8.5.2007 | 08:55
Menntasókn Samfylkingarinnar
Samfylkingin kynnti í gær áform sín um fjárfestingu í menntun. Í því felast mikil tækifæri og líklega er vandfundið annað jafn gott fjárfestingartækifæri af hálfu hins opinbera nema ef væri að bæta samgöngur landsins, rannsaka náttúru landsins og eyða biðlistunum. Það munum við reyndar gera líka.
Allir geta lært - fjárfestum í menntun
- Samfylkingin mun ráðast í fjárfestingarátak á öllum skólastigum með það að markmiði að árangur íslenska skólakerfisins standist samjöfnuð við það besta sem gerist.
- Menntun er ein arðbærasta fjárfesting einstaklinga og samfélaga. Rannsóknir OECD sýna að aukning menntunarstigs um eitt ár að meðaltali hækkar varanlega landsframleiðslu á íbúa um þrjú til sex prósent. [1]
- Ef tækist að fjölga í hópi þeirra í hverjum árgangi sem ljúka námi á framhaldsskólastigi upp í 80%, þýðir það eitt og sér hækkun menntunarstigs um hátt í heilt prósentustig.
- Ef hlutfall þeirra sem ljúka háskólaprófi ykist úr 30% í 40% myndi menntunarstigið aukast um a.m.k. 0,3 prósentustig.
- Á tveimur kjörtímabilum mætti auka landsframleiðsluna um eitt prósent, eða um það bil jafn mikið og áætlað er að álver Alcoa og Kárahnjúkavirkjun muni leggja til landsframleiðslunnar.
- Samkvæmt því mætti auka tekjur íslenska þjóðarbúsins um 40 milljarða króna á ári með því að auka menntunarstig þjóðarinnar um eitt ár á mann að meðaltali.
- Samfylkingin stefnir að því að koma Íslandi í fremstu röð í fjárfestingum í menntun sérstaklega með tilliti til þess að þjóðin er yngst norrænna þjóða og menntunarstig er hér lægra en annarstaðar.
- Samfylkingin ætlar að tryggja gjaldfrjálsa menntun frá leikskóla til háskóla til að skapa öllum jöfn tækifæri og vinna gegn vaxandi stéttskiptingu í þjóðfélaginu.
[1] OECD 2006. Education at a Glance: OECD Inicators 2006, bls. 152.
Menntasókn Samfylkingarinnar miðar að eftirtöldu:
- Aukin fjárfesting í menntun. Samfylkingin leggur áherslu á fjárfestingarátak í menntun á öllum skólastigum. Sérstök áhersla verður lögð á innihald skólastarfs, aukið val nemenda, bætta stöðu og menntun kennara og annars starfsfólks skóla og aukið faglegt sjálfstæði skóla til að móta námskrár og árangur í skólastarfi.
- Minnkum brottfall. Við ætlum að efla list og verknám og fjölga styttri námsleiðum. Verknám og bóknám verði jafngilt. Markmiðið er að hver nemandi finni menntaleið við sitt hæfi og áhugasvið. 25-30% hvers árgangs lýkur ekki námi úr framhaldsskóla. Brottfalli úr skólakerfinu fylgir dýrkeypt sóun á hæfileikum og framtíðarmöguleikum einstaklinga og fjármunum þjóðarbúsins. Með þessum aðgerðum og aukinni náms- og starfsráðgjöf ætlar Samfylkingin hækka hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskóla.
- Nýr og betri Lánasjóður
Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir lykilhlutverki í því að tryggja jafnrétti til náms og hækka menntunarstig þjóðarinnar. Til að bæta enn frekar aðgengi að menntun og bæta aðstæður ungs fólks í samfélaginu ætlum við að setja ný lög um Lánasjóðinn. - 30% námslána breytist í styrk að námi loknu.
- Mánaðarlegar greiðslur námslána í stað eftirágreiðslna.
- Afnám ábyrgðarmannakerfis.
- Námslán verði veitt nemendum í hlutanámi.
- Námslán dugi fyrir framfærslu.
- Skólagjöld í erlendum háskólum verði lánshæf.
- Sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að auðvelda fólki sem ekki lauk framhaldsmenntun nýtt tækifæri til náms.
- Ókeypis námsbækur í framhaldsskólum. Við ætlum að auðvelda ungu fólki framhaldsskólanám með ýmsum hætti. T.d. að skólabækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu.
- Samræmd próf. Við ætlum að auka fjölbreytnina í grunnskólanum og mæta með nýjum hætti aðstæðum barna sem eiga við námserfiðleika að stríða. Við ætlum að hætta samræmdum prófum í núverandi mynd en leggja aukna áherslu á reglulegt fjölbreytt námsmat til að stuðla að framförum nemenda.
- Aðgerðir gegn leshömlun og öðrum námsörðugleikum. Við ætlum að stórbæta greiningu og meðferð vegna leshömlunar í skólum en talið er að á bilinu 10-20% barna eigi við leshömlun (dyslexíu og dyscalculu) í einhverri mynd að stríða. Námserfiðleikar þeirra og barna sem eru ofvirk eða með önnur þroskafrávik, eru ávísun á erfiðleika í framhaldsskóla síða. Þessum hópi þarf að sinna sérstaklega og tryggja að þau fái stuðning í skólakerfinu og allt gert til að gera þeim kleift að ljúka grunn- og framhaldsmenntun.
- Gjaldfrjáls menntun. Við ætlum að tryggja gjaldfrjálsa menntun frá leikskóla til háskóla til að skapa öllum jöfn tækifæri og vinna gegn vaxandi stéttskiptingu í þjóðfélaginu. Stéttlaus grunnskóli er eitt mesta verðmæti þjóðarinnar. Til þess þarf að styrkja tekjustofna sveitarfélaga umtalsvert til að þau geti boðið upp á ókeypis máltíðir í skólum, gjaldfrjálsa tómstundaiðkun og gjaldfrjálsan leikskóla.
- Menntun á landsbyggð. Við ætlum að efla starf framhaldsskóla og háskóla á landsbyggðinni með það fyrir augum að nemendur um land allt hafi sem jöfnust tækifæri til náms. Þáttur í menntasókn og byggðstefnu okkar felst í því að nemendur eigi sem víðast kost á framhaldsskólanámi í heimabyggð og byggja upp samstarfsnet háskólastofnana um land allt.
- Nýtt menntatækifæri fyrir fullorðna. Við ætlum að skapa nýtt tækifæri til náms fyrir þau 35-40% landsmanna á vinnumarkaði sem aðeins hafa grunnskólamenntun, efla fullorðinsfræðslu m.a. með því að bæta stöðu fræðsluneta og setja skýran lagaramma um fullorðinsfræðslu. Einnig þurfa reglur LÍN að taka mið af aðstæðum þessa hóps eins og áður sagði.
- Við ætlum að stórefla íslenskukennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra og tryggja að börn innflytjenda njóti sömu tækifæra og þjónustu í íslenska skólakerfinu og önnur börn.
- Sveigjanlegt skólakerfi. Við viljum auka sveigjanleika í skólakerfinu með það fyrir augum að allir nemendur geti fundið nám við sitt hæfi. Þannig tryggjum við að hver nemandi fari á sínum forsendum í gegnum skólakerfið t.d. úr grunnskóla í framhaldsskóla og geti lokið námi á þeim hraða sem honum hentar. Nota á raunfærnimat til að tryggja fullorðnum með reynslu af vinnumarkaði auðveldari innkomu í skólakerfið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég bara spyr - hvaðan eiga peningarnir að koma fyrir öllu þessu? Allt virðist eiga frjálst en ekkert talað um hvernig eiga finna fjármuni fyrir þessu. Hvað þýðir það styrkja tekustofn sveitarfélaga?
Ásdís - hefur þér ekki dottið í hug að það er bara sumt fólk sem á ekkert erindi í framhaldsskóla, hvað þá í háskóla!
Hans (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 11:57
Líst vel á þessar tillögur að bættri menntun þjóðarinnar og aukið valfrelsi innan þess geira.. Vildi gjarnan sjá meira áherslu lagðar á náttúrulækningar en það er önnur pólitík sem ég nenni ekki að þrasa um hér..
Björg F (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 12:56
það er komin tim á að Það verur gert eitthvað i skóla málonum firir þá sem er með eitthvera hömlun, en það verur lika að koma með rettu hjálpina það má ekki vera að blanda hópinum saman sem þura hjálp.. því að þetta er miss munadi hjálp sem fólk þarf...
Eva Lind , 8.5.2007 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.