álfelgur, í umbúðaiðnaði, og mörgu öðru.
Kær kveðja
Sveinn V. Ólafsson
Flugvélaverkfræðingur
Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 02:22
Sæll Dofri og takk fyrir síðast.
Mig langar að bæta við að strætisvagnarnir Í Seattle eru allir með reiðhjóla grindur, sumir með 2 grindur og getað borið 25kg. aðrir með 3 grindur og geta borið 35kg. Einn af mínum nágrönnum fer með hjólið sitt í strætó á morgnanna og hjólar svo heim á kvöldin. Eins eru strætisvagnarnir með lyftu fyrir hjólastóla, svo það er mikið um að fólk hjólastólum notar strætó. Um þriggja kílómetra svæði innan miðborgarinnar er það sem þeir kall Free zone frá klukkan 6 til 19 og er þá frítt í strætó innan þess svæðis. Svo hægt sé að fylgjast með hver á að borga og hver ekki á þessum tíma, þá er borgað þegar maður fer í strætó og niður í bæ og svo þegar farið er heim úr bænum, þá er borgað þegar maður fer úr strætó.
Kær kveðja, Affa í Seattle.
Arnfríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 17:35
Það hefur verið eitt af trompunum hans Ómars að klifa á því að álnotkun sé að minnka í flugvélaiðnaði. Gott að fá professional álitsgjafa í þeim efnum frá Sveini V.
Er Ómar kjaftstopp?
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.3.2007 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.