Svar...við ágætum athugasemdum

Dharma og aðrir pennavinir.
Takk fyrir ágætar athugasemdir við síðustu færslu og gott innlegg í þarfa umræðu. Mig langar að svara þeim með sérstakri færslu í stað þess að prjóna hér enn eina langloku við þær sem fyrir eru.

Fyrst nokkrar stuttar athugasemdir við hina löngu en óvenju málefnalegu athugasemd Dharma.

  • Nú um stundir a.m.k. veita bankarnir ekki nema 80% lán. Íbúðalánasjóður lánar 90% allt að 18 milljónum en aðeins upp að 100% af brunabótamati svo það gagnast tæplega ungu fólki í Reykjavík í dag.
  • Það er rétt að ef reiknaðir eru 11% vextir á 50 þ kr. sparnað á mánuði þá tekur það innan við 7 ár að ná 4 milljónum. Þetta eru hins vegar ekki verðtryggðir vextir og eins og Dharma þreytist ekki á að tala um hækka húseignir að jafnaði í verði, a.m.k. er gott að reikna með að þær haldi í við verðlag. Ef verðbólgan helst innan marka, hvað þá ef hún heldur áfram að vera eins og hún hefur verið er heldur lítið eftir af vöxtunum þegar til á að taka.
  • Ef maður selur íbúð á 25 milljónir sem maður á bara 13 milljónir í þá getur maður tæplega fengið 3 milljónir í arð af þeim á ári jafnvel þótt maður miði við 12% vexti sem mér finnst talsvert há ávöxtunarkrafa, jafnvel á Íslandi. Hafa verður í huga að ef valið er að leigja íbúðina þá reiknar maður með því að fjárfestingin sé vertryggð svo það er hægt að lækka ávöxtunarkröfuna sem svarar verðbólgunni.
  • Varðandi aðrar athugasemdir vísa ég í pistilinn hér að neðan en læt nægja að benda Dharma á að það er hægt að leysa málin á fleiri vegu en að handstýra öllu frá a til ö og setja reglur sem banna mönnum hitt og þetta. Það er engin lausn, ekki frekar en það að loka augunum fyrir ástandinu eins og Dharma og félagar virðast helst vilja gera. Við eigum að líta til velferðarsamfélaganna í kringum okkur og læra af þeim. Þau eru á meðal allra samkeppnishæfustu þjóðríkja heims, einmitt af því þar hafa stjórnvöld byggt upp samfélag þar sem hvað flestir geta notið sín og hæfileika sinna, sér og samfélaginu til hagsbóta.

Ef við trúum því að í borginni eigi fólk af "öllum stéttum", eins og ágætur flokkur myndi orða það, að eiga möguleika á búsetu þurfum við að endurskoða ýmislegt. Þó það geti verið gott að búa á Raufarhöfn þá er óþarfi að reka fólk þangað með of háu leigu- og íbúðarverði í Rvk. Betra er að fólk flytji þangað vegna kosta Raufarhafnar fremur en ókosta á húsnæðismarkaði í Reykjavík.

Hér fyrir neðan má sjá stöðuna hjá ungri fjölskyldu með eitt barn sem er að safna sér fyrir útborgun á íbúð. Athugið að hér er bara um allra helstu nauðsynjar að ræða og flokkurinn "óþarfi" upp á 20 þúsund dekkar allar áskriftir að dagblöðum, sjónvarpi, bíóferðir, nammikvöld, kaffihúsaferðir osfrv. Ekki er gert ráð fyrir neinu umfram þetta s.s. ferðalögum eða stórhátíðum sem kalla á útgjöld.

Það sem helst er hægt að spara þarna er kostnaður við bíl en þá þyrfti fólk að vera heppið með íbúð nálægt verslunarmiðstöð og leikskóla/dagforeldri nálægt íbúðinni og vinnunni. Því miður hafa ekki mörg hverfi borgarinnar verið hönnuð með það í huga að fólk gæti sleppt því að eiga bíl. Það er helst að skipulag í anda þéttari byggðar geri ráð fyrir slíkir ráðdeild. (Tölur í þús. kr.)

  • Framfærsla                   100                  Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna     
  • Sími/internet                  10                   
  • Bíll                                  50                  FÍB, ódýrasta tegund bíls
  • Leikskóli/dagfor.            30                   
  • Leiga                            100                  Algeng leiga á 2-3 hb. íbúð
  • Óþarfi                             20
  • Óvænt 10%                    31
  • Sparnaður                      50
  • Samtals                        391

Til að eiga fyrir þessari upphæð þarf hvort foreldri að hafa a.m.k. 273 þúsund í heildarlaun á mánuði. Að auki hefðu þau um 9 þúsund kr. á mánuði í barnabætur en engar húsaleigubætur - til þess eru þau of tekjuhá.

Það er eins gott að fólkið hafi þá ekki kosið sér háskólanám á sviði fræðslu eða umönnunarstétta en byrjunarlaun kennara í fullu starfi eru um 180 þúsund á mánuði. Væru báðir foreldrar á þeim launum væru útborguð laun þeirra samtals um 280 þúsund á mánuði + tæpar 13 þúsund kr. á mánuði í barnabætur en engar húsaleigubætur - til þess eru þau of tekjuhá.

Fólk í þessum sporum hefur enga möguleika á að spara og í raun ekki heldur möguleika á að skrimta af launum sínum. Það vantar í raun um 50 þúsund kr. á mánuði upp á að ná endum saman án þess að nokkur sparnaður sé tekinn með í reikninginn.

Auðvitað er það umhugsunarefni út af fyrir sig að það skuli ekki vera hægt að lifa af fullu starfi eftir nám í mörgum algengustu háskólagreinunum. Það er líka umhugsunarefni að þar er oft um að ræða hefðbundnar kvennastéttir.

Fyrst þegar unga fólkið er komið upp í 230 þúsund kr. á mánuði nær það endum saman. Aðeins það fólk sem hefur 50% hærra kaup en kennarar getur lagt til hliðar 50 þúsund og náð þannig að skrapa saman fyrir útborgun í íbúð á 6-7 árum. Hjá þeim sem hafa lægri tekjur tekur það því lengri tíma sem minna er eftir þegar allt hefur verið greitt.

Til að laga þetta þarf auðvitað fyrst og fremst að hækka skattleysismörk og skerðingarmörk barnabóta sem hafa dregist verulega aftur úr launaþróun í landinu. Húsaleigubætur hafa engan veginn haldið í við aðra verðlagsþróun, enda sést að fólk sem er undir þeim mörkum að geta framfleytt sér fær ekki einu sinni húsaleigubætur. Eða eins og sérfræðingar hafa ítrekað bent á - fólk með lágar og meðaltekjur hefur þurft að þola stóraukna skattbyrði. Þetta er á færi ríkisins að laga og því mun Samfylkingin beita sér fyrir.

Það sem Borgin getur gert en hefur því miður ekki sýnt áhuga á þótt við í Samfylkingunni höfum bent á að þetta ástand væri að myndast er að bjóða félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni lóðir miðsvæðis í borginni undir fjölbýlishús í ýmsum stærðum og gerðum til þess eins að leigja út á kostnaðarverði til venjulegs fólks.

Þessu þyrfti ríkið að koma að sömuleiðis eins og við í Samfylkingunni bentum á í kosningastefnu sem samþykkt var á landsfundi t.d. með því að heimila slíkum félagasamtökum að fjármagna sig á frjálsum markaði og ná þar með betri kjörum.

Það þarf líka að víkja frá þeirri séríslensku hugsun að það verði að borga húsnæði upp á 40 árum en í nágrannalöndum eru félög á húsaleigumarkaði ekki að borga eignirnar upp fyrr en eftir ca 80 ár enda hrópandi óréttlæti að íbúarnir sem búa í húsunum fyrstu 40 árin borgi upp kostnaðinn fyrir þá sem búa í húsunum næstu 40 ár á eftir.

Þessum kerfisbreytingum mættu gjarna fylgja stofnstyrkir til þeirra félgasamtaka sem vilja taka að sér að byggja og reka til margra áratuga leiguíbúðir miðsvæðis í borginni.

Það er mat sérfróðra aðila að með aðgerðum sem þessum mætti lækka leiguverð í borginni umtalsvert, allt að 20%.

Því miður hafa hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar komið húsnæðismálum í borginni í svo mikinn hnút að hann er vandleystur án þess að það valdi einhverjum sársauka. Íbúðaverð hefur hækkað mun meira en ástæða er til, á markað eru væntanlegar þúsundir íbúða og greiningardeildir bankanna hafa spáð því að íbúðaverð muni lækka á næstu misserum. Það mun koma sér illa við þá sem hafa fjármagnað sig að fullu með verðtryggðum lánum því öfugt við allt annað sem hent er upp í loftið koma hækkandi húsnæðisskuldir aldrei niður aftur.

Kv. Dofri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú vilt semsagt ekki svara því af hverju velta á húsnæðismarkaði hefur aukist svona mikið á sama tíma og það er svona rosalega erfitt að kaupa? ég ætla samt ekki að vera ósammála þér um að líklega er einhver verðhjöðnun framundan. Við skulum samt vona að laun komi ekki niður skv eðlifræðilögmálinu. Það eru kannski hagstjórnarmistök að lífskjör hafi batnað mikið?

Annars er dæmið sem þú tekur gott og sýnir vel að það er víða þröngt í búi. Leikarastéttin þekkir vel til kennarastéttarinnar. Ég vil hinsvegar koma með smá ábendingar og ráðgjöf fyrir kennarana sem eru með 180þús á mánuði og eitt barn og útgjöld eins og dæmið þitt gerir ráð fyrir.

Ég myndi ráðleggja þeim að kaupa sér íbúð. Það er hægt að fá fínar íbúðir á ágætum stöðum víða á höfuðborgarsvæðinu fyrir 17-18 milljónir skv fasteignavef morgunblaðsins. Segjum að þau taki 17 milljón króna nýtt 50/50 lán hjá Glitni til 40 ára og gerum ráð fyrir 4,2% verðbólgu en það er verðbólgan á núverandi kjörtímabili og gerum ráð fyrir óbreyttu gengi en það er nánast það sama í dag og í apríl 2003. Gerum einnig ráð fyrir óbreyttum LIBOR vöxtum eins og spár gera ráð fyrir.

Miðað við þessar forsendur verða meðaltalsgreiðslurnar næstu 2 árin 88þús. Þá gerum við ráð fyrir hússjóði og fasteignagjöldum upp á 12 þús þannig að samtals munu þau leggja inn 100þús í húsnæðið á mánuði.
Miðað við 180þús í laun á hvorn aðila fá þau ca 280 í vasann, 13þús í barnabætur og 23þús í vaxtabætur: samtals 316þús í vasann á mánuði.

Nú verða þau að spara meira með því að eyða bara 25þús í bíl (sumir myndu sleppa bílnum alveg sem er vel hægt).

þá er staðan svona

(Tölur í þús. kr.)

Framfærsla                   100                  Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna     
Sími/internet                  10                   
Bíll                                  25                  ódýrasta tegund bíls
Leikskóli/dagfor.            30                   
Húsnæði (lán+viðhald)  100                  Miðað við 70-80fm -3 hb. íbúð
Óþarfi                             20
Óvænt 10%                    31

Samtals                        316

Gjöld eru því þau sömu og tekjurnar. Einhver tekur eftir því að hér er enginn sparnaður. Við skulum bara vera hóflega bjartsýn og gera ráð fyrir að húsnæðisverð hækki um 4% á ári,
Þá væri verðmæti íbúðarinnar 18,4 milljónir eftir 2 ár og eftirstöðvar lánsins tæpar 17,2 milljónir miðað við 4,2% verðbólgu og óbreytt gengi og LIBOR vexti.
Hvað fáum við þá út? jú sparnað upp á 50þús á mánuði. Ekki amalegt það.

Semsagt kennararnir þínir sem náðu alls ekki endum saman miðað við að leigja fyrir 100þús og leggja 50þús í sparnað, voru þá í -100þús á mán eru nú í mun betri málum þó ég sé alls ekki að segja að þau hafi það eitthvað sérstaklega gott. Þau eignast þó eitthvað í íbúðinni sinni.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 04:12

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Auðvitað er gott að fá bankana á lánamarkaðinn, það vantar hinsvega SAMKEPPNI þeirra í milli?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.4.2007 kl. 10:14

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það þarf að skipta um fólk í brúnni.  Nýjir vendir sópa best.  Við verðum að sameinast í Kaffibandalag og gefa fólki skýran valkost í vor. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2007 kl. 12:39

4 identicon

Það er beinlínis rangt sem Dharma heldur fram að það sé auðveldara að kaupa sér húsnæði nú en fyrir 10 árum síðan.. (sjá athugasemd við síðustu grein) Hvernig veit ég það? Ég nefnilega keypti mér sjálf íbúð fyrir 10 árum síðan, seldi svo 3 árum seinna, fór til Noregs, kom heim og var að kaupa mér íbúð aftur núna. Munurinn þá og munurinn nú er alveg gífurlegur. Ég hef hærri laun núna og minn skuldir en samt hefði ég aldrei getað keypt núna og ég fullyrði, ALDREI getað keypt ef ég ætti ekki svona vel stæðan föður sem ákvað að koma mér til aðstoðar. Hann þurfti þess ekki fyrr 10 árum síðan, þá gat ég það ein. (Því miður eiga bara langt í frá allir slíkan pabba) Ég fullyrði og get sannað það á marga vegu.. Það er miklu miklu erfiðara að kaupa sér íbúð í fyrsta sinn núna en fyrir 10 árum. Og munurinn er mikill!  Sem sýnir aftur að kaupmáttur meðal og láglaunafólks hefur lækkað þvert á það sem núverandi ríkisstjórn heldur fram)

Björg F (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 14:43

5 identicon

Nú veit ég ekki hvort að þú búir á Bahamas eða sért með svona háar tekjur að þú þekkir ekki málið... En fyrir okkur hin þá er málið einfalt Dharma... fyrir 10 árum síðan var ég greiðslumatshæf hjá Íbúðarlánasjóði, núna 10 árum seinna er ég það ekki. Þá skiptir litlu verðið á íbúðinni, ég er bara ekki greiðslumatshæf. Nema ég sé með 357 þús. krónur í tekjur eftir skatta. (einstæð móðir með 2 börn, engar skuldir og ekki einu sinni bíl)  Þegar þú tekur verð á íbúðum í dag + vexti + verðtryggingu þá sérðu greinilega að kaupmáttur hefur lækkað hjá öllum þeim sem hafa miðlungs eða láglaunatekjur. Þetta er bara staðreynd. Þú getur reynt að snúa þessu tvist og past eins og þú vilt, það þýðir lítið þegar raunveruleikinn er annar.. Það er hann sem er yfir alla þína reikningskúnstir hafinn.

Björg F (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 17:18

6 identicon

Smá viðauki til Dharma; Athugaðu að ég er að tala um fólk sem er að kaupa sér sína fyrstu íbúð.. Þó að ég hafi verið skuldlaus þá eru flestir með námslán á bakinu sem koma úr námi (ég fjármagnaði mitt nám með mikilli vinnu + norskan námstyrk) Að auki vil ég benda þér á eitt núna ætlaði ég að fjármagna sjálf íbúðina fyrir 5 miljónir en síðast fyrir 10 árum þá fjármagnaði ég sjálf upp á 800 þús. Núna er ég líka með hærri laun og hærri barnabætur.. samt er þetta ekki nóg. Athugaðu að ég er langt í frá sú eina sem er í þessari stöðu. Það eru margir sem ég veit í kringum mig sem eru með "venjulegar" tekjur (t.d. kennaralaun) en fá ekki einu sinni greiðslumat. Þegar þú færð ekki greiðslumat, þá er ekki einu sinni hægt að kaupa sér pínulitla eins herberja kjallaraholu í Grafarvogi.. Svona var málum ekki háttað fyrir 10 árum síðan. Þá var miklu auðveldara að fjárfesta sér í íbúð.. meira að segja áður en Framsókn gerði þau mistök að koma á 100% bankaláni...

Björg F (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 17:48

7 identicon

Aftur rangt hjá þér Dharma.. ég fékk fyrir 10 árum síðan 80% lán og 10% viðbótarlán.. Allt frá íbúðarlánasjóði. Aftur hefur þú rangt fyrir þér og þú veður í algjöra villu með það sem þú ert að segja.. þannig er það nú bara. Þessi útútrsnúningur þinn hlýtur þá að sýna hvað þú minn kæri ert blindur á aðra þætti í tilverunni og því lítið marktakandi.. En færð samt prik fyrir að rembast sem rjúpan..

Björg F (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband