Asi og leti

Við erum aftarlega á merinni hvað varðar umhverfismál, sérstaklega opinberir aðilar. Dæmi um það er að Sundagöng voru fyrst athuguð alvarlega eftir verulegan þrýsting frá borgarbúum og fulltrúum Samfylkingarinnar.

Sama er uppi á teningnum í Gufudalssveitinni núna. Þar á að leggja veg í gegnum svæði sem er hátt skrifað sem náttúrusvæði. Möguleiki á jarðgöngum hefur ekki verið skoðaður en fyrrverandi umhverfisráðherra heimilaði þessa vegalagningu þvert á ráðleggingar Skipulagsstofnunar.

Það eru til tæki til að meta kosti og galla hinna ýmsu framkvæmda m.t.t. umhverfisins. Þetta eru svokallaðar kostnaðarhagkvæmnigreiningar þar sem töpuð náttúrugæði eru tekin með í reikninginn. Þótt jarðgöng séu eilítið dýrari (ca 600 milljónum) en sú leið sem nú á að fara þá er vel hugsanlegt að það sé verið að spara aurinn og henda krónunni. Það hefur ekki verið kannað og stendur víst ekki til. Hvílík leti!

Ég sá í Bjarkalundi um daginn auglýst eftir hnyttnu slagorði fyrir Reykhólasveitina í anda "Dalirnir heilla". Það er athyglisvert að velta fyrir sér áherslum harðra fylgjenda hraðbrautar um Teigsskóg á sama tíma og verið er að reyna að byggja svæðið upp sem áhugavert ferðamannasvæði með mikilfenglegri náttúru.

Þarna er þversögn því samfélagið gæti verið að fórna ómetanlegri náttúruperlu og aðdráttarafli fyrir ferðamenn á svæðinu fyrir það helst að það verði aðeins ódýrara að koma fólki hratt framhjá.

Ætti slagorðið kannski að vera "Reykhólar - vertu fljótari framhjá!"?


mbl.is Höfða mál gegn umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Sæll Dofri,  þú hefur talsvert til þíns máls í þessu.  Letin í umhverfismálunum er alltof mikil og aðferðafræðin sem notuð er við undirbúning framkvæmda of frumstæð.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 27.7.2007 kl. 15:19

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Já það er merkilegt hvað stjórnmálamenn, embættismenn og ráðherrar hafa lítinn áhuga á því að færa rök fyrir ákvörðunum sínum eða hlusta á sjónarmið annarra. Aðferðir við umhverfismat eru eins og Ingibjörg segir of frumstæðar. Hingað til hafa verkfræðistofur einokað umhverfismatsverkefnin og þó að innan þeirra raða séu fleiri en verkfræðingar er stundum átakanlegt að lesa umhverfismatsskýrslurnar. Ég þekki best til þeirra kafla sem hafa að meginviðfangsefni sínu samfélagsleg áhrif og ég fæ stundum hreinlega kjánahroll af að lesa þessa kafla. Þetta eru tuggur upp úr námsbókum og greinilega engar tilraunir gerðar til að kynna sér staðhætti, fólkið, samfélagið osfrv. Hvað varðar vegagerð yfir skóginn, þekki ég aðstæður engan veginn nógu vel, en finnst slagorðið sem þú stingur upp á ansi gott og á við um marga aðra staði og hugarfar landans til hreyfanleika. Við verðum að komast hvert sem er hvað sem það kostar.

Anna Karlsdóttir, 28.7.2007 kl. 11:51

3 identicon

vildi nu bara kvitta fyrir komina en áhugavert að lesa herna verð nu að seigja það þótt ég hafi nu ekki mikið við á stjórnmálum ;)

Kær kveðja Laufey Aníka ;)

laufey anika sveinbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Áhugavert.  En þar sem ég er sérstaklega velviljaður minni heimabyggð þá er þarna möguleiki á að færa þetta svæði og það sem norðar liggur á Vestfjarðakjálkanum nær SV-horninu samgöngulega séð. 

Þetta er, eins og mig undrar ekki, fjandi vel orðað hjá þér.  Þú þekkir þína heima sveit, ég mína.  Ég veit nú líka að þetta svæði er vel úr alfaraleið og held að vegagerð um þetta svæði gerði það heldur verðmætara ef eitthvað er.  Það er aldrei nema ræma sem liggur í vegi um þetta, styttir verulega leiðina á þann hátt að ekki þarf að fara yfir þessa fjallvegi sem á stundum kosta mannslíf.  Spurning um að verðmerkja þau og taka með í reiknilíkanið að öllu gamni slepptu, ef Það er þá hægt til fulls. 

Á tímum þar sem allir eru að tala um að planta trjám og jafna (kolefnisjöfnunarátak) - fullkomið að áætla hversu miklu minni útblástur á leið sem liggur við sjó miðað við að þurfa að erfiða upp brekkurnar og berjast gegnum skafla á vetrum, svo ekki sé minnst á kostnað og mengun við snjómokstur - með útblæstri. 

Ef vegur liggur um þennan verðmæta skóg fá líka einhverjir að sjá hann, enda ekki í allra valdi að fá að skoða hann, enda landið að mestu í einkaeign.   

Fá fleiri vinkla á þetta takk

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 3.8.2007 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband