Störf án staðsetningar II

hestarBloggfærslan hér að neðan um Störf án staðsetningar hefur vakið mikla athygli og fjöldi athugasemda verið skrifaðar við þessa færslu. Takk fyrir það. Í athugasemdunum koma fram margar góðar spurningar og vangaveltur sem mig langar að fara aðeins nánar út í hér.

Tregða í kerfinu. Það er rétt að tregða getur verið á meðal stjórnenda að taka þátt í verkefni af þessu tagi. Þess vegna skiptir máli að fá stjórnendur með í liðið sem ætti ekki að vera erfitt því Störf án staðsetningar býður upp á sparnað á dýru skrifstofuhúsnæði og aðgang að hæfu fólki um allt land. Það er því alveg á hreinu að hér þarf fólk til að stjórna verkefninu sem virkilega hefur áhuga á að láta verkefnið ganga upp. Ég mæli með Samfylkingunni.

Mannlegi þátturinn. Það er auðvitað mismunandi eftir störfum hve miklar eða litlar kröfur þau gera um bein samskipti. Í fjarnámi á Bifröst sem ég þekki vel til er tekið á þessu með sérstökum vinnuhelgum þar sem fólk hittist, styrkir hópkenndina og fær fyrirlestra og vinnur verkefni sem betra er að vinna í hóp. Þetta má auðveldlega útfæra í atvinnulífinu.

Hæft fólk. Einhver varpaði því fram að með því að hvetja landsbyggðarfólk til að sækja um væri verið að mismuna umsækjendum. Það er misskilningur. Það er verið að hvetja fólk til að sækja um. Ég hef engar áhyggjur af því að landsbyggðarfólk standist ekki fyllstu kröfur. Þetta eru sömu raddir og oft heyrðust þegar farið var að hvetja konur til að sækja um hefðbundin karlastörf.

Frjáls búseta. Byggðaþróun eins og hún er í dag er þvinguð. Tækifærin eru ekki þau sömu á landsbyggðinni og í borginni. Landsbyggðin hefur samt upp á margt að bjóða sem borgin hefur ekki, s.s. barnvænt umhverfi, aðgang að náttúru og hesthús í göngufæri í stað kaffihúss svo dæmi séu tekin. Með því að jafna tækifæri fólks til atvinnu við sitt hæfi erum við í raun að stuðla að frelsi til að velja sér búsetu.

Fleiri fylgja í kjölfarið. Með markvissu átaki í að fjölga störfum óháðum staðsetningu verður til þekking á þessu sviði, fólk venst á að stimpla sig inn á tölvunni sinni í stað þess að ganga að stimpilklukkunni og fleiri fyrirtæki sem vilja spara í dýru atvinnuhúsnæði í miðborginni munu vilja fara sömu leið.

Hefð fyrir fjarvinnu. Þegar fleiri hafa kynnst fjarvinnu, hvort heldur er í störfum án staðsetningar eða fjarnámi opnast fleiri möguleikar t.d. á aukaefni fyrir nemendur í grunnskóla, á fjarnámi á framhaldsskólastigi fyrir nemendur á þeim svæðum þar sem ekki er framhaldsskóli (er reyndar til og nefnist dreifnám en mætti þróa frekar).

Mér dettur ekki í hug að Störf án staðsetningar leysi allan vanda landsbyggðarinnar. Það þarf fleira að koma til. En ég held að sú þróun að fólk geti ráðið því hvar það hefur starfsstöð muni draga fleira fólk út á landsbyggðina vegna þeirra kosta sem hún hefur upp á að bjóða. Störf án staðsetningar getur orðið til að flýta þeirri þróun.

Ég held að það sé rétt sem líka var sagt í athugasemdum hér að ofan - eftir nokkur ár verður þetta sjálfsagður hlutur og engum þykir fréttnæmt að einhver vinni sem sérfræðingur á sviði fjársýslu eða menntamála og búi í Aðaldalnum eða Reykhólasveitinni. Jafn sjálfsagt og gsm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta innlegg. Ég er sammála því að eftir nokkur ár verður ýmislegt sem kannski virkar fjarlægt í dag orðinn sjálfsagður hlutur. Það eru óendanlegir möguleikar þegar tæknin er annars vegar. Það er líka stöðugt verið að þróa þá miðla sem bjóða upp á félagsleg samskipti staða í milli í rauntíma, svo sem myndfundabúnaði. Þeir eru mjög öflug tæki til félagslegra samskipta landhorna og heimshorna í milli. Helsti gallinn við þá var sá að hraðinn á sambandinu var ekki nógu mikill en í dag er það vandamál úr sögunni. Ég er sjálf að kenna fjarnemum á háskólastigi sem eru staðsettir úti um allt land og ég nota þá miðlun sem hentar best hverju sinni, e-mail, vefkennslukerfi, vefumræður, myndfundi - fjarlægðir eru aldrei vandamál. Ég hef líka tekið þátt í málstofum í gegnum Skype og fundist það jafneðlilegt og að sitja meðal fólksins. Öll þessi tækni nýtist ekki síður í alls kyns störfum heldur en í námi. Störf án staðsetningar eru eða ættu að vera eðlilegur hluti af þróun atvinnulífsins - til að það geti orðið þurfa stjórnvöld að hoppa um borð í lestina og drífa svo einkageirann með sér. Ég held að það gerist ekki öðruvísi.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 22:44

2 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Góð færsla. Ég heyrði Ingibjörgu Sólrúnu tala um þetta á fundi sínum í Borgarnesi fyrir 2 mánuðum - þú varst á þeim fundi minnir mig. Ég hef síðan verið mjög hrifinn af þessari hugmyndafræði, þó að við hana séu kostir og gallar. Eitt af því sem vantar á landsbyggðinni er fjölbreytni - störf án staðsetningar auka fjölbreytni. Það er líka rétt hjá þér að þetta leysir alls ekki allan vanda landsbyggðarinnar en hjálpar klárlega til.

Hins vegar er mjög mikilvægt að klára uppbyggingi á háhraðaneti um allt land - það eru mannréttingi í nútíma samfélagi og skiptir máli fyrir aðferðarfræði eins og við erum hér að fjalla um, einnig fyrir fólk sem vill stunda fjarnmá og vera þegn í nútíma samfélagi.

Það sem landsbyggðin þarf einnig á að halda eru mun betri samgöngur, þá sérstaklega á Vestfjörðum, jöfnun flutningskostnaðar og jöfnun rafmagns- og hitaskostnaðar. Að ógleymdum sjávarútvegskerfinu - en það er önnur umræða.

Eggert Hjelm Herbertsson, 21.3.2007 kl. 09:26

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Þetta er nú ekki flókið Skúli: "Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu, landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til að sækja um."

Það felst engin mismunun í því að hvetja einn hóp umfram annan til að sækja um. Rétt eins og það er ekki mismunun að hvetja konur til að sækja um karlastörf.

Eftir sem áður verður hæfni látin ráða ráðningu. Ég hef engar áhyggjur af því að landsbyggðarfólk verði ekki talið hæft til starfa eins og mér finnst þú gefa í skyn.

Dofri Hermannsson, 21.3.2007 kl. 10:45

4 identicon

Dharma og SkuliS

Þið Sjálfstæðismenn virðist hafa verið of lengi í samstarfi með Framsókn.

Við skulum ekki gleyma að Framsókn var á móti Símanum í byrjun 20 aldar

Smári (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 15:36

5 identicon

Dharma, ertu tregur??

Starfið er auglýst sem starf án staðsetningar (Hingað til hafa þessi störf verið í staðsett einhversstaðar). Taktu þér tíma til að melta þetta.

.

.

.

Ok. Búinn að melta þetta?? Á ég að gefa þér meiri tíma??

Þú segir: "landsbyggðarfólk sé þvílíkar gungur og heiglar, að heilu bæjarfélögin bara sitji með putta í nefinu og þori aldrei að sækja um vinnu"

Þú ert greinilega ekki búinn að átta þig á því að landsbyggðarfólk hefur EKKI sótt um þessi störf hingað til, vegna þess að þau eru STAÐSETT í Reykjavík.

Verði þessi störf skilgreind sem störf ÁN staðsetningar og landsbyggðarfólk hvatt til að sækja um, þá munu mun fleirri af landsbygðinni sækja um og ég efa það ekki að mörg slík störf eigi í kjölfarið eftir að færast frá Reykjavík til landsbyggðarinnar.

Ég legg til að þú farir í það að vinna innan Sjálfstæðisflokksins að einhverjum tillögum um aðstoð til handa landsbyggðarinnar í stað þess að reyna að vera rosalega sniðugur og snúa út úr öllu sem aðrir flokkar leggja til og verður að teljast hinar ágætustu lausnir

Hlynur (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 17:58

6 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Aðal vandam við störf af þessu tagi, er sú tilhneying til þess að þau þjappist á þéttbýlli staði.  Við höfum dæmi um það að störf sem ætti að vera hægt stunda hvar sem er hafi verið meðvitað og ómeðvitað færð af minni stöðum til þeirra stærri, því miður.

En hugmyndin er góð, nú vantar bara nánari útfærslu.

Eiður Ragnarsson, 22.3.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband