Súr mjólk?

Það er hlálegt að nú þegar tækifæri opnast fyrir sölu á rafmagni til fjölbreyttra og vistvænna fyrirtækja s.s. sólarrafhlöðuframleiðenda og netþjónabúa - þá er orkan á þrotum.

Orkufyrirtækin eru búin að lofa allri orkunni til álbræðslu - jafnvel orku sem enn eru ekki komin full leyfi fyrir hefur Landsvirkjun lofað í fleiri en eitt álver, bara til að vera viss um að koma henni nú örugglega í lóg.

Orkufyrirtækin hafa hagað sér eins og þau væru að selja mjólk á síðasta söludegi, knúin áfram af þeim stórundarlegu trúarbrögðum Framsóknarflokksins að okkur beri skylda til að virkja hér hverja einustu sprænu og hvern einasta hver.

Það hefur verið rasað um ráð fram og orkufyrirtækjunum veittar allt of rúmar heimildir til að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Þetta hefur skapað gullgrafarastemningu á orkumarkaði sem lýsir sér í kapphlaupi orkufyrirtækjanna um hverja einustu orkulind landsins. Á meðan hafa náttúrurannsóknir verið algerlega vanræktar og stór hætta á að ómetanleg svæði verði enn tekin undir álbræðsluvirkjanir.

Það þyrfti að stíga nokkur skref til baka, rifta samningum orkufyrirtækjanna við ný álver og álver sem vilja stækka og skoða þetta allt upp á nýtt. Gallinn er sá að stjórnvöld hafa engar heimildir til þess. Það er búið að taka allar slíkar bremsur úr sambandi.

Stjórnvöld geta í raun ekkert skipt sér af því í hvað orka landsins er notuð. Þau geta ekki einu sinni gert kröfu um lágmarks virðisauka af hverju Megawatti en það er ljóst að þar myndu sólarrafhlöðuframleiðendur og netþjónabú standa sig mun betur en álbræðslan.

Kannski ættu stjórnvöld að taka til baka réttinn til að ráðstafa orkunni. Ég vona alla vega að þegar tæknin mun leyfa, segjum eftir 15-20 ár, að við ökum hér um á rafmangsbílum að þá verði lausir samningar við orkufyrirtækin og að við getum þá státað af sjálfbæru orkusamfélagi á Íslandi.


mbl.is Væntanleg netþjónabú þurfa álíka raforku og 250 þúsund tonna álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés.si

Þetta með orku á Íslandi litur út sem spilling. Er það ekki land, þar sem er spilling minnst í heimi?

Andrés.si, 7.9.2007 kl. 00:12

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góð samlíking hjá þér, Dofri. Stundum eru fréttir af þessu fáránlega kapphlaupi daglega og það þarf því að hamra á því sem oftast hvað er raunverlulega að gerast, því að þessar endalausu fréttir sem lýsa þessum ósköpum eins og orkusöluhappdrættisvinningum eru síbylja sem fólk hefur lært að trúa í áraraðir.

Kenning ónefnds áróðursmeistara um að að fólk trúi þegar hamrað hefur verið á sama hlutnum á hér við. Þess vegna er svo mikilvægt að andæfa, þótt það kunni að virðast vonlítið.

Ómar Ragnarsson, 7.9.2007 kl. 00:32

3 identicon

Það er margt að athuga í þessu. Eitt er að við erum skuldbundin til þess í EES umhverfinu að einkavæða orkuvinnsluna innan tiltekins tíma. Það vita allir sem það vilja vita að Kerfið er búið að lofa tilteknum aðilum Landsvirkjun og öðrum jarðhitanum, en það síðarnefnda er reyndar þegar að verða að veruleika. Það er til dæmis ekkert auðlindagjald innheimt af vatnsorku og jarðhita, sem er náttúrulega rugl. Landsvirkjun keppist við að fá nýtingarrétt á allri hagkvæmri, virkjanlegri orku, svo fyrirtækið hafi nánast einkarétt á allri orkuvinnslu úr rennandi vatni. Maður spyr sig; Á ekki að skilja neitt eftir óvirkjað eftir 2020 handa börnunum okkar?

Norðanvindurinn (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband