Öflugur og raunsær byggðamálaráðherra

össurÖssur hefur slegið nýjan tón í byggðamálum á þeim tveimur mánuðum sem hann hefur verið ráðherra byggðamála.

Þegar hann var nýtekinn við embætti var tilkynnt um bága stöðu ýmissa fyrirtækja á Vestfjörðum og stuttu síðar var ljóst að draga þyrfti stórkostlega úr þorskveiðum sem setur ýmis byggðarlög í enn meiri vanda.

Þegar ráðherrann var spurður hvað ætti að gera sagði hann nokkuð sem fæstir hafa sagt áður - sannleikann. Hann sagði að það yrði að efla grunngerð þessara byggðarlaga, fjölga stoðum atvinnulífsins, bæta samgöngurnar, fjarskiptin og efla gagnaflutninga, auka möguleika fólks á menntun.

Þarna kveður við nýjan tón og gott að fá til tilbreytingar byggðamálaráðherra sem einfaldlega segir satt í stað þess að leika hinn frelsandi herra með töfralausnir í erminni eins og álver og olíuhreinsistöðvar. Og þetta er líka hárrétt hjá ráðherranum - það verður að efla grunngerð samfélaganna til að venjulegt fólk kjósi að eiga þar framtíð sína. Annars fer fólk einfaldlega.

Ráðherrann sagði líka nauðsynlegt að ríkisstjórnin hefði einhver þau tæki sem hægt væri að grípa til þegar sveitarfélög, sem t.d. byggja um of á einhæfu atvinnulífi, verða fyrir áföllum. Með því að koma fótunum á ný undir Byggðastofnun er ráðherrann væntanlega að skapa sér slíkt tæki.

Sumir hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir að vilja aflétta 1.200 milljóna skuldum Byggðstofnunar og segja þar sé verið að bruðla með fé almennings. Það er kolrangt. Það er löngu búið að eyða þessum peningum. Það hafa aðrir pólitíkusar gert með þeim hætti að stundum vakna spurningar um lögmæti þeirra gjörninga. Fyrir vikið er Byggðastofnun eins og bíll á loftlausum dekkjum. Össur er að leggja til að það verði pumpað í dekkin á nýjan leik.

Það er að sjálfsögðu afar brýnt að misnotkun með fé Byggðastofnunar endurtaki sig ekki. Jafnbrýnt og að stofnunin verði núna reist á fætur svo hún geti sinnt hlutverki sínu sem ljósmóðir nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni.

Þau tækifæri eru mörg. Með "störfum án staðsetningar" munu hundruð starfa hjá hinu opinbera standa landsbyggðarfólki til boða á næstu misserum. Ferðaþjónustan býður líka upp á fjölda tækifæra og er sú atvinnugrein sem er auðveldast fyrir nýja aðila að starta sér í án þess að skuldsetja sig fyrir tugi eða jafnvel hundruð milljóna eins og t.d. er raunin með ungt fólk sem vill fara út í mjólkuriðnað - að ekki sé minnst á sjávarútveg.

Því miður hefur ferðaþjónustan verið hornreka á borði iðnaðarráðherra síðustu ríkisstjórna. Stuðningur við hana hefur nánast enginn verið á meðan stuðningur við stoðkerfi landbúnaðar, sjávarútvegs og stóriðju hefur verið rausnarlegur. Þessu þarf að breyta.

Það þarf að bæta samgöngur og innviði ferðaþjónustunnar s.s. með eflingu safna í héruðum, merkingu gönguleiða, byggingu göngustíga og merkingum á áhugaverðum stöðum. Það þyrfti líka hið fyrsta að veita ferðaþjónustunni rannsóknarfé. Mér skilst að rannsóknarfé ferðaþjónustunnar á síðasta ári hafi verið um 8 milljónir króna! Að svelta þennan mikla vaxtarsprota í atvinnulífi landsins, sérstaklega á landsbyggðinni, sýnir skammsýni fyrrverandi ríkisstjórna.

Það verður að efla grunngerðina og fjölga stoðum atvinnulífsins sagði ráðherrann. Þetta er í raun það sama og skagfirskur hrossabóndi sagði við mig snemma í vor þegar skrifað var undir sauðfjársamninginn fræga:

"Hvað með ungt fólk sem vill búa hér í sveitinni með hross, eða stunda kennslu á Hólum? Hvað með ferðaþjónustubændur eða rannsóknarbændur eða fólk sem vinnur í starfi óháð staðsetningu en vill búa hér í héraðinu? Er það algjört skilyrði fyrir stuðningi við þetta fólk að það eigi rollu?"


mbl.is Iðnaðarráðherra: 1.200 milljóna kr. skuld Byggðastofnunar verði aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Björn

Já, svei mér þá - karlinn vissi ekki einu sinni hvað Byggðastofnun var fyrir nokkru. Það viðurkenndi hann sjálfur víst á fundi um daginn á Króknum.  

Guðmundur Björn, 1.8.2007 kl. 22:18

2 identicon

Mikið væri nú gaman ef að fólk úti á landi fengi sjálft að ráðstafa þeim fjármunum sem eiga að bjarga þeim frá hruni. Ætli Vestfyrðingar viti ekki betur en Byggðarstofnun hvar skóinn kreppir. Miðstýrð byggðarstefna kann ekki góðri lukka að stýra.

Héðinn Björnsson (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 11:20

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Nýr tónn er hér ekki á ferð því miður, það er mér ekki mögulegt að sjá.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.8.2007 kl. 03:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband