9.5.2007 | 14:12
Hið fullkomna áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins á umhverfismálum
Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn hafa engann áhuga á umhverfismálum - sér í lagi finnst þeim allt tal um hitnun Jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa vera óáhugavert svartsýnisrugl.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2005 hélt Davíð Oddsson fram gagnsleysi Kyoto bókunarinnar og afgreiddi vísindasamfélagið, umhverfisverdarfólk og stjórnarandstöðuna allt á einu bretti sem bölsýnisfólk.
Reyndar mætti hann ekki á nýafstaðinn landsfund Sjálfstæðismanna en ekkert bendir til þess að afstaða hans eða flokksins hafi breyst. Þvert á móti.
Illugi Gunnarsson, sá sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur teflt fram sem sínum grænasta manni, tjáði í Silfri Egils í fyrra miklar efasemdir um að hitnun Jarðar væri af manna völdum. Hann vitnaði því til stuðnings í vísindamenn sem orðið hafa uppvísir að því að vera á mála hjá einkaaðilum í olíubransanum.
Á Vef Þjóðviljanum, www.andriki.is, má finna margar ritstjórnargreinar þar sem niðurstöðum vísindasamfélagsins, Sameinuðu Þjóðanna og allra þeirra aðila sem telja ógnina vera af manna völdum er harðlega mótmælt. Ítrekað er þar gert lítið úr þeirri ógn sem steðjar að fólki og lífríki Jarðar. Frjálshyggjufólkið telur einnig að efnahagsleg áhrif af loftslagsbreytingum séu svo lítil að það borgi sig ekki að bregðast við þeim.
Sigríður Andersen, þingmannsefni Sjálfstæðismanna, hefur verið í ritstjórn Vef Þjóðviljans og er nátengt henni enn í dag. Það er einnig skoðanabróðir hennar, Illugi Gunnarsson, grænasta þingmannsefni Sjálfstæðismanna.
Heimstónleikar Live Earth verða haldnir í 7 borgum í 7 heimsálfum. Áætlað er að um 2 milljarðar manna um allan heim horfi á útsendingu tónleikanna sem mun standa yfir í sólarhring. Sérstaklega var sótt eftir samstarfi við Ísland vegna hreinnar ímyndar og þekkingar á vistvænni orku.
Fyrir 15 milljónir er hægt kaupa um 60 mínútur af auglýsingum sem ná til um 90 þúsund einstaklinga á Íslandi. Fyrir 15 milljónir var hægt að kaupa rúmar 3 klst. af jákvæðri kynningu sem hefði náð til um 2.000.000.000 einstaklinga í heiminum. Auglýsingu sem hefðu kynnt land, þjóð og tónlist fyrir öllum heiminum. Það var enginn áhugi á því.
Fyrir um 15 milljónir hefðu íslensk stjórnvöld getað boðið allri þjóðinni á ókeypis stórtónleika á Klambratúni með U2 og fjöldanum öllum af heimsfrægum hljómsveitum.
Það var enginn áhugi á því.
Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sem hlaut á dögunum Óskarsverðlaun fyrir myndina An Inconvenient Truth, hefði komið sérstaklega til landsins í tilefni af tónleikunum.
Það var auðvitað enginn áhugi á því.
Framlag ríkisins upp á 15 milljónir hefði skilað sér margfalt til baka þótt ekki væri nema í tekju- og virðisaukaskatti af vinnunni við að gera tónleikana að veruleika.
Það var heldur enginn áhugi á því.
Synjun Geirs H Haarde á þessu framtaki lýsir fullkomnu áhugaleysi Sjálfstæðismanna á umhverfismálum og er þjóðinni allri til háborinnar skammar.
Hætt við Live Earthtónleika í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
Ríkisstjórnin hefur undanfarna daga skrifað undir samninga við hina ólíklegustu aðila um fjárframlög sem nema tugum milljarða án fjárheimilda Alþingis. Gefið út kosningaávísanir í stórum stíl - allar með gjalddaga eftir að næsti prófkúruhafi tekur við. Það er ekki aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum heldur siðleysi og spilling.
Forsætisráðuneytið hefur sjóð til að bregðast við beiðnum eins og þessari frá Live Earth. Þetta staðfesti aðstoðarkona forsætisráðherra. Áhuginn var bara enginn, fólk var dregið á svörum þar til allt var um seinan.
M.a.s. þú ættir ekki að reyna að verja þetta.
Dofri Hermannsson, 9.5.2007 kl. 15:23
Fékk Al Gore nóbelsverðlaun? Ég vissi að hann væri tilnefndur af sumum, en missti af afhendingunni greinilega. Er hún ekki alltaf í desember annars? Ég reyndar bara skil ekki hvernig er hægt að vera með sjónvarpsviðburð, sem 2 milljarðar horfa á, og ekki næst að fjármagna tónleikana án aðkomu ríkisins. Mig grunar að vinstri menn séu að sjá um efnahagsmálin hjá þessum samtökum.
Andri Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 15:36
Vá hvað þú ert orðinn desperat Dharma. Kominn á sama skítaplanið og Björn Ingi lagðist í fyrir skömmu með eftirminnilegum hætti í Kastljósi.
Gísli, ég er sammála því að Róbert Marshall kom vel út úr þættinum en það gerði Guðfinna svo sannarlega ekki. Undir það síðasta stóð hún á garginu um þekkingarútflutning þegar hún var spurð hvort henni finnist 10% nýting á orku háhitasvæða góð nýting en eins og þú veist fer 90% orkunnar til spillis við virkjun háhitasvæða eins og nú er virkjað.
Skúli. Stjórnvöld hafa stigið risaskref í loftslagsmálum, það er satt, en þau skref hafa verið aftur á bak. Með tollagjöldum á bíla sem refsa fólki fyrir að aka á tvinnbílum og díselbílum en hvetja fólk til að kaupa sér 4-5 tonna pallbíla. Með því að leggja álögur á almenningssamgöngur, með því að draga til landsins einn mengunarfrekasta iðnað heims o.s.frv.
Áætlanir ríkisstjórnarinnar ganga út á að vera búin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% árið 2050 - eftir 43 ár! Ekki stafur um hvað þau vilja gera á næstu 5-7 árum!
Ekki skrýtið - áhuginn er enginn.
Dofri Hermannsson, 9.5.2007 kl. 16:27
Takk fyrir það Gísli minn
Dofri Hermannsson, 9.5.2007 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.