Hægri grænir blána af ótta við umræður og samráð

Nýlega var keyrður í gegn í stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf. orkusamningur við Norðurál er tengist hugsanlegu álveri í Helguvík.  Gunnar Svavarsson og Björn Herbert Guðbjartsson félagar í Samfylkingunni og fulltrúar í stjórn HS hf. lögðu þá fram tillögu á fundi stjórnar um að fresta afgreiðslu orkusamningsins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins felldu hana.

Gunnar og Björn töldu ekki tímabært að ganga frá orkusamningnum. Orkuöflun, fjármögnun, gengisáhætta og álverð eru grunnþættir sem þarf að taka tillit til við mat á orkuverði og arðsemi framkvæmdarinnar. Rannsóknir á nýjum svæðum eru ekki hafnar og óvíst að leyfi til þeirra fáist yfir höfuð. Þá hefur skuldsetning fyrirtækisins aukist mjög, sömuleiðis  fjármagns- og fjárfestingarkostnaður og ýmis varúðarljós hafa kviknað gagnvart sjóðstreymi fyrirtækisins.

Þrír sjálfstæðismenn af fjórum voru að sitja sinn fyrsta stjórnarfund þegar ákvörðun var tekin, engar forsendur voru til að afgreiða málið með hraði og fulltrúi fjármálaráðherra var ekki á fundinum. Það hefði mátt "anda" í málið. Afdrifaríkar ákvarðanir með töluverðri áhættu þarf að taka á vel upplýstan hátt og í góðu samráði og sátt við eigendur, samfélagið og ríkisvaldið. Málið í heild þarf að fá frekari og vandaðri umfjöllun innan og utan HS hf.

Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki til eftirbreytni - valdastjórnmál eru barn síns tíma og vonandi á undanhaldi - það er veikleikamerki að hræðast upplýsta umræðu. Það þarf að hafa í huga að fyrirtækið er í eigu ríkis og níu sveitarfélaga, í raun í eigu almennings. Ríkisstjórnin hefur reyndar ákveðið að bjóða á einkamarkaði 15% hlut sinn í HS og það er enn frekari ástæða til að bíða og vanda betur til verka.

Ekkert þrýsti á um þessa tímasetningu samningsins, aðilar hefðu engu glatað, nema e.t.v. athygli í fjölmiðlum fyrir Alþingiskosningar. Sjálfstæðismenn hafa á undanförnum vikum málað fálka sinn grænan.  Það er hins vegar óhætt að gefa út dánarvottorð hinnar meintu hægri grænu stefnu nú þegar upplýstri umræðu um er algjörlega hafnað af Sjálfstæðisflokknum.

Það eru sóknarfæri í umræðu um orkumál. Umræðu sem almenningur vill fá að taka þátt í af því hún snertir ekki einungis hag okkar í dag heldur líka umhverfi og náttúruverðmæti komandi kynslóða. Reynum að blána ekki í framan af ótta við umræður og samráð.


mbl.is Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú svolítið til í þessu hjá þér Dofri. Held nú samt að línurnar séu ekki alveg á þann hátt sem þú vilt hafa. Allir sem nenna eitthvað að hugsa útfyrir eigin rann sjá full vel að lítil glóra er í að nýta mikið meira af orkulindum landsins í uppbyggingu álvera. Það er fátt sem bendir til að fleiri en eitt stórt álver og kanski einhverjar viðbætur við núverandi eigi eftir að gerast. Þetta er kapphlaupið um staðsetningu sem er í fullum gangi. Þetta óðagot með Helguvík er bara hluti af kapphlaupinu. Ef menn vilja bæta við einu enn þá er Húsavík besti kosturinn útfrá öllum forsendum.  Þar mun næsta nýja og vonandi seinasta álver Íslands rísa. Grænir fálkar svífa hins vegar yfir vötnum og mun fjölga hratt á næstu árum.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 21:45

2 identicon

Síðustu tvo daga hafa birst í mbl. mjög athyglisverðar greinar varðandi arðsemi okkar af þessari raforkusölu til álframleiðenda hér á landi. eftir Indriða Þorláksson .hagfræðing og fv. ríkisskattstjóra. Það sýnist alveg ljóst að við Íslendingar þurfum að kafa rækilega ofan í þessi orkusölu mál í heild sinni. Hægja á okkur í svona 5 ár og ná heildaryfirsýn varðandi náttúruna ,verndarsvæða og gegnumlýsa allan grundvöll fyrir því orkuverði sem nú er byggt á. Það virðist sem að vi séu hreinlega að gefa frá okkur þessar náttúru auðlindir..til erlendra aðila.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 23:02

3 identicon

Það er bara eitt sem hægt er að gera.. og það er að koma þessari valdaklíku Sjálfstæðis og Framsókn frá völdum, þar sem græðgin, skammsýnin og forræðishyggja þessara tveggja flokka hefur algjörlega náð yfirhöndinni í þeirra búðum, því miður.  Hinir hógværu stuðningsmenn þeirra sitja á hliðarlínunni og koma ekki við neinu tauti..

Það bara verður að koma Sjálfstæði og Framsókn frá!  Það er orðið grafalvarlegt hvernig þessir menn eru farnir að haga sér.

Björg F (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 00:05

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Björg F. Nei.

Það er bara ein ástæða fyrir því að menn eru að "kaupa" Norðurál til Helguvíkur. Norðurál ætti að öllu eðlilegu jú einfaldlega að leiða þessa orku í Hvalfjörðinn og byggja einn skála í viðbót og nýta þá aðstöðu sem þeir hafa þegar komið sér upp.

Nei. Ástæðan er einföld. Ef Helguvíkurhöfn fær ekki meiri tekjur, fer hún á hausinn, sem yrði kannski til að spilaborg Árna Sigfússonar, stjórnanda skuldugasta sveitarfélags landsins, hryndi. Það vill Árni Sigfússon eðlilega ekki og beitir HS til að afla höfninni tekna. HS ætti að geta fengið betra verð fyrir orku í Norðurál í Hvalfirði, þar sem byggingarkostnaður ætti allur að vera minni og samningsstaðan því þeim betri. Hafnfirðingarnir vilja ekki taka þátt í því. Þetta er því ekki flokkspólitískt mál, heldur hreppapólitískt.

Gestur Guðjónsson, 24.4.2007 kl. 00:15

5 identicon

Ríkisstjórnin er að hvetja til þess arna.. þú ættir nú að vita það.. '"Áfram ekkert stopp, hoppum bara fram af".. kemur nú frá þínum..

Björg F (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 00:28

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ríkisstjórnin hefur ekkert komið að þessu máli. Þetta er eingöngu sveitarstjórnarmál hjá Suðurnesjamönnum. Það eina sem ríkið, fyrir utan Landsvirkjun, er að koma að af þeim verkefnum sem eru í farvatninu er Húsavíkurverkefnið.

Gestur Guðjónsson, 24.4.2007 kl. 00:38

7 identicon

Já Gestur.. Ríkisstjórnin er alveg valdalaus.. er ekki að hvetja til neins stóriðjubrambolts og þegar foringinn þinn er að tala í fínu auglýsingunni.. þá er hann jú að meina sundið.. áfram að synda og ekkert stopp.. ætli húðin á honum sé ekki orðin eins og á rúsínu..? Góða nótt Gestur minn mæti..

Björg F (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 00:44

8 identicon

Eftir því sem ég best veit þá er aðdragandinn að þessu máli búinn að taka e-ð á þriðja ár.  Fyrir ári var undanfari þessa samnings undirritaður, þ.e.a.s. viljayfirlýsinginn, þannig að ég get ekki séð annað en nægur tími hafi verið í umræður um þetta mál.   

Sammála þér Gestur; efnahagslega séð er þetta bráðnauðsynlegt fyrir Reykjanesbæ.

Bjarni M. (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 02:00

9 identicon

Landinn hefur þurft að taka sér ýmislegt fyrir hendur til að komast af og maður hlýtur að dást að harðfylgninni og útsjónarseminni sem þurft hefur til. Sumir halda því fram að Ísland hafi verið skógi vaxið í den en það hafi allt farið í brennivið handa köldum heimilum. Einhverjir töluðu líka um að nokkur handrit hefðu farið í ofnana og þrátt fyrir að þetta teljist heldur súrt þá hlýtur maður að skilja að þessu fólki var kalt og að um raunverulega neyð var að ræða. Það er samt óneitanlega þó nokkur eftirsjá af þessum "lífsgæðum" og ég tel víst að það megi finna fólk í öllum flokkum sem geta tekið undir það. 

 Í dag má líka skynja neyðina hjá sveitarstjórnar og stjórnmálamönnum kárahnjúka og núna í Helguvík sem þurfa svo bráðnauðsynlega að komast á þing eða bara að bjarga andlitinu upp úr skuldasúpunni eða öðru sjálfskaparvíti. 

Ég finn samt einhvernveginn  ekki til sömu samúðar með þeim.

Kormakur Hermannsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 07:37

10 identicon

"Áfram ekkert stopp, hoppum bara fram af", .. frábær hugmynd Björg, (eða ættum við kansi að nefna þetta smávægilegan útúrsnúning ), ég vil þó fá að endurbæta þetta aðeins, Áfram skopp ekkert stopp, hoppum fram til hærri vaxta!

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband