Fagnaðarefni fyrir náttúruverndarfólk!

Umhverfisáherslur nýrrar ríkisstjórnar eru gríðarlegt fagnaðarefni fyrir náttúruverndarfólk. Í málefnaskrá ríkisstjórnarinnar segir m.a. um umhverfismál:

Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda.

Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.

Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.

Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.

Þessi málefnaskrá sýnir svo um munar að góður undirbúningur, skýr stefna, tillögur að lausnum og góður samstarfsvilji skilar mun meiri árangri en krossfarahugarfar þeirra sem telja sjálf sig eina "alvöru" fólkið í náttúruverndarmálum. Væri baráttan fyrir náttúruvernd eingöngu háð undir slíkum formerkjum væri það mikill skaði bæði fyrir sjónarmið náttúruverndarfólks og náttúruna sjálfa.

Með Þórunni Sveinbjarnardóttur sem umhverfisráðherra fara nú spennandi tímar í hönd hjá íslensku náttúruverndafólki. Náttúra landsins verður kortlögð, verndargildi náttúrusvæða metið og mið tekið af þeim niðurstöðum við skipulag landsins. Til hamingju Ísland!


mbl.is Ekki farið inn á óröskuð svæði fyrr en náttúruverndaráætlun liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Grunaði ekki Gvend.  Það á bara að fylgja stefnu framsóknarmanna í umhverfismálum, leggja fram og samþykkja frumvarpið um rammaáætlun sem Samfylkingin gat ekki samþykkt fyrir örfáum vikum og halda áfram á þeirri góðu braut sem mörkuð var af framsóknarmönnum.  Það stendur nú ekkert í þessum stjórnarsáttmála sem ekki var á stefnuskránni í mörgum tilfellum búið að undirbúa og leggja fram.  Ef eitthvað er þá er allt opnað upp á gátt á þeim svæðum þar sem þegar eru fyrir hendi rannsóknar eða virkjunarleyfi og að ég tali nú ekki um þau svæði þar sem eitthvað hefur verið átt við yfirborð.  Er ekki búið að raska við Þjórsá?  Hvað í þessari stefnu kemur í veg fyrir að Þjórsá verði virkjuð í byggð og raforkan flutt á höfuðborgarsvæðið?   Ekki neitt.  Samfylkingin sturtaði Fagra Íslandi niður fyrir stólanna.

G. Valdimar Valdemarsson, 23.5.2007 kl. 12:06

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Því miður þá verð ég að vera sammála G. Valdimar í þetta sinn Dofri. Umhverfisstefnan ykkar virðist hafa farið fyrir lítið. Ingibjörg sagði sjálf áðan að það væri ekkert stóriðjustopp! Og það vita allir að þegar farið hefur verið inn á svæði til "rannsókna" þá er ekki aftur snúið. Það er í raun og veru upphafið að framkvæmdum.

Birgitta Jónsdóttir, 23.5.2007 kl. 12:17

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það verður byrjað á að rannsaka háhitasvæði landsins m.t.t. verndargildis. Það hefur illu heilli verið vanrækt þótt einungis kosti um 120 milljónir að ljúka þeim rannsóknum, eða sem nemur einni tilraunaborholu. Það er hægt að afla allra nauðsynlegra gagna á tveimur sumrum og vinna úr þeim þannig að niðurstöður liggi fyrir í lok árs 2009.

Fatta hins vegar ekki þetta kosningastjóratal í Dharma, veit ekki til að hafa stjórnað kosningabaráttu fyrir neinn nema sjálfan mig í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar í fyrra. Gerði það eiginlega ekki heldur, naut þar aðstoðar fjölskyldu minnar og vina.

Reyndar er þetta ekki það eina sem Dharma skriplar á og alveg í besta lagi. Hvar værum við án fjörugs ímyndunarafls, dálítilla rangfærslna og frásagnagleði bloggverja eins og Dharma?

Það er von að Framsóknarmenn stynji við þungann og reyni nú að mála sig sem mikla náttúruverndarmenn. Það er hins vegar vonlaust verkefni. Sá "farvegur sátta" sem Jón Sigurðsson boðaði var bara hænuskref og gerði ráð fyrir því að haldið yrði rakleiðis áfram á sömu braut með örfáum undantekningum til 2010. Ný ríkisstjórn snýr þessu við og segir að ekki verði farið inn á ný óröskuð svæði en rannsóknum megi halda áfram samhliða rannsóknum á verndargildi. Fyrst þegar allar upplýsingar liggja fyrir verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Eini græni litur Framsóknar er því miður af öfund. Vona að það verði ekki eins með Vinstri græn þótt mér sýnist öfundin ætla að verða ofan á líkt og þegar við kynntum Fagra Ísland í fyrra haust. Þeim er oft mest í mun að vera "eini alvöru flokkurinn" í sérhverju máli.

Birgitta ætti fremur að gleðjast yfir þeirri staðreynd að stjórnvöld ætla engar frekari ákvarðanir að taka um áframhald stóriðju fyrr en niðurstöður rammaáætlunar liggja fyrir í lok árs 2009. Man ekki betur en að formaður Vg túlkaði eigin stopp stefnu þannig að ekki yrðu stöðvaðar þær framkvæmdir sem þegar væru komnar af stað. Hver er munurinn?

Dofri Hermannsson, 23.5.2007 kl. 12:38

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar ég sá að þú hafðir bloggað við þessa frétt Dofri, ákvað ég að kommenta og benda þér á að þess yrði ekki langt að bíða að þessi áætlun yrði rökkuð niður af VG. Og viti menn!, þau eru strax byrjuð. Skilurðu nú við hvað er að eiga þegar öfgaumhverfissinnar eru annars vegar? Um sátt verður aldrei að ræða hjá VG um þessi mál. Hjá þeim er bara talað um vernd, ekki nýtingu. Hins vegar verður að virða þeim til vorkunnar að þeir eru enn og aftur í stjórnarandstöðu, og þurfa þess vegna ekki að sýna neina ábyrgð gagnvart núlifandi kynslóðum og kjósendum. Bara þeim ófæddu. En þeir átta sig ekki á því að ófæddu kynslóðirnar munu einnig hafa þarfir, drauma og vonir og þær munu einnig öðlast kosningarétt, í fyllingu tímans.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.5.2007 kl. 13:22

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þetta lofar góðu Dofri!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.5.2007 kl. 14:33

6 identicon

Sýnist að bæði vinur minn Dofri og Gummi Steingríms sé nú báðir búnir að skipta úr sóknarliðinu yfir í varnarliðið, í staðinn fyrir að sækja að ríkistjórn landsins munu þeir verja hverja þá gjörð er hún gerir. Velkomnir í vinningsliðið strákar.

Halldór (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband