27.4.2007 | 10:08
Er Jesú í þjóðkirkjunni?
Prestaþing hefur nú fellt tillögu um að heimila hjónavígslu samkynhneigðra. Þarna hefur æðsta samkoma Þjóðkirkjunnar kveðið upp sinn dóm. Hjónabandið er of heilagt til að það sé hægt að "kasta því á haugana" með því að veita samkynhneigðum sama rétt og öðrum, svo vitnað sé í þekkt ummæli biskups. Hér talar þjóðkirkjan frá sinni æðstu samkomu og þetta er hennar réttlæti, hennar kærleikur.
Hér opinberast arfur og eðli þjóðkirkjunnar sem frá því á myrkum miðöldum hefur talið sig þess umkomna að drottna yfir sálum mannanna eins og harður lénsherra í umboði afar fjarstadds konungs. Blessar og bannfærir á víxl og notar þröngan skilning bókstafsins til að rökstyðja íhaldssamar og ranglátar skoðanir sínar í stað þess að praktísera boðskap krists og taka undir með samfélaginu sem í þessum efnum er þjóðkirkjunni langtum fremra í umburðarlyndi og kærleika.
Í fyrra voru samþykkt á Alþingi lög sem bættu verulega fjölskyldurétt samkynhneigðra. Samfylkingin vildi ganga lengra og heimila safnaðarprestum og trúfélögum að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Það þótti of langt gengið og vegna mikils þrýstings frá Biskupi Íslands og afturhaldsöflum þjóðkirkjunnar náði sú tillaga ekki fram að ganga.
Þjóðkirkjan er vegna aðstöðu sinnar í kerfinu nánast sjálfvirkur áskrifandi að hverjum nýfæddum Íslendingi og nýtur gríðarlegra fjárhagslegra yfirburða umfram önnur trúfélög. Þá er staða þjóðkirkjunnar gagnvart skólakerfinu verulega umdeilanleg. Þessa stöðu hefur þjóðkirkjan ævinlega réttlætt með því að hún væri svo samofin þjóðinni að það tvennt væri í raun eitt - þjóðin og þjóðkirkjan.
Ætti það ekki að vera henni umhugsunarefni að í þessu sjálfsagða mannréttindamáli á hún meiri samleið með Gunnari í Krossinum en með meirihluta þjóðarinnar?
Fyrir fáum árum þótti afturhalds- og bókstafstrúaröflunum fráleitt að konur væru prestar en nú þykir það sjálfsagt. Vonandi styttist í að það sama gerist í þessu máli. Því þó þjóðkirkjan sem stofnun sé blint afturhald er innan hennar margt kærleiksríkt, trúað og víðsýnt fólk sem eflist með hverju árinu.
Samkvæmt mínum takmarkaða kristilega skilningi þá finnst mér jafn líklegt að Jesú sé í því fólki og mér finnst ólíklegt að hann sé í þjóðkirkjunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/prestastefna-thad-sem-enginn-sa/
Grétar (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 10:34
Þar kom að því!
Dofri Hermannsson, 27.4.2007 kl. 10:35
Það má einnig spyrja hvort Jesú sé í Kaþólsku kirkjunni? Ég er að vísu að tala hér um lóðabrask þeirra í Hafnarfirði. Eru í fjárhagsvanda og vilja selja hluta fagurrar lóðar sinnar til byggingarverktaka. Þegar ég las litla frétt um þetta fékk ég skyndilegt flash back í biblísusögutíma sem fjallaði um það þegar Jesús gekk berserksgang í musterinu og sagði það vettvang græðgi og kaupmennsku.
Sigríður (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 10:56
Ég fór inn á þessa slóð sem Grétar sendi og talar um mikilvægt skref sem var tekið. Mín skoðun er að þetta skref segi akkúrat ekki neitt.
Sammála ykkur Dharma og Dofri. Víst ansi mikið að gera hjá Hagstofunni. Óðum fækkar í Þjóðkirkjunni. Hlýtur að koma að aðskilnaði ríkis og kirkju. Vonandi sem fyrst.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.4.2007 kl. 11:05
".........í stað þess að praktísera boðskap krists og taka undir með samfélaginu sem í þessum efnum......."
Þegar þú lest þessa setningu úr bloggi þínu frændi, finnst þér þá ekki fylgja henni hræsni? Hvernig getur þú verið svo viss um það að þú vitir betur hvað kristur boðaði heldur en þeir sem voru á prestaráðstefnunni?
Þetta mál finnst mér allt saman vera fáránlegt bull. Kirkja á ekki að fara eftir almenningsálitinu, hún á að reyna að hafa áhrif á almenningsálitið. Það að þjóðkirkjan vilji ekki gifta samkynhneigða kemur umburðarlyndi ekkert við. Ég veit ekki betur en að kirkjan sé sátt við samvistir samkynhneigða. Þar af leiðandi er þetta ofstopi í þér frændi að setja þetta svona upp og þú gerir mönnum upp skoðanir sem standast engan veginn. Samkvæmt minni trú boðaði kristur gegn slíkri hegðun eins og þú viðhefur í þessu bloggi.
Hins vegar, eins og þú frændi og fleiri, þá get ég ekkert séð að því þó samkynhneigðir fái að gifta sig eins og gagnkynhneigðir og fylgi ég ekki þjóðkirkjunni að málum. Ég tók þá afstöðu fyrir rúmum áratug að segja mig úr henni og ég er ekki á leiðina í hana aftur. Þjóðkirkjan hefur þó lagt fram rök með sínu máli og get ég ekki sagt þeim hvað þau eiga að lesa út úr Biblíunni og hvað ekki, það getur þú ekki heldur frændi.
Ágúst Dalkvist, 27.4.2007 kl. 11:28
Dharma er ekki LOST eins og leit út fyrir að vera. Heldur virðist hann feta grýttan slóða sanleiksleitarinnar í stað þess að láta stjórnast kreddum og aftuhaldsemi. Nokkuð sem harðkjarna hópur innan kirkjunar ætti að íhuga. Okkur er kennt að Guð og Jesú elski alla, dýrin , blómin og jörðina. En svo, þegar til kastanna kemur, þá er ekki rými fyrir jafnrétti til handa öllum. Sr. Geir Waage svaraði því til í Kastljósþætti Sjónvarpsins að "Hér ræðir ekkert um jafnrétti, heldur snýst þetta um skikkan Skaparans, það fyrirkomulag sem Guð hefur sett sköpun sinni og skipað fyrir".
Ég spyr hvort ráði hér meira, jartalag og hugur nokkurra manna eða sú barnatrú sem okkur var kennt og okkur sagt að mundi styðja okkur og svara þeim spurningum, sem við hefðum, á öllum stundum okkar lífs.
Ef að ég mætti velja, þá veldi ég barnatrúna fram yfir þjóðtrúna.
Þórður Runólfsson, 27.4.2007 kl. 16:41
Ég ætla að taka undir með þessum "sammálakór". Auðvitað eiga samkynhneigðir að fá að ganga í hjónaband eins og aðrir. Varðandi ályktunartillöguna á prestastefnunni þá finnst mér að Þjóðkirkjan, líkt og önnur trúfélög, megi hafa sína skoðun á þessu máli. En sú skoðun á að lúta að því hvort Þjóðkirkjan muni vígja samkynhneigða í hjónaband. Á því hef ég ekki skoðun enda ekki í Þjóðkirkjunni og ekki þess umkominn að hafa skoðun á trúarbrögðum sem ég aðhyllist ekki.
Andstæðingar lagasetningar sem heimilar trúfélögum að vígja samkynhneigð pör í hjónaband ættu að hafa það hugfast að um heimild er að ræða, ekki skyldu. Trúfélög mundu eftir sem áður ráða sínum málum sjálf og fara með þau í samræmi við sannfæringu sína. Lagaheimild breytir þar engu um. En þeir sem eru á móti lagaheimildinni eru í raun að krefjast þess að þeirra eigin sannfæringu sé þvingað upp á önnur trúfélög. Það tel ég ekki við hæfi.
Það vakti athygli mína að séra Geir Waage blandaði möguleikanum á barneignum inn í umræðuna. Hann sagði að samkynhneigð pör gætu ekki eignast barn saman og hjónaband slíkra aðila væri því andstætt "skikkan skaparans". Samkvæmt þessari röksemdafærslu ættu gagnkynhneigð pör, sem ekki gætu getið barn, ekki heldur að fá að ganga í hjónaband. Ef möguleiki til barneigna er þetta grundvallaratriði þá ætti auðvitað að gera það að almennu hjónavígsluskilyrði fyrir alla, ekki bara samkynhneigða. Og hvað segðu menn þá.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 18:02
Já Hreiðar, Þú nefndir það sem maður hugsaði. Auðvitað eiga kirkjunarmenn að vera sjálfum sér samkvæmir. En þetta sýnir bara að hér ráða fordómar enn ekki skikkan skaparans.
Þórður Runólfsson, 27.4.2007 kl. 18:45
Smá stund milli stríða ...og mér virðist sem okkar barnatrú okkar sé aflið sem ræður... er það ekki bara harla gott.
Það er umhugsunarefni að velta því fyrir sér , að við frjógvun í móðurkviði er á broti úr sek. öll okkar framtíð ráðin og við sjálf höfum ekkert með það að gera , aðeins að taka því sem okkur er gefið á þessum tímapunkti lífs okkar.
Á þessum grunni tek ég undir það sem hér að framan hefur verið lagt okkar "þjóð" kirkju til hnjóðs.... Svona gerum við ekki.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 19:11
Komið sæl! Ég vildi benda á að prestastefna er ekki æðsta stofnun íslensku þjóðkirkjunnar. Hún er að mestu valdalaus. Hún hefur tillögu og umsagnarrétt yfir mál sem varða kenningu kirkjunnar en sem annars heyra undir biskup og kirkjuþing. Einungis prestar hafa atkvæðisrétt á prestastefnu þannig að frekar er um fagfund að ræða en að um opinbera ákvarðanatöku sé að ræða. Völd kirkjunnar birtast í gerðum kirkjuþings en það fer fram í haust og þá verður málið tekið fyrir að nýju, þar deila prestar sætum með djáknum og leikmönnum. Leikmenn hafa meirihluta sæta á kirkjuþingi. Ákvarðanir prestastefnu eru ekki bindandi og þeir sem sitja hana hafa ekki meiri hluta völd þegar kemur að ákvörðunum í kirkjunni! Vildi bara koma þessu á framfæri. kveðja, Sunna Dóra
Sunna Dóra Möller, 27.4.2007 kl. 22:33
Sæll Dofri! Ég styð hjónavígslu samkynhneigðra og var með í 43 manna hópi sem lagði fram tillögu um slíkt á prestastefnu. Sú tillaga var felld með miklum meirihluta og ég vissi það svo sem fyrir, en taldi það mikilvægt að okkar rödd heyrðist. En það er svolitið merkilegt að lesa bloggið hjá þér og öðrum um þessi mál, af því að skoðanir eru skiptar. Ég sé að það er ekki bara á prestastefnu. Þjóðkirkjan eru ekki þeir 150 prestar sem þjóna á landinu öllu, heldur rúmlega 80% þjóðarinnar, í þeim hópi koma virðast vera mjög skiptar skoðanir líka. Þess vegna er þetta svo erfitt. Ef öll þjóðin væri sammála í réttindabaráttu samkynhneigðra, þá væri bara hægt að setja þessa 150 í gíslingu. Það er bara fullt af fólki á sömu skoðun og Geir Wage, þjóðkirkjufólk til sjós og lands. Fólk sem er ekki skilgreint sem ofsatrúarfólk. Það þarf að ræða þetta við þjóðina alla. Við þurfu að standa mannréttindavaktina gagnvart samfélaginu öllu, við gerum það helst með því að setja okkur í spor annarra. Það gerist með samtali, þar sem við hlustum líka. Ég er búin að vera svo oft reið og særð í þessu máli, en ég finn að það skilar mér engu. Það sem kemur mér mest á óvart hvað samkynhneigðir eru oft sterkir og skynsamir í þessu öllu. Þeirra æðruleysi hefur kennt mér mest. Ég ætla að halda áfram að berjast fyrir þessu málefni og biðja Guð að taka frá mér reiðina. Hún hefur oft truflað mig. í mínum söfnuði þar sem 86.7% tilheyra þjóðkirkjunni eru menn ekki með eina skoðun í þessu máli og ég verð að muna það. Núna ætla ég að reyna að gera allt til að rifja upp samtöl mín við samkynhneigt fólk þar sem ég hef fengið mikla kennslu í umburðarlyndi, kærleika og þakklæti. Ég veit ekki hversu góður nemandi ég er, en sem betur fer hef ég fulla heyrn, hvað svo sem gerist í kollinum á mér. Ég hef starfað innan þjóðkirkjuna svo lengi sem ég man eftir mér og ég elska hana af öllu hjarta. Og vil starfa þar eins lengi og ég get, af hverju? Af því að þjóðkirkjan er fólkið í landinu. Það er svo gaman að vinna með fólki, það þekkir þú. Skapa félagsauð og vinna að framförum. Það er t.d. verkefni presta og stjórnmálamanna. Jesús er svo sannarlega í Þjóðkirkjunni af því að þar er fólk. Manneskjur af holdi og blóði með ólíkar skoðanir, en svo óendanlega dýrmætar. Jesús stendur stöðugt mannréttindavaktina og við verðum að gera það líka. Kær kveðja Jóna Hrönn
Jóna Hrönn Bolladóttir (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 00:32
Finnst að þetta geti aldrei orðið flokkspólitískt mál. Hjónin Steinunn Jóhannesdóttir og Einar Karl Haraldsson hafa skrifað skynsamlegar greinar til að verja stofnunina "hjónaband" sem vísar til samruna karls og konu, þessa andstæðu póla sköpunarverksins. Þau eru nú ekki í Krossinum eða Svartklerkum, bara vandað og gott Samfylkingarfólk. Tel að samkynhneigð pör tali ekki um sig sem "hjón" og því sé allt í lagi að vísa til blessunar á hjúskap þeirra, sem að er sjálfsögð, með öðru hugtaki. Ekkert ómerkilegra hugtaki.
Gunnlaugur B Ólafsson, 28.4.2007 kl. 01:04
Já, Jesús er nálægur í Þjóðkirkjunni, en hann er ekki í henni. Og hvað með það?
Kristnir prestar verða á hverjum sunnudegi að boða orð Guðs, flytja frásagnir af orðum Jesú og verkum, það er engin undankomuleið frá því, ekki frekar en heimspekiskorin uppi í háskóla reynir að miðla kennslutextum Platóns og annarra heimspekinga til nemendanna.
Tónninn í skrifi Dofra er hræðilega afturhaldssamur, minnir helzt á herskáa andtrúarmenn í fylkingum sósíalista á fyrri hluta 20. aldar og er síður en svo hjálplegur í þessum málum. Stöku Samfylkingarmenn og fleiri eiga slíkar uppákomur til líka, en hér er afar langt gengið, og nenni ég ekki í bili að fara í saumana á þessari árásargrein Dofra.
Ein var að tala hér ofar um "lóðabrask" kaþólsku kirkjunnar í Hafnarfirði -- það voru afar ómakleg orð. Kirkjan á að fá að njóta eigna sinna eins og aðrir, og nú er henni fjár vant og vill selja lóðir af því litla, sem hún á eftir af landi sínu fyrir framan Karmelklaustrið, því að nú er hún í yfir 100 milljón króna skuld ... og vegna hvers? -- jú, samfélagslegra krafna, sem gerðar höfðu verið á hendur henni um að láta endurbyggja gamla prestahúsið á Landakotshæð, það sem stendur næst Túngötu, og var feikidýrt verk að kröfu Húsafriðunarnefndar, og skuldin safnar nýjum vaxtaskuldum á ári hverju. Sveitarstjórnarminnihlutinn í Hafnarfirði ætti ekki að kvarta eftir allt það, sem kirkjan hefur gert gott fyrir þann bæ, með klaustrinu og St Jósefsspítala þar (og nú er þar líka St Jósefskirkja). Þeir ættu frekar að minnast þess, að bæjarstjórnin lét taka eignarnámi megnið af Jófríðarstaðalandi, sem kaþólska kirkjan átti, og er þar nú mikil byggð, en kirkjan fekk smánarlega lágar bætur fyrir.
Jón Valur Jensson, 28.4.2007 kl. 06:00
Ef Jesús Kristur er ekki í þjóðkirkjunni, (sem hann greinilega er ekki) því skyldu hinir almennu borgarar Íslands vera það?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.4.2007 kl. 10:39
Ef hann getur og vill vera nálægur þar, af hverju skyldi fólk þá ekki halda áfram að vera í henni?
Jón Valur Jensson, 29.4.2007 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.