Vindhögg bæjarstjóra og borgarfulltrúa

Í gær lét Gísli Marteinn Baldursson hafa eftir sér í Fréttablaðinu að umferðaróhöpp í borginni væru áfellisdómur yfir R-listanum. Það er neyðarlegt þegar borgarfulltrúar eru með svona setningar "á sjálfvali". Þarna hefði borgarfulltrúinn átt að hugsa aðeins lengra áður en hann svaraði.

Þá hefði hann e.t.v. munað eftir því að slysum, ekki síst alvarlegum slysum, hefur fækkað stórkostlega undanfarin ár. Markvisst hefur verið tekið á "svörtum blettum" í gatnakerfinu og 30 km hámarkshraði í hverfum hefur orðið til þess að ekki hefur orðið banaslys á barni í hverfum borgarinnar í mörg ár.

Borgarfulltrúinn hefði líka mátt hugleiða að aukinni bílaeign fylgir aukin hætta á óhöppum og því alvarlegri sem bílar eru stærri og þyngri. Það er því heiðarlegra að beina gagnrýni sinni að fyrrverandi ríkisstjórn sem hvatti til kaupa á risavöxnum pallbílum með tollaívilnunum.

Þetta er auðvitað ekki stórpólitískt mál en hálf leiðinlegt þegar vanasetningar leiða menn á villigötur.

Vindhögg bæjarstjórans á Ísafirði er öllu alvarlegra. Það högg var ætlað náttúruverndarfólki, þar var hátt reitt til höggs og með fullum ásetningi. Halldór Halldórsson, sem nú er á harðahlaupum frá stefnu sinni um stóriðjulausa Vestfirði, reynir nú að koma ábyrgðinni á alvarlegri stöðu í atvinnumálum á Vestfjörðum yfir á náttúruverndarsinna.

Fyrir um fjórum árum kallaði Halldór eftir hugmyndum frá náttúruverndarfólki um nýsköpun og uppbyggingu á Vestfjörðum. Hann heldur því fram að náttúruverndarfólk (undarleg alhæfing um helming þjóðarinnar) hafi lofað honum 700 störfum en svo hafi ekkert gerst. Náttúruverndarsinnar hafa ekki skapað eitt einasta starf á Vestfjörðum, segir Halldór.

Nú veit ég svo sem ekki hverja Halldór hitti en ég veit að Vestfirðir væru mun verr settir ef náttúruverndarsinnar hefðu ekki barist fyrir friðlandinu á Hornströndum. Bara til að nefna eitt dæmi. Hvað ætli þeir náttúruverndarsinnar hafi skapað Vestfjörðum mörg störf? 

Ég gæti vel ímynda mér að þeir sem standa fyrir tónlistarhátíðinni "aldrei fór ég suður" sem dregur að sér fjölda ferðamanna og vekur jákvæða athygli á Vestfjörðum telji sig vera náttúruverndarsinna. Það sama á líklega við um alla þá fjölmörgu sem hafa undanfarin ár unnið að uppbygginu ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Og skapað störf.

Halldóri væri nær að beina gagnrýni sinni að fyrrverandi ríkisstjórn. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var að sjálfsögðu ekki hægt um vik að brydda upp á nýjungum í atvinnurekstri. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var galtómur og árum saman var ekki krónu úthlutað til nýrra verkefna - öll nýsköpunarorka fyrrverandi ríkisstjórnar beindist að einni hugmynd austur á Reyðarfirði.

Hann gæti líka sagt sem satt er: Fyrrverandi ríkisstjórn stóð sig ekki í að koma Vestfjörðum í almennilegt vegasamband við restina af landinu. Við þær aðstæður er ekki hægt að reka fyrirtæki í samkeppni við önnur sem eiga miklu auðveldara með að tengjast markaði sínum. Fyrrverandi ríkisstjórn dró líka lappirnar í að byggja upp fjarskiptakerfið og gagnaveitu. Það setur stórt strik í reikninginn þegar verið er að kalla eftir nýsköpun í atvinnulífinu.

Högg bæjarstjórans til friðþægingar sjálfum sér og fyrrverandi ríkisstjórn er ómaklegt vindhögg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Dofri er það ekki jákvætt að núverandi meirihluti ætli að ganga í og klára mislægu gatnamót miklabraut/kringlumýrabraut - en eins og þú veist dró r-listinn lappirnar með þessa framkvæmd.
Ég skil Halldór mjög vel enda ertitt fyrir hann að horfa á þá dásamlegu veröld sem er á austfjörðum.

Óðinn Þórisson, 20.7.2007 kl. 11:58

2 identicon

Katrín Jakobsdóttir lýsti því yfir í sjónvarpinu að engin umferðarvandamál væru í Reykjavík.  R-lista og Vinstri græn kona.  Gísli Marteinn hefur algjörlega rétt fyrir sér.  R listinn hélt að sér höndunum vegna þess að "engin umferðarvandamál eru í Rvík"  Ég held að þetta heiti að berja höfðinu við steininn. 

Tryggvi Þór Tryggvason (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 13:06

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Heldurðu að Gísli Marteinn eigi ekki eftir að þakka sér og D listanum það að mávum hefur fækkað í borg óttans, (án þess að nokkuð væri gert til þess)??

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.7.2007 kl. 16:44

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrabrautar væri stórslys. Þau myndu valda auknu svifryki og umferðahávaða vegna aukins umferðahraða. Þetta myndi á allan hátt auka mengun og þar með rýra lísgæði íbúa í nágrenni við gatnamótin. Slysum myndi lítið eða ekkert fækka við þetta, þau myndu bara færast annað.

Stokkur eða jarðgöng frá Grensársvegi að Snorrabraut ásamt jarðgöngum undir Öskjuhlíð er eina vitið. Seinna gæti komið jarðgöng eða stokkur frá Listabraut að Háaleitisbraut.

Jarðgöng og stokkar hafa þann kost að svifryk, sem myndast inni í þeim fer ekki nema að litlu leyti út úr þeim út í íbúaðhverfi. Það verður inni í þeim þangað til það er hreinsað út. Einnig nær umferðahávaði inni í jarðgöngum eða stokki aðeins að litlu leyti að komast út í íbúðahverfi.

Sigurður M Grétarsson, 20.7.2007 kl. 16:58

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er nú aumt ef forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru farnir að kenna R-listanum um það að menn keyra eins og brjálæðingar í Reykjavík. Flestir ökumenn eru sennilega Sjálfstæðismenn, sérstaklega þeir sem eru á stóru bílunum og þeim hraðskreiðu. Eru þá ekki umferðarslysin að mestu leyti Sjálfstæðisflokknum að kenna?

Fyrst og fremst er umferðarvandinn afleiðing af bíladekri yfirvalda. Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið látnar sitja á hakanaum í áratugi og þar bera allir flokkar ákveðna sök.

Þessi vindhögg Halldórs Halldórssonar í garð umhverfisverndarsinna eru slegin í þeim eina tilgangi að bæjarstjórinn er að koma sér í mjúkinn hjá forystunni í Sjálfstæðisflokknum, sem eins og allir vita, keppist við að drita niður álverum um allt land og stækka þau sem fyrir eru.

Theódór Norðkvist, 22.7.2007 kl. 02:08

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef "náttúruverndarsinnar" hefðu haft úr 130 milljörðum króna úr vösum almennings og 100 milljörðum frá erlendum fjárfesti að spila hefði verið hægt að gera ýmislegt á Vestfjörðum annað en að gera þá að stóriðjufjórðungi.

Vitna að öðru leyti um blogg mitt um þetta mál.

Ómar Ragnarsson, 23.7.2007 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband