Ekkert svar!

Á borgarstjórnarfundi í gær stóð Samfylkingin fyrir umræðu um húsnæðisvanda ungs fólks. Þar vorum við ekki bara að ræða vanda námsmanna eða láglaunahópa sem þó er ærinn. Þúsundir ungs fólks sem er að koma úr námi, hefja sjálfstæða búsetu, stofna heimili og hefja störf á vinnumarkaði hefur ekki möguleika á stofna sitt eigið heimili.

Vegna efnahagsmistaka ríkisstjórnarflokkanna er húsnæði núna 60% dýrara en fyrir fjórum árum og það hefur aldrei verið dýrara fyrir fyrstu-íbúðar kaupendur að kaupa sér íbúð. Þeir sem ekki hafa fengið milljónir að gjöf frá foreldrum sínum verða að byrja á að nurla saman sparnaði fyrir útborgun en 3h íbúð, mátuleg fyrir unga fjölskyldu, kostar í dag um 20 milljónir. Það tekur fólk um 7 ár að safna fyrir slíkri útborgun ef það getur lagt til hliðar 50 þúsund á mánuði - sem er langt frá því að allir geti gert eins og leigumarkaðurinn er núna.

Auðvitað er það fyrst og fremst á valdi ríkisstjórnarinnar en ekki borgarstjórnar að bæta úr þessu ástandi EN það er samt eitt mjög mikilvægt atriði sem er fyllilega á valdi borgarstjórnar. Það er að bjóða félagasamtökum á leigumarkaði sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni lóðir undir fjölbýlishús miðsvæðis í borginni. Þetta getur borgin gert til að auka framboð af öruggum og ódýrari leiguíbúðum fyrir venjulegt fólk.

Við í Samfylkingunni sáum síðasta vor í hvaða ástand stefndi. Þess vegna vorum við með þetta sem eitt af aðalatriðunum í stefnu okkar fyrir borgarstjórnarkosningar:

Öflugur leigumarkaður er lykilatriði til að tryggja fjölbreytileg búsetuúrræði fyrir alla aldurshópa. Hann verður ekki til nema byggingarfélögum og fyrirtækjum verði tryggðar forsendur til að byggja og reka leiguíbúðir og félagslegar íbúðir á viðráðanlegum kjörum. Við viljum að öflugur leigumarkaður verði valkostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur í leit að þaki yfir höfuðið.

Það eru breyttir tímar. Ungt fólk vill margt frekar en að vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir afborgunum af eigin húsnæði. Núna þegar margir eru orðnir vanir því að taka bílinn sinn á rekstrarleigu finnst fólki einfaldara og betra að leigja - ef leigan er á góðum kjörum og maður er öruggur um verða ekki hent út t.d. af því að barnabarn eigandans hætti í náminu í útlöndum og þarf að fá íbúðina.

Ungt fólk sem er að gera allt í senn, hefja sambúð, eignast börn og hefja starfsframann hefur um nóg að hugsa þótt það hafi ekki stöðugar áhyggjur af afborgunum og skuldum sem hækka og hækka vegna verðbólgunnar. Fólk sem fékk 15 milljóna húsnæðislán fyrir tveimur árum skuldar um 17,2 í dag. Mánaðarlegar afborganir hafa hækkað umtalsvert.

Ef þakið fer að leka eða klóaklögnin springur þá er allt í einu komin reikningur upp á nokkur hundruð þúsund. Það er meira en flestir hafa efni á á þessum árum. Þess vegna þurfum við að efla traustan og ódýrari leigumarkað fyrir venjulegt fólk sem vill frekar fjárfesta í einhverju öðru, t.d. verðbréfum nú eða bara geta haft það aðeins rólegra, unnið aðeins minna, verið meira saman og sinnt börnunum sínum.

Borgarfulltrúar meirihlutans í borginni töldu á fundinum í gær upp nokkur atriði sem fyrrverandi meirihluti var búinn að setja af stað, íbúðir fyrir þá sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda og íbúðir fyrir námsmenn. Það er gott að núverandi meirihluti haldi áfram því sem byrjað var á í þessum efnum. Hins vegar kom ekkert svar við því hvað borgaryfirvöld ætla að gera til að efla leigumarkað fyrir venjulegt fólk.

Ekkert svar. Við spurðum aftur og aftur. Þetta virðist alveg hafa gleymst. Þau segjast ætla að auka framboð á lóðum. Er lóð skófla og hjólbörur það sem ungt fólk dreymir um þegar það er að útskrifast úr námi, stofna fjölskyldu og hefja krefjandi störf á vinnumarkaði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

AF HVERJU vill Dharma ekki skrifa undir eigin nafni, honum finnst hann ekki hafa r'ettara fyrir s'er en svo ad hann bara þorir því ekki.

Sigga Ragna (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 16:48

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Dharma er Árni Johnsen.

Tómas Þóroddsson, 18.4.2007 kl. 17:55

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Tómas. Ég held ekki að þetta séu stolin svör. Dettur frekar að þetta sé Pétur Blöndal.

Dofri Hermannsson, 18.4.2007 kl. 19:37

4 identicon

aha.. Dharma sagði "Ég bíð spenntur..." svo þarna er það komið, hann er karlmaður.. Hér eftir segjum við Hann Dharma.. eins og ég hef reyndar alltaf sagt... Maður getur þekkt mun á kyni þó að það sé  meira að segja skrifað undir dulmáli. Sem aftur sýnir að það er munur á kynjunum.. Við erum ólík, með oft ólíkar áherslur og skynjun.. sem aftur segir að það er farsælast fyrir alla þjóðina að hafa bæði karl og kvennorkuna nokkurn vegin réttu hlutfalli hér við stjórn svo það komist á betri "harmony" í landinu sem aftur leiðir mig til þessarar gullsetningar.. Kjósa flokk sem sem hampar báðum kynjum..

Björg F (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 20:42

5 identicon

Þessi gífurlega hækkun á íbúðaverði sem átt hefur sér stað í tíð þessarar ríkisstjórnar eru auðvitað hagstjórnarmistök og ekkert annað. Íbúðalánasjóður var látinn velta boltanum af stað til að undirbúa jarðveginn fyrir bankana að komast inná íbúðamarkaðinn með 90-100% lánum og ná þannig mjög hárri markaðshlutdeild. Afleiðingarnar voru snarhækkun á fasteignaverði án þess að nokkrar aðrar forsendur lægju þar að baki en stóraukið framboð á fjármagni. Lögmálið um framboð og eftrispurn lét ekki bíða eftir sér. Ungt fólk sem í dag er að reyna fyrir sér um sín fyrstu íbúðarkaup getur því "þakkað " núverandi ríkisstjórn þá gríðarlegu erfiðleika sem það stendur frammi fyrir. Samfylkingin vill koma hið fyrsta, á jafnvægi í efnahagsmálum og vinna þannig að auðveldara lífi fyrir fólkið í landinu, öllum til heilla, ekki síst börnum þessa lands með fjölskylduvænna samfélagi.

Þessu getum við breytt nú í vor með kjörseðlinum okkar. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 21:59

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

OH , nú langar mig aftur til að kjósa SF, en læt ekki undan freistingu

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.4.2007 kl. 22:03

7 identicon

Farðu nú að leggja þig Dharma mér finnst að þú sért alveg að flippa út.

Ekki vil ég eiga það á samviskunni ...kannski meira á morgun, það er af nægu að taka.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 22:49

8 identicon

Alltaf líf og fjör hér. Annars minnir þessi pistill Dofra mjög á félaga minn sem þorði aldrei að kaupa íbúð á sínum tíma. Honum fannst verðið alltof hátt og ætlaði að bíða þangað til það myndi lækka. Nú býr hann enn ásamt kærustu og barni heima hjá foreldrum sínum ásamt reyndar tveimur systkinum sínum, öll komin yfir þrítugt. Hann er mjög bitur yfir því að hafa ekki keypt á sínum tíma og talar enn um hvað það sé erfitt að kaupa. Samt eru þau bæði í fínnni vinnu.

Ég held að það sé alltaf erfitt að kaupa og varðandi lánsfé þá var það mun erfiðara fyrir nokkrum árum. Til að fjármagna mismun frá íbúðalánasjóði upp í markaðsverð þurfti að fá bankalán á mjög háum vöxtum. Svo koma bankarnir af fullum þunga inn á markaðinn seinni part sumars 2004 með mun betri kjör en áður höfðu sést. Þá rauk verðið upp.

Ef Dofrabanki byði upp á óverðtryggð íslensk lán á evruvöxtum á morgun eins og allir eru að biðja um myndi markaðurinn rjúka upp aftur. Hverjum væri það þá að kenna? Samfylkingunni?

Að kenna ríkisstjórninni og íbúðalánasjóði um þetta er eins og að kenna David Hasselhoff um of hátt verð á sviðum í melabúðinni. Íbúðalánasjóði sem lánar max 90% af brunabótamati og það max 18 milljónir. Bankarnir lána ótakmarkað meðan þú getur borgað. Meðalupphæð á hvern kaupsamning er í dag 29 milljónir.  Seinni part sumars 2004 fóru bílaumboðin að bjóða upp á betri kjör við fjármögnum bíla og þá varð mikil sprenging í bílasölu. Var það ríkissjórninni að kenna?

Annars er ekki gott líkja saman kaupleigusamningum á bílum og leigusaming á íbúð. Bíll er hlutur sem fellur í verði um ca 15-18% á ári og því dýrari bíl sem þú kaupir, því hærri (krónutala) eru afföllin. Íbúðin er hinsvegar framtíðareign sem vex, lífsparnaður sem maður endar á að eignast ef vel er haldið á spöðunum. Þeir fiska sem róa nema þeir sem kunna ekki á árarnar. (þetta á að sjálfsögðu ekki við fólk sem þarf virkilega á hjálp að halda.)

Ungt fólk sem vill fjárfesta í hlutabréfum má gera það en það á ekki að fá einhverjar íbúðir á niðurgreiddu leiguverði. Það getur bara borgað sína leigu og selt svo hlutabréfin síðar og keypt sér íbúð ef það vill fyrir hagnaðinn. Félagslega kerfið er allt annað. það á að hjálpa fólki í vanda, ekki fólki sem vill kaupa hlutabréf.

Ef það er svona miklu erfiðara að kaupa í dag en fyrir nokkrum árum, af hverju fækkar þá ekki fjölda kaupsaminga?
árin 1990-1994 var fjöldi kaupsamninga um 6000, árið 2002 voru kaupsamingar 10.000 og þremur árum síðar, þegar þetta var orðið svona rosalega erfitt var fjöldi kaupsamninga 15000.
Hvernig skýrið þið þetta? (ps svarið er ekki Árni Johnsen eða Pétur Blöndal)

Annars virðist markaðurinn halda sér núna en mun væntanlega rjúka upp þegar Samfylkingin kemst til valda til að lækka vexti. Ég styð Samfylkinguna í því og líka í því að afnema stimpilgjöld, þau eru fáránleg.

Svo má ekki gleyma því þegar R-listinn ákvað að keyra upp verð á lóðum, 20milljónir fyrir grasið.
Það er líka hægt að kaupa sér bara einbýlishús á Raufarhöfn á 800þús og hætta þessu væli. Af hverju drífið þið ykkur ekki þangað? Náttúran þar ku einstök og ósnortin. engin mengun eins og í borg bleytunnar.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband