Ráðaleysi meirihlutans í borginni

Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að það sé auðvelt að ráða fólk til starfa í grunnskólum, leikskólum eða frístundaheimilum, núna þegar þenslan er slík að það er nánast ómögulegt að finna afgreiðslufólk í búðum sem er eldra en 15 ára. Þetta er snúin staða og það er einmitt í slíkum aðstæðum sem hæfni stjórnmálamanna kemur í ljós.

Í fyrra haust biðu hundruð barna á biðlista eftir frístundaplássi, mörg mánuðum saman. Foreldrar þessara barna lentu í stórkostlegum vandræðum með að stunda vinnu sína vegna þessa og neyddust jafnvel til að hætta störfum. Fulltrúar Samfylkingarinnar vöruðu við þessu ástandi strax og ljóst var í hvað stefndi en andvaraleysið réð för langt fram á haust.

Að lokum ákvað meirihlutinn að fara að ráðum Samfylkingarinnar og bjóða upp á hlutavistun, þ.e. að foreldrar gætu valið um að fá einungis vistun í 2-3 daga fyrir börnin og borga minna sem því nam. Þetta þáðu margir foreldrar sem ekki þurftu á fullri vistun að halda og umtalsvert saxaðist á biðlistana.

Margir hefðu talið að meirihlutinn vildi nýta sér þetta fyrirkomulag áfram, einkum þar sem ljóst var í sumar að ekki drægi úr þenslu á vinnumarkaði. Það var þó ekki reyndin og meirihlutinn ákvað að næsta vetur yrði einungis hægt að velja um annað hvort fulla vistun eða enga vistun.

Þetta gerir meirihlutinn þrátt fyrir þá staðreynd að aldrei hafa fleiri börn verið á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum en einmitt núna!

Tillaga Samfylkingarinnar um námsstyrki til þeirra sem vilja vinna á frístundaheimilum samhliða námi er verulega góð, ekki síður en hugmynd Samfylkingarinnar í fyrra um hlutavistun.

Það verður líka að hrósa meirihlutanum fyrir að samþykkja tillögur Samfylkingarinnar strax í stað þess að bíða með það fram á vetur eins og í fyrra. Það er framför.

Best væri þó fyrir alla aðila að meirihlutinn í ÍTR játaði formlega ráðaleysi sitt og hleypti þeim að verkinu sem hafa raunverulegan vilja og getu til að leysa málið.


mbl.is Kanna á með námsstyrki til námsmanna sem vinna á frístundaheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Rétt hjá þér Dofri.  Þetta er vissulega þarft úrlausnar.  Í raun verður þetta vandamál ekki úr sögunni fyrr en búið er að gera starfið meira eftirsóknarvert en fyrir hugsjónafólk.  Á í raun við allan umönnunargeirann. 

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 17.8.2007 kl. 17:52

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Svo rymur nátttröll.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.8.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband