Nokkur orð um uppboðsaðferð v.s. happdrættisaðferð við útdeilingu lóða

Það er staðreynd að það tekur nokkur misseri að undirbúa ný hverfi. Þegar 90% lánin komu á markað þá varð sprenging í húsnæðismarkaðnum og verðið fór langt upp fyrir byggingarkostnað. Þá fór að verða góður kostur að byggja sjálf(ur), eftirspurn eftir lóðum jókst mikið, skortur varð á lóðum og markaðsverð þeirra fór eðlilega töluvert upp.

Við þær aðstæður voru tvær leiðir færar við að deila út þeim takmörkuðu gæðum: A) að bjóða út lóðir eins og R-listinn hafði gert og B) draga upp úr hatti nöfn þeirra heppnu sem þá fengu lóðir á verði sem var langt undir raunverulegu markaðsvirði.

Í Kópavogi völdu menn reyndar að fara þriðju leiðina sem var að reisa það sem í dag eru kölluð "þekkingarþorp" með vísan í að þeir sem þekktu bæjarstjórann gengu þar fyrir með lóðir. Fræg var líka "Séð og heyrt" aðferðin sem beitt var við útdeilingu lúxuslóðanna við Elliðavatn.

Hefði R-listinn t.d. ákveðið að nota happdrættisaðferðina og selja t.d. 100 lóðir á 6 milljónir í staðinn fyrir 11 milljónir eins og raunvirðið var á markaði þá hefðu borgaryfirvöld með því verið að taka 500 milljónir - hálfan milljarð - úr vasa borgarbúa og stinga í vasa þeirra 100 heppnu. Með þessum peningum má gera ýmislegt, t.d. lækka leikskólagjöld og hækka laun leikskólakennara til að bæta þjónustuna osfrv.

Í Salahverfi í Kópavogi - einu af þekkingarþorpunum - var gerð könnun á því hve margir af "þeim heppnu" áttu enn happdrættisvinninginn 2 árum síðar. Í ljós kom að 80% þeirra höfðu leyst út hagnaðinn, stungið honum í vasann. Kannski ekki skrýtið að Gunnar Birgisson hafi átt erfitt með að hækka laun lægst launaða fólksins á leikskólunum á meðan Steinunn Valdís gat fullmannað leikskóla Reykjavíkurborgar.

Lóðauppboðsaðferðin er semsagt ekki leið til að klekkja á fólki með "Húsið á sléttunni drauma" heldur aðferð til að tryggja að þau verðmæti sem við skattgreiðendur eigum sameiginlega skili sér til okkar en ekki í vasa "hinna heppnu".

Gamli góði Villi treysti sér auðvitað aldrei til að mótmæla þessu en talaði þess í stað um að það yrðu ævinlega að vera nægar lóðir í boði til að verðið yrði ekki hærra en kostnaðarverð. Ef hann ætlar hins vegar að vera með svo mikið framboð af lóðum umfram eftirspurn að það rétt nái kostnaðarverði jafnvel þegar eftirspurnarsprengja verður á húsnæðismarkaði þá þýðir það mikið af hálfbyggðum hverfum.

Slík hverfi þekki ég vel, enda alinn upp í Grafarvoginum frá 1984 þar sem hverfið stóð hálftómt árum saman, hálfbyggðir skólar, engin þjónusta, engin leiksvæði, engin íþróttaaðstaða, opnir húsgrunnar, heilu hverfin einn moldarhaugur, strætó á klukkutíma fresti þegar hann loks kom o.s.frv. Það er ekki fýsilegur kostur og ég held að fáir myndu láta bjóða sér slíkt í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn fann í kosningunum síðasta vor að í þeim aðstæðum þegar húsnæðissprengja ríkisstjórnarinnar hafði hækkað húsnæðisverð langt umfram byggingarkostnað virkaði vel að gera út á hatur á uppboðsaðferðinni.

Það er háðulegt að gamli góði Villi skuli nú halda þeirri aðferð áfram fullum fetum við útdeilingu lóða fyrir fjölbýli en á laun við útdeilingu á lóðum fyrir sérbýli, með því að rukka sama verð fyrir þær og var meðalverð uppboðsleiðarinnar illræmdu og kalla það kostnaðarverð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Æ, Dharma.

Sorglegt var nú að sjá þig eltast við eigið skott við að reyna að sanna að 11 milljónir í fyrra sé svívirðilegt okur en 11 milljónir í dag kostnaðarverð. Verra er þó að sjá þig blása út af monti yfir þeim misskilningi að nafneysa þín veki lesendum þessarar síðu einhverja forvitni.

Þú ert bara einn af þeim sem skrifar óttalega vitleysu á bloggsíður og þorir ekki að gera það undir nafni. Það er ekkert merkilegt við það - það eru ótal slíkir fyrir utan þig. Í rauninni skerðu þig ekki úr á neinn hátt, hvorki sá snjallasti né sá vitlausasti og hvorki sá prúðasti eða sá dónalegasti.

Ef það er eitthvað sem gerir þig sérstakan í þessu tilliti þá er það sú staðreynd að þú ert eini nafnlausi (huglausi?) bloggarinn sem er af rifna af drýldni yfir því að fólk veit ekki hvað þú heitir.

Jú og pistlarnir þínir eru tómar málalengingar. Rýrir að innihaldi og oft þetta á milli 45-60 cm - sem ég by the way veit af því svo vill til að tölvuskjárinn hjá mér er ca 20 cm og þegar maður skrollar niður langlokurnar tekur það yfirleitt um 3 skjái (page dn - takkinn) að finna næstu færslu.

Góðar drýldnistundir.

Dofri Hermannsson, 29.4.2007 kl. 23:49

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Eins og þú lísir Grafavogi, þá er það sama að ské núna í Keflavík.

Tómas Þóroddsson, 29.4.2007 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband