Spennandi verkefni framundan

Að mínu mati hefur Samfylkingin fengið bæði umhverfisráðuneytin, umhverfisráðuneytið sjálft og iðnaðarráðuneytið sem er hin hliðin á sama peningi. Það var augljóst á orðum Össurar Skarphéðinssonar þegar tilkynnt var um ráðherraskipan að hann taldi það eitt af sínum stærstu verkefnum sem iðnaðarráðherra að ná sáttum á milli náttúruverndar og nýtingar. Ég treysti honum og Þórunni vel til þess.

Ég hef stundum sagt að besta náttúruverndaráætlunin væri almennileg byggðastefna. Þess vegna er ég ánægður að sjá byggðamálin færast til Össurar. Hann kom í gegnum þingið í vor tillögu okkar í Samfylkingunni um störf án staðsetningar - snjöll hugmynd sem gengur út á að skilgreina öll þau störf hjá ríkinu sem er hægt að vinna óháð staðsetningu. Án efa er það fjölbreytt flóra starfa.

Framtíð landsbyggðarinnar byggir á tækifærum fyrir ungt fólk og þar skipta fjölbreyttari atvinnutækifæri miklu máli. Ef um 20% starfa hjá hinu opinbera mætti skilgreina lítið eða óháð staðsetningu myndi eðlileg starfsmannavelta losa um 300-400 slík störf á ári sem þá mætti auglýsa þannig: Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu - landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til að sækja um.

Það er líka gott að vita af Kristjáni í samgöngumálum því samgöngur og fjarskipti eru að mínu mati velferðarmál þegar kemur að landsbyggðinni. Það er auðvitað gríðarlegt óréttlæti að stór hluti landsmanna skuli ekki hafa aðgang að öflugu interneti, upplýsingahraðbraut nútímans. Börn sem ekki hafa aðgang að þessari þjónustu hafa ekki sömu tækifæri og önnur börn. Þetta gildir auðvitað líka um fullorðna.

Það þarf að bæta samgöngur og fjarskipti til að auka öryggi en ekki síður til að bæta aðgengi að þjónustu og menntun og fjölga atvinnutækifærum með því að stækka atvinnusvæði fólks. Bættar samgöngur eru lífsspursmál fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni en slæmt ástand í samgöngum á Vestfjörðum er stór hluti þess ástands sem þar hefur skapast.

Það er ekki síður gott að sjá að ferðaþjónustan er kominn í iðnaðar- og byggðamálaráðuneyti. Á síðasta ári skilst mér að ferðaþjónustan hafi samtals haft 8 milljónir í rannsóknarfé. Ef sjávarútvegurinn hefði jafnmikið væri auðvelt að finna út að það borgaði sig engan veginn að veiða fisk. Það þarf að stórauka rannsóknir á möguleikum ferðaþjónustunnar en hún er eitt af þeim stóru tækifærum sem ungt fólk sér á landsbyggðinni.

Um leið þarf að vinna að heildaráætlun í náttúruverndarmálum svo við getum eftir nokkur ár státað af neti verndarsvæða, þema- og þjóðgarða sem gerir ráð fyrir nýtingu sem samræmist náttúruvernd.

Þar á ég t.d. við ferðaþjónustu en það er mjög brýnt að við hugsum langt fram í tímann hvernig við viljum stýra umferð ferðamanna um hin ýmsu svæði, bætum þjónustuna og förum að dæmi annarra þjóða sem hafa gert þjóðgarðavörslu og þjónustu við ferðamenn á slíkum svæðum að stórum þætti í ferðaþjónustu sinni. Þannig getum við bæði varðveitt, nýtt og notið náttúruverðmæta okkar og aukið umsvif í ferðaþjónustu og náttúruvörslu.

Fyrsti áfanginn á þessari leið bíður núna Þórunnar Sveinbjarnardóttur - að klára rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og leggja hana fyrir Alþingi til að gefa henni lögformlega stöðu. Þar er mikið verk fyrir höndum en uppfæra þarf ýmis gögn, t.d. lenti Ölkelduháls í flokki A, sem þýðir að hann sé frá umhverfissjónarmiðum vænlegur kostur.

Ölkelduháls er eitt af glæsilegustu hverasvæðum landsins, steinsnar frá höfuðborginni og því eitt af mest spennandi útivistarsvæðum suðvesturhornsins. Einkunnin A var byggð á 5 undirþáttum og einn þeirra var útivist. Þar voru gæði gagna hins vegar aðeins í flokki D sem þýðir að upplýsingar vantaði nánast alveg um svæðið sem útivistarsvæði þegar það fékk þennan dóm A fyrir lítil umhverfisárhif. Það sama á við víða annars staðar.

Það eru því spennandi tímar sem fara í hönd og náttúruverndarfólk væntir mikils af Þórunni og Össuri í störfum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ert þú ekki í neinni vinnu Jón Kristófer?

Dofri Hermannsson, 25.5.2007 kl. 14:21

2 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Dofri.

Hvað er að gerast með spunameistara samfylkingar sem er á niðurleið kominn í sæti númer 78 var ætið fyrir kosningar nálægt toppnum. Það mætti halda að allur vindur væri farinn úr þér.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 25.5.2007 kl. 14:30

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Dofri frændi, víst vildi maður að þú hefðir rétt fyrir þér að allt væri fallegt og bjart framundan. En það kom fram mjög ólík túlkun á umhverfiskaflanum í gær hjá Geir og Ingibjörgu. Og yfirlýsingin um Írak var hrein hörmung. Svo að ég einsog þýska skáldkonan Louise Rinser ætla að halda mig við  það góða prinsíp að vera alltaf á móti þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn.

María Kristjánsdóttir, 25.5.2007 kl. 15:56

4 identicon

Það er greinilega búið að taka beizlið útúr fleiri framsóknamönnum en Guðna Ágústssyni.

Hér hleypur framsóknargæðingur óbeizlaður um bloggsíðurnar og fer mikinn.

Það er gaman að þessu.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 21:11

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Dofri...ég er líka spennt.....og trúi þessari stjórn til góðra verka!...enda mikil Samfylkingarkona..(kvennalistakona)

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.5.2007 kl. 22:09

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

Já þetta er Vinstri græn (af öfund) útgáfa af Dharma. Verður flest að ágreiningsefni, fer sigurreifur af hólmi eftir hverja orrustu en tapar þó ævinlega stríðinu.

Dofri Hermannsson, 25.5.2007 kl. 23:41

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það vefst þó ekki meira fyrir mér en svo að ég er búinn að svara þeim flestum oftar en einu sinni áður. Það er mun betri frammistaða en þú getur sýnt sem ekki hefur enn getað sagt mér af hverju hlé okkar í 2,5 ár á meðan rammaáætlun er kláruð er svona miklu verri en hlé Steingríms J í ca 3 ár á meðan rammaáætlun er kláruð.

Eða af hverju það er svona slæmt þegar við segjum að það megi halda áfram með rannsóknir á orkugetu þar sem leyfi hafa þegar verið veitt - en það er barasta allt í þessu fína þegar foringi þinn Steingrímur J segir það. Gott ef ekki dyggð!

Þú verður að fyrirgefa þótt ég nenni ekki að elta ólar við sömu spurningarnar aftur og aftur - hvað þá þegar þeim fylgja brigsl um að ég hafi svikið sannfæringu mína. Ég held að þau ómaklegu orð þín hitti þig sjálfan fyrir. Sorglegt að rætni og pissukeppni skuli vera það helsta sem orðaskipti við þig hafa upp á að bjóða.

Þessi söngur er að vísu ekki óvenjulegur af vörum þínum og Vinstri grænna en harla falskur þegar haft er í huga að þið hafið nýlokið við að svíkja náttúruvendarfólk um græna vinstri stjórn vegna ákafa ykkar sjálfra á að hoppa í eina sæng með Sjálfstæðismönnum.

Held þú ættir líta þér nær.

Dofri Hermannsson, 26.5.2007 kl. 01:00

8 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér finnast þessar umræður afar góðar tvíbökur!

Í grein Dofra eru rakin verkefni kjörtímabilsins í byggðamálum, umhverfismálum, ferðamálum og svo framvegis.  

Í stjórnarsamstarfinu er kveðið á um að tilraun verði gerð til að ná sáttum milli náttúruverndar og nýtingar.

Jón Kristófer hefur gripið það svo að Fagra Ísland hafi verið samþykkt sem hluti af stjórnasáttmálanum. Ég hygg að svo sé ekki. Eigi að síður verður áfram reynt að ná sáttum milli náttúruverndar og nýtingar. Ég er þess fullviss að Jón Kristófer er í hópi þeirra sem vill náttúruvernd og skynsamlega nýtingu.

Síðan væri líka afar uppbyggilegt að menn sættust á að gera raunverulegt átak í byggðamálum og ferðamálum á landsbyggðinni.

Þá myndu valkostir í artvinnumálum verða fjölbreyttari og álver í hvern fjörð ekki hin eina byggða og atvinnustefna.

Jón Halldór Guðmundsson, 26.5.2007 kl. 01:19

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sínum tíma fjallaði ég í 6 mínútna innslagi í Dagsljósi um Ölkelduháls og gerði líka um það frétt. Þar kom vel fram hvað svæðið er fallegt og aðgengilegt og hvílík mistök voru gerð með því að leyfa lagningu háspennulínu nánast beint yfir svæðið.

Það er því ekki eins og gögn hafi vantað um þetta heldur er þetta gamla sagan um það hve átakanlega litlu upplýsingamiðlun um þessi mál skilar.

Ómar Ragnarsson, 26.5.2007 kl. 01:31

10 identicon

Mér sýnist þú Jón Kristófer vera að gagnrýna Dofra sjálfan en ekki þessa ríkisstjórn, svona eins og Dofri og aðrir mætir samfylkingarmenn hafi selt sálu sína.

Það er nú bara staðreynd að það eru ekki allir Íslendingar sem vilja virkja eða setja upp álver hér og þar, Dofri er einn af þeim (það fer ekkert á milli mála) síðan er annar álíka stór ef ekki stærri hópur Íslendinga sem vill virkja og nýta og setja upp álver. Að setja það þannig upp að Dofri eigi að siða þann hluta Íslendinga til og skikka þá til að vera á sömu skoðun er í hæsta máta hálfvitalegt.

Ég leyfi mér að vera sammála Dofra þegar hann segir að hann sé stoltur af þessum stjórnarsáttmála hvað umhverfismál varðar. Þegar um samstarf við sjálfstæðisflokk er að ræða og í því ljósi, verður þetta að teljast nokkuð stórt skref. Alls ekki nógu stórt að vísu en stórt enga að síður. 

Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 12:09

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stóriðjumálum er alltaf stillt þannig upp að þeir sem hafa verið fylgjandi tilteknum stóriðjuframkvæmdum eru kallaðir "stóriðjusinnar" og séu þ.a.l. fylgjandi því að virkja út um allt. Það er fjarri sannleikanum. Ég er fylgjandi skynsamlegri nýtingu orkunnar, eina vandamálið er að finna út hvað er skynsamlegt og hvað ekki. VG er á móti öllu þannig að þeir verða alltaf óánægðir. Við hin þurfum bara að leysa málið í rólegheitum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.5.2007 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband