Ótti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks

Óskastaða Sjálfstæðisflokksins eru 3-4 óburðugir flokkar á miðju og til vinstri sem flokkurinn getur valið úr og tryggt með því áframhaldandi forystu sína í ríkisstjórn. Óskastaða Framsóknarflokksins er að ná meirihluta með Sjálfstæðisflokki.

Það er því ekki undarlegt að 81% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 62% Framsóknarmanna nefna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, sem óvinsælasta stjórnmálamanninn. Ótti stjórnarflokkanna er skiljanlegur, einkum Sjálfstæðisflokksins, sem veit að það sem helst ógnar 16 ára samfelldri valdasetu flokksins er sterk Samfylking með burði til að fara með forystuhlutverk í næstu ríkisstjórn.

Sjálfstæðismenn muna vel hvers Ingibjörg Sólrún er megnug sem stjórnandi og einnig að fyrir kosningarnar 2003 naut hún mun meira trausts almennings eftir 8 ára farsælt starf sem borgarstjóri en Davíð Oddsson eftir 12 ára setu sem forsætisráðherra. Sjálfstæðismenn muna líka vel eftir öllu því sem hún kom í verk sem borgarstjóri, mikilvægum verkefnum sem höfðu verið stórlega vanrækt af Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, m.a. undir forystu Davíðs.

  • Hún lyfti Grettistaki í umhverfismálum með hreinsun strandlengjunnar, stærsta umhverfisverndarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi.
  • Loks þegar hún tók við stjórnartaumunum voru lagðir göngu- og hjólastígar um alla borg, sem stórbættu aðstæður almennings til útivistar.
  • Hún stóð við stóru orðin í leikskóla- og grunnskólamálum. Í hennar tíð voru 100 nýjar leikskóladeildir byggðar og biðlistum eftir leikskólaplássum útrýmt. Byggt var við nær alla grunnskóla borgarinnar og þeir einsetnir.
  • Konur voru örfáar þegar hún hóf störf sem borgarstjóri en voru orðnar helmingur stjórnenda þegar hún hætti. Óútskýrður launamunur kynjanna minnkaði um helming frá 1995 til 2001.
  • Stjórnsýsla borgarinnar var stokkuð upp ný vinnubrögð innleidd. Það voru settar nýjar, gegnsæjar reglur í útboðs- og innkaupamálum, fagmennska jókst á öllum sviðum og pólitískar ráðningar heyrðu sögunni til.
  • Hún undirbjó átak í byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða með samkomulagi við heilbrigðisráðherra í maí 2002. Samkomulagið mætti hins vegar mikilli andstöðu hjá þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde og ríkið setti aldrei þá fjármuni í átakið sem þurfti.
  • Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar blómstraði menningarlíf borgarinnar svo um munaði. Reykjavík varð menningarborg Evrópu árið 2000, Listahátíð Reykjavíkur var efld til muna, nýjar menningarhátíðir voru skipulagðar s.s. Menningarnótt, Vetrarhátíð og Airwaives, Listasafn Reykjavíkur var opnað í Hafnarhúsi og tekin var ákvörðun um að byggja Tónlistar- og ráðstefnuhúss á hafnarsvæðinu í samstarfi við ríkið.
  • Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar var sérstök áhersla lögð á byggingu nýrra og glæsilegra íþróttamannvirkja. Skautahús í Laugardal, ný stúka við Laugardalsvöllinn, ný 50 metra sundlaug í Laugardal, nýtt frjálsíþróttahús við Laugardalshöll, Egilshöll með yfirbyggðum knattspyrnuvelli og skautasvelli, íþróttahús KR, félagsaðstaða fyrir Þrótt í Laugardal, uppbygging á Fákssvæðinu og samkomulag um uppbyggingu á Valssvæðinu.

Samfylkingin og formaður hennar mæta vel nestuð til kosningabaráttunnar. Við vitum hvað við viljum gera og hvernig við ætlum að koma því í framkvæmd. Og rétt eins og í borginni ´94 er býsna margt sem nú þarf að laga.

Það þarf að rétta hlut aldraðra, það þarf að bæta aðstöðu barna og fjölskyldna þeirra, það þarf að gera stórátak í náttúruverndar- og umhverfismálum, það þarf að skapa landsbyggðinni jöfn tækifæri til vaxtar, það þarf að ná aftur tökum á efnahagslífinu, tryggja stöðugleika og bæta hag heimilana í landinu, það þarf að bæta vaxtar- og stafsumhverfi nýrra greina atvinnulífsins, svo nokkur atriði séu nefnd.

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa fulla ástæðu til að óttast um völd sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Er mig eitthvað að misminna? Var ISG ein við völd í R-listanum? Einhvernvegin minnir mig að Framsókn sé eina stjórnmálaaflið sem var með í R-listanum allan tímann og þurfi því ekki að óttast þessa upptalningu eigin verka!

Gestur Guðjónsson, 8.4.2007 kl. 15:43

2 Smámynd: TómasHa

Samt þarftu 8 atriða lista til að reyna að sanfæra lesendur um gæði hennar og vitna í vinsældir frá árinu 2003.  Fyndið.

TómasHa, 8.4.2007 kl. 16:16

3 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Vel mælt Dofri, við erum með góðan formann ég skrifaði nokkar punkt um þetta á blogginu mínu. Við þurfum að standa við bakið á henni og sækja fram til sigurs.

Eggert Hjelm Herbertsson, 8.4.2007 kl. 16:18

4 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

djíses kræst.....Dofri, þú ert lagður í einelti af þessum einstaklingi.

Eggert Hjelm Herbertsson, 8.4.2007 kl. 16:41

5 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Eg helt að Dharma væri í bústað um helgina.....það var eitthvað svo mikil þögn hér á blogginu.......nei nei svo um leið og Dofri ræsir tölvuna kemur hann eins og vírus.

Tómas Þóroddsson, 8.4.2007 kl. 16:55

6 identicon

  • Frábær pistill Dofri. Blámaðurinn sem kallar sig Dharma tekur alveg bakföll af vandlætingu. Aldeilis sem þú snertir viðkvæma strengi þar á bænum. Össur Skarphéðinsson kallaði þessa manntegund "Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins "en þeir ku sendir útaf örkinni til að leggja alla þá í einelti sem taldir eru geta unnið eitthvað til ógnunar stöðu Sjálfstæðisflokksins meðal kjósenda... þú Dofri  hefur greinilega hækkað mjög í pólitísku vægi og blái herinn því sendur alveg miskunnarlaust á þig...til hamingju með það pólitíska vægi í landsmálum sem þú ert greinilega búinn að ná og fer vaxandi.

Að hafa stjórnmálaforystu fyrir þeirri öflugu sveit manna og kvenna sem náði forystu í Reykjavík í þrjú kjörtímabil í röð var mikið afrek hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og er lýsandi fyrir frábæra stjórnmálahæfileika hennar.   Þessa stjórmálakonu óttast Sjálfstæðisflokkurinn mjög .

Það er brýn þörf á að skipta þessari ríkisstjórn út nú í vor og hefja samskonat tiltekt  í landsmálum og Ingibjörg Sólrún veitti forystu í Reykjavík með glæsilegum árangri .

Það er því afarbrýnt að Samfylkingin fái gott brautargengi í kosningunum í vor og endurreisn velferðarmála, atvinnumála og fjármála verði að veruleika.

Áfram með baráttuna Dofri. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 17:20

7 identicon

Ég vil þakka Dofra fyrir að sanna gagnrýni mína í verki.  Höfundur síðunnar hefur ákveðið að útiloka gagnrýnisraddir, ábendingar þess efnis að fullyrðingar hans séu lítið annað en skáldskapur og óskhyggja.  Dofra er illa við gagnrýni, hann grípur til persónulegra svívirðinga (eins og að fullyrða að allir sem honum eru ósammála séu vinalausir stóriðjusinnar sem eyða sínum tíma í að hringja í Vinalínuna).  Umræðustjórnmál Dofra snúast um að tala bara við fólk sem honum er sammála.  Sá hópur fer óðum minnkandi ef marka er skoðanakannanir.  Hins vegar hefur Dofri tekið þessa ákvörðun, sem honum er frjálst, jafnvel þó hann bloggi sem stjórnmálamaður um stjórnmál... hann bara vill ekki ræða við fólk sem honum er ósammála.  Margoft hefur verið bent á tvískinnung í málflutningi hans, en hann bregst við með dónaskap, og nú (aftur) með því að útiloka gagnrýni.  Ég hins vegar kýs að nýta málfrelsisrétt minn og svara stjórnmálamanni sem tjáir sig um stjórnmál.  Dofri leitast eftir að fá að fara með skattfé mitt og annara, en vill ekki hlusta á þá sem gætu haft aðra skoðun á eyðslu en hann.  Á meðan Dofri kýs að skrifa um stjórnmál, sem stjórnmálamaður, þá hlýtur það að vera réttur kjósenda að samsinna honum eða andmæla.  Ég legg það í dóm lesenda að finna dónaskap af minni hálfu sem kemst í hálfkvist það sem fær að viðgangast á síðunni hans, bæði af hans hálfu og hálfu já-fólksins sem hann hefur umkringt sig með.  Annars langaði mig að svara Tómasi og félaga hér að neðan.  

Eggert og Tómas.  Það er athyglisverð tilraun í gangi af minni hálfu, sem gengur út á að sannfæra Dofra, og hina fylgispöku skósveina litla stjórnarandstöðuflokksins, að þó hann endurtaki sömu vitleysuna í sífellu, þá verður vitleysan ekki sönn bara við endurtekningar.  Samfylkingin er stefnulaus flokkur, og gengdarlausar yfirlýsingar Dofra um hið gagnstæða breyta engu þar um.  Kannski er þetta spurning um þrjósku, Dofri vonast til að fólk bara segi: "já já, Dofri minn, auðvitað hafið þið stefnu.... jújú, svona svona...."  en mér finnst það bara of billega sloppið.

Svona ef einhver veltir fyrir sér hvernig þetta svar er sett inn, þá er það lítið mál, en ég efast þó um að það lifi lengi.  En það að Dofri stingi puttunum í eyrun mun ekki þagga niður í þeim röddum sem gagnrýna hans sjónarmið.

Þakka þeim sem lásu, sérstaklega Dofra og skora um leið á hann að fullorðnast og taka gagnrýni eins og maður. 

Dharma (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 17:25

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ég skora á þig Dharma, ef þú þorir ekki að skrifa hér undir eigin nafni, að senda mér línu og ég skal hitta þig augliti til auglitis, t.d. yfir kaffibolla og ræða við þig um stjórnmál - og mannasiði á heimasíðum ef þú hefur löngun til. Þá gefst þér tilvalið tækifæri til að meta hvort hin "athyglisverða tilraun" þín um að sannfæra mig er dæmd til að mistakast eða ekki. Gæti sparað okkur báðum mikinn tíma og lesendum þessarar síðu mikið af leiðindum. Netfangið er dofri@dofri.is

Dofri Hermannsson, 8.4.2007 kl. 17:59

9 identicon

Sammála þessu, flottur formaður sem á skilið amk. 40 % fylgi. Hversvegna er það ítrekað í 20 %. Hefur ekki eitthvað klikkað í stefnunni undanfarið. Skortur á víðsýni. Háværir þröngsýnir ráðgjafar. Stóriðjustopp í 5 ár óháð efnahag. o.s.frv..Göfug vindhana afþvíbarahagfræði er að mínu mati aldrei vænleg til árangurs. Minnir mig helst á þegar umræðan stóð sem hæst um EES

SAS (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 19:47

10 identicon

Jájá, Dharma getur verið með langar ræður, og það lítur út fyrir að hann sé hálfvegis að leggja þig í einelti Dofri. En... Það er samt ekki "kúl" að banna hann, frekar ættiru að þá að takast á við hann á vígvellinum (comment-kerfinu).

gulli (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 19:52

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Shit, ég dó næstum úr hlátri við lestur þessa pistils! :D Takk Dorfi, tær snilld ;) Og þú eins og annað Samfylkingarfólk átt alla mína samúð :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 8.4.2007 kl. 20:28

12 identicon

Ég hló líka, alltaf gaman að rifja upp hvað kellingin stóð sig  vel meira að segja gat hún náð árangri með framsókn. Sýnir bara hversu öflug hún er !!!!!!!!!!!!

SAS (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 21:23

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Dofri minn. Þetta var nú ekki alveg rétt sem þú sagðir um tiltekna viðangsmenn þína í pistlinum hér á undan. Þeir eru nefnilega ekki betri en þetta. 

Árni Gunnarsson, 8.4.2007 kl. 23:11

14 identicon

Sæll Dofri.

Ég prófaði að hitta þig yfir kaffibolla.  Við ræddum um álverið í Straumsvík og pólitíkina í rúma tvo tíma.  Ég útskýrði,  hélt ég , fyrir þér af hverju stækkun í Straumsvík væri nauðsynleg.  Ég leiðrétti, hélt ég, rangfærslurnar og útúrsnúningana um álverið í Straumsvík.  Ég get ekki mælt með kaffiboðum þínum.

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 23:11

15 identicon

Hjörtur, þrymur og Gísli o.fl. Mikið ofsalega talið þið niður til fólks og gerið lítið úr því. Þó þið séuð ekki jafnaðarmenn og aðhyllist Sjálftæðisflokkinn þá finnst mér um og ó hvernig þið talið um fólk eins og flissandi unglingar á gelgjuskeiðinu. Ótrúlegt að flokkur með svona fulltrúa eins og ykkur skuli hafa fylgi hér á landi. Hlægið og skemmtið ykkur vel, lítið er ungs barns gaman.

Ægir (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 23:13

16 identicon

Gestur ! Björn Ingi kannaðist ekkert við að Framsókn hafi verið í R - listanum í kosningunum í vor. Þið getið ekki bæði haldið og sleppt Xbé menn.

Ægir (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 23:23

17 identicon

Mér finnst dálítið merkilegt að lesa hér í kommentunum hvað það fer í pirrurnar á sumum að þú skulir benda á verk Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra. Ætli þessir hinir sömu myndu ryðjast fram á ritvöllinn og mótmæla því sem Sjálfstæðismenn eru svo duglegir við að halda fram að allar jákvæðar breytingar sem orðið hafa í viðskiptalífinu séu Davíð Oddssyni að þakka. Annars finnst mér þetta botnlausa skítkast sem sumir menn, sérstaklega þeir sem tilheyra Sjálfstæðisflokknum leyfa sér að viðhafa um Ingibjörgu Sólrúnu vera að verða verðugt rannsóknarefni bæði fyrir sagnfræðinga en ekki síður sálfræðinga.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 23:47

18 Smámynd: Kristján Pétursson

Þeir sem þora ekki að blogga undir nafni á þurka út af heimasíðum. Dharmi, langlokur þínar eru bæði heimskulegar og órökstuddar fullyrðingar.Þó ég beri ekki mikla virðingu fyrir íhaldinu,þá eiga þeir þó skilið að eiga skárri málssvara en þig.Þú veist þó það mikið ,að blaðrið í þér myndi skaða þig persónulega ef þú skrifaðir undir með réttu nafni.

Mun ekki eyða frekari orðum á nafnlausa bleyðu.Samfylkingin mun sem hingað til standa af sér níð  og róg stjórnarandstæðinga,formaður okkar Ingibjörg Sólrún hefur oft áður velt íhaldinu af stóli.Það er enn langur tími til kosninga og sjálfsagt munu fleiri íhaldsmenn en Dharmi leita skjóls í nafnleyndinni.

Kristján Pétursson, 9.4.2007 kl. 00:18

19 identicon

Var að vafra um bloggið og sá þá þessi ósköp sem gengið hafa manna á milli - sjálfan páskadag.  Röflið!  Ég sting upp á því við huldumanninn Dharma að hann nýti lausan tíma, t.d páskafríð, og hressi upp á stíl, stafsetningu og málfræði.

AB (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 00:27

20 identicon

Ég prófaði að commenta hér fyrir nokkru á áhugavert blogg en fékk ekki beint góðar viðtökur hjá síðueiganda. Hef spurt einfaldra spurninga nokkrum sinnum og ekki fengið svör heldur en ég sef svosem rólegur yfir því og hætti bara að spurja.

Allir flokkar keppast við að tala keppinautana niður. Allt gert í þeirri trú að þeir sjálfir muni vaxa fyrir vikið sem reynist sjaldan rétt. Nú síðast var Dofri eitthvað að reyna að tala niður Íslandshreyfinguna í þeirri von að fá nokkur græn atkvæði í staðinn. Íslandshreyfingin er reyndar nokkuð óskrifað blað en leiðtoginn þar þekkir náttúru Íslands örugglega best allra og nýtur mikils trausts.

Að þessu bloggi, af hverju treysta svona fáir ISG og af hverju fær Samfylkingin bara 20% atkvæða í dag þegar hún fékk mun fleiri fyrir 4 árum? Getur verið að það sé vegna þess að flokkurinn sé mun nær miðjunni núna en áður? Vg og samfylking höfðu ca 40-45% fylgi fyrir fjórum árum og hafa það enn í dag. Munurinn er bara sá að nú Vg hefur tekið 10-15% af Samfylkingu. Það er varla B og D lista að kenna eða hvað? Fólk sem vill vera vel vinstra megin við miðjuna kýs bara ekki Samfylkinguna lengur, hún er of nálægt miðjunni. Þar er einn flokkur og hann hefur ekki verið að fiska vel á þeim slóðum.

Kvennafylgið hrynur af samfylkingu, varla er það B og D lista að kenna því þetta fylgi virðist allt fara yfir á Vg. Miðað við 20% fylgi verða örfáar konur á þingi fyrir Samfylkinguna. Hverjum er það að kenna?

Einu sinni börðust vinstri flokkarnir fyrir verkalýðinn og var þá gjarnan talað um vondu, ríku kallana (sem áttu að hafa hagnast á kostnað hinna fátæku). Góðu vinstri flokkarnir voru vinir litla mannsins allt þangað til þessir sömu flokkar sömdu og samþykktu eftirlaunafrumvarpið árið 2003. Þá yfirgaf verkalýðshreyfingin Samfylkinguna að nokkru og flutti sig til Vg. Nú minnast þessir flokkar ekki á litla manninn sinn enda veit litli maðurinn að allir alþingismenn selja hugsjónir sínar fyrir ein góð eftirlaun. Litli maðurinn sér sinn gamla málsvara, Ólaf Ragnar, ferðast um í einkaþotum með helstu auðkýfingum heims. Ekki til að berjast fyrir litla manninn heldur til að skapa peningamönnum landins viðskiptatækifæri svo þeir verði enn ríkari. Til að hafa það á hreinu þá finnst mér ÓRG vera að vinna gott starf. Sá sem gagnrýnir ríkisstjórnina hvað mest fyrir að taka ekki þátt í eðlilegu tannheilbrigði barna er sjálfstæðismaður, hvar eru fulltrúar litla mannsins ? Kannski er litli maðurinn ekki til lengur á Íslandi, allir bara í utanlandsferðum eða að kaupa jeppa með flatskjá og heitum potti.

Ég kaus R-listann 1998 og sé ekkert eftir því. Þá stjórnaði ISG málunum mjög vel. Í næstu kosningum var ljóst að hún ætlaði í landsmálin en hún vildi ekki viðurkenna það enda var þá R-listinn í hættu. Hann sprakk fljótlega eftir að hún yfirgaf hann sem sýnir að nokkru leyti hversu góður leiðtogi hún var (þrátt fyrir að hafa svikið sitt loforð). Reyndar sprakk þetta samstarf aðallega út af því að samfylking vildi eiga öll sætin á listanum með sínum "jafnaðarmannalegu" aðferðum. Fyrir alþingiskosningar 2003 talaði ISG alltaf um "einstakt tækifæri" til að mynda vinstri stjórn sem aldrei kæmi aftur. Kjósendur sáu ekki þetta tækifæri og því hljómar þessi sama tugga nokkuð þreytt fyrir þessar kosningar. Hún lagði mikið undir árið 2003 og mistókst. Núna er bara einn leiðtogi á vinstri vængnum og það er SJS. Hann vill reyndar ekki gefa verkalýðnum tækifæri á að vinna við iðnað sem krefst orku.

Kannski er bara pólitiskur tími ISG liðinn? Hún hefur lengi verið áberandi og í forystu. Hennar styrkleiki var ma að benda á veikleika Davíðs en nú er hann hættur ISG getur ekki pirrað Geir neitt. Honum er alveg sama, hann veit að hún gerir sama gagn ef á reynir :)

Til að ég fái örugglega einhver "málefnaleg" (lesist:skítkast) viðbrögð þá langar mig að benda á að prúðu klappstýrurnar á þessari síðu eru margar þær sömu og henda hvað mest af skít á öðrum síðum, hjá bloggurum sem eru ekki í sama flokki. Gaman að því. Engin klappstýra hefur heldur reynt að hrekja það sem Dharma skrifaði. Gaman að því líka.

En Dofri er amk laus við Steina Briem sem er guðsblessun þó hann hafi einhverja hérna inni sem eru honum ekki alltaf sammála. Til að hafa það á hreinu þá tilheyri ég ekki neinum flokki.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 02:38

21 identicon

Þetta fyrirbrigði sem kallar sig "Dharma " er þetta ekki samheiti á einskonar herdeild ?

Það eru greinilega tveir aðilar sem  tjá sig hér undir þessu heiti á þessu bloggi.. Annar hefur notendanafn og lykilorð inn á mbl.is bloggið en hinn ekki og skrifar því sem óskráður "Dharma" svona eins og fyrirliði og undirsáti. Mér finnst að Dofri eigi að henda þessum "Dharma" skrifum út af síðunni. Svona moldvörpur eru eyðileggjandi fyrir annars góðan samskipta máta til skoðanaskipta. Þeir sem skrifa hér undir sínu eigin nafni eiga virðingu mína, hvort sem mér líka skoðanir þeirra eða ekki

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 09:06

22 identicon

Algjör óþarfi að velta sér upp úr skrifum "Dharma" Það þarf ekkert að deila um árangur ISG hún vann 3 kosningar í röð þar sem hennar persóna var sett á oddinn. Auðvitað er það áhyggjuefni hvernig fjarað hefur undan henni. Samfylkinigin á spyrja sig hversvegna og hvort þeir eigi ekki í raun sjálfir einhverja sök. Ein leiðin er að minnka flokkin þar til samstaðan innan flokks verður 100 %. Hin leiðin er að fara yfir það sem hefur mistekist og reyna að bæta fyrir það. Mér er td. spurn hversvegna gat Samfylkingin ekki notaða krafta Sigbjörns Gunnarssonar sem síðar varð farsæll sveitarstjóri, hversvegna var ekki hægt að nýta krafta Gísla Einarsson sem í dag er einn besti bæjarstjóri landsins, hversvegna er Petrína Baldursdóttir ekki í flokknum lengur, Jón Gunnarsson er farinn í bili amk. og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta hófsamir jafnaðarmenn sem hafa myndað kjarnan í hinni gömlu 30 % Samfylkingu. Meira að segja Sigbjörn vann prófkjör og var ýtt í burtu. Svo hefði einnig verið gamann að sjá Þórólf borgarstjóra í framboði en því tókst að klúðra með samstöðuleysi og hræðslu. Það þarf kjark til að ná árangri, kjark sem ISG hefur það er bara eitthvað í hennar umhverfi sem skortir

SAS (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 10:51

23 Smámynd: Dofri Hermannsson

Örlítil leiðrétting Tryggvi L Skjaldarson.

Þú sagðir mér ýmislegt gagnlegt um tækni álversins og við töluðum hreint út um öfgar í málflutningi beggja fylkinga þar sem þú játaðir fúslega að það væri allt of langt gengið að fullyrða að álverið lokaði og fólk missti vinnuna ef álverið fengi ekki að stækka. Þrátt fyrir það gagnrýnirðu að ég skuli hafa bent á þetta! Ég sem hélt að kaffibollasamræðunar (2,5 klst.) hefðu verið til að skiptast á upplýsingum, leiðrétta rangfærslur og gera umræðuna málefnalegri!

Það er kominn tími til að setja þessa álversumræðu aftur fyrir sig. Helstu efnahagssérfræðingar landsins hafa bent á að möguleikar á mjúkri lendingu, lækkandi verðbólgu og lækkandi vöxtum hafi aukist til muna og álverið er hreint ekki að fara neitt á næstu árum svo það er alger óþarfi að vera með ónot.

Dofri Hermannsson, 9.4.2007 kl. 10:55

24 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Jæja frændi, sumir sjá bara það sem þeir vilja sjá greinilega

Afhverju ættu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að vera hræddir við samfylkinguna? Væri ekki nær fyrir þá að vera hræddir við VG?

ISG stóð sig frábærlega sem borgarstjóri, ekki það að ég hafi alltaf verið sammála henni, en hún hegðaði sér eins leiðtogi. En síðan eru liðin mörg ár og allt hefur legið niður á við hjá henni og þó ég vildi gjarnan að það væri sjálfstæðisflokknum að kenna þá er það því miður ekki svo, hún virðist eiga alla sök á því sjálf og það fólk sem í kringum hana starfar.

Ég samhryggist þér frændi vegna fylgishrunsins, það fer greinilega illa í þig miðað við þetta blogg, annars myndir þú vera málefnalegri og rökfastari í þínum skrifum.

Ágúst Dalkvist, 9.4.2007 kl. 12:11

25 identicon

SkuliS; það er eitt að vera í málefnalegri umræðu og annað að vera þáttakandi í Morfís rökræðukeppni, þar sem annað liðið heldur því fram að jarðaber með súkkulaði eru vond en hitt liðið heldur því fram að það sé gott.

Ef skoðaðar eru greinar eftir Dofra og athugasemdirnar sem birtast hafa.. þá sést vel að þessar "góðu athugasemdir" ykkar bláa huldu hersins er keppni um hver hefur rétt fyrir sér. Það þýðir lítið að rökræða við þannig einstaklinga, því það er sama hvað sagt er, það er alltaf hægt að finna rök á móti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frelsi einstaklingsins að leiðarljósi.. frelsið felst líka í því að maður hefur frelsi til þess að velja og hafna því hverju maður vill svara.

Ég óska svo bláa hulda hernum til hamingju með að vera komnir út úr skápnum og vera orðnir opinberir klappstaurar.

Ég bætist kannski í liðið ykkar fyrir þarnæstu kosningar en það fer algjörlega eftir því hvernig málin þróast í þessum karlaflokki. Lýðræðisins vegna ætla ég ekki að styðja íhaldið nú. Tel að það sé  mjög hollt flokknum að fara í stjórnarandstöðu og taka aðeins til í sínum eigin ranni. Hefur til að  mynda greinilega gert breska íhaldsflokknum gott

Howdí

Björg F (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 18:38

26 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Sæll Dofri, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn notaði efni úr Fagra ísland í nýju ályktanir sínar, þá spyr ég: hefði ekki verið kurteisi hjá þeim að nota gæsalappir ?

Tómas Þóroddsson, 9.4.2007 kl. 21:35

27 identicon

Skúli S.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkistjórn sl 16 árin og lengst af með fjármálin (þeir segjast svo góðir þar) Hvernig er staða okkar núna :

- Verðbólga og ofurvextir að sliga heimilin í landinu og skuldaklafar heimilina orðnir 1.325 milljarðar króna.  þetta er svona "smá" dæmi um óstjórnina.

Síðan beinið þið allri athygli ykkar að Samfylkingunni sem aldrei hefur átt aðild að ríkistjórn enn sem komið er.  Gerið grín að þeim vinnubrögðum okkar að vilja greina vandann ,finna lausnir og þegar við erum komnir við stjórnvölinn þá getum við sett stefnun á vitræna lausn fyrir heildina...  

Svona vinnubrögð eru ykkur greinilega framandi enda árangurinn eftir því.

Þessari þjóð er brýn nauðsyn á að hér verði farsæl breyting á efnahagsstjórninni.

Við það verkefni mætir Samfylkingin klár til leiks með heimavinnuna full unna. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:54

28 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Tommi, þar sem Samfylkingin notaði hellingu af texta úr ályktunum Framsóknar frá 2005, væri ekki rétt að nota gæsalappir þar líka og þá íhaldið tvöfaldar?

Gestur Guðjónsson, 9.4.2007 kl. 22:37

29 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Gestur, ég ætla að minna þig á að þú ert framsóknarmaður og ert skráður í Framsóknarflokkinn.

Tómas Þóroddsson, 10.4.2007 kl. 02:45

30 identicon

Sæll aftur Dofri

Þér gengur illa að fara rétt með.    Þú segir orðrétt:"Þú sagðir mér ýmislegt gagnlegt um tækni álversins og við töluðum hreint út um öfgar í málflutningi beggja fylkinga þar sem þú játaðir fúslega að það væri allt of langt gengið að fullyrða að álverið lokaði og fólk missti vinnuna ef álverið fengi ekki að stækka. Þrátt fyrir það gagnrýnirðu að ég skuli hafa bent á þetta! Ég sem hélt að kaffibollasamræðunar (2,5 klst.) hefðu verið til að skiptast á upplýsingum, leiðrétta rangfærslur og gera umræðuna málefnalegri" tilvitnun lýkur. 

Að ég hafi játað og það fúslega að alltof langt væri gengið að fullyrða álverið lokaði og fólk missti vinnuna ef álverið fengi ekki að stækka, er ekki rétt.  Ég benti þér sérstaklega á yfirvofandi hættu 2014 þegar raforkuverð verður endurskoðað. Ég gerði líka tilraun til að útskýra hversvegna það væri nauðsynlegt að stækka, en það virðist ekki hafa náð í gegn.

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 12:59

31 Smámynd: Dofri Hermannsson

Þegar samningar losna 2014 getur Alcan framlengt þá um 10 ár. Þetta hef ég ítrekað bent á. Auk þess er ekkert sem segir að þeir gætu ekki fengið áframhaldandi samninga (nema þið séuð þess fullviss að það væri hægt að fá miklu hærra verð fyrir orkuna og álverið þar af leiðandi orðinn úreltur vinnustaður).

Það væri meiri sæmd af því að leggja nú niður svona hræðsluáróður en að hanga á honum eins og hundur á roði. Það hafa allir séð í gegnum þetta nema þið í "kynningardeild" Alcan. Fólk er ekki að fara missa vinnuna, fyrirtækið er rekið með methagnaði og hinir 700 sem frænka mín í hag Hafnarfjarðar taldi sig vita að hefðu flutt í Hafnarfjörðinn hljóta að hafa verið íbúar í Hellisgerði.

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 15.4.2007 kl. 23:10

32 identicon

Sæll enn og aftur Dofri

Vandinn er að enginn veit hvaða staða verður uppi 2014.  Það er óvissa með farmhaldið og að tönglast á að það sé hræðsluáróður er annað hvort þekkingarleysi á aðstæðum eða lítil sannleiksást.  Staðreyndin er að Hafnfirðingar kusu frá sér a.m.k. eittþúsund milljónir á ári í bæjarsjóð í í áratugi fram í tímann.  það er slæmt í bæjarfélagi sem hefur lagt sig eftir því að búa vel að íbúum og  verði í forustu með að styðja æskulýðsstarf.   

Það stendur allt eins og stafur á bók sem ég hef sagt við þig um þessi mál.  Ég mundi allt í einu í gærkvöldi að þú ruglaðir mér saman við  þjóðþekktann mann sem sagði þér í tveggja manna tali að álverið í Straumsvík myndi ekkert loka.  Ég aftur á móti sé ekki fyrir mér blómlega starfssemi í Straumsvík til lengri tíma, því miður. 

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband