1.5.2007 | 22:01
Annar góður dagur hjá Sjálfstæðismönnum!
Sjálfstæðismenn eru að brillera í kosningabaráttunni!
Ásta Möller fór mikinn í fyrradag og tíundaði ótta sinn við það að forseti Íslands misnoti vald sitt til afskipta af stjórnarmyndun eftir kosningar. Þetta taldi hún alvarlega ógn við lýðræðið. Í morgun var hún spurð nánar út í málið af fjölmiðlum en þá vildi hún ekki tjá sig um málið. Svo rákust fjölmiðlar á hana fyrir utan Árbæjarlaugina og þá tjáði hún fréttamanni að hún hefði vissulega af þessu talsverðar áhyggjur eins og fram hefði komið í bloggi hennar.
Eitthvað hefur hún nú farið að hugsa málið og hvernig yrði lagt út af þessum orðum hennar, hringt í forystuna sem auðvitað hefur fölnað (enda sjálfstæðismenn nógu óvinsælir fyrir sífelld ónot í garð forsetans). Þeirra niðurstaða hefur greinilega verið að til að lágmarka skaðann væri best að Ásta færi í viðtal og gerði líitð úr áhyggjum sínum.
Ásta hringdi því í fréttamanninn sem hún hafði forðast allan daginn og sagði í viðtalinu að líklega hefði hún oftúlkað þá hættu sem stafaði af forseta Íslands. Þess vegna væri niðurstaða hennar breytt eftir að hafa rætt málin við fleiri af sínum samherjum. Það væri óþarfi að hafa áhyggjur af þessu.
Svipurinn á Ástu Möller og svar hennar við spurningunni um það af hverju hún hefði þá verið að hafa þessar áhyggjur, ef þær væru alveg ástæðulausar, eru eitthvert vandræðalegasta augnablik í sjónvarpi sem ég hef séð lengi. Líklega þarf að leita aftur til Árna Johnsen flokkfélaga Ástu til að finna eitthvað viðlíka.
Árni Mathiesen félagi Árna Johnsen og Ástu Möller átti líka gríðarlega góðan dag í dag. Hann geislaði af sjálfsöryggi í stjórnmálaþættinum á RÚV. Hann sagði þáttastjórnandann fara með fleipur þegar hann sagði að skattleysismörk hefðu ekki haldið í við launaþróun, forsendur hans væru rangar sem væri mjög alvarlegt mál. Sem sagt alvarleg ásökun á þáttastjórnanda!
Ágúst Ólafur, varaformaður Samfylkingarinnar, benti honum í mesta bróðerni á hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar sem fengið hefðu falleinkunn hjá öllum helstu greiningardeildum innlendum sem erlendum og einnig hjá Seðlabanka Íslands. Árni vísaði allri slíkri gagnrýni á bug og afgreiddi með þeim orðum að allir væru með rangar tölur og rangar forsendur nema hann.
Minnti á brandarann um gömlu hjónin sem voru úti að keyra, karlinn einbeittur við aksturinn og konan að hlusta á útvarpið: Passaðu þig Jói minn þeir voru að segja í útvarpinu að það væri einhver brjálæðingur að keyra eftir Miklubrautinni - á röngum vegarhelmingi. Jói svarar sveittur af einbeitingu við aksturinn: Það er rétt Magga mín, en hann er ekki einn - þeir eru miklu, miklu fleiri!
Síðasta snilld dagsins hjá Sjöllunum er þó ekki brandari heldur hótun. Fjármálaráðuneytið (hinn sjálfsöruggi Árni Mathiesen) skýtur föstum skotum að formanni Geðlæknafélags Íslands sem telur að ekkert sé að gerast í málefnum geðfatlaðra, miklum fjármunum sé varið í skýrslugerð á meðan milljarðarnir 1,5 sem eyrnamerktir eru verkefni í þágu geðfatlaðra lækki að verðgildi vegna verðbólgu.
Ríkisstjórnin segir þetta auðvitað kolrangt (sér einhver mynstur?) og orðsending hennar (félagsmálaráðuneytis) til Geðlæknafélags Íslands er að "rangar upplýsingar af þessu tagi séu ekki til þess fallnar að greiða götu átaks í þágu geðfatlaðra."
Sem sagt, þú ert bara lygari og ef þú hefur þig ekki hægan þá hættum við við að byggja upp fyrir geðfatlaða!
Smekklegt!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2007 kl. 10:06 | Facebook
Athugasemdir
En Dofri, hvar hafið þið birt útreikninga þess efnis að kosningavíxill stjórnarflokkanna sé 400 milljarðar eins og Ágúst Ólafur fullyrti í kvöld?
Gestur Guðjónsson, 1.5.2007 kl. 22:37
Þetta var ekki dagur sjallana í dag, það verð ég að taka undir. Kosningavíxillinn er stærri en 400 milljarðar, en hann skiptir engu máli, verður rifinn daginn eftir kosningar án samþykktar og með enga ábekinga.
Haukur Nikulásson, 1.5.2007 kl. 22:58
Já þetta er hálf ósanngjarnt hjá stjórnarandstæðingum að vera að reikna saman verðið á kosningavíxli Sjálfstæðisflokksins. Það vita allir að þau kosta ekki krónu, kosningaloforðin sem aldrei á að efna.
Ingólfur, 1.5.2007 kl. 23:05
Athugasemdir ýmissa sjálfstæðismanna þessa dagana eru flottar ! Þær færa okkur Samfylkingarfólki fullt af atkvæðum, einfaldlega vegna þess að fólki líkar ekki skítkast - í stað málefnalegrar umræðu. Taktu þetta til þín Gísli.
Anna Einarsdóttir, 2.5.2007 kl. 00:29
Já þarna er hann Gísli kominn aftur sé ég, nýstoltur faðir og greinilega tvíelfdur
Að öðru.. það var hrein snild hvernig Ágúst Ólafur hraunaði yfir fjármálaráðherrann í Kastljósaþátt kvöldsins enda með sterka málefnastöðu. Þetta var bara of auðvelt fyrir hann. Það var og er alveg ótrúlegt hvernig Árni M þykist ekki sjá hlutina. Ég held reyndar Dofri að hann sjái það alveg, en hvernig á Árni M. að viðurkenna hagstjórnamistökin sem ríkisstjórn hans hefur gert og viðurkenna þá í leiðinni sína eigin vanhæfni? Það eru ansi fáir sem geta það og þá sérstaklega ekki íhaldið.
Björg F (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 00:29
Gísli, málefnastaðan byrjar hjá þeim sem gefa loforð í aðdraganda kosninga sem eiga sér ekki stoð í neinum lögum. Það er einfalt að það er ekki hægt að lofa neinu fyrr en Alþingi hefur samþykkt fjárlög yfirstandandi árs sem kosningavíxlar fá eitthvert lagagildi. Allt fram að því eru hlutirnir ábyrgðarlaust orðagjálfur.
Svo þegar þú dettur í þessa málefnalegu umræðu um Karíus og Baktus þá hættir maður að fylgja þér eftir.
Haukur Nikulásson, 2.5.2007 kl. 06:08
Af fréttum að dæma þá verða þeir fáir vegaspottarnir sem ekki verða malbikaðir á næstu misserum, búið að gera allan hringveginn 2 + 2, fá fjöll sem ekki verður búið að bora í gegnum. Búið að laga vanefndalistana og eyða biðlistum gamla fólksins og bæta kjör öryrkja og svo bíðið þið við augnalok ekki hætta að lesa = það á að lækka skatta líka. Eru einhverjir undrandi á því að það séu margir sem skipta yfir á fótboltarásirnar í stað þess að hlusta á stjórnmálamennina mæta í spjallþættina?
En að upphafi þessa bloggs Dofri, að forseti Íslenska lýðveldisins bíði í launsátri eftir að geta ráðist að Sjálfstæðisflokknum. Málflutningur af því tagi er ekki boðlegur.
Guðmundur Gunnarsson, 2.5.2007 kl. 06:45
Oft hefur maður nú séð ómálefnalegan málflutning, skrök og skæting frá Dharma áður en sjaldan hefur orðræðan borið vitni um jafn mikla skelfingu og nú.
Myndin sem kemur upp í hugan er af andstuttum reiðum manni sem lætur dæluna ganga og heldur að hann sé aldeilis að láta hina hafa það.
Ef Dharma er hræðslumælir sjálfstæðismanna þá sýnist mér staðan hjá þeim ekki vera góð!
Dofri Hermannsson, 2.5.2007 kl. 09:24
Dharma þarf ekki að bera svona skrök á borð fyrir fólk sem er eldra en tvævetur.
Þegar Ingibjörg Sólrún tók við í borginni ´94 var útilokað fyrir hjón að fá dagvist heilan dag fyrir börn yngri en fjögurra ára. Þessu gjörbreytti hún á nokkrum árum þannig að börn allra foreldra allt niður í 18 mánaða gátu fengið leikskólapláss. Að fara með svona fleipur bendir til þess að Dharma sé annað hvort mjög illa upplýstur eða mjög örvæntingarfullur.
Honum til upplýsingar samdi Ingibjörg Sólrún líka við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra árið 2002 um byggingu 300 hjúkrunarrýma fyrir aldraða en Geir Hilmar Haarde sá að það gæti komið Birni Bjarnasyni og félögum illa sem þá voru í krossferð að endurheimta borgina "sína". Þess vegna sló hann á puttana á heilbrigðisráðherra og lét gamla fólkið bíða úti í kuldanum til að koma í veg fyrir að Ingibjörg Sólrún gæti efnt samninginn.
Þess má geta að borgin hafði lofað tvöföldu því framlagi sem henni var skylt til að orðið gæti af byggingu þessara hjúkrunarrýma og þeir peningar voru teknir frá á hverju ári síðan 2002 ef svo ólíklega vildi til að Geir væri til í að hætta að stela úr Framkvæmdasjóði aldraðra og setja í uppbyggingu fyrir aldraða eins og lög sjóðsins gera ráð fyrir.
Að lokum. Það er illa komið fyrir Dharma að þurfa að beita frjálshyggjuhernum á Vefþjóðviljanum fyrir sig - því fólki sem enginn í Sjálfstæðisflokknum vill kannast við í þessari kosningarbaráttu. Sigríður Andersen og Illugi Gunnarsson hafa reynt eins og þau geta að þvo af sér prentsvertu Vefþjóðviljans sem t.d. hefur haldið því fram statt og stöðugt að hitnun loftslags hafi ekkert með athafnir mannsins að gera.
Það er líka fokið í flest skjól þegar frjálshyggjuungarnir hans Hannesar Hólmstein eru farnir að tala á móti lóðauppboðum og vilja útdeilingu takmarkaðra gæða í anda gömlu ráðstjórnarríkjanna og Gunnars Birgissonar.
Dofri Hermannsson, 2.5.2007 kl. 11:16
1 meter og 43 sentimetrar af langlokuskriftum hjá Dharma, fyrirbrigði Sjallanna hér, bara enn sem komið er ,á þessari færslu hjá honum Dofra segir ansi mikið um andlegt ástand í herbúðum Sjallanna... Dofri kemur heldur betur við kaunin á Flokknum.
Dharma Sjallinn er orðið alveg ágætt "baromet" á gengi Sjálfstæðisflokks í þessum kosningaslag...því fleiri metrar og sentimetra af langlokuskrifum...því betra gengi hjá Samfylkingunni. Þar kom að því að eitthvert gagn mátti hafa af þessu fyrirbrigði Dharma (u) Ekkert get ég tjáð mig um innihald langlokuskrifanna því ég les þau ekki heldur slæ bara þá þau lengdarmáli til fróðleiks um framvindu mála
'Áfram með baráttuna Dofri
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 12:27
Ef fólk vill láta taka sig alvarlega og hafa áhrif ... þá eru nafnlaus skrif ekki góður kostur.
Þetta er nú hin miklu vandamál sem sumir eiga við að glíma og þeir hinir sömu geta einir bætt úr því
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 14:25
Grundvallarkrafan sem við lesendur þessa bloggs setjum á herðar þínar Dharma, er:
1. Að þú snúir ekki út úr öllu sem fólk segir, gerir þeim upp skoðanir og gargar þig síðan hásan yfir því afhverju fólk skuli ekki taka mark á þér.
2. Þú sýnir öllum sem lesa þetta blogg þá virðingu að skrifa ekki í sífellum langlokum sem fólk nennir ekki að lesa einfaldlega vegna þess að langlokurnar eru yfirleitt endurtekningar á því sem þú hefur áður sagt.
3. Þú sýnir öllum sem lesa þetta blogg þá einföldu virðingu að uppnefna það ekki þegar það er þér ósammála.
4. Þú sýnir þeim sem lesa þetta blogg þá virðingu að skrifa undir nafni eins og flest allir sem hér skrifa gera. Það er svakalega erfitt að taka menn alvarlega þegar þeir skrifa ekki undir nafni. Afhverju? Jú vegna þess að það er mjög líklegt að þeir sem ekki geta skrifað undir nafni séu ýmist að fela eitthvað, eða þá að þeir hafa ekk það mikið álit á skrifum sínum að þeir forðast að skrifa undir nafni. Afhverju ættum við að lesa þessi blogg þegar þú ert ekki einu sinni nógu mikill maður til að standa á bak við þessi skrif þín sjálfur.
Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 14:26
Hahahaha..... eru ALLIR hættir að lesa skrifin hjá Dharma / Dhörmu nema hann sjálfur ? Það er a.m.k. mjög skiljanlegt að maðurinn / konan þori ekki að setja nafnið sitt við þennan ósóma sem ég asnaðist til að lesa sýnishorn af á sínum tíma.
Anna Einarsdóttir, 2.5.2007 kl. 15:14
Ég er nú bara svo einföld að ég get ómögulega lesið svona afskaplega löng komment frá fólki... hvað þá fólki sem ég veit ekkert hver er.
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 2.5.2007 kl. 16:41
Ég hef boðið þeim sem kallar sig Dharma að senda mér prívat tölvupóst til að a.m.k. ég sem ritstjóri þessarar síðu viti nafn hans/hennar/þeirra. Dharma hefur ekki svarað því tilboði mínu. Það segir mér bara að viðkomandi treystir sér ekki til að standa við stóru orðin undir eigin nafni.
Það er að margra mati aumingjaskapur og sérstaklega þegar vegið er að persónum fólks úr slíku launsátri. Ég get ekki annað en tekið undir það sjónarmið.
Hins vegar í því fólgið nokkuð upplýsingagildi að hafa þetta fyrirbæri hér á blogginu því hann segir allt sem Sjálfstæðismenn flestir bara hugsa. Hann er eins konar barómeter á líðan Sjálfstæðismanna og af skrifum hans þessa síðustu daga er líðan þeirra ekki sem best.
Dharma - hagaðu þér nú eða ég neyðist til að henda þér út - aftur.
Dofri Hermannsson, 2.5.2007 kl. 16:42
Væruð þið snillingar til í að taka aftur til umræðu það sem verið var að ræða - hvað forsetinn kann að aðhafst sýnist honum svo ... - held að þetta hafi drukknað í einhverju mislyndu. Annars, alltaf gaman að sjá álit ykkar allra - þið eruð bara krúttleg inni á þessum vef.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 2.5.2007 kl. 17:36
Já, það er margt skrýtið í kýr/nauthausnum!
Edda Agnarsdóttir, 2.5.2007 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.