Nú rymja nátttröllin

Valgerður Sverrisdóttir er fulltrúi gamalla viðhorfa í málefnum iðnaðar, hvað þá náttúruverndar. Hún er talsmaður viðhorfa sem áttu sitt blómaskeið í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Talsmaður hugmyndafræði sem Framsókn tók upp á sína arma eftir að halla tók undan fæti fyrir sauðkindinni og kvótakerfið hafði lagt sjávarbyggðirnar í rúst.

Hugmyndafræðin er vel þekkt og stundum kennd við gamla leiðtoga eins og Stalín og Franco og gengur út á að tryggja íbúum tiltekinna landssvæða atvinnu á stórum vinnustöðum með því að setja stálbræðslu hér og útgerð þar. Framsókn var reyndar með einfaldaða útgáfu - álver alls staðar.

Það er því ekki undarlegt að henni þyki óvarlega talað þegar nú er sestur í hennar gamla stól maður sem vill leggja áherslu á hátækni- og þekkingariðnað og hætta þeirri gjaldþrota byggðastefnu sem felst í því að setja ál þar sem áður var sauðkind og þorskur.

Henni þykir greinilega ábyrgðarlaust af ráðherranum að leggja svo mikla áherslu á að gengið sé vel um náttúru landsins. Það hefur henni og félögum hennar í Framsókn aldrei þótt mikilvægt enda náttúra landsins "ekkert sérstök" og "lítill söknuður" af henni miðað við megawöttin sem má fá í staðinn.

Þetta er hugmyndafræði nátttrölla, það sjá allir nú þegar upp er runninn nýr dagur.

Í dag er fjölbreytileiki lykilatriði fyrir öll samfélög sem ætla sér að vaxa og eflast. Það er stutt út í heim og unga fólkið vill skoða hann, mennta sig og velja svo úr þeim mörgu tækifærum sem því stendur til boða.

Það er vel mögulegt að á endanum velji einhverjir að starfa í verksmiðju heimahaganna og það er ágætt en frekar ólíklegt nema að einnig hafi tekist að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf, góða þjónustu, góð tækifæri til mennta og góðar samgöngur. Verksmiðja bæjarins má ekki bera samfélagið ofurliði.

Það óttast ég að muni gerast í ónefndu bæjarfélagi fyrir austan þar sem vandséð er hvort álverið er við fjörðinn eða fjörðurinn (og samfélagið) í álverinu. Þar er mikil hætta á einsleitni, á að samfélagið snúist allt um stóra fyrirtækið og samvinnu við það á flestum sviðum.
"I owe my soul to the company store"

Á landsbyggðinni er ferðaþjónusta sú atvinnugrein sem er auðveldast að hefja sjálfstæðan rekstur í. Vilji fólk fara út í mjólkuriðnað þarf til þess a.m.k. á annað milljónir í stofnkostnað og ekki er auðveldara að stofna fyrirtæki í útgerð. Í ferðaþjónustu er hins vegar hægt að stofna fyrirtæki án þess að steypa sér í skuldir og byggja upp fyrirtæki sem gefur nokkur ársverk á 5-10 árum.

Eins og flestir vita er það einmitt náttúra landsins sem dregur flesta ferðamenn til landsins og því er gleðiefni að iðnaðar- og byggðamálaráðherra Samfylkingarinnar skuli, ólíkt forverum sínum úr Framsóknarflokkinum, sýna náttúru landsins þá sjálfsögðu virðingu að krefjast þess að farið sé eftir lögum og reglum um umgengni við hana.

Það er kaldhæðnislegt að hernaður Framsóknar gegn náttúru Íslands skuli hafa verið háður í nafni landsbyggðarinnar. Til að efla fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni væri einmitt skynsamlegt að setja fjármagn í verndun verðmætra svæða, uppbygginu á grunnþjónustu s.s. í þjóðgörðum, merkingu áhugaverðra staða, eflingu safna um allt land og almennt í innviði ferðaþjónustunnar. 

Ferðaþjónustan getur orðið ein helsta mjólkurkýr landsbyggðarinnar og mun eflaust verða það nú þegar Framsókn getur ekki lengur náð fram þeim vilja sínum - að éta hana!


mbl.is Valgerður segir Össur gaspra um afturköllun virkjanaleyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er undarlegt með ykkur Samfylkingarmenn. Ráðist á bændur sem eru að gera litla virkjun eins og Múlavirkjun sem hefur þau einu áhrif á umhverfið að 2 andapör færðu sig yfir Baulávallavatnið, og að vatnsborð Hraunsfjarðarvatns sveiflast aðeins meira en áður. Ykkur munaði ekkert um að leggja vef að rörum um alla Hellisheiðina fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Og stórskemma heiðina með því. Ég er sammála þér um að erlend stóriðjuver eru ekki lausn á atvinnumálum þjóðarinnar. En það er ferðaþjónusta ekki heldur. Flest ferðaþjónustu fyrirtæki á landsbyggðinni lepja dauðann úr skel. Það á að efla iðnað um allt land. Með því er hægt að skapa mörg áhugaverð störf án mikillar fjárfestingar. Ég rek sjálfur iðnfyrirtæki úti á landi og veit því vel hvað ég er að tala um. 

Sigurjón Jónsson (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 16:50

2 identicon

Ágætis pistill Dofri nema vera bendla Framsókn við hernað gegn náttúru Íslands. Þú veist að fyrsti og eini græni flokkurinn er Framsókn. 

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 18:14

3 identicon

Sæll Dofri, af hverju leitar umræðan á Íslandi í skotgrafir með svart hvítum skoðunum? Þetta er ekki uppbyggilegt og skilar ekki neinu. Þar sem ég félagshyggjumaður og einn af stofnmeðlimum samfylkingarinnar þá skil ég ekki þessa áráttu að agnúast í Framsókn, þar sem stefna þessara flokka er nánast sú sama og það á að vera næsta langtíma markmið að sameina þessa flokka. Það eru Vinstri Grænir og þeirra óuppbyggilegu eiturpillur sem munu valda okkur mestu hausverkjunum. Virkjana stefnan Framsókn var einnig stefna Alþýðuflokksins og eflaust hefði það komið í hlut alþýðuflokksins að framfylgja stefnunni ef stjórn Jóns Baldvins hefði haldið áfram. Það kostar peninga að viðhalda öflugu velferðarkerfi og stóriðja getur skilað miklum tekjum, en með tilkostnaði. Það sem ætti að vera stóra markmið samfylkingarinnar í sínum lykilráðuneytum Iðnaðar og viðskipta er lækkun kostnaðar fyrir íslensk atvinnulíf þá fjármagn, að- og útflutningskostnað. Til að aðstoðar fyrir frumkvöðla þá ætti að horfa til stofnunar á atvinnuaterum (business incubators) eins og fjallað er um hér og það þarf ekki að vera flóknara en þetta. Byrja hugsa uppbyggilega ekki þennan árans skotgrafarhugsunarhátt.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 12:11

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Framsóknarflokkurinn er mikill iðnaðar og náttúruverndarflokkur og á stóran þátt í hvernig málin þróuðust á austfjörðum. Virkjum og vinnum að heilseyptri náttúruverndarstefnu.
Við skulum vona að Framsókn nái sér aftur og strik eftir næstu kosningar þannig að hægt verði að mynda aftur b&d stjórn.

Óðinn Þórisson, 11.8.2007 kl. 10:09

5 identicon

Næstum orðlaus yfir fullyrðingum frá þér, fyrst er eins og hrun fiskistofna sé Framsókn að kenna. Næst er það náttúruvernd, þá var mér spurn hvað telur þú náttúruvernd sama og umhverisvernd eða er bara þægilegt að tala um auðnir Ísland sem bráðnauðsynlegur staður til að vernda, meðan þú notar sterka liti í fötin þín, setur töflu í uppþvottavéla, notar sápu sem brotna seint niður og keyrir á bílnum í þar næsta hús til að sækja börnin. Síðan þegar þú hendir öllum skyndibita umbúðum í ruslið óflokkað, þá hugsar þú þetta eru nú meiru umhverfissóðarnir!

Umhverfisvernd byrjar hjá okkur, ekki Jóni Jóns úti í bæ.

Síðan er það Fjarðabyggð sem hefur vaxið og dafnað með hreinum ágætum, þar sem stefna fyrirtækisins(Alcoa Fjarðaáls) gengur útá einbeita sér að kjarna starfssemi sem aftur minnar þessa einokunar á vinnumarkaði sem þú talar um. Verðandi menntamálin þá styrkir Alcoa fólk til mennta og er með öflugt samstarf við Háskóla Ísland og fleiri menntastofnanir.

Síðan minnist þú á ferðaþjónustu og það sé bjarðvættur landsbyggðarinnar. Það hafa aldrei fleiri heimsótt austurland áður og afhverju? heimsækja Fjarðaál? kíkja á Kárahnjúka, tína ber, gaman að koma þangað sem ekkert er að gerast.   

Lónið við Kárahnjúka hylur stórt svæði eyðimerkur og svokallaðann Jöklusárrana sem á sér margar hliðstæður í íslenski náttúru. Vissulega er rétt að skoða beri og taka skuli út verk áður en þau eru sett í framkvæmd og meta fórnarkosnað á móti því sem ávinnst, aftur á móti getum við ekki látið upplögð tækifæri rennar okkur úr greipum.

með kveðju

Nafni þórðarson

dofri Þordarson (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 23:44

6 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Fín grein - mér hinsvegar orðið létt bumbult af öllu gasprinu í henni nöfnu minni í gegnum tíðana.

Valgerður Halldórsdóttir, 16.8.2007 kl. 14:08

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Nafni. Það er misskilningur að ég telji hrun þorsksins vera Framsókn að kenna, ég var hins vegar að benda á að hrun byggðanna er þeim flokki svo sannarlega að kenna, m.a. vegna framsals aflaheimilda og rótgróinnar miðstýringar í landbúnaði.

Sammála að umhverfisvernd byrjar heima hjá hverjum og einum og einmitt þess vegna flokka ég ruslið, sameinast um ferðir til og frá vinnu, tek strætó eða hjóla o.s.frv.

Fjarðarbyggð dafnar með ágætum nú á meðan framkvæmdir standa yfir, annað hvort væri nú að ekki væri uppgangur þar sem er verið að eyða 200 þúsund milljónum á örfáum misserum. HINS VEGAR telur t.d. rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri að glatast hafi tækifæri til að byggja upp einn öflugan kjarna á Austurlandi, að áhrif framkvæmdanna séu of staðbundin og vafi leiki á um að fólki muni fjölga til langframa vegna álversins.

Þetta er m.a. vegna þess að fólk sættir sig ekki lengur við að hafa bara vinnu, fólk vill búa í samfélgi þar sem það á möguleika á góðri þjónustu, góðum skólum á öllum skólastigum, fjölbreytni í atvinnulífi og menningu.

Ég vil ekki gera lítið úr þeirri viðleytni Alcoa að styrkja menntun á svæðinu en minni á að eitt það fyrsta sem fyrirtækið gerði í þeim málum var að styrkja lögregluna á svæðinu til námsferðar út fyrir landsteinana. Það finnst mörgum orka verulega tvímælis og segir mikið til um hver er hvurs.

Hvað ferðaþjónustu varðar þá veit ég ekki betur en að ferðamennska hafi vaxið verulega víðast hvar á landinu í ár - nema á Austfjörðum. Hvort það er veðrinu í sumar að kenna eða þeirri staðreynd að mörgum hrýs hugur við virkjanastimplinum sem fjórðungurinn hefur gert að einkennismerki sínu skal ósagt látið.

Sammála niðurlaginu að í upphafi skyldi endinn skoða. Það var ekki gert í sambandi við Kárahnjúka/Fjarðaráls verkefnið.

Dofri Hermannsson, 19.8.2007 kl. 19:07

8 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það er hræðilegt að lesa hér hvern framsóknarþumban á fætur öðrum mæra Valgerði og Framsókn. Mér varð ekki að þeirri ósk minni að þetta spillingarbæli hyrfi alfarið úr íslenskum stjórnmálum í þessum kosningum en held í vonina að þessir steingerfingar endi endanlega á Þjóðminjasafninu eftir næstu kosningar.  Þessir frasar: "Viltu þá atvinnuleysi." "Eigum við þá að týna fjallagrös." Og annað sem frá þessarri SÍSdeild kemur er ekki svaravert. 

Siv Friðleifsdóttir fyrrverandi umhverfishryðjuverkaráðherra talaði um Kárahnjúka sem SAND OG MÖL! Sjáðu hér það sem hún var að horfa á!

Ef að stjórnmálamennirnir okkar geta ekki haft vit fyrir þjóðinni þarf þjóðin að hafa vit fyrir þeim!

Úr endurskoðuðu áhættumati Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka:

en fólk getur leitað skjóls í trjám..........

Ævar Rafn Kjartansson, 19.8.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband