Bleikt og blátt í leikskólum borgarinnar

Í grein sem Sigrún Elsa Smáradóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í leikskólamálum í borginni skrifar í Fréttablaðið í dag varar hún við "bleiku blekkingunni" eins og hún kallar hugmyndir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um einkarekna leikskóla sem lausn á mennekluvanda.

Það er full ástæða til að vara við þeim hugmyndum sem umræddur borgarfulltrúi og formaður leikskólaráðs hefur viðrað að undanförnu. Þær eru í besta falli vanhugsaðar en í versta falli "blá" kaldur raunveruleikinn eftir að bleiki liturinn frá því í borgarstjórnarkosningunum hefur flagnað af.

Þarfir barnanna?
Ef hugmyndir formanns leikskólaráðs kæmu til framkvæmda og Glitnir, Sjóvá, Hagkaup og Síminn svo dæmi séu nefnd keyptu af borginni nokkra leikskóla fyrir starfsmenn sína, hvaða þýðingu myndi þetta hafa fyrir börnin?

Hæpið er að allir starfsmenn viðkomandi fyrirtækis búi í sama hverfi og leikskólinn er staðsettur og þar með myndu börn á fyrirtækjaleikskólanum ekki kynnast öðrum börnum í hverfinu og síður leika við þau eftir að leikskóla lýkur.

Hugleiða þarf hvað gerist þegar foreldri barns á fyrirtækjaleikskóla hættir störfum, hvort sem er að eigin ósk eða vegna uppsagnar? Óþægindin þegar fólki er sagt upp eru augljós, barninu yrði sagt upp um leið, en að tengja saman vistun barnsins og starfsframann getur líka orðið til þess að fólk sem vill skipta um starf hikar við það af því það setur leikskólavist barnsins í óvissu og kemur róti á tilveru þess.

Tvöfalt kerfi
leikskólarLjóst er að einkarekstur einn og sér býr ekki til peninga og ef fyrirtækin ætla að bjóða starfsfólki sínu hærri laun verður að taka þá peninga einhvers staðar. Þarna er því í raun um óbeina launahækkun að ræða sem út af fyrir sig er ánægjulegt fyrir viðkomandi starfsmann en við hljótum að spyrja okkur hvort það er æskileg stefna að búa til tvöfalt leikskólakerfi.

Vill Sjálfstæðisflokkurinn hverfa frá þeirri stefnu að öll börn eigi rétt á leikskólavist óháð efnahag foreldranna? Til hvers boðaði flokkurinn þá lækkun leikskólagjalda? Hefði ekki verið nær að halda þeim háum en bjóða fyrirtækjum að bæta leikskólastyrk á launaseðil starfsmanna sinna? Er það kannski sú leið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara?

Hvað með þau fyrirtæki sem ekki sjá sér fært að reka leikskóla fyrir börn starfsmanna sinna? Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera fyrir börn starfsmanna þeirra? Á Landspítali háskólasjúkrahús að reka leikskóla? Eða lögreglan? Grunnskólar Reykjavíkur? Og hvað með börn þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði t.d. börn námsmanna og öryrkja? Á ekki að bregðast við manneklu þar?

Fullkomin uppgjöf
Það er lofsvert að opna umræðuna upp á gátt og ef það er eini tilgangurinn með útspili formanns leikskólaráðs er það gott út af fyrir sig. Hugmyndir hennar um einkavæðingu leikskólanna eru hins vegar afar slæmar og í raun ekki hægt að túlka þær sem neitt annað en fullkomna uppgjöf gagnvart því krefjandi verkefni að fullmanna leikskóla borgarinnar.

Formaðurinn hefur einnig látið þess getið að það þurfi að stokka upp samninga við starfsfólk í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Þar er ég hjartanlega sammála formanninum enda hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Reykjavíkurborg eigi að marka sér sína eigin menntastefnu og semja sjálf við starfsfólk skólanna um kaup og kjör.

Það segir sig sjálft að sá sem þarf að kaupa íbúð á 25 milljónir þarf hærri laun en sá sem getur fengið sambærilegt húsnæði á 12 milljónir. Auk þess verðum við að opna augun fyrir því að Reykjavík á í æ harðari samkeppni um ungt hæfileikafólk við aðrar stórborgir á Vesturlöndum en eitt af því sem við getum gert til að styrkja borgina í þeirri samkeppni er einmitt að bjóða upp á skóla sem jafnast á við þá bestu í heimi. Ekki bara fyrir suma, heldur fyrir alla.

Til að bregðast við því þarf skoða skólamál borgarinnar í heild upp á nýtt og hugsa út fyrir kassann, sem er dálítið annað en að henda vandamálinu út fyrir kassann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Góð grein Dofri. Við verðum að standa í lappirnar gagnvart frjálshyggjuöflunum í Sjálstæðisflokknum sem greinilega eru miður sín vegna borgarstjórans. Kannski á Sjálfstæðisflokkurinn bara eftir að klofna.

Björk Vilhelmsdóttir, 12.9.2007 kl. 10:40

2 identicon

Það er kannski rétt að benda á það að Ríkisspítalarnir ráku leikskóla og skóladagheimili á 9. áratugnum fyrir starfsmenn sína enda illgerlegt að fá heilsdagspláss á leikskóla fyrir barn ef foreldrarnir voru báðir í fullu starfi.

Sverrir Gudmundsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 11:49

3 identicon

R-listinn ruglaði í 12 ár  segir þessi snillingur  Dharma sem þorir ekki að koma fram undir nafni.  Hvenær kemur að því  að ruglið í honum  hættir? 

Kristján Elís (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 14:28

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Árið er 1990 - giftir foreldrar fá leikskóla að 6 tímum - einstæðir foreldrar og námsmenn heilan dag. Sjúkrahúsin reka leikskóla fyrir valdar stéttir, helst hjúkrunarfræðinga, einstaka sjúkraliða og meinatækna, læknar fá inn fyrir náð og miskunn - ófaglært fólk, þeirra börn sjást ekki. Leikskólinn er líka rekinn fyrir stofnunina og verður þess vegna að hafa opnunartíma og vistunartíma barna eftir þörfum spítalans.  Sjálfstæðimenn eru við völd í borginni.

1992 leikskólakennarar taka höndum saman við borgaryfirvöld að breyta málum. Með hagsmuni barna að leiðarljósi - með það að leiðarljósi að brjóta niður félagslega múra sem farnir voru að myndast í borginni inn í leikskólum hennar.  Á gulu deildinni voru börn einstæðu foreldranna og námsmannabörnin en á bláu börn giftu foreldranna. Það þurfti átak sem LEIKSKÓLAKENNARAR leiddu til að breyta.  Sjálfstæðismenn við völd - þessari vinnu haldið áfram eftir að R listinn komst til valda. Hættum þessu r-d skítkasti það leysir ekkert.

Dharma - Ég vissi ekki að R listinn hafi hrakið Hjallaskóla úr borginni - þætti vænt um að vera upplýst betur um það.

En málið er að vandamálið er ekki bara rekstaraform - eins og málum er háttað nú hafa þeir skólar sem mennta leikskólakennara ekki undan byggingu nýrra skóla. 

En fyrst og síðast get ég ekki fellt mig við samfélagssýn sem bíður upp á stéttskiptingu barna frá leikskólaaldri.  Leikskólinn hefur reyndar löngum verið rekinn að hluta af einkaaðilum eða lífsýn-hópum og ég sé ekki annað en svo verði áfram. En í guðanna bænum sleppum umræðunni um fyrirtækja leikskóla. Styrkjum það kerfi sem fyrir er, styrkjum rekstargrunn leikskóla sveitarfélaga og lífsýnisskóla.  Gerum kröfur um að ráðuneytið, sveitarfélög og fyrirtæki jafnvel auglýsi og styrki nema til náms í kennarafræðum. Börnin okkar eiga það skilið.

Horfum líka á aðra þætti í leikskólum sem gera þá að erfiðum vinnustað, og útskýrir kannski starfsmannaveltu  - eitt af því er níska sveitarfélaga á fermetra. Eins og staðan er í dag er verið að hrúga börnum saman, hverju barni er ætlað 3 fermetrar í leik- og vinnu rými - og þá er ekki gert ráð fyrir starfsfólki.  Hvernig fyndist ykkur að vinna við slíkar aðstæður? Hvernig er að vera barn eða fullorðin við slíkar aðstæður?

Kristín Dýrfjörð, 12.9.2007 kl. 17:04

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki skinsamleg ákvörðun fyrir fyriræki eins og baug, kb- banka, glitnir o.s.frv. að eiga og reka leikskóla/skóla fyrir starfsfólk sitt.
Kanski þá held ég að þessari endalausu vitleysu með starfsmanna&launamál ljúki og er það ekki það sem við jú öll viljum - við skulum vona að meirihlutinn hafi kjark til þess að fara þessa leið. -

vegna orða Dharma um Björk og strætó

" vildi ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun um nýja leiðarkerfið með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins "

Óðinn Þórisson, 12.9.2007 kl. 18:51

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég er sammála þér og öðrum sem rætt hafa þetta á netinu að það er vond lausn að setja leikskólana í hendur fyrirtækjanna, bindur starfsmenn vistarböndum við fyrirtæki, stuðlar að aukinni stéttaskiptingu o.s.frv. Af hverju greiða þá ekki fyrirtækin sérstakan leikskólaskatt því leikskólarnir koma þeim heldur betur til góða. Þannig mætti hækka laun starfsmanna. Og er þá komið að því sem ég skil ekki í færslunni: "Ljóst er að einkarekstur einn og sér býr ekki til peninga og ef fyrirtækin ætla að bjóða starfsfólki sínu hærri laun verður að taka þá peninga einhvers staðar" Spyr ég því:hver býr til peningana?

María Kristjánsdóttir, 12.9.2007 kl. 19:19

7 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Þetta útspil Sjálfstæðisflokksins fær fólk til að ræða hvað sé gott sé fyrir börnin sem er auðvitað grundvöllurinn að starfi með þeim.  Þetta fær fólk til að hugsa um einkaframtak eða ekki.  Þetta fær fólk til þess að hugsa um hverjum sé um að kenna.  Því er þetta ástand svona eins og það er.  En við megum ekki gleyma því hver raunverulegur vandi er.  Til þess að leysa vanda þurfum við að vita hver hann er. Vandinn í þessu máli er einfaldur og ætti að vera auðvelt að leysa hann.  Launin eru of lág og því þarf að breyta.

Rósa Harðardóttir, 12.9.2007 kl. 22:37

8 Smámynd: Halla Rut

Konur meira enn allt verða með þessu háðar vinnustöðum sínum eins og þær voru háðar fyrirvinnu sinni áður. Þetta er alveg út í hött í svo litlu samfélagi sem við búum í.  Formaður leikskólaráðs ræður ekki við vandamálið og hefur greinilega ekkert vald eða valdastöðu innan flokksins til að bæta þessa slæmu stöðu sem er til staðar og er því að mínu mati óhæf.

Halla Rut , 13.9.2007 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband