Vondur rökstuðningur

Auðvitað gera sér allir ljóst að það er þensla á vinnumarkaði þegar verður að flytja inn fólk þúsundum saman til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og maður finnur varla nokkurn eldri en 15 ára til að afgreiða sig í búðum.

Það er hins vegar býsna mikil einföldun af meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að það sé bara út af þenslu á vinnumarkaði sem illa gengur að manna grunnskóla, leikskóla og frístundaheimilin.

Það er rétt að þenslan gefur starfsfólki skólanna möguleika á betur launaðri vinnu - og kannski er það einmitt þessi staðreynd sem menntaráð ætti að skoða ofan í kjölinn. Störfin eru mjög krefjandi og langtum verr launuð en önnur störf sem kennarar og starfsfólk skólanna á möguleika á.

Með öðrum orðum; grunn- og leikskólar eru ekki samkeppnisfærir um fólk á vinnumarkaði. Þetta benti fræðslustjóri reyndar á með eftirminnilegum hætti í fréttum ekki alls fyrir löngu svo meirihlutinn ætti að vera málinu kunnugur.

Það er síðan dálítið gaman að skoða betur rökin sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks styðjast við - að 51% stjórnenda telur að skortur sé á vinnuafli.

Það hlýtur að þýða að 49% telja að svo sé ekki. Nokkuð skemmtilegt þegar haft er í huga að 49% er ívið hærri tala en fylgi hins svokallaða meirihluta í borgarstjórn í síðustu kosningum.


mbl.is Vel gengur að ráða kennara í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Janus

Ég bara skil ekki þessa frétt.......!!!!

Janus, 20.8.2007 kl. 22:10

2 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég held að næstu kjarasamningar grunnskólakennara eigi fyrst og fremst að snúast um vinnuálagið. Ég þekki þó nokkra grunnskólakennara og þeir kvarta allir undan þessum hluta starfsins. Góður kennari er alltaf að, kvöld og helgar líka. Í þokkabót fá þeir ekki borgað eftir því.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 20.8.2007 kl. 23:49

3 identicon

Vel gengur að ráða kennara í Reykjavík"Er enginn kennaraskortur í 18 skólum af 39 í borginni. Átta skólar eru fullmannaðir."==> hver er meira fífl, fréttamaðurinn sem skrifaði þessa grein, eða þeir á Menntasviði Rvk-ur??? Þvílíkt endemis rugl sem manni er boðið upp á hverju einasta he.....is hausti! Farið að hundskast til að greiða kennurum mannsæmandi laun og þá er þetta bull frá í eitt skipti fyrir öll!

Kristmann (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 00:12

4 identicon

Vandinn liggur einfaldlega í hugsjónum ykkar sósíalistanna þ.e. einn miðlægur kjarasamningur sem er allt að drepa. Það skortir allan frumleiki í menntakerfinu og kennara eru lítið annað en oflaunaðar barnfóstrur í dag. Ég veit þetta er rosaleg hörð gagnrýni og eflaust að einhverju leiti óréttlát því margir kennarar eru að gera góða hluti. Skoðum samt málið eins og það lítur út fyrir kennara sem er frekar nýbyrjaður að kenna.

Launin eru þau sömu í ÖLLUM skólum

Sömu skólabækur í ÖLLUM skólum

Leiðbeiningar (námskrá) sem fylgja starfinu, sem þarf að fylgja.

litlir möguleikar á vinna sig upp og engum er verðlaunað gott starf nema einum og einum kennarar á tillidögum hjá menntaráði.

Hverjum er þetta svo að kenna? engum öðrum en kennurum sjálfum, þetta er það sem forusta þeirra hefur barist fyrir í fjölda ára, því miður. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 02:18

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kennarastarfið er því miður ekki virðingarstaða í okkar þjóðfélagi . Það er auðvitað arfaslæmt að það mikilvæga starf sem kennarar á mismunandi skólastigum inna af hendi í innrætingu og hugmyndafræðilegri mótun komandi kynslóða skuli ekki njóta virðingar meðal fullorðins fólks hér á landi. Launin sýna það einna best en einnig hvernig fólk talar um kennara. Orðræða er mögnuð og hefur áhrif gleymum því ekki. Mér finnst almennt vanta að foreldrar sýni jákvæðni gagnvart því uppbyggilega starfi sem fram fer meðal skólanna. Ég skynja metnað og einlægan áhuga, en hver talar um það.

Oftast kemur gagnrýni á kennara úr hörðustu átt, frá foreldrum sem að eru að firra sig ábyrgðinni á að taka þátt í menntun barna sinna, eru svo uppstressuð af lífsgæðakapphlaupi og status streði að þau gleyma börnunum sínum stærsta hluta daglegs lífs. Það er ef til vill eitt sem foreldrar ættu að huga að samvera barna þeirra með kennurum eða öðru starfsliði í skóla og uppeldisstofnunum þessa lands er mun meiri en með foreldrunum í tímum talið og í vakandi lífi.  Innrætið börnum ykkar virðingu fyrir öðrum, iðni, seiglu og metnað - þá mun samstarfið við þá sem koma að uppeldi barna ykkar virka mun betur!

Anna Karlsdóttir, 21.8.2007 kl. 13:09

6 identicon

Vandinn liggur í kerfinu, það einsleitt og ósanngjarnt. Dorfi mætti skoða betur verk eigin flokks 12 ár á undan þessum meirihluta en fátt var gert til að losa um og bæta kjör þessa stétta. Gaman væri fyrir hann að kynna sér margföldun embættismanna hjá menntasviði og laun þeirra og bera saman við kennara.  Það má svo sem endalaust benda fingrinun að hvor öðrum, það leysir bara engan vanda.

Ég er viss um að margir kratar innan xS eru mér sammála um skólakerfið og vandamál þess. Ég sé heldur enga ástæðu til þess að samfylkingin gætur ekki tekið undir hugmyndir um ávísunakerfi og aukna samkeppni í skólum. Skólar eru góðir af mörgum ástæðum, ein þeirra ef ekki sú stærsta er virk samkeppni um gott starfsfólk og góða nemendur. Við þurfum ekki að skoða lengar en eigið háskólaumhverfi sem hefur blómstrað sökum virkrar samkeppni. Lagadeild HI hefur til að mynda tekið risa stökk við tilkomu HR og sýnt sig m.a. í útekt ríkisendurskoðunar að hún er ber höfuð og herðar yfir aðrar sambærilegar deildir á landinu þrátt fyrir ójafnan leik. Það þarf ekki alltaf meira fjármagn inn stundum þarf bara að aukna samkeppni sem leiðir oft af sér betra skipulag og nýtingu. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 16:29

7 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég hef verið með börn í skóla í þremur löndum og byggi samanburð minn á því að nokkru leyti. Ég get staðfest (auðvitað bara miðað við mína aumu reynslu) að danskur grunnskóli er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Það getur eflaust tengst of mikilli jafnaðarstefnu, allir eins, en þar í landi eru þó einkaskólar og löng hefð fyrir þeim. En það er frumskógur mismunandi skóla með mismunandi stefnur að leiðarljósi og því ansi erfitt að segja eitthvað almennt um að þeir séu betri en opinberir skólar. Raunar hef ég dæmi um hið gagnstæða. Ég hef einnig reynslu af kanadísku skólakerfi þar sem eldri sonur minn stundaði nám. Það var verulega góð reynsla en þar var nám einstaklingsmiðað og svo virtist sem að gert væri ráð fyrir  vinnuafli í samræmi við það markmið. Sonur minn hlaut fyrsta flokks sértíma í ensku til að koma sér á svipað stig og innfæddir, og að vetri loknum var 7.ára krakkinn kominn í stig 9 ára bekkjar í stærðfræði af því að hann sýndi góða takta í því fagi. Ljóst var að Kanadískur barnaskóli (Ontario fylki) var samkeppnismiðaður en á góðan hátt og þar voru kennarar einstaklega færir. Af íslenskum grunnskóla hef ég flest allt gott að segja en auðvitað hef ég aðeins reynslu af einungis tveimur barnaskólum (Andakílsskóla og Hlíðaskóla) og ég fæ ekki betur séð en að þeir og þeirra starfsfólk sé öflugt og fært og sinni starfi sínu vel i hvívetna, þó alltaf sé hægt að benda á einhverja smámuni sem betur gætu farið. Mér finnst afleitt að alhæfa svona um kennarastéttina og fæ engan veginn séð að mannaflskort í skólum í dag sé hægt að rekja til vöntunar á einkaskólum. Ef við höfum áhuga á að færa barnaskólamenntun upp á faglegra og flottara stig eigum við að koma fram af virðingu við fagfólkið í skólunum - ég er nánast alveg viss um að það yrði vel þegið og myndi vera uppbyggilegra en níðing á stéttinni.

Anna Karlsdóttir, 21.8.2007 kl. 18:51

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir ágætar umræður. Sjálfur held ég að það hafi verið unnið verulega góð vinna innan grunnskólanna og að þjónusta þeirra hafi aukist og batnað til muna eftir að þeir komu yfir til sveitarfélaganna.

Fyrir það fyrsta þá var einsetning grunnskólanna stórátak og breytti stöðu útivinnandi foreldra umtalsvert. Það muna það kannski ekki allir lengur en ég held að fáir foreldrar létu bjóða sér það í dag að börnin þeirra þyrftu að vera frá 13 til 19 í skólanum.

Einstaklingsmiðað nám er að sjálfsögðu af hinu góða, "just another brick in the wall" hugsunin var gengin sér til húðar og miklu færri nemendur blómstruðu. Þetta krefst aukinnar vinnu af kennurum og stjórnendum skólanna en ég held að enginn vilji í alvöru snúa til baka í verksmiðjuframleiðsluna.

Skóli án aðgreiningar er í grunninn hugmyndafræði sem gengur út á að allir eigi að fá að taka þátt í samfélaginu, að það eigi ekki að sortera þá út sem standa út fyrir normal-línuna. Það er hins vegar misjafnt hvernig gengur að framfylgja þessari stefnu og borgaryfirvöld hafa vissulega fengið á sig gagnrýni fyrir framkvæmdina. Það er skiljanlegt því erfiðum einstaklingum fylgir mjög aukið álag á kennara - og aðra nemendur - sem er nauðsynlegt að bregðast við.

Ég er líka dálítið sammála Dhörmu (aldrei þessu vant) um að vandinn liggi líka hjá kennurum. Ekki hverjum og einum en hjá þeim sem samtökum. Það er oft eins og þessi stóra hreyfing sé ekki sammála um hvað skuli leggja áherslu á.

Mér finnst líka spurning hvort þetta fyrirkomulag að allir kennarar á Íslandi skuli á einu bretti semja við öll sveitarfélög á Íslandi um sama kaup vera barn síns tíma.

Mér finnst að við ættum að hugleiða samninga hvers sveitarfélags fyrir sig við sína kennara. Kannski ættum við líka að hugleiða einstaklingsmiðað kaup!

Dofri Hermannsson, 21.8.2007 kl. 21:31

9 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Auðvitað er það þenslan sem að kallar fólk úr lægst launuðustu störfunum, hvert svo sem eðli þeirra er. Eðlileg viðbrögð í kapítölsku kerfi væri að úr því að þörfin fyrir að starfið sé unnið eykst þá hækki launin. Þareð gildi umönnunar er því miður lítt mælanlegt (nema í töpuðum vinnustundum) og að um opinber störf er að ræða þar sem ekki er hægt að semja um kaup og kjör frá degi til dags:

1. Breyta því t.d. með einkavæðingu, sem flestir eru á móti

2. Færa kjarasamninga annað og nær, sem virðist skynsamlegt

3. Slá á þensluna áður en hún hefur slík áhrif....ooppps

4. Breyta því með kjarasamningum þar sem að er reiknað inn í launin hvert ástand hagkerfis þjóðarinnar er í t.d. hærri laun þegar að er mikil þensla  

Pétur Henry Petersen, 22.8.2007 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband