Fer að minnka arðsemin

Arðsemin af Kárahnjúkavirkjun var hæpin fyrir og minnkar enn þegar Landsvirkjun þarf að greiða margfalt það verð fyrir vatnsréttindin sem áætlað var.

Reyndar er það svo að arðsemin af virkjuninni einni og sér er alls engin. Hefði Kárahnjúkavirkjun átt ekki fengið veð í öllum öðrum eignum Landsvirkjunar og ábyrgðum ríkisins þá hefði aldrei fengist nógu ódýrt fjármagn í framkvæmdina. Um þetta er ekki ágreiningur.

Þegar búið er að senda inn alla reikninga fyrir ófyrirséð verkefni og tafir (sem hefðu ekki þurft að vera ófyrirséð hefðu stjórnvöld flýtt sér aðeins hægar) verður fróðlegt að sjá hvort arðsemin sem stefnt var að (með veði í öllum eignum LV og ábyrgð ríkisins) nær því lágmarki sem sett var.

Mér er það til efs og alla vega má ekki mikið út af bregða með álverð og afstöðu gjaldmiðla, einkum Evru og Dollars.

Ef þau náttúruverðmæti sem fórnað var hefðu verið tekin með í reikninginn - líkt og gert er í flestum siðmenntuðum löndum - hefði ekki þurft að spyrja um niðurstöðuna. Ég fullyrði að þá hefði verið hætt við.

Þetta ætti að kenna okkur að það borgar sig að flýta sér hægt.


mbl.is Fjárhæðin hærri en Landsvirkjun gerði ráð fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Sæll Dofri

Hernig ætlar þú að reikna inn "arðsemina" af því að fólk á austfjörðum fær fleiri og kanski fjölbreyttari atvinnutækifæri, sennilega fjölgun á fólki í byggðarlögum næst verksmiðjunni, hærri launum í fjórðungnum, tækifæri til að byggja um fjölbreyttari þjónustu við íbúana og svo framvegis. Eru ekki þessir þættir nokkuð mikils virði og verður ekki að reikna þá inní arðsemina.

Anton Þór Harðarson, 22.8.2007 kl. 15:21

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Jú jú - það sem þú ert að ýja að er venjulega kölluð þjóðhagsleg hagkvæmni sem er faguryrði yfir raunverulegt tap.

Það er jákvætt að fólk hafi vinnu og ef atvinnulíf á Austfjörðum verður til frambúðar fjölbreyttara við að 400 störf í álverinu bætast við er það gott. Hugsanavillan er hins vegar sú að það er alltaf verið að bera saman áhrif framkvæmda og þess að gera ekki neitt.

Hefði verið farið í verulegar samgöngubætur á Austurlandi, byggður alþjóðlegur háskóli á Egilsstöðum, menntaskólastigið eflt, fjarskiptum komið í eðlilegt horf, innviðir ferðaþjónustunnar efldir og alvöru stuðningur veittur við nýsköpun í fjórðungnum hefði það líka haft mjög jákvæð áhrif til langrar framtíðar. Þetta hefði verið hægt að gera án þess að leggja út í glannalegar fjárfestingar og fórna einstæðum náttúruverðmætum.

Enn sem komið er hefur það vakið vonbrigði hvað áhrif af framkvæmdum dreifast á lítið svæði og í rannsókn á vegum RHA kemur fram að líkast til höfum við misst af tækifærinu á að skapa einn öflugan kjarna í fjórðungnum. Kröftunum hafi verið dreift með rangri staðsetningu Fjarðaráls. Það á líka eftir að koma í ljós hvað mikið situr eftir af hinum "jákvæðu áhrifum" þegar framkvæmdum líkur.

Dofri Hermannsson, 22.8.2007 kl. 15:46

3 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Sæll aftur

Það eru nú fleir störf sem skapast en þau sem "bara" eru í verksmiðjunni, ýmiskonar verslun og þjónusta byggist upp í kringum þetta og þau störf sem þar skapast verður líka að telja með.

Þú segir " Hugsanavillan er hins vegar sú að það er alltaf verið að bera saman áhrif framkvæmda og þess að gera ekki neitt"

Það er bara engin hugsanavilla, því að fyrirtækið sem á og byggir Fjarðarál hefði aldrei komið á staðinn til að gera eitthvað annað og þrátt fyrir að Fjarðarál sé komið þarna, er ekkert sem mælir á mót að aðrir sem áhuga hafa á annarskonar rekstri komi og starti sínum rekstri. Varðandi uppbyggingu á skólum, þá gera skólar án nemenda lítið gagn og einmitt uppbygging á fjölbreyttu atvinnulífi eykur möguleikana á áframhaldandi uppbyggingu með öflugu skólastarfi, því fólk leitar þangað sem fjölbreyta atvinnu er að fá og þá koma einmitt nemendurnir sem þarf til að fylla skólana.

Samgöngubætur eiga örugglega eftir að koma vegna vaxandi flutninga að og frá austfjörðum sem tengjast álverksmiðjunni, því segi ég að öll þessi atvinnutækifæri sem þú nefnir eiga eftir að koma austur, en einnig vil ég meina að ástæða þess að sú uppbygging fer av stað, er vaxandi þörf í kjölfar á þeirri uppbyggingu sem nú er í gangi.

Anton Þór Harðarson, 22.8.2007 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband