11.7.2007 | 20:12
Að "windowsjoppa" olíuhreinsunarstöð
Sérleg sendinefnd fulltrúa frá ríki, sveitarfélögum á Vestfjörðum og stóriðjumöngurum sem kalla sig íslenska hátækni fóru til meginlandsins að kynna sér olíuhreinsunarstöðvar.
Sumir féllu í stafi yfir þessu og telja sig hafa fengið töfralausnina sem vantar til að þeir sleppi við að byggja upp skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf - eins konar skreiðartafla til að seðja svanginn. Meðal þeirra er bæjarstjórinn á Ísafirði sem nýtir núna fyrsta tækifæri sem hann fær til að yfirgefa stefnu sína um stóriðjulausa Vestfirði. Ætli Vinstri grænir séu ekki glaðir að hafa kosið hann formann sambands íslenskra sveitarfélaga.
Annar fulltrúi meirihlutans átti víst ekki orð til að lýsa hrifningu sinni yfir því að mitt í öllum pípulögnunum var að finna snyrtivörutilraunastofu. Í olíuhreinsunarstöð virðast allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Og mengunin er víst sama sem engin, sendifulltrúarnir sáu alla vega enga.
Það mun kosta um 120 milljónir að gera allar þær hagkvæmni- og umhverfisathuganir sem gera þarf bara til að sjá hvaða möguleikar eru á að koma stóriðju af þessu tagi fyrir í einhverjum af töfrafjörðum Vestfjarða. Venjan er sú að framkvæmdaraðili borgi allan slíkan kostnað.
Það var hins vegar enginn með veskið með sér og ekkert útlit fyrir að neinn sé að fara að borga þessa fjárhæð fyrir þær frumathuganir sem gera þarf til að hægt sé að taka fleiri skref í þessu máli.
Menn gera því skóna að olíuhreinsunarmógúlarnir ætli að reyna að nýta sér skilyrði sjávarútvegsfyrirtækjanna á Vestfjörðum til að láta ríkið borga þennan pening. Þá eru þeir svona eins og fasteignasalar sem hafa náð að krækja sér í ókeypis lóð - ekkert eftir annað en að hringja í eitthvert olíufyrirtæki og bjóða því að koma og hirða svo hæfilega þóknun fyrir miðlunarþjónustuna.
Afsakið - hátækniþjónustuna.
Á þeim dögum sem ég er búinn að vera hér fyrir vestan hef ég ekki hitt einn einasta mann sem er með barlóm. Það er hugur í fólki og ég hef heyrt margar raunhæfar hugmyndir sem falla eins og flís við rass að útspili ríkisstjórnarinnar.
Menn í sveitastjórnum eru flestir óhræddir við að takast á við skyldur sínar sem eru m.a. að byggja upp skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf, bætt skilyrði til menntunar, aðstoð við frumkvöðla og aukna þjónustu við íbúa. Þetta er kannski spurning um að leyfa þreyttum að hvílast?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Dofri,
Ég held ég verði að vera ósammála þér hér, en það er bara allt í lagi.
Mér fannst þau samtök sem kenna sig við náttúruvernd ansi fljót að álykta gegn þessari hugmynd Vestfirðinga að koma sér upp olíuhreinsistöð - að mun minna athuguðu máli, enda er allt á könnunarstigi enn. Það eru um 4 vikur síðan frétt barst frá þeim samtökum að þeir legðust gegn framkvæmdum, án þess að þekkja haus eða sporð. Nafnið eitt hræðir.
Það ber að hafa í huga að þessi tankskip far í gegn um fiskveiðilögsögu okkar með óunna olíuna í hundraða eða´þúsundatali á ári hverju, þó án viðkomu hér. Enn fremur er olían og bensínið flutt hingað unnin með tankskipum. Svo hver er þá aukning áhættu með sérhæfðri hreinsistöð umfram það sem áður er vitað og tilkomið?
Hafa menn sem kenna sig við náttúruvernd kynnt sér arðsemi (eða ekki arðsemi af slíku) miðað við áhættu, aðra stóriðju eða það sem talist getur hátækniiðnaður?
Þú talar um bjartsýni fyrir vestan - ég held að við séum ekki að tala um sama vestrið. Auðvitað er hugur í fólki en þeir er æ fleiri sem hafa flutt í seinni tíð, áforma það eða eru að því. Skoðaðu tölur um brottflutta á sunnanverðum Vestfjörðum miðað við landsmeðaltal - ræðum það svo.
Stundum þarf maður sterkari rök fyrir að vera á móti en því einu að vera á móti stóriðju. Það væri auðvitað vel ef aðrir kostir kæmu til en hér hafa landsfeður og mæður ákveðið að láta allt sigla fyrst í strand áður en aðgerðum til að afstýra strandi er hrundið í framkvæmd. Alltaf byrjað á öfugum enda.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 12.7.2007 kl. 10:36
Vonandi lagast þetta hjá þér með árunum og auknum þroska.
Það er SKYLDA sveitastjórnarmanna, að skoða ALLAR mögulegar leiðr til atvinnusköpunar og framfara í sínu sveitafélagi, ég tala nú ekk um, þegar harðnar á dalnum.
Svo eitt, Það falla ekki allar flísar við rass, en fís fellur við alla rassa. Fís er vindur,líkt og þú ættir að þekkja, nokkur er í allmörgum félögum þínum í það minnsta. Físibelgir voru brúkaðir við aflinn.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 12.7.2007 kl. 10:40
Sæll Dofri. Mér finnst upplagt að senda þér eftirfarandi og spyrja í gamni og alvöru hvort nautgripirnir okkar ættu ekki að fara í umhverfismat og jafnvel fjöldaslátrun:
Production of livestock is responsible for 18% of global greenhouse gas emissions (as measured in carbon dioxide equivalent). It accounts for 37% of emissions of methane, which has 21 times the global warming potential of carbon dioxide, and 65% of emissions of nitrous oxide which has 310 times the global warming potential of carbon dioxide.Producing 1 ton of cut beef generates as much greenhouse gas emissions as producing 250 tons of fuel at a modern oil refinery”.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.7.2007 kl. 15:07
Það er einmitt þess vegna, Friðrik, sem margir leggja áherslu á að það sé borðað meira grænmeti, meiri jarðargróður í heiminum - af því að það fer betur með jörðina, þarf minna landrými til ræktunar á mat en dýrafóðri. Það er a.m.k. alveg fráleitt að ryðja regnskóga til að búa til hamborgarakjöt. Og það er út af þessu sem mér hugnast betur að niðurgreiða rafmagn til grænmetisræktunar en álbræðslu.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.7.2007 kl. 17:09
Ósammála.
Þetta á að skoða all rækilega frá A-Ö.
Örvar Þór Kristjánsson, 12.7.2007 kl. 21:27
Eru ekki allir sammála um að þessi olíuhreinsihugmynd sé tímaskekkja? Við erum að leitast við að gera landið nútímalegt og umhverfisvænt ekki satt? Þe. ef Samfylkingin gengst ekki á hönd nýjasta áhrifavalds framtíðar okkar, Rio Tinto Alcan. Það finnst mér vera mesta ógnun sem íslensk stjórnvöld standa nú frammi fyrir.
Ævar Rafn Kjartansson, 12.7.2007 kl. 23:16
En þetta með beljurnar er náttúrulega stóralvarlegt mál enda hafa ástralir sett á þær fretskatt!
Ævar Rafn Kjartansson, 12.7.2007 kl. 23:17
Af hverju tímaskekkja?
Það verður seint talin tímaskekkja að nýta sér atvinnutækifæri sem í þessu felast og eru í raun forsenda þess að hér sé haldið úti byggð. Finndu lausn á þeim vanda sem steðjar að þessum jaðarbyggðum og í öðru en hannyrðum og trakteringum á ferðamönnum - það er deginum ljósara að þróuninni verður ekki súið við með því. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kanna þetta í að minnsta, hversu mikið og víðtækt miðað við arðsemi og hugsanlegan skaða, skammtíma og óafturkræfan. Akvegir landsins eru víða lýti og eins og ör á náttúrinni. Við förum hins vegar ekki í vörn með samgöngur eða hvað?
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 13.7.2007 kl. 01:50
UM AÐ GERA AÐ BYGGJA BYGGJA OG BYGGJA Á FÁUM EYÐISVÆÐUM EVROPU SEM EFTIR ERU, EF ENGINN SÉR SÉR SÉR MEIRI HAG Í NÁTTÚRUNNI! Hér er ég að höfða til alls Evrópusambandsins, íslensk stjórnvöld hafa löngum sýnt að skilningurinn er ekki þar...en ég ER VISS UM AÐ EF VESTFIRÐIR TALA SÍNU MÁLI, EKKI REYKFIRSKU VISINDAMÁLI, ÞÁ MUNU HLUTIR GERAST!
Ekki treysta rvk, bara ykkar eigin rödd!
Anna
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.7.2007 kl. 01:02
Skemmtileg tilviljun, Dofri, að við skulum vera að blogga um sama hlutinn á sama tíma og til þess að skrifa ekki tvisvar um sama hlutinn bendi ég á það blogg sem snýst um það hvernig íslensk stóriðjustefna byggir á því að koma í veg fyrir þekkingu á öðrum möguleikum og veitingu nauðsynlegs fjármangs til þess að kanna þá og nýta.
Ómar Ragnarsson, 17.7.2007 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.